Föstudagur 30.5.2014 - 23:00 - FB ummæli ()

En orðstír deyr aldregi …

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.

Ég spái því, því miður, að hinn ömurlegi málflutningur oddvita Framsóknar og flugvallarvina muni skila þeim borgarfulltrúa, fulltrúa sem enginn getur eða vill vinna með. Fulltrúinn og varafulltrúinn (því það er tveir fyrir einn díll í borgarstjórn) munu því einangrast en vonandi ekki komast jafnmikið í fjölmiðla og síðustu daga því þá missi ég vitið.

Framsókn er þá líka búinn að vera því flokkurinn verður þar með orðinn „eitraður“ popúlistaflokkur sem ekkert sæmilega þenkjandi fólk vill láta kenna sig við. Það góða fólk sem ég veit að er enn innan flokksins en hefur þagað þunnu hljóði og látið þetta yfir sig ganga, kannski af því að það var flokkslínan, kannski af meðvirkni, kannski vegna þess að það hélt það rasisminn væri einkamál Reykvíkinga eða gæti skilað flokknum ódýrum skyndigróða í atkvæðum, á sér varla viðreisnarvon eftir þetta. Það er alveg sama hversu góð mál það hefur fram að færa, það verður alltaf bendlað við vafasama popúlistaflokkinn Framsókn á mesta hnignunarskeiði hans og áfellt fyrir að hafa ekki brugðist við.

Vondir hlutir gerast þegar gott fólk gerir ekkert.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.5.2014 - 19:58 - FB ummæli ()

Eins konar svar frá Birki Jóni

Í gærmorgun birti ég opið bréf til Birkis Jóns Jónssonar, oddvita Framsóknarflokksins í Kópavogi hér á síðunni minni. Þar spurði ég hann eftirfarandi spurningar:

Hvað finnst þér sem oddvita Framsóknarflokksins í Kópavogi um ummæli oddvita sama flokks um afturköllun á lóð undir mosku í Sogamýri?

Í gærkvöldi barst mér eins konar svar á fésbókarsíðunni hans þegar ég innti hann (ekki í fyrsta sinn) eftir svari við spurningu minni. Og ég fékk svar, reyndar segir það ekkert um ummæli Sveinbjargar eða lóðina undir mosku en svar engu að síður. Birkir sagði:

Ég virði trúfrelsi og mannréttindi fólks til trúariðkunar. Það er mín grundvallarafstaða í lífinu.

Það finnst mér fín afstaða sem fleiri, Framsóknarmenn sem aðrir, mættu taka sér til fyrirmyndar. Það svarar hins vegar spurningunni ekki nákvæmlega og á það benti ég. Önnur svör hafa ekki komið fram. Nú er að sjá hvort forsætisráðherra hyggist svara öðru en skætingi og hvort aðrir sem mynda forystu flokksins þori að tjá sig.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.5.2014 - 10:43 - FB ummæli ()

Opið bréf til Birkis Jóns Jónssonar

Kæri Birkir Jón,

nú er ég búin að krefja þig um svör við spurningu sem brennur á mér í nokkra daga án árangurs. Ég fór fínt í það til að byrja með, spurði þig bara á facebook, en hef ekki fengið nein svör. Spurningin er:

Hvað finnst þér sem oddvita Framsóknarflokksins í Kópavogi um ummæli oddvita sama flokks um afturköllun á lóð undir mosku í Sogamýri?

Ég spyr um afstöðu þína sem frambjóðanda flokksins til stjórnarskrárbundinna algildra mannréttinda er lúta að trúfrelsi og jafnræði trúfélaga sem sumir flokksmenn og frambjóðendur Framsóknarflokksins virðast vilja afnema. Á meðan ekkert heyrist frá forystu flokksins eða oddvitum í öðrum kjördæmum gera kjósendur, rétt eins og oddvitinn í Reykjavík, ráð fyrir því að þögn sé sama og samþykki. Henni hafi verið falið að sigla þessu skipi í strand.

