Þriðjudagur 08.11.2011 - 17:50 - FB ummæli ()

Eignaréttur hins skuldsetta

Í umræðum um leiðréttingar lána er því gjarna haldið fram að ekki sé hægt að ganga lengra en þegar hefur verið gert vegna stjórnarskrárbundins eignaréttar kröfuhafa. Eignaréttur þeirra sem einhvern tímann áttu hlut í heimili sínu en hafa þurft að þola eignabruna vegna hruns gjaldmiðilsins, verðbólgu og verðtryggingar er hins vegar sjaldan varinn. Það virðist lögmál á Íslandi að „tapið“ skuli alltaf lenda á skuldsettum heimilum.

Fyrir þinginu liggur mál um endurútreikning á gengistryggðu lánunum. Málið er til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins og 12 innsend erindi erindi hafa borist sem ég hvet allt áhugafólk um þessi mál til að lesa vel. Marinó G. Njálsson sendi inn vandaða umsögn eins og hans er von og vísa þar sem hann setur málin í athyglisvert samhengi. Hann bendir á að samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna, (bls. 30) voru öll gengistryggð lán afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna. Það er svo sem ekkert nýtt enda hefur baráttufólk fyrir réttlæti hamrað lengi á þessu enda nákvæmlega ekkert sanngjarnt við það að sá afsláttur sem bankarnir fengu breytist í ofurhagnað hinna endurreistu banka. Eins og Marinó bendir á voru lög 151/2010 eins konar jólagjöf þingsins til fjármálafyrirtækjanna enda kemur endurútreikningur afar illa út fyrir þá sem tóku lán snemma á þeim tíma sem þau voru í boði, nokkuð sem flestir ættu að skilja enda voru vextir Seðlabankans um 20% þrjú ár í röð! Undarlega mörgum finnst samt krafan um réttlæti ekki gild rök í málinu og þá er gott að eiga mann eins og Marinó. Hann bendir nefnilega á rökstuðning Hæstaréttar í nýföllnum dómum vegna neyðarlaganna (dómar 340/2011 og 341/2011) en í þeim fyrri segir:

Áður er fram komið að hluti upphaflegra almennra kröfuhafa hefur selt kröfur sínar eftir 6. október 2008 og að þær hafi haft eitthvert fjárgildi í viðskiptum þótt óumdeilt sé að það hafi verið lágt. Um það nýtur ekki við nánari upplýsinga í málinu. Að öllu þessu virtu þykja sóknaraðilar ekki hafa rennt stoðum undir þær staðhæfingar sínar að kröfur þeirra hafi eða muni tapast að öllu leyti vegna setningar laga nr. 125/2008 þótt ókleift sé á þessu stigi að komast að niðurstöðu um hve mikið kunni að fást greitt af þeim þegar upp verður staðið.

 

Og rökrétt niðurstaða Marinós er:

Fjármálafyrirtæki sem fékk helmingsafslátt af kröfu verður ekki fyrir tjóni nema að minna en helmingurinn fáist greiddur, þ.e. að ekki fáist greitt upp í lögvarinn kröfurétt fyrirtækisins.

 

Þetta hlýtur að eiga jafnt við um gengistryggðu lánin og eignarétt kröfuhafa á þeim. Nú verður Alþingi að ganga í málið og afnema eða lagfæra ólögin númer 151/2010. Er ekki réttara að jólagjöfin í ár verði til heimilanna frekar en bankanna?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is