Föstudagur 30.09.2011 - 15:23 - FB ummæli ()

Alþingi er lasið – Getur því batnað?

Ég var ekki hissa  að sjá niðurstöður nýlegrar könnunar MMR um traust til Alþingis. Um 13% voru ánægðir með störf stjórnarmeirihlutans og maður hélt að neðar væri vart hægt að komast en jú, það er mögulegt, því aðeins 7% segjast ánægð með hvernig stjórnarandstaðan hagar störfum sínum. Einnig hefur komið fram að aðeins 12,4% segjast sammála þeirri fullyrðingu að Alþingi vinni að hagsmunum þjóðarinnar og yfirgnæfandi meirihluti telur að stjórnvöld taki hag bankanna fram yfir hag heimilanna. Þessar niðurstöður endurspegla nokkuð vel mínar skoðanir.

Hafði trú

Fyrir þremur árum hrundi fjármálakerfið. Það hafði gífurlegar afleiðingar fyrir allt samfélagið, enginn var ósnortinn. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið og ráðist var í víðtækar rannsóknir svo við gætum skilið hvað hefði gerst og komið í veg fyrir að svona nokkuð gæti nokkurn tímann gerst aftur.  Nýja Ísland átti að rísa úr sæ og margir vildu leggja hönd á plóg. Það var kosið og sjaldan eða aldrei hefur verið meiri endurnýjun á þingi. Nú skyldi brett upp ermar. Vandinn var mikill en það hlutu allir að sjá að við yrðum að breytast, þroskast og hjálpast að til að komast út úr þessu. Ég er einn þeirra nýju þingmanna sem tóku sæti á Alþingi árið 2009 og það var hugur í mér. Ég hafði trú á verkefninu.

Botninum náð?

En það breyttist ekki neitt. Á fyrstu dögum þingsins varð ég vitni að því er fjármálaráðherra laug að þingi og þjóð úr ræðustól Alþingis um stöðuna í Icesave viðræðunum. Þetta byrjaði hreint ekki vel og fljótlega rann það upp fyrir manni að þingið starfaði alveg eins og áður nema fólk hafði skipt um sæti. Þeir sem áður höfðu haft allt á hornum sínum, svokölluð stjórnarandstaða, voru nú í stjórn og tóku við skítkastinu frá þeim flokkum sem lengst af stjórnuðu landinu. Það var nokkuð ljóst strax í upphafi að breytingar á þeim samkvæmisleik voru ekki fyrirhugaðar. Botninum hélt ég að væri náð þegar fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde greiddu atkvæði um hvort ákæra bæri samráðherra þeirra. Vanhæfi þeirra var algjört. Nýliðið septemberþing veitir þó þeirri hneisu harða samkeppni og ég verð að viðurkenna að ég var við það að missa trú að mannkynið eftir það.

En hvað svo?

Þótt einhverjir krakkakjánar séu farnir að vísa til hrunsins sem gjaldþrots þriggja fyrirtækja þá var það miklu meira en efnahagslegt hrun. Þetta var einnig siðferðislegt og stjórnmálalegt hrun og það stendur enn. Í auga stormsins er erfitt að finna rétta leið en ljósin í myrkrinu eru þarna. Eitt þeirra er Stjórnlagaráðið sem starfaði af einhug og hafði hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Annað eru aukin lýðræðisvitund fólks og þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem flestir viðurkenna nú að hafi reynst okkur vel. Enn annað eru ýmsir hópar sem eru að taka sig saman og ræða framboðsmál á landsvísu og ég vona að einhverjir þeirra skapi grunn að nýju flokkakerfi með aukinni áherslu á lýðræði, réttlæti, heiðarleika og almannahag. Og eitt það mikilvægasta er skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis. Hún sýnir okkur svart á hvítu hvar við villtumst af leið og hvað þarf að laga.

Síðasti séns

En af hverju er það þá ekki gert? Núverandi flokkakerfi fæddist í kringum hagsmunagæslu. Menn skiptu með sér gæðum lands og sjávar, hygluðu frændum og flokksbræðrum. Það kerfi er nú komið í algjört þrot og sóar dýrmætum tíma, að því er virðist að gamni sínu, sem okkur ber að nota til uppbyggingar á samfélaginu eins og við viljum hafa það. Í kreppu eru nefnilega ótal tækifæri og við verðum að nýta þau til að byggja upp nákvæmlega eins og við viljum hafa samfélagið. En gömlu flokkarnir virðast ófærir um að læra nýja siði og endurmeta gildi sín, vinnubrögð og hegðun. Við það verður ekki unað. Ég lít svo á að nú séu þingmenn á síðasta séns. Ef þau glórulausu vinnubrögð sem viðgengust á septemberþinginu halda áfram verður að rjúfa þing og boða til kosninga á ný. Við þurfum ekki bara nýtt fólk heldur nýjan hugsunarhátt og það hefur sýnt sig að fjórflokkurinn er ófær um að skapa réttan jarðveg fyrir hann.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is