Fimmtudagur 17.11.2011 - 23:48 - FB ummæli ()

„Óvirki“ stjórnarmaðurinn

Í tilefni Kastljóssviðtals kvöldsins langar mig að endurbirta bloggfærslu sem ég skrifaði þann 13. ágúst s.l. og prjóna örlítið við hana:

Að vinna ekki vinnuna sína

Hún lætur ekki mikið yfir sér fréttin á bls. 26  í Morgunblaðinu í dag um stjórnarþátttöku Gunnars Andersen, þáverandi starfsmanns Landsbankans en núverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, í tveimur aflandsfélögum Landsbankans á árunum 2001-2. Í fréttinni segist Gunnar hafa verið “óvirkur stjórnarmaður” og því ekki bera neina ábyrgð á herlegheitunum. Sem sagt, fyrst hann sinnti ekki starfi sínu sem skyldi skuli hann vera stikkfrí.

Prófum þessa kenningu á nokkrar aðrar starfstéttir:

  • Slys verður á leikskóla þar sem eitt barnið fer sér að voða. Í ljós kemur að leikskólastjórinn var fjarverandi. Aðspurður segist hann enga ábyrgð bera á slysinu enda hafi hann verið óvirkur í starfi, mætt seint og illa og lítinn áhuga haft á leikskólanum.
  • Póstpoki finnst í ruslatunnu og ljóst að bréfberinn í hverfinu hefur ekki borið út nýlega. Það er þó ekki honum að kenna því hann hefur alveg verið óvirkur í starfi undanfarið. Hann ætlar þó að mæta á árshátíðina og hlakkar mikið til. Svo verða menn bara að sjá til eftir það hvort hann muni nenna að standa í þessu.
  • Bóndi verður uppvís að illri meðferð á skepnum. Kindurnar hans eru grindhoraðar og illa á sig komnar. Hann gefur þá skýringu að hann hafi brugðið sér til Kanarí, hafi rekist á helvíti gott tilboð á þriggja vikna ferð, og verið því óvirkur í búskapnum upp á síðkastið.

Þessi dæmi eru öll fáránleg og ekkert okkar myndi kaupa skýringar á borð við þessar. Engu að síður er það staðreynd að hér á Íslandi sat fjöldi karla og kvenna (en þó aðallega karla) í stjórnum hinna ýmsu fjármálafyrirtækja án þess að sinna lögbundnum skyldum sínum um eftirlit eða jafnvel gera sér grein fyrir því hverjar þær væru.

Við Íslendingar eru því miður orðin vön því að banksterar, jafnt sem stjórnmálamenn, lýsi sig ábyrgðarlausa á öllu sem viðkom fjármálalífinu hér á árunum fyrir hrun og það hafi ekki verið þeirra að bregðast við. Það er svo sem ekkert fréttnæmt við það lengur, því miður. En að forstjóri Fjármálaeftirlitsins, EFTIR HRUN, lýsi því yfir að hann hafi verið “óvirkur stjórnarmaður” í aflandsfélagi og haldi stöðu sinni, það er stórfrétt!

___________________________________

Og kannski er þetta mál loks orðið að stórfrétt en í Kastljósinu kom fram að Gunnar hafi nefnilega alls ekki verið óvirkur og virðist hann jafnvel hafa verið upphafsmaður þessarar hugmyndafræði innan Landsbankans sem þá nota bene var ríkisbanki. Viðbrögð Gunnars Andersen og tilraunir hans til að gera lítið úr þátttöku sinni hafa mér alltaf fundist undarleg og í raun óþörf. Það má nefnilega færa mjög góð rök fyrir því að Fjármálaeftirlitinu eigi einmitt að stýra maður með svipaðan bakgrunn og Gunnar. Hann virðist nefnilega kunna öll trixin í bókinni, gjörþekkja þankaganginn og vita hvernig kaupin raunverulega gerast á eyrinni. Það sem mér finnst að Gunnar hefði átt að gera var að viðurkenna hlutdeild sína í stofnun þessara aflandsfélaga og grobba sig pínu lítið á sérþekkingu á málefninu. Þess í stað afneitaði hann þátttöku sinni í þessu öllu saman, fann upp bullhugtakið „óvirkur stjórnarmaður“ sem allir sem hafa lesið viðskiptarétt til verslunarprófs átta sig strax á að stenst ekki skoðun og muldraði eitthvað vandræðalega. Ekkert af þessu er beinlínis til þess fallið að auka tiltrú mína eða annarra á Fjármálaeftirlitinu og mér finnst stofnunin lítið hafa skánað eftir að Gunnar tók við henni.

En tímasetningin á leka upplýsinganna finnst mér ekki síður áhugaverð og ekki síst það að það sé einmitt Sigurður G. Guðjónsson sem mættur er til að fjalla um málið. Eins og fram kom í þættinum er hann að vinna fyrir marga sem sérstakur saksóknari er með í siktinu en sá sérstaki fær mál sín send frá FME. Það þarf ekki ýkja fjörugt ímyndunarafl til að láta sér detta í hug að einhverjir þeirra hugsi Gunnari þegjandi þörfina.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is