Mánudagur 14.11.2011 - 17:59 - FB ummæli ()

Hvað kostar búsið okkur?

Í vor lagði ég fram tvær fyrirspurnir til fjármálaráðherra í þinginu um tekjur og útgjöld ríkisins vegna áfengis og tóbaks. Svör bárust síðsumars og ollu mér vonbrigðum því ráðherra (eða starfsfólk hans) gerði enga tilraun til þessa að svara því hver kostnaður ríkisins væri vegna áfengis- og tóbaksneyslu. Þá fannst mér eiginlega betur heima setið en af stað farið því ég var einmitt að fiska eftir mismuninum þar á milli. Ég hef nefnilega oft heyrt fólk réttlæta neyslu sína, einkum á tóbaki, með því að fólk sem reyki og drekki borgi nú svo mikið aukalega til samfélagsins að það standi nánast undir gjörvöllu heilbrigðiskerfinu.  Neysla þess sé því þeirra einkamál og þeir sem vilja auka forvarnir eða hvetja fólk til að hætta séu forsjárhyggjufasistar af verstu sort.

Nú hef ég hins vegar fengið svar við spurningu minni um útgjöld samfélagsins vegna áfengisdrykkju landsmanna en í SÁÁ-blaðinu sem kom út í dag (bls. 4) er gerð grein fyrir lokaverkefni Ara Matthíassonar til meistaragráðu í heilsuhagfræði. Niðurstöður Ara eru að alkóhólismi kosti þjóðfélagið 53 -85,5 milljarða á ári eða 3,1 – 5% af landsframleiðslu.

Fjármálaráðherra sagði mér að tekjur ríkisins af  áfengissölu væru varlega áætlaðir 16,6 milljarðar. Kostnaður að frádregnum tekjum ríkisins vegna áfengisneyslu landsmanna er því á bilinu 36,4 – 68,9 milljarðar. Það er því nokkuð ljóst að þeir sem borga mest til samfélagsins í gegnum áfengisgjöld og virðisauka af sprútti eru ekki að borga með sér.

Nú þyrfti einhver að taka sig til og rannsaka samfélagslegan kostnað við reykingar fyrir okkur Steingrím.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is