Sunnudagur 27.11.2011 - 23:08 - FB ummæli ()

Í fréttum China Daily er þetta helst …

Mér finnst eitthvað meira en lítið bogið við þetta Huang Nubo mál. Undarlegast finnst mér þó hversu nærri sér ýmsir þingmenn Samfylkingarinnar skuli taka því að Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra hyggist fara að lögum. Frá herra Huang liggja þræðir um hinna ýmsustu kima Samfylkingarinnar, hann var herbergisfélagi eiginmanns fyrrum formanns flokksins og á myndskeiði sem sýnt var á RÚV frá blaðamannafundi hans í Kína mátti sjá Lúðvík Bergvinsson, fyrrum þingmann flokksins sitja stilltan ásamt Sigurvini Ólafssyni lögfræðingi sem aðstoðaði einmitt Ingibjörgu Sólrúnu eftir þingsályktunartillöguna um Landsdóm eftir útkomu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þá á áhuginn á landinu að hafa kviknað hjá þessum munaðarlausa auðmanni og fjallageit út frá lopapeysu og ljóðalestri. Það finnst mér með vissum ólíkindum.

Þá finnst mér „viðskiptahugmyndin“ bæði galin og góð eins og gjarna er með skrítnar hugmyndir, þær vinna á. Hér eru ekki mörg hótel sem eru áfangastaðir í sjálfu sér frekar en viðkomustaðir eitthvert annað. Sú hugmynd finnst mér allrar athygli verð en ég skil alls ekki hvers vegna maðurinn telur sig þurfa að kaupa allt þetta land undir eitt hótel þótt við hlið þess ætti að vera (frosinn) 18 holu golfvöllur. Þá finnst mér hugmyndin um að njóta hinnar ósnortnu náttúru við hliðina á golfvelli alls ekki ganga upp en þar sem ég þekki nokkuð til í Kína, var svo lánsöm að dvelja þar með fjölskyldu minni í nokkra mánuði fyrri hluta árs 2008, þá gæti ég trúað að Kínverjar séu ekki endilega sammála mér um það. Hitt er annað mál hvort það sé hreinlega mögulegt eða skynsamlegt að útbúa og reka golfvöll á þessum stað. Þá er ekki hægt annað en að flissa og frussa yfir þingmönnum kjördæmisins sem sögðu þetta allt eiga að vera uppsprettu umhverfisvænna kvennastarfa í Kastljósi föstudagskvöldsins! Síðast þegar ég vissi var ferðamannaiðnaðurinn alls ekki umhverfisvænn og sérstaklega ekki ef gestunum yrði nú öllum flogið frá Kína.

Eftir að fréttir bárust af synjun ráðherra á undanþágunni hugsaði ég með mér að nú kæmi í ljós hvort um raunverulegan áhuga á fjárfestingu í ferðaiðnaði hér á landi væri að ræða. Ef manninn langar bara til að byggja hótel mun hann væntanlega leita annarra leiða til þess, svo sem kaupa minna land, leigja land eða leita að íslenskum viðskiptafélögum til að taka þátt í ævintýrinu. Þess í stað fáum við fréttir af því að Huang Nubo sé hættur við öll fjárfestingaráform hér á landi og ætli að einbeita sér að Svíþjóð og Finnlandi. Sem sagt; ef við viljum ekki leika leikinn hans eftir hans reglum vill hann bara ekkert leika við okkur!

Viðbrögð flestra íslenskra fréttamiðla hafa mér líka þótt nokkuð einhliða og fáir virðast hafa skoðað málið vel. Jafnvel er vitnað í miðilinn China Daily. Það blað, sem og Shanghai Daily og Bejing Daily las ég þegar færi gafst á meðan á dvöl minni í Miðríkinu stóð. Frjáls fjölmiðlun á sér ekki stað í Kína og þeir sem hafa þurft að nota netið þar í einhvern tíma átta sig fljótlega á að það virkar alls ekki eins og á flestum öðrum stöðum í heiminu. Það er t.d. útilokað að gúggla orð eins og „riot“. Á meðan ég dvaldi í Kína var verið að undirbúa Ólympíuleikana í Bejing og um tíma brutust út mótmæli í Tíbet sem nutu stuðnings víða á vesturlöndum og sýndur var í verki, til að mynda í París þegar hlaupið var með ólympíueldinn í gegnum borgina. Í kínversku blöðunum voru fréttir af ástandinu í Tíbet afar hlutlægar og fjölluðu aðallega um skemmdarfíkn fárra manna (aha) og fréttir af samstöðumótmælum víða um heim í tengslum við ólympíueldinn snerust allar um að Frakkar væru vondir við fatlaða því fötluð stúlka hafði hlaupið með eldinn í París.

Kínverska pressan er snillingur í að segja fréttir af einhverju sem ekki skiptir neinu máli. Við lásum reglulega bráðskemmtilegar fréttir af heimskum þjófum sem höfðu reynt að ræna banka en skilið skilríkin sín óvart eftir í bankanum, hænu sem verpti 170 gramma eggi, rakarann sem fékk að hlaupa með ólympíueldinn því hann klippti gamla fólkið svo vel og manninum sem er 2.2 m á hæð og fær hvergi á sig skó (hann er búinn að vera í sömu skónum sem mamma hans bjó til fyrir hann í 25 ár en hún lappar reglulega upp á þá). Mikið vildi ég óska þess að íslenskir fjjölmiðlar reyndu að skoða þetta mál sem mér finnst svo ótrúlega merkilegt og endalaust margir áhugaverðir fletir á miklu, miklu betur en að þýða viðtöl og fréttir beint af China Daily þótt vissulega fylgi því viss nostalgía fyrir mig.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is