Mánudagur 21.11.2011 - 23:36 - FB ummæli ()

Meirihluti fyrir leiðréttingum lána á þingi?

Landsfundur sjálfstæðisflokksins fór fram um síðustu helgi. Mikið hefur verið rætt um formannsslag og ESB en minna um annað sem kom út úr fundinum svo sem ályktun um fjármál heimilanna. Þessi ályktun finnst mér um margt afar skynsamleg enda mikill samhljómur með henni og því sem ég og fleiri höfum verið að hamra á síðustu þrjú árin. Á þessu átti ég ekki von enda ekki nema nokkrir dagar síðan formaðurinn lýsti því yfir að verðtryggingin væri ekki vandamálið heldur verðbólgan og í efnahagstillögum flokksins tekur hann undir 110% leiðina sem er, að mínu mati og greinilega meirihluta landsfundargesta líka, galin. Í ályktun landsfundar segir hins vegar meðal annars:

Sjálfstæðisflokkurinn vill færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána. Þessi aðgerð og önnur endurskipulagning skulda heimilanna er forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags.

Aðgerðir til lausnar skulda einstaklinga eiga að vera almennar en ekki það sértækar að leiði til mismununar borgaranna og brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Og svo síðar:

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins krefst þess að skipan húsnæðis- og neytendalána verði með sama hætti og annars staðar á Norðurlöndum, Bretlandi og Þýskalandi … Verðtrygging neytendalána á ekki að vera valkostur í nútímasamfélagi.

Og ýmislegt fleira er þarna gott að finna.

Eitt að meginstefnumálum Hreyfingarinnar hefur verið sanngjörn og almenn leiðrétting á lánum heimilanna og afnám verðtryggingar í kjölfarið. Framsóknarflokkurinn hefur einnig talað fyrir því, sem og Lilja Mósesdóttir og tregða stjórnarflokkanna til leiðrétingar á lánum heimilanna er eitt þeirra atriða sem þau Atli Gíslason töldu til í yfirlýsingu sem þau sendu frá sér þegar þau yfirgáfu þingflokk VG. Og Guðmundur Steingrímsson bauð sig fram með stefnuskrá í hönd þar sem hvatt var til almennra aðgerða og hann hefur einnig talað fyrir þeim á þinginu t.d. í þessari eftirminnilegu fyrirspurn. Samtals gerir það fimmtán þingmenn.

Ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins fylgja ályktun síns eigin landsfundar bætast við 16 þingmenn og við erum komin í 31. Þá vantar bara einn til að vera með meirihluta.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur talað fyrir afnámi verðtryggingar en það hefur Jóhanna Sigurðardóttir svo sem gert líka án þess að gera neitt í málinu.

En minnst einn stjórnarþingmaður enn hefur margoft talað fyrir almennum aðgerðum og gegn verðtryggingar með meiri sannfæringarkrafti en flestir. Það er Þráinn Bertelsson.

Er ekki kominn tími til að greiða atkvæði um málið?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is