Þriðjudagur 18.10.2011 - 21:34 - FB ummæli ()

Menn að leika guð

Það var ekki bara hiti í jörðu í Hveragerði í gærkvöldi. Íbúar fjölmenntu á upplýsingafund sem Orkuveita Reykjavíkur hélt á Hótel Örk og eðlilega var mönnum heitt í hamsi en síðustu vikurnar hefur niðurdæling Orkuveitunnar haft í för með sér um 1900 mælanlega jarðskjálfta allt upp í tæplega 4 á Richterskvarða. Í Hveragerði hefur jörð skolfið, húsveggir sprungið og byggingar skekkst þannig að ómögulegt er að loka hurðum. Mönnum er ekki skemmt.

Fundurinn var um margt fróðlegur, ekki bara vegna þeirra upplýsinga sem þar komu fram hjá ágætum vísindamönnum ÍSOR, Veðurstofunnar, Orkuveitunnar og Orkustofnunnar. Það var einnig fróðlegt að sjá undirbúning OR og viðbúnað á fundinum. Borðfélagi minn taldi 16 sérfræðinga sem væru til takst frá fyrirtækinu, tilbúna til að svara erfiðum spurningum ef á þyrfti að halda.

Það var líka fróðlegt að sjá hversu mörgum spurningum er í raun ósvarað um nýtingu jarðhitans og hvað slík nýting getur haft í för með sér. Það læddist að mannig grunur um að menn væru komnir út á ystu nöf og farnir að leika sér að einhverju sem betra væri að láta vera.

Íbúum gafst færi á að spyrja og forstjóri Orkuveitunnar átti erfitt með að réttlæta þetta brölt í fyrirtækinu og baðst afsökunar á að hafa ekki gert íbúum grein fyrir því að þetta gæti gerst fyrr. Fram kom að fyrirtækið vissi í hvað stefndi strax í vor þegar borað var fyrir niðurdælingarholunni í Húsmúla en þær framkvæmdir framkölluðu skjálfta.

Fulltrúi Orkustofnunar, Jónas Ketilsson, margítrekaði að ekki væri um manngerða skjálfta að ræða heldur flýtti niðurdælingin bara ferlinu. Skjálftarnir væru óumflýjanlegir en kæmu þá bara aðeins seinna og yrðu öðruvísi ef náttúran fengi að hafa sinn gang. Einn fundargestur úr sal benti á að allir fundarmenn myndu fyrr en síðar deyja af náttúrulegum orsökum en það þýddi samt ekki að neinn mætti hraða því ferli. Góður punktur.

Umræðan um bætur fyrir skaða sem skjálftarnir hafa þegar valdið og kunna að valda haldi þeir áfram var líka áhugaverð. Heyrst hafði að Viðlagatrygging Íslands teldi sig ekki eiga að borga tjón af völdum þessara skjálfta og það staðfesti Hulda Ragnheiður Árnadóttir í fréttum Sjónvarpsins í kvöld. Mér fannst Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar ansi brattur í gærkvöldi þegar hann sagði að Orkuveitan væri tryggð og að tryggingarfélag hennar myndi bæta hugsanlegt tjón. Í fréttum RÚV svaraði Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi því hins vegar til að skjálftarnir væru ekki manngerðir og að þetta væri flókið viðfangsefni. Ætlar Orkuveitan þá ekki að bæta skaðann? Er réttlætanlegt að halda framkvæmdum áfram án þess að það liggji fyrir hver ber hugsanlegt tjón?

Heimilið á að vera heilagur griðastaður. Það á ekki að hristast af mannavöldum undir neinum kringumstæðum. Síðustu vikur hefur heilt bæjarfélag skolfið og höfuðborgarsvæðið í verstu tilfellunum líka. Við megum aldrei sætta okkur við það. Og líðan fólks sem býr við ógn stórra suðurlandsskjálfta, hefur þegar upplifað þrjá svoleiðis á rúmum áratug batnar ekki við þessar kringumstæður. Áður en lengra er haldið verður að koma eftirfarandi atriðum á hreint:

  • Hver ber ábyrgð á tjóni vegna þessara skjálfta?
  • Er einhver önnur leið fær til niðurdælingar sem ekki veldur skjálftum?
  • Er einhver önnur leið fær en niðurdælingin?
  • Með hvaða hætti ætlar Orkuveita Reykjavíkur að bæta Hvergerðingum upp þau óþægindi sem bæjarbúar hafa þurft að upplifa vegna framkvæmdanna?

Sú krafa kom fram á fundinum að öllum framkvæmdum yrði hætt í Hellisheiðarvirkjun. Hún er algjörlega skiljanleg og við hljótum að spyrja okkur hversu mikið hægt er að leggja á fólk sem býr í námunda við starfstöð eins fyrirtækis? Hvernig forgangsröðum við? Hvort skiptir meira máli; manneskjur eða hagsmunir fyrirtækis?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is