Þriðjudagur 04.10.2011 - 11:45 - FB ummæli ()

Svigrúm til leiðréttinga – Látum ekki bankana hirða það!

Svar mitt við stefnuræðu forsætisráðherra

Forseti, góðir landsmenn

Mér fannst hún að mörgu leyti ágæt, stefnuræða forsætisráðherra, eins langt og hún nær.

Ég er til að mynda alveg sammála Jóhönnu Sigurðardóttur um að mikilvægi þess að þjóðin fái nýja stjórnarskrá og að þjóðin sjálf fái að segja sína skoðun á henni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og mér þótti vænt um að heyra hana tala um að okkur beri að viðurkenna að menntun sé mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. Það er nefnilega sorglegra en tárum taki að lesa um enn meiri niðurskurð í heilbrigðiskerfinu á næsta ári. Það góða fólk sem við höfum menntað til þeirra starfa fer úr landi þar sem það getur gengið í sambærileg störf fyrir mun betri laun annars staðar. Ég óttast að það sjái engan tilgang í því að snúa aftur heim.

Það er líka gott að tryggja skuli að auðlindirnar verði í þjóðareign og lögfesta breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Megi þær verða sem róttækastar. Og einnig að klára skuli rammaáætlun, hún hefði átt að liggja fyrir fyrir löngu. Og svo er fyrirtak að móta skuli heildstæða orkustefnu með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa. Hver gæti svo sem verið á móti því?

Forsætisráðherra vitnaði einnig í Robert Aliber, bandarískan hagfræðiprófessor sem varaði okkur við fyrir hrun en segir nú að endurreisnin hafi gengið vel og betur en í flestum löndum. Hann Robert Aliber er greinilega ekki með verðtryggt, íslenskt húsnæðislán sem hefur étið upp eignarhlut hans í húsinu hans og ævisparnaðinn með.

Forseti, það er einmitt þegar kemur að skuldavanda heimila og smærri fyrirtækja að við Jóhanna Sigurðardóttir, hættum að vera sammála um leiðir og hvenær nóg sé að gert. Ég sakna þess að forsætisráðherra, ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér á þinginu raunverulega beiti kröftum sínum og afli. Það er ekki nóg að fárast yfir ofurgróða bankanna og vonast til þess að þeir skili fénu aftur út í samfélagið.

Bankar eru engar góðgerðarstofnanir, þeir munu ekki skila gróðanum komist þeir upp með annað.

Bankar hafa ekki samvisku, það er gagnslaust að reyna að höfða til hennar.

Bankar hafa ekki siðferðisvitund og ekki heldur samkennd.

Bankar munu ekki hugsa sinn gang eins og forsætisráðherra vonar.

Bönkum og eigendum þeirra er alveg sama um okkur. Þeir vilja bara peningana okkar. Arðinn sinn. Og einhver gæti spurt, er eitthvað að því?

Og svarið er já, því arðurinn er illa fenginn.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýnir okkur að bankarnir voru rændir innan frá. Þeir beittu einnig blekkingum, stóðu í ólöglegri lánastarfsemi, urðu uppvísir af markaðsmisnotkun og tóku stöðu gegn krónunni. Af þessu súpum við seyðið öll. Ja öll, nema nýju bankarnir sem hafa hagnast um yfir 160 milljarða króna frá hruni. Hvaðan er sá arður kominn? Á hverju er hann byggður? Það er erfitt að lesa úr ársskýrslum þeirra hver sé raunveruleg ástæða hans. Þótt vaxtamunur sé mikill er útilokað að hagnaðurinn sé tilkominn vegna hans, sérstaklega er við horfum einnig á þá milljarða sem fjármálafyrirtækin hafa þó verið að afskrifa.

Það sem við vitum er að lánasöfnin voru færð úr gömlu bönkunum í þá nýju með gríðarmiklum afslætti. Við vitum líka að aðeins hluti hefur raunverulega verið notaður til leiðréttinga á skuldum heimila og smærri fyrirtækja. Það svigrúm sem enn er til staðar virðist vera á bilinu 150 – 200 milljarðar króna. Heimilin eiga rétt á almennri leiðréttingu á lánum sínum. Það er hlutverk stjórnvalda að sjá til þess að fjármálafyrirtækin hirði ekki þetta fé. Fyrr verður hér enginn efnahagsbati, enginn aukin neysla því hver króna fer í bankann. Ef ekki nást samningar um almenna leiðréttingu verða stjórnvöld að láta hart mæta hörðu. Ein leið til þess er sú sem Hreyfingin leggur fram í enn einu þingmáli sínu um skuldamál heimilanna en vonandi því síðasta, að skattleggja þann afslátt sem nýju bankarnir fengu af lánasöfnunum og hefur ekki verið notaður til leiðréttinga. Skattlagning upp á 95% af afslættinum ætti að tryggja að hann rataði til þeirra sem hafa horft á sparnað sinn  í fasteigum gufa upp á meðan ríkið tryggði allar innstæður að fullu. Þá væri einnig hægt að tryggja að viðskiptavinir íbúðalánasjóðs sætu við sama borð og aðrir.

Forseti, mér finnst einnig skjóta skökku við að forsætisráðherra kvarti yfir háum vöxtum á sama tíma og hún hælir sér af því að ríkissjóður hafi greitt 18 milljarða á þessu ári í vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu eða sem nemur þriðjungi alls vaxtakostnaðar af húsnæðislánum heimilanna. Má ekki líta á þá aðgerð sem sérstakan ríkisstyrk til fjármálafyrirtækja sem geta þá haldið áfram vaxtaokri sínu en sent hluta reikningsins á ríkissjóð?

Fyrir ári síðan var skipuð sérfræðinganefnd til að fara yfir stöðuna og leita lausna. Meirihluti hópsins reiknaði sig frá réttlætinu og niðurstaðan sem dróst vikum og mánuðum saman var hvorki fugl né fiskur. Nú hef ég heyrt að hópurinn hafi verið kallaður saman aftur en í þetta sinn verður að ganga hreint til verks og koma með alvöru tillögur. Fólk mun ekki bíða þolinmótt öllu lengur.

Forseti, það getur engin réttsýn manneskja horft upp á ofurhagnað bankanna, afskriftir útrásardólga og kvótakónga á meðan heimilunum blæðir. Það er okkar að stöðva þetta. Nú er nóg komið!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is