Sunnudagur 02.10.2011 - 23:11 - FB ummæli ()

Til hvers er umboðsmaður skuldara?

Hin margvíslegu „úrræði“ ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna eru ákaflega mannaflsfrek. Hugmyndin um að ekki skuli eitt yfir alla ganga heldur skuli skoða og eiga við stökkbreyttar skuldir hverrar fjölskyldu fyrir sig finnst mér klikkuð. Einn þáttur í henni er stofnun embættis umboðsmanns skuldara sem Ásta Sigrún Helgadóttir lögfræðingur gegnir. Áður var til ráðgjafastofa heimila, undir sömu stjórn, og verður að viðurkennast að vonir voru bundnar til þess að umboðsmaður skuldara yrði örlítið öflugra en það.

Hjá embættinu starfa nú, samkvæmt heimasíðunni www.ums.is, um 80 manns og margt af því ágætt og velmeinandi fólk. Því hef ég kynnst þegar Ásta og starfsfólk hennar hafa komið fyrir þingnefndir en eins hef ég heimsótt embættið og átt þar góðan fund. Það dugir þó ekki til.

Nýlega hafa mér borist tvö skýr dæmi um það. Annað er frá manni sem kvartaði yfir  endurútreikningi á gengistryggðu láni frá Dróma. Í bréfi frá umboðsmanninum er einmitt bent á eftirfarandi:

Samkvæmt reglugerð nr. 178/2011 er umboðsmanni skuldara falið að sinna beiðnum skuldara sem telja að ekki sé rétt að endurútreikningi staðið skv. a- lið 2. gr. laga nr. 151/2010. Af þessum sökum ákvað umboðsmaður skuldara í apríl sl. að leita til Raunvísindastofnunar Háskólans til að fá hlutlaust og faglegt mat á útreikningum fjármálafyrirtækjanna. Var það gert með þeim hætti að sömu raunhæfu dæmin voru send til allra fjármálafyrirtækja til að unnt væri að greina hvort þau stæðu að endurútreikningi lána með sambærilegum hætti, en markmið laga nr. 151/2010 er meðal annars að tryggja samræmi í endurútreikningum lána.

(Hér er freistandi að rifja upp að svo vill til að sömu sömu menn hjá Raunvísindastofnun Háskólans höfðu áður farið yfir þær reikniformúlur sem Landsbankinn notaði til útreikningsins löngu áður en þeir voru ráðnir til þess að skoða hvernig fjármálafyrirtækin endurreiknuðu lánin en það var nú ekki það sem ég ætlaði að fjalla um hér.)

Samkvæmt útreikningi var lánið kr. 34.448.505,- en Arion banki sér um innheimtu þess og endurútreikning þótt skuldarinn hafi verið sendur manna á milli. Eftir endurútreikning umboðsmannsins á láni þessa manns voru eftirstöðvarnar þann 10. ágúst s.l. kr. 34.208.839.-. Mismunurinn er kr. 239.666.- sem kæmu sér örugglega vel í kreppunni. Hagfræðingur hjá umboðsmanninum reiknaði svo einu sinni enn og endurreiknaði þannig miðað við þá aðferð að árlegir (í stað mánaðarlegra) vaxta voru notaðir en fjármálafyrirtækjunum eru gefnar ótrúlega frjálsar hendur um hvernig þeir fara að þessu. Eftir slíkan útreikning stendur lánið í kr. 33.733.872.-. Arion banki hyggst hins vegar innheimta kr. 34.448.505, þrátt fyrir að hagfræðingar umboðsmanns skuldara hafi reiknað dæmið út á tvo hagkvæmari vegu fyrir skuldarann. Okkar maður spyr svo:

Hefur endurútreikningur verið leiðréttur vegna útreiknings frá umboðsmanni skuldara?

og svarið sem hann fær er stutt og laggott:

Sæll aftur,

Hér færðu afrit af skuldaskjali eins og þitt lán myndi líta út miðað við deflaut leið.

Við erum ekki að styðjast við útreikninga frá Umboðsmanni skuldara.

Annað dæmi snýst um hvort endurútreikningar gengistryggðra lána samkvæmt lögum 151/2010 (sem eru að mínu mati einhver mestu ólög sem Alþingi hefur sett) standist eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar, evrópska neytendalöggjöf sem við höfum innleitt í gegnum EES samninginn og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmaður skuldara hefur haft efasemdir um það, m.a. í umsögn um frumvarpið til efnahags- og skattanefndar þingsins. Hann gerir hins vegar ekki neitt. Tvenn hagsmunasamtök skuldara, einstaklingar, lögfræðingar og einn þingmaður (undirrituð) sendu í vor kvörtun vegna afturvirkra vaxtaútreikninga gengistryggðu lánanna til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Kannski hefði umboðsmaður skuldara átt að taka það að sér. Hins vegar vísar embættið í þá kvörtun, t.d. í bréfi sem ég sá frá embættinu:

Varðandi hvort lögin standist neytendalöggjöf Evrópusambandsins, þá getum við ekki úrskurðað um hvort sé, en í umsögn okkar varðandi lögin, þá kemur fram að líkur séu að ekki sé verið að fara samkvæmt henni. Fyrir liggur kæra hjá ESA varðandi þetta málefni og verða þeir að úrskurða um hvort lögin stangist á neytendalögjöf evrópusambandsins.

Þótt vissulega sé það einhver bót fyrir skuldsettar fjölskyldur að geta sótt sér stuðning og ráðgjöf til embættis umboðsmanns skuldara er það greinilega allt of máttlaust og bæði stjórnvöld og fjármálafyrirtæki komast upp með afturvirka lagasetningu sem kemur mörgum ákaflega illa og að reikna lánin út þannig að fjármálafyrirtækin fái sem mest í sinn hlut. Það finnst mér óásættanlegt.

Er von að maður spyrji til hvers hann sé eiginlega þessi umboðsmaður skuldara? Helsti tilgangur hans virðist vera að auka flækjustigið enn frekar án þess að það hafi nein áhrif á niðurstöðuna fyrir skuldara.

Vonarglæta fellst þó í því að ekki aðeins er ESA að skoða kvörtun okkar vegna gengistryggðra lána og verðtryggingar. Fyrir helgi barst okkur bréf frá Committee of Petitions í Evrópuþinginu en við áttum góðan fund með þeim í vor og fórum ítarlega yfir kvörtunina. Nefndin hefur ákveðið að fara ofan í kjölin á málinu og hefur fyrirskipað framkvæmdastjórninni að rannsaka málið. Kannski glittir því í réttlæti eftir allt saman en yrði það ekki hneisa ef það kæmi frá Evrópusambandinu en ekki íslenskum stjórnvöldum?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is