Miðvikudagur 05.10.2011 - 16:16 - FB ummæli ()

Hærri skuld eftir endurútreikning

Enn berast mér bréf frá skuldsettum fjölskyldum. Með leyfi bréfritara birti ég hér eitt sem sýnir svart á hvítu hvernig endurútreikningur á gengistryggðum lánum getur stundum verið fjármálafyrirtækinu í hag.

Sæl Margrét
Ég sá að þú varst að auglýsa eftir reynslusögum. Hér kemur okkar saga.

Haustið 2007 keyptum við hjónin okkur bíl og með honum fylgdi svokallaður bílasamningur frá Lýsingu, sem nú er búið að dæma sem svo að um lán sé að ræða, en ekki leigusamning, eignaleigusamning eða hvaða nöfnum sem þeir hafa kosið að nefna slík lán hingað til.

Þegar dómur féll í héraðsdómi sendum við þeim bréf og lýstum því yfir að við myndum ekki greiða af láninu fyrr en hæstiréttur skæri úr um lögmæti slíkra lána. Það kom þó ekki í veg fyrir að þeir sendu vörslusviptingarmenn á okkur. Í síma var okkur tjáð að „innheimtur þeirra stoppuðu ekki þótt einhver dómur félli í héraðsdómi.“

Hæstiréttur staðfesti síðar dóminn og þá tók við biðin langa eftir leiðréttingunni.

Í viðhengi er endurútreikningurinn sem Lýsing hf. skilaði af sér 9 mánuðum síðar.
Skemmst er frá því að segja að hann var ekki í samræmi við okkar væntingar. Í stað þess að eiga inni fjármuni skulduðum við þeim allt í einu meira, eða 363.636 kr vegna meintra vangreiðslna sem eru tilkomnar vegna breytinga á útgefnum seðlum og gjalddögum sem áttu sér stað meðan við biðum eftir útreikningi. Sjáðu til dæmis gjalddaga númer 2, þann 5.11.2007, en það er fyrsti heili mánuðurinn sem við greiddum. Greiðsla þá, 55.995 kr og veitt viðtaka án athugasemda. Samkvæmt endurútreikningi „hefði“ þessi greiðsla átt að vera 79.966 kr. Mismurinn er 23.970 kr. sem þeir reikna sér svo vexti af, 11.798 kr.
Samtals skuldum við þeim þá  35.768 kr. vegna gjalddaga sem átti sér stað fyrir 4 árum.

Við andmæltum þessu í mars, þegar við fengum útreikninginn í hendur og fengum þau svör að við skyldum fá umboðsmann skuldara til að fara yfir útreikninginn.

Við höfðum ekki áhuga á því, heldur buðum þeim að við skyldum borga eftirstöðvar eins og afturvirkur vaxtaútreikningur ætti sér ekki stað, því eins og sjá má í viðhenginu erum við búin að borga 2.058.752 kr af höfuðstól ef afturvirkni er ekki beitt, en ekki nema 986.422 kr. miðað við þeirra útreikninga (1.519.217 kr. mínus þeir gjalddagar sem eiga sér stað eftir dóm). Eignaréttur okkar virðist því ekki mikils virði. Þeir svara engu varðandi það boð heldur senda vörslusviptingarmennina aftur á stúfana eftir bílnum. Þá hafði Innanríkisráðuneytið gefið út tilmælin varðandi vörslusviptingar og talið þær ólöglegar.

Það er svo ekki fyrr en við hótum því að kæra Áslaugu Elínu Grétarsdóttur (starfsmaður Lýsingar sem skrifar undir vörsluvsviptingarbeiðnina) fyrir brot á almennum hegningarlögum, að Lýsing setur málið í innsetningu.

Á næstunni eigum við að mæta í dómssal þar sem málið verður formlega þingfest.

Lýsing skýlir sér á bakvið lögin nr. 151/2010 og segist vera í fullum rétti að breyta liðnum gjalddögum. Þessu erum við ekki sammála og reyndar ekki talsmaður neytenda heldur. Endurkröfuréttur er skýr en bakreikningar eru ansi frjáls túlkun á lögunum og eldri lög og venjur hreinlega ekki í samræmi við slík vinnubrögð.

Með kveðju,

XXXXXXXXXX

Því miður er þetta ekkert einsdæmi og ég hef séð fjölmargar niðurstöður endurútreikninga, einkum lána sem tekin voru á árunum 2004-6 þar sem hin svokallaða „leiðrétting“ hækkar annað hvort höfuðstólinn eða greiðslubyrði lánsins. Lög 151/2010 eru ólög og einmitt meginuppistaða kvörtunarinnar til ESA.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is