Mér finnst ekki nema sanngjarnt að gefa þér tækifæri til að hreinsa þig af þessari óværu Birkir minn.

Á fésbókinni blessaðri hafa vinir þínir verið duglegir við að benda mér á að þetta sé sérstakt málefni Reykvíkinga. Ég er ósammála því. Mannréttindi varða okkur öll, hvar sem við búum. Ég vil líka fá það á hreint hvort þeir sem hyggjast kjósa flokkinn í Kópavogi vegna þess að hann ætlar að vera með frístundakort fyrir aldraða séu í leiðinni að kjósa með útlendingaandúð og skerðingu stjórnarskrárbundinna réttinda fólks.

Með von um skjót svör,

Margrét

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.5.2014 - 17:15 - FB ummæli ()

Slagurinn sem við verðum alltaf að taka

Þótt ég hafi starfað í stjórnmálum í nokkur ár og hafi skoðanir á öllu mögulegu og ómögulegu hef ég furðulítið gaman að því að deila við fólk eða standa í þrasi um alla hluti. „Pick you battles,“ hef ég sagt við syni mína og fleiri, t.d. þegar sá eldri endaði á að klára veturinn í ensku í 8. bekk inni hjá skólastjóranum, vegna þess að hann neitaði að taka niður hettuna í enskutíma nema kennarinn gæti vísað í skólareglur um að honum væri skylt að gera það. Það gat kennarinn ekki gert og hvorugt vildi lúffa.

Einn slag tek ég þó alltaf í umræðunni, hvar sem hún á sér stað. Annars væri ég nefnilega ekki manneskja, heldur bara lítið skítseiði. Það er slagurinn um réttindi fólks; réttinn til að elska hvern sem maður vill, réttinn til að trúa því sem maður vill, réttinn til að tjá huga sinn og réttinn til að vera maður sjálfur.

Þegar þrengir að er hætta á því að xenófóbísk viðhorf skjóti rótum. Sagan hefur sýnt okkur það, Þýskalands nasismans er kannski skýrasta dæmið. Þrátt fyrir þá órökréttu hugsun að „hinir“ taki störfin frá fólkinu (því fleira fólk skapar fleiri störf) er það einmitt mantran sem er þulin. Eða þá „ásóknin í velferðarkerfið“ eins og lesa mátti í Reykjavíkurbréfi Moggans síðustu helgi:

Það er ekkert rangt við það, að fólk vilji fá upplýst, hvort engu skipti fyrir það, ef annarra þjóða fólk sæki bæði hratt og í miklum mæli inn í velferðarkerfi, sem það hefur ekkert lagt til, og muni sennilega frá fyrsta degi þurfa mjög á að halda.

Þetta er tómt bull – atvinnuþátttaka innflytjenda á Íslandi er meiri en annarra.

Ástæða þess að ég skrifa þetta núna er nýframkomin afstaða oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík á móti úthlutun mosku á hálfgerðri umferðareyju á milli Suðurlandsbrautar og Miklubrautar, lóðar sem ég efast um að þjóðkirkjan myndi sætta sig við. Það er óþarfi að tilgreina hér allt bullið sem fram hefur komið í málflutningi hennar, það hefur þegar verið gert víða. Ekki virðast þær þrjár konur sem skipa sætin á eftir xxxvitanum miklu nær um grundvallarmannréttindi, því miður. Fimmti maður á lista á hrós skilið fyrir að yfirgefa skipið og mæla gegn þessari, að því er virtist í fyrstu, sjálfsprottnu stefnu Sveinbjargar. Með því að skoða opinbera Facebook-síðu framboðsins má hins vegar sjá að þar á bæ er aðeins bætt í:

framsokn

Ég er ekki trúuð manneskja og vil standa vörð um frelsi mitt til að standa utan þjóðkirkjunnar, vera ekki þvinguð til að sækja trúarlegar athafnir nema á eigin forsendum og ræða þessi mál á opinberum vettvangi. Á sama hátt vil ég að þeir sem trúa hafi rétt til að iðka trú sína á eigin forsendum og velja sér aðild að því trúfélagi sem þeir vilja. Trúfrelsi er það sem við köllum algild mannréttindi. Þau má aldrei skerða og við höfum undirgengist sáttmála sem eiga að tryggja öllum trúfrelsi, svo sem Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá tryggir stjórnarskráin okkar, sú gamla en reyndar einnig sú nýja ef menn vilja færa sig inn í 21. öldina, bæði trúfrelsi og jafnræði borgaranna.

