Sunnudagur 20.11.2011 - 17:05 - FB ummæli ()

Spurningin sem efnahags- og viðskiptaráðherra getur ekki svarað

Enginn hefur komist hjá því að heyra umræðuna um gengistryggðu lánin og hvernig Alþingi setti afturvirk lög sem heimila fjármálafyrirtækjunum að reikna upp lánin miðað við forsendur sem engir allsgáðir einstaklingar hefðu nokkrum sinnum skrifað undir. Fólk sem tók lán með fremur lágum vöxtum á íslenskan mælikvarða og hafði gert ráð fyrir töluverðum gengissveiflum en talið sig þó ráða vel við greiðslubyrðina fékk allt í einu á sig mun hærri vexti en hinir svokölluðu seðlabankavextir, sem komu í stað samningsvaxta, voru um og yfir 20% þrjú ár í röð. Það segir sig sjálft að engir heilvita menn hefðu tekið langtímalán til húsnæðiskaupa á þeim kjörum. Ég hef bæði séð dæmi um að afturreiknaðir vextir séu hærri en upphaflegur höfuðstóll og að greiðslubyrði fólks hafi hækkað eftir „leiðréttingu“ miðað við lánið stökkbreytt. Hópur manna hefur kvartað til ESA yfir þessari bjánalegu lagasetningu enda er hún gróft brot á evrópskri neytendalöggjöf sem við höfum innleitt hér á landi að breyta samningum afturvirkt með þessum hætti, neytenda í óhag.

En hver eru raunveruleg áhrif þessarar lagasetningar. Hvað voru lánin færð mikið niður og hve mikið hækkuðu þau við þessa afturvirku vaxtaútreikninga? Mér fannst eðlilegt að efnahags- og viðskiptaráðherra svaraði okkur þessari einföldu spurningu enda var það hann sem lagði þessa löggjöf til. Ég lagði því fram tvær fyrirspurnir, eina er varðar lán einstaklinga og  aðra um lán fyrirtækjanna.

Svör bárust nýlaga og stutta svarið er að ráðherra veit þetta ekki og vill bara hreint ekki vita það.

Í svari ráðherra við fyrri spurningunni segir:

Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands, eftir atvikum, safna upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum í samræmi við það eftirlitshlutverk sem þessum stofnunum er falið lögum samkvæmt.

Í samræmi við framangreint óskaði ráðuneytið eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki saman svar við fyrirspurninni. Hér fylgir svar eftirlitsins:

Meginhlutverk Fjármálaeftirlitsins er að tryggja að eiginfjárhlutföll fjármálafyrirtækja séu í samræmi við reglur og kröfur eftirlitsins hverju sinni. Stærsta verkefnið er því að tryggja að eignir og skuldir fjármálafyrirtækja séu metnar á réttu virði. Þegar í ljós kom að vafi léki á lögmæti gengistryggðra lána ákvað eftirlitið að fara út í viðamikla könnun svo hægt væri að meta hver áhrifin yrðu og hvort fjármálafyrirtækin mundu áfram uppfylla reglur og kröfur eftirlitsins, kæmi til þess að gengistryggðu lánin yrðu dæmd ólögmæt. Sú fyrirspurn sem send var til fjármálafyrirtækja var með þeim hætti að greina mætti áhrifin á eigið fé fjármálafyrirtækja miðað við mismunandi útkomur hvað varðar ólögmæti og vaxtaviðmið. Endurútreikningur á gengislánum hefur hins vegar einungis áhrif á eigið fé fjármálafyrirtækja í þeim tilvikum þar sem endurútreiknað kröfuvirði er lægra en bókfært virði. Fyrirspurnin beindist því ekki að heildarlækkun á kröfuvirði gagnvart lántökum.

Fjármálaeftirlitið hefur einbeitt sér að því að greina hvort fjármálafyrirtæki hafi fært nægilega hátt varúðarframlag í bækur sínar til að þau geti mætt mögulegri tapsáhættu með tilliti til stöðugleika fjármálakerfisins. Eftirlitið hefur ekki talið það vera forgangsverkefni að fylgjast með hversu hratt fjármálafyrirtæki gangi frá endanlegum afskriftum til viðskiptavina sinna eða hversu mikil lækkunin er frá fyrra kröfuvirði. Sökum þess hvar áhersla eftirlitsins hefur legið liggja upplýsingar ekki fyrir um það um hversu háa fjárhæð lán einstaklinga hafa verið færð niður í kjölfar setningar laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu.

Með vísan til svars Fjármálaeftirlitsins kannaði ráðuneytið hvort Seðlabanki Íslands gæti veitt upplýsingar við fyrirspurninni. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum eru ekki til gögn um niðurfærslur eftir tegund lána eða eftir einstaklingum og fyrirtækjum heldur einungis upplýsingar um hvort niðurfærslan sé almenn eða sérstök.

Að öllu framanvirtu er ráðuneytið því miður ekki í aðstöðu til að veita fullnægjandi svar við fyrirspurninni. Þær tölur sem ráðuneytið hefur yfir að ráða eru þær fjárhæðir niðurfærslu lána sem Samtök fjármálafyrirtækja gefa út og koma fram í eftirgreindri töflu:

Heildarfjárhæð niðurfærslu, staða í lok september 2011.
Tegund láns millj. kr.
a. og b. Bílalán (eigna- og kaupleigusamningar) 38.500
c. Húsnæðislán 96.428
d. Önnur lán Upplýsingar liggja ekki fyrir
Samtals 134.928

Svar ráðherra við síðari spurningu er á sömu lund.

Þetta getur ekki gengið. Við hljótum að krefast þess að ráðherra geti svarað þingi og þjóð því hversu mikil áhrif hin afturvirku lög 151/2010 hafa á hag heimilanna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is