Þriðjudagur 27.09.2011 - 12:08 - FB ummæli ()

Verður Ísland í lagi?

Eftir nokkra daga verður Alþingi sett að nýju. Ég verð að viðurkenna að ég hlakka ekki til að hefjast handa við störf vetrarins. Upplifunin af hinu ömurlega septemberþingi er enn of yfirþyrmandi í huga mér. Það er illa komið fyrir þjóð sem býr við þing þar sem andlegt ofbeldi, einelti, tilgangslaust þvaður og bakstungur teljast til viðtekinna vinnubragða. Ég á erfitt með að réttlæta það fyrir sjálfri mér að vera hluti af slíku, því þrátt fyrir að við, þingmenn Hreyfingarinnar, og fleiri hafni alfarið slíkum vinnubrögðum gegnsýra þau öll okkar störf. Ég hef alltaf verið stolt af því að vera þjóðkjörinn fulltrúi og reynt að sinna skyldum mínum eins vel og ég get  en ég skammast mín fyrir að tilheyra þessum hópi.

Ég verð líka að viðurkenna að ég óttast það sem framundan er. Fólki er miðsboðið. Ég held að margir komi til með að sýna samstöðu við þingsetninguna þann 1. október. Þótt ég voni að allt fari friðsamlega fram óttast ég það versta og furða mig reyndar oft á því reiðin og örvæntingin sem ég skynja svo sterkt hafi ekki fundið sér farveg með þeim hætti að skaðinn verði óbætanlegur; að einhver verði hreinlega drepinn. Á hverjum degi fáum við fréttir af því hvernig við vorum rænd, ekki bara ævisparnaðinum sem við höfðum lagt í heimili fjölskyldunnar heldur heldur einnig velferðinni, lífsgleðinni og því sem er kannski mikilvægast, tilfinningunni fyrir því að búa í réttlátu samfélagi. Að hér sé allt í lagi. Við horfum upp á ráðamenn, hvort heldur sem er í stjórnmálum eða viðskiptalífi firra sig ábyrgð og reyna að klína henni á venjulegt fólk. Samtrygging þeirra hefur skapað það sem einhver kallaði velferðarkerfi andskotans; stjórnvöld standa vörð um fjármálafyrirtækin sem nú eru í eigu vogunarsjóða sem hafa fengið skotleyfi á almenning. Fjármálakreppur einkennast af fjármagnstilfærslum. Hér sjáum við bankana soga til sín eigur fólksins. Ætlum við virkilega að láta það viðgangast? Það hlýtur og verður að vera hægt að stöðva þetta.

Ég hef sagt að velflest fólk á mínum aldri, í kringum fertugt, séu í raun tæknilega gjaldþrota ef þeir eru ekki þegar komnir í þrot. Þetta er fólk sem stofnaði fjölskyldu öðru hvoru megin við aldamótin, keypti fyrsta húsnæði eða stækkaði við sig eftir 2000. Á hverjum degi heyri ég nýjar hörmungarsögur og undanfarið hafa þónokkrir haft samband við mig til að benda á að vandinn sé víðtækari og eigi við mun fleiri hópa og ég tek undir það. Síðast í morgun hringdi til mín eldri kona til að segja mér frá sínum aðstæðum. Þau hjónin þurftu að skipta um húsnæði fyrir nokkrum árum vegna heilsubrests en þau eru bæði sjúklingar. Veðhlutfallið var 65% en nú eiga þau ekkert nema skuldir. Lánin eru nú hærri en virði íbúðarinnar og þau eiga ekki einu sinni rétt á 110% leiðréttingu því þau eiga skuldlausan bíl!  Möguleikar þeirra til að auka tekjur sínar eru engir og hver króna fer annað hvort í bankann eða kostnað vegna veikinda. Í fyrsta sinn geta þau nú ekki lengur staðið í skilum. Er þetta velferð? Er þetta réttlátt?  Ætlum við að láta þetta viðgangast?

Fyrir þremur árum, þegar við horfðum fram að hengibrúninni, gaf ég sjálfri mér það loforð að ég skyldi gera allt, allt sem ég mögulega gæti til þess að Ísland yrði aftur í lagi. Hér er ég fædd og hér eru mínar rætur. Hér býr fjölskylda mín (þótt við höfum þurft að horfa á eftir hluta hennar úr landi eins og aðrir) og hér vil ég að synir mínir geti vaxið og dafnað; mótast í heilbrigðu samfélagi. Nú velti ég fyrir mér hvort það sé í raun vonlaust. Komumst við einhvern tímann út úr þessu? Fer það uppgjör sem ég tel nauðsynlegt að eigi sér stað einhvern tímann fram? Getum við horfst í augu við spillinguna og ógeðið og ákveðið að búa hérna áfram? Ég held að núna sé síðasti séns til að laga hlutina ef skaðinn á ekki að verða varanlegur.

Því kannski, kannski óttast ég mest að enn einu sinni gerist ekkert sem máli skiptir. Vandi heimila og fyrirtækja verði settur í enn eina nefndina sem reiknar sig frá réttlætinu þangað til ránsfengnum er komið í öruggt skjól og menn geta aftur farið að greiða sér arð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is