Það er lagaleg skylda sveitarfélaga að útvega trúfélögum ókeypis lóðir. Við getum haft ýmsar skoðanir á því per se en sé það gert gildir það að jafnræði verður að ríkja á meðal trúfélaganna. Sem er einmitt eins og það á að vera.

Ég hef haft áhyggjur af vaxandi andúð gegn útlendingum á Íslandi, ekki síst múslimum. Fræg er viðurstyggileg síða á Facebook, Mótmælum mosku á Íslandi þar sem sjá má hatrið og fáfræðina krauma. Í gær tók ég skjáskot af dagsgamalli færslu á Facebook-síðu Sveinbjargar framsóknaroddvita þar sem einn forsvarsmanna þeirrar síðu lofar Sveinbjörgu, Framsókn og flugvallarvinum svo gott sem stuðningi yfir 4000 fylgismanna síðunnar. Það var freistandi að birta hana strax en ég vildi vera sanngjörn og gefa heimsborgaranum tækifæri til að gera hreingerningu á síðunni sinni eða alla vega afþakka stuðning þessa hóps. Nú eru liðnir tveir sólarhringar og ekkert slíkt hefur gerst. Því finnst mér rétt að birta skjáskotið hér:

sveinbjorg

Segir Sveinbjörg kannski bara „já takk“? Og hvað segja aðrir forsvarsmenn og oddvitar Framsóknarflokksins? Ætlar Sigmundur Davíð að segja „já takk“ með þögn sinni um málið? En varaformaðurinn eða ritarinn? Og hvað segja aðrir oddvitar flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum? Birkir Jón í Kópavogi? Stefán í Skagafirði? Guðmundur á Akureyri og allir hinir? Ætlar þetta fólk að samþykkja þetta með þögn sinni? Mér finnst það vera siðferðislega skylda okkar allra að berjast gegn slíkum viðhorfum, hvar sem þau er að finna. Og það gerir maður ekki með því að þegja.

Ég verð þó að segja að bjóst þó hálfpartinn við þessu. Þetta er einmitt mál sem við sem skipuðum uppstillingarnefnd Dögunar fyrir framboðið í Reykjavík vildum setja á oddinn og taka skýra afstöðu til. Dögun stendur fyrir lýðræði, sanngirni og réttlæti og stendur fyllilega undir því. Eitt af því frábæra við Reykjavík á 21. öldinni er að hér er fjölmenningarlegt samfélag. Hér býr fólk sem hefur kosið að taka fullan þátt í samfélaginu okkar þótt það reki uppruna sinn til annarra landa og því ber að fagna. Það er stórkostlega gjöfult fyrir okkur öll og menningin blómstrar. Því fleiri raddir sem heyrast, því betra.

Það hefur löngum tíðkast hjá nútímalegum stjórnmálaflokkum að reyna að tryggja að sem flestir hópar séu sýnilegir á framboðslistum; konur, karlar, kennarar, verkamenn, forstjórar, fatlað fólk, nemar, öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Svo er ekki óalgengt að einn innflytjandi sé aftarlega á lista. Á hann er svo hægt að benda þegar málefni þeirra koma til tals. „Jú, sjáðu, við erum víst með útlendinga!“ Þátttaka fólks af erlendum uppruna í íslenskum stjórnmálum hefur þó ekki verið í neinu samræmi við fjölda þeirra í landinu, því miður. Því vildum við breyta, bæði við sem sátum í uppstillingarnefnd sem og allir þeir sem tóku sæti á lista Dögunar í Reykjavík. Okkur fannst mikilvægt að listinn endurspeglaði fjölmenningarlegt samfélag og sérstaklega vildum við ráðast gegn þeim fordómum sem múslimar á Íslandi þurfa að kljást við. Og það er ekkert smá.

