Fimmtudagur 06.10.2011 - 23:05 - FB ummæli ()

Brjóta þingflokkar gegn stjórnarskránni?

Ég tók til máls undir liðnum „störf þingsins“ í dag um þau vinnubrögð sem tíðkast innan sumra þingflokka að þingmenn þurfa að fá leyfi frá þingflokknum til að flytja mál í þinginu og vera meðflutningsmenn á málum annarra þingmanna. Þar sem nú er nýtt þing nýhafið eru margir að huga að flutningi nýrra þingmála og endurflutningi á eldri málum sem ekki hafa verið til lykta leidd. Flestir nota til þess nútímatækni, senda málin á aðra þingmenn með tölvupósti og er það vel, menn geta þá lesið vel yfir, gert athugasemdir, komið með ábendingar, ákveðið að taka þátt eða ekki.

Stundum fær maður þó þau svör að þingmanninum lítist vel á málið og ætli að ræða málið í þingflokknum sínum eða fá leyfi frá þingflokknum. Mér finnst ekkert að því að menn ræði fyrirhuguð þingmál við aðra í flokknum sínum og geta verið margar gildar ástæður fyrir því en þegar kemur að því að menn þurfi hreinlega að fá leyfi frá flokknum finnst mér dæmið ekki ganga upp.

Í 48. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir:

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.

Þingmenn eiga sem sagt að eiga það við sig sjálfan og engan annan hvaða mál þeir styðja og vinna að. Engu að síður hafi sumir þingflokkar á Alþingi reglur um það að þingmenn geti ekki lagt fram mál nema með samþykki þingflokksins, hvort heldur sem er einir eða í félagi með öðrum.

Ég skora á duglega fjölmiðlamenn að komast að því hvernig reglurnar eru hjá þeim flokkum sem nú eiga menn á þingi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is