Fimmtudagur 22.09.2011 - 14:37 - FB ummæli ()

Enn um skuldamálin – bréf frá „meðal Jóni“

Fyrir nokkru birti ég bréf frá venjulegum fjölskylduföður á gamla blogginu mínu sem telur skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar refsa sér og fjölskyldu sinni fyrir að hafa sýnt aðhaldssemi og ráðdeild í fjármálum heimilisins og gert allt sem í hans valdi stóð til að standa í skilum á meðan nágranninn sem hætti að borga við hrun bjó enn í sínu húsi og fékk boð um stórfelldar afskriftir ef hann færi aftur að borga. Bréfið vakti mikla og verðskuldaða athygli enda kannast margir við sig í svipuðum sporum. Það er nefnilega ekkert sanngjarnt við „skuldaúrræðin“, þeim má líkja við happdrætti djöfulsins og ég tel þau senda verulega hættuleg skilaboð út í þjóðfélagið: Það borgar sig ekki að vera heiðarlegur og standa sína plikt.

Mig langar nú að birta annað bréf sem okkur þingmönnum barst á síðustu dögum. Það birtist hér með leyfi bréfritara en persónuverndar gætt:

Kæru Alþingismenn, nú vantar viðbrögð frá ykkur …

Ég biðst afsökunar á því að tefja ykkur með þessu bréfi en vænti þess þó að fá trúverð svör við einföldum spurningum sem vöknuðu hjá mér eftir lestur á þessum þræði hjá Marínó : http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/1192302/

  1. Hvernig stendur á því að þið takið eignarrétt kröfuhafa í fasteign minni fram yfir minn?
  2. Af hverju haldið þið áfram að hækka álögur á mig þegar launin mín duga varla fyrir öðru en nauðsynjum?
  3. Hvað er sanngjarnt við að ég sem hef menntað mig og unnið mikið alla ævi, missi nær allan sparnað minn til kröfuhafa (faðir minn kenndi mér að eign í fasteign væri sparnaður)?
  4. Er sanngjarnt að ég sem borga alltaf mínar skuldir og fjárfesti aldrei um efni fram fái enga hjálp meðan aðrir sem fóru óvarlega er hjálpað?
  5. Hvaða fjármálasnillingi datt í hug að 110% leið mundi gagnast til lengri tíma meðan þið ráðið ekkert við verðbólguna á Íslandi?
  6. Af hverju er fjármögnunarfélag skráð eigandi á bílnum mínum meðan ég borga allar álögur, samanber lið 4.3 undir eignir í árslok á skattaframtali mínu?
  7. Græðir þjóðfélagið á því að börnin okkar upplifi fjárhagslegt og tilfinningalegt skipsbrot foreldra sinna?

Aðeins um mig og mína hagi

Ég er þessi týpíski „meðal Jón“ en mér var kennt af fjölskyldu minni að mitt „hlutverk“ sem þegn væri að leggja mitt að mörkum til samfélagsins með menntun, vinnusemi og heiðarleika. Ég sem og aðrir í fjölskyldu minni kláraði grunnskóla og framhaldsskóla, reyndar kláraði ég einn systkinna minna háskólanám. Ég vann í sveit frá 6 ára aldri og lærði gildi almennrar vinnu þar og vann ég með skóla alla tíð.

Þremur árum eftir háskólanám var ég kominn með konu, 3 börn og íbúð sem ég átti um 50% í og ég upplifði að ég hefði virkilega áorkað miklu og væri fyrirmyndarþegn í þessu landi.

Eftir bankahrun hef ég unnið myrkranna á milli til þess að missa ekki af einni greiðslu og nú er svo komið að bankinn á orðið nálægt 90-95% af íbúðinni minni og ég held áfram að borga af bílnum „okkar“ vegna þessara lögleysu sem þið samþykktuð með „Árna lögum“ í fyrra.

Ég er mikill rólyndismaður en ég get ekki neitað því að þið hafið valdið mér og fjölskyldu minni miklum vonbrigðum sem þarfnast aðgerða sem allra fyrst.

Öll þau gildi er ég hef frá foreldrum og fjölskyldu virðast ekki halda þegar þeir sem stela mestu virðast tapa minnstu …

Með vinsemd og virðingu

_____________________________________________

Er hægt annað en að taka undir með „meðal Jóni?“

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is