Við vorum svo heppin að Salmann Tamimi gaf kost á sér á listann, ekki bara sem skraut heldur alvöru frambjóðandi. Það fannst okkur stórkostlegt tækifæri til að gefa skýr skilaboð um að Dögun stæði undir nafni sem framboð sem setur mannréttindi, réttlæti og sanngirni á oddinn en ekki síður tækifæri til þess að fá þessa andstöðu upp á yfirborðið og berjast gegn henni. Salmann er óþreytandi baráttumaður og skipar 3. sæti lista Dögunar í Reykjavík. Ég er stolt af því að hafa komið að þeirri ákvörðun að svo yrði því hann er víðsýnn og góður maður sem á virkilegt erindi í borgarmálin og hefur innsýn í heim innflytjenda í borginni sem er mörgum hulinn. Því miður virðast fjölmiðlar ekki hafa áttað sig á þessum vinkli í málinu og mér vitanlega hafa engir fjölmiðlar leitað eftir viðbrögðum hans eða oddvita Dögunar vegna stóra moskumálsins.

Þótt ég sé ýmsu vön átti ég ekki von á því svaðaleg skítkasti sem framboð Salmanns kallaði fram á opinberum vettvangi. Það er með ólíkindum að lesa það níð og hatursáróður sem er að finna í ýmsum kimum netsins, svo sem á umræddri síðu og á tenglum sem þar er að finna. Þá virðist fólk leyfa sér að setja fram mun fordómafyllri athugasemdir við umfjöllun um Dögun en ég hef áður séð. Vegna þeirrar upplifunar óttast ég að bragð Sveinbjargar, Framsóknar og flugvallarvinanna takist og fleyti henni inn í Borgarstjórn þar sem slík viðhorf eiga ekkert erindi og eru hættuleg.

En kjósendur eiga val. Það er hægt að kjósa með mannréttindum, lýðræði, réttlæti og sanngirni. Nú er það spurningin, erum við manneskjur eða bara lítil skítseiði?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.3.2014 - 23:45 - FB ummæli ()

Flókið mál …

Um tilnefningar og sigurvegara á íslensku tónlistarverðlaununum vil ég koma á framfæri að það er alger og helber tilviljun að þetta eru að meirihluta til karlar. Hefði svo auðveldlega getað öfugt.

Þetta sá ég á fésbókinni áðan hjá skólasystur minni Sóleyju Tómasdóttur og af gömlum vana var ég næstum búin að læka þótt mér líki auðvitað ekki það sem hún var að segja.

Lækið hefði verið vegna þess að þarna skín í gegn bæði kaldhæðni (sem ég kann að meta) og sannleikur. Ég hef ekki framkvæmt nákvæma talningu en mín tilfinning er eins og Sóleyjar, meirihluti verðlaunahafa hafi verið karlar að þessu sinni eins og svo oft áður.

Og það er rétt að spyrja sig af hverju.

Það er líka rétt að spyrja sig af hverju fleiri strákar en stelpur keppa í Gettu betur.

Og þá man ég alltaf eftir því þegar Nemendafélag Verzlunarskóla Íslands fékk að leggja próf fyrir alla nemendur skólans, ætli það hafi ekki verið árið 1991. Gefið var frí í eina kennslustund og fulltrúar félagsins gengu í allar stofur og lögðu prófið fyrir alla sem vildu taka þátt. Flestar stelpurnar ákváðu að nota tækifærið og skreppa í Kringluna. Ég varð eftir og tók prófið en hespaði því af og fór svo að gera annað. Sumir bekkjarbræðra minna reyndu að smygla sér inn á bókasafn til að fletta spurningunum upp. Það fannst mér frekar glatað. Og þeir notuðu allan tímann og hjálpuðust að við að svara spurningunum í örvæntingarfullri tilraun til fá fullt hús stiga. Og ef ég man rétt var það þriggja stráka lið sem keppti fyrir hönd skólans þann vetur eins og svo oft áður. Spurning hvort staðan hefði verið önnur ef flestar stelpurnar hefðu ekki ákveðið að fara í Kringluna? Og af hverju völdu þær það frekar en að taka þátt?

