Miðvikudagur 23.11.2011 - 09:47 - FB ummæli ()

Fjármálaeftirlitið herðir sig (… vonandi!)

Þingmannanefndin sem fjallaði um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis lét framkvæma greiningu á skýrslunni frá kynjafræðilegu sjónarhorni. Það voru þær Þorgerður Einarsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir sem unnu þá úttekt en hún er fylgirit með skýrslu þingmannanefndarinnar (hefst á bls. 209). Úttektin er allrar athygli verð því alltaf er gott að horfa á málin í nýju ljósi.

Rýnt er í skýrsluna út frá kynjafræðilegum hugtökum og aðferðum og var markmiðið að skilja þann þátt sem kyn átti í þessari atburðarrás. Fjallað er um kyn, kyngervi, karlmennsku og kvenleika á hátt sem þeim sem ekki þekkja til rannsókna í kynjafræði finnst eflaust nýstárlegur og framandi. Sumt er þó reyndar alveg borðleggjandi. Það þarf ekki hámenntaða kynjafræðinga til að segja okkur að menningin í bönkunum og hjá útrásarvíkingunum var stráka- og karlamenning og gerendur flestir karlkyns. Kaldhæðni örlaganna er svo að í kjölfarið var konan sett í þrifin eins og Halldór Baldursson gerði  svo ágætlega grein fyrir í þessari teikningu:

Birt með leyfi Halldórs Baldurssonar.

Annað er duldara. Í skýrslunni segir að ein áhrifamesta leiðin til að tákngera valdatákn sé að kyngera þau:

Menningarbundnar hugmyndir um að eitthvað sé karlmannlegt undirstrika vald, og á sama hátt draga hugmyndir um að eitthvað sé ókarlmannlegt úr valdi.  (bls. 255)

Því er svo lýst hvernig Valgerði Sverrisdóttur sem var iðnaðarráðherra og hafði með bankamál að gera við einkavæðinguna var að eigin sögn haldið á hliðarlínunni og hennar eigin skýring á því er kyn hennar. Í aðdraganda hrunsins er viðskiptaráðherrann, þá karlinn Björgvin G. Sigurðsson, áfram jaðarsettur og honum gefnir ýmsir „kvenlegir“ eiginleikar svo sem lausmælgi (við tölum jú um kjaftakerlingar) og þeir notaðir sem afsökun fyrir því að hann var ekki hafður með í ráðum og látinn vita af ýmsum grunvallaratriðum. Fjármálaeftirlitið heyrði undir viðskiptaráðherra og með því að veikja hann og jaðarsetja var eftirlitið einnig veikara. Þá benda skýrsluhöfundar á að „e“-ið í merki fjármálaeftirlitsins var lítið á meðan aðrir stafir í nafninu voru í hástöfum. Áherslan í íslensku er fremst í orði og því á e-inu í orðinu eftirlit og það því mildað með þessum myndræna hætti. Hér er mynd af merki FME af ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins árið 2007:

Hér er merkið jafnvel enn kvenlegra en í því dæmi sem birt er á bls. 259 í skýrslunni, í mjúkum bleikum tónum á dumbrauðum grunni. Ferningarnir undir textanum fjara svo rólega út í bakgrunninn. Þetta eftirlit var heldur ekki til stórræðana.

Á ársskýslum áranna 2009 0g 2010 er ekkert merki á forsíðunni og ársskýrslu frá hrunárinu vantar á vef eftirlitsins. Fyrr í þessum mánuði kom hins vegar ný skýrsla með nýju lógó-i þar sem veika, mjúka, kvenlega e-ið er horfið og allir stafir eru í sama letri (og ganga í takt):

Við hlið textans er líka komið nýtt tákn þar sem hvergi eru mjúkar línur. Nýja merkið er stílhreint, nokkuð íhaldssamt en minnir einnig á bæði hnút og hnefa, handaband eða hendur tveggja sem halda saman fast utan um eitthvað. Það er ákveðið og þétt og frekar traustvekjandi.

Vonandi er það merki um nýja tíma. Það þarf að vera ljóst að FME þori að opna vopnabúrið sitt og sanna að það sætti sig ekki við að vera nein hornkerling. En þá verða menn líka að gangast við því að vera töffarar en ekki „óvirkir stjórnarmenn“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is