Sunnudagur 09.10.2011 - 16:38 - FB ummæli ()

Atvinnulífið, hagsmunatengsl og „eitthvað annað“

Ég var að horfa á Styrmi Gunnarsson í Silfrinu tala um að stjórnmálamenn þyrftu að berjast gegn hagsmunaklíkum og hvernig þær verða alltaf of sterkar í okkar samfélagi á kostnað minni atvinnurekenda. Þessu er ég hjartanlega sammála.

Til er félagsskapur sem heitir Samtök atvinnulífsins. Forsvarsmenn hans tjá sig oft og iðulega um atvinnulífið, þarfir þess, áherslur og síðast en ekki síst „hagsmuni atvinnulífsins“. Oftar en ekki virðist það skoðun talsmannanna að atvinnulífið í heild sinni muni leggjast af ef ekki verði farið í megin dráttum eftir því sem samtökin leggja til, sjá t.d. umsögn SA, LÍÚ og SF um frumvarp Jóns Bjarnasonar um breytingar á stjórn fiskveiða frá í vor.

Það sem hefur komið mér einna mest á óvart eftir að ég settist á þing ef hversu mikið tillit er tekið til hagsmunaaðila á borð við Samtök atvinnulífsins. Nú er ég ekki að mælast til þess að útiloka þeirra sjónarmið en mér finnst áhrif þeirra allt of mikil sé litið til þess hve lítill hluti atvinnulífsins í heild er innan samtakanna og að sjónarmið þeirra eru oftar en ekki sjónarmið hinna stóru á kostnað hinna smærri. Ég fékk upplýsingaþjónustu Alþingis til að hjálpa mér að taka saman eftirfarandi upplýsingar um íslenskan vinnumarkað. Tölurnar eru ýmist  fengnar á vef Hagstofunnar eða á vef SA og miðast við árslok 2010 eða meðaltal fjórða ársfjórðungs 2010.

Íslenskur vinnumarkaður

Starfandi á vinnumarkaði voru 163.300 en atvinnulausir 13.700. Samtals eru þetta því  181.000 manns.

Hlutur Samtaka atvinnulífsins

Fjöldi starfsmanna aðildarfélaga SA er  56.100  sem gerir 31 % af íslenskum vinnumarkaði. Fjöldi fyrirtækja innan SA er 2.426. Innan LÍÚ eru einungis 190 fyrirtæki.

Opinber starfsemi

Í opinberri stjórnsýslu starfa 8.600, í fræðslustarfsemi 20.400 og heilbrigðis- og félagsþjónustu 28.300. Samtals starfa því 57.300 manns hjá hinu opinbera eða 31,6% af íslenskum vinnumarkaði.

Önnur atvinnustarfsemi

Fjöldi starfandi hjá öðrum en hinu opinbera eða Samtökum atvinnulífsins 53.900 eða 29,8%. Alls eru yfir 60.000 fyrirtæki skráð en ekki öll þeirra eru starfandi, auk þess sem margir starfa hjá sjálfum sér á eigin kennitölu.

Atvinnuleysi

Því miður er það svo að ekki hafa allir vinnu en 13.700 eða 7,6% af íslenskum vinnumarkaði er skráður atvinnulaus. Í raun held ég að það séu mun fleiri því margir hafa flutt úr landi eða farið í nám frekar en að vera atvinnulausir. Þá er einnig ótalinn sá fjöldi sem vill vinna en er ekki skráður atvinnulaus, einhverra hluta vegna.

Er einhver að tala fyrir litlu fyrirtækin?

Þegar við heyrum talsmenn Samtaka atvinnulífsins tjá sig er gott að hafa í huga að þeir eru einungis að gæta hagsmuna þeirra fyrirtækja sem mynda 31% af íslenskum fyrirtækjum. Þeir eru að tala fyrir hönd þeirra stóru en ekki litlu. Það er líka gott að muna að ýmsar rannsóknir sýna að arðurinn verður frekar eftir í samfélaginu hjá minni fyrirtækjum en þeim stóru og að þau greiða oftar en ekki hærri laun. Og þegar kallað er eftir fleiri álverum er gott að hafa í huga að aðeins um 1% af vinnuaflinu starfar með beinum hætti í áliðnaðinum. 99% starfa því við eitthvað annað. Þetta eitthvað annað er því ekki bara til heldur spjarar sig bara ágætlega.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is