Mánudagur 17.10.2011 - 17:30 - FB ummæli ()

Bankasýslan, forstjórinn og hæfniskröfur

Mikið hefur verið rætt og ritað um Bankasýslu ríkisins og nýjan forstjóra hennar þótt fréttum beri reyndar ekki saman um hvort hann taki til starfa eða ekki.

Hugmyndin með Bankasýslunni var að málefni bankanna og stjórnun þeirra væri ekki á borði fjármálaráðherra. Talað var um að færa bankana svokallaða „armslengd“ frá ráðherranum. Stofnað var til Bankasýslunnar með lögum 88/2009 og á hún að fara með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækum eins og segir í 1. grein þótt sú hafi þó ekki verið raunin með ýmsa sparisjóði sem dagað hafa uppi mánuðum saman hjá ráðherranum. Samkvæmt lögunum heyrir Bankasýslan undir fjármálaráðherra og það er hann sem  skipar þriggja manna stjórn. Það er svo hins vegar stjórnin sem skipar framkvæmdastjóra (og þar á armslengdin að vera komin).

Á sínum tíma lagði ég til í viðskiptanefnd að ráðningarþjónusta myndi sjá um að ráða forstjórann því ég trúði því ekki að fjármálaráðherra myndi í raun ekki hafa áhrif á stjórnina sem hann hefði sjálfur skipað. Það varð ekki úr.

Ári síðar voru gerðar töluverðar (en þó alls ekki nægar) breytingar á lögum 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þar var meðal annars hert mjög á hæfi þeirra sem geta starfað í stjórnum fjármálafyrirtækja, framkvæmdastjóra og þeirra sem fara með virkan eignarhlut, sjá t.d. grein 52. Fjármálaeftirlitinu er gert að hafa eftirlit með þessu og meta hæfi manna.

Mér finnst að við eigum að gera sambærilegar kröfur til bæði stjórnarmanna Bankasýslu ríkisins sem og forstjórans og mun á næstu dögum leggja fram frumvarp til breytinga á lögunum. Ég er sannfærð um að ef breytingarnar á lögunum á fjármálafyrirtækjunum hefðu legið fyrir þegar lögin um Bankasýsluna voru samþykkt hefðu sömu kröfur verið gerðar enda er ábyrgðin sambærileg og mikið í húfi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is