Föstudagur 25.11.2011 - 18:01 - FB ummæli ()

Verðtryggingin burt

Eftirfarandi bókun var lögð fram í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins í gær:

„Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis samþykkir að hefja á vettvangi nefndarinnar undirbúning þverpólitískrar áætlunar um minnkað vægi verðtryggingar á íslenskum fjármálamarkaði. Umrædd áætlun verði lögð fram sem þingmál og stefnt að framlagningu þess fyrir 15. febrúar 2012.“

Ég er  áheyrnarfulltrúi í nefndinni og styð bókunina að sjálfsögðu og hlakka til að taka þátt í þessari vinnu. Á fundinum í gær kom fram fullur vilji allra viðstaddra nefndarmanna til að vinna að málinu í fullri alvöru og byggja meðal annars á starfi og niðurstöðum þverpólitískrar nefndar sem starfaði undir stjórn Eyglóar Harðardóttur þingmanns um verðtrygginguna en skýrsla nefndarinnar er um margt athyglisverð.

Bókunin rataði í kvöldfréttirnar og strax í dag las ég innsenda grein á Vísi sem nefnist Þverpólitísk þvæla. Þar er því haldið fram að ekki verði hróflað við verðtryggingunni á meðan við höfum krónuna enda hafi íslenskir stjórnmálamenn ekki bein í nefinu til að stunda agaða hagstjórn og að krónan hafi verið hækja undir ýmis gæluverkefni í gegnum tíðina.

Engan mun ég áfellast fyrir slík sjónarmið, þau byggja ekki á hleypidómum heldur sárri reynslu. Ég er greinarhöfundi hins vegar ekki sammála í því að verðtryggingin, krónan og hörmungarhagstjórn séu tengd órjúfanlegum böndum til framtíðar og að ekki sé hægt að afnema verðtryggingu nema skipta um gjaldmiðil. Gjaldmiðilsskipti leiða heldur ekki óhjákvæmilega til afnáms verðtryggingar eins og við ættum líka að þekkja á eigin skinni. Ólafslögin, sem verðtryggðu fjárskuldbindingar tóku gildi árið 1979 en 1981 skiptum við um mynt, alveg án þess að hrófla við verðtryggingunni. Gjaldmiðilsskipti gætu hins vegar verið hluti af afnámi verðtryggingar.

Meðal þess sem lesa má úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er að Alþingi er vanmáttugt og að sterk hefð sé fyrir því að valdið sé í höndum tveggja manna, formanna ríkisstjórnarflokkanna. Lengi voru það Davíð og Halldór, síðar Geir og Ingibjörg og núna Steingrímur og Jóhanna. Auk þess hafa allir þjóðkjörnir fulltrúar misst gríðarleg völd til viðskiptalífsins og annarra sterkra hagsmunaaðila. Mér finnst skipta gríðarlegu máli að Alþingi endurheimti þau völd sem því ber og raunar má ætla að allir alþingismenn séu sammála mér um það því önnur setning þingsályktunarinnar sem Alþingi samþykkti 63-0 í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndarinnar hljómar svo:

Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

Reyndar hafa verið stigin fjölmörg hænuspor í þessa átt þótt stökkið sé enn ekki stokkið. Því til staðfestingar má benda á að mun fleiri þingmannamál, bæði frá stjórnarþingmönnum sem minni hlutanum, hafa náð fram að ganga síðustu tvö ár en árin þar á undan. Eins og ég hef áður bent á virðist meirihluti fyrir leiðréttingum lána á þingi sem og afnámi verðtryggingar. Efnahags- og viðskiptanefnd er einnig mjög vel skipuð og mikil sérfræðiþekking á efnahagsmálum innan hennar. Nú finnst mér tími til kominn að Alþingi taki valdið sem því ber aftur í sínar hendur og sýni það og sanni að það þorir, vill og getur. Það er þingmanna að sanna að þeim sé alvara með þessari bókun með því að láta hendur standa fram úr ermum og láta verkin tala.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is