Svarið er örugglega ekki að það hafi verið helber tilviljun.

En svarið er örugglega ekki einfalt heldur.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.3.2014 - 12:22 - FB ummæli ()

Tími ófresknanna

Síðustu vikur hefur tilvitnun sem ég rakst á á fésbókinni skotið upp í huga mér aftur og aftur. Hún er höfð eftir Antonio Gramsci:

The old world is dying away, and the new world struggles to come forth: Now is the time of monsters.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.3.2014 - 11:11 - FB ummæli ()

Lýðræðinu frestað

Hún vakti ekki mikla athygli, litla fréttin um að Reykjavíkurborg hyggist nýta sér heimild til að fresta fjölgun borgarfulltrúa úr fimmtán í 23 – 31. Einu viðbrögðin sem ég varð var við voru fagnaðarlæti leiðarahöfundar Morgunblaðsins sem vill að borgin gangi enn lengra og fái sveitarstjórnarlögunum breytt svo borgarfulltrúarnir geti haldið áfram að vera bara fimmtán, rétt eins og árið 1908 enda reynst “farsælt” að hans mati.

Ekki einungis hefur íbúafjöldinn í Reykjavík margfaldast á rúmum hundrað árum, heldur hefur verkefnum sveitarfélagsins fjölgað og þau vaxið til muna. Borgin er að sýsla í ýmsu sem engum datt í hug að þyrfti að gera fyrir hundrað árum og því í mun fleiri horn að líta. Og komast fimmtán borgarfulltrúar yfir það? Nei, það gera þeir ekki. Árum saman hafa varaborgarfulltrúar, einn frá hverjum flokki, verið í vinnu hjá borgarbúum. Grunnlaun þeirra eru 70% af launum aðalfulltrúa. Stjórnmálaflokkur sem fær kjörinn mann í borgarstjórn fær því í raun tvo fyrir einn en með því að halda hinum opinbera fjölda fulltrúa í tölunni fimmtán þarf hver flokkur að ná um 7% fylgi. Það er ansi þægilegt fyrir þá sem fyrir eru á fleti. Ja, nema Framsókn.

Auk þess velur hver flokkur fólk í ráð og nefndir sem hinir kjörnu fulltrúar (og varafulltrúarnir) komast ekki yfir að sinna. Í stað þess að borgarbúar velji fólk í hverfaráðin og hinar ýmsu nefndir stjórna flokkarnir því. Stjórnmálaflokkur sem fær einn mann kjörinn í borgarstjórn er þar með kominn með launuð verkefni fyrir um þrjátíu manns, suma hverja sem borgarbúar vita lítil deili á og hafa takmarkaðan aðgang að.

Í álíka stórum sveitarfélögum í nágrannaríkjum okkar eru fulltrúarnir 43 – 81.  Í Stavanger búa 122.000 manns, um fjögur þúsund fleiri en í Reykjavík og þar eru fulltrúarnir 67 og í Jönköping þar sem íbúarnir eru 125.000 eru þeir 81.

Þetta fólk er fæst í fullu starfi sem kjörnir fulltrúar. Víða er eins konar framkvæmdastjórn sveitarfélagsins sem sinnir hinum daglega rekstri. Aðrir kjörnir fulltrúar funda sjaldnar en sitja í ráðum og nefndum. Þeir veita stjórninni aðhald, sinna eftirlitshlutverki og leggja stóru línurnar sem unnið er eftir.

Sveitarstjórnarmál þurfa ekki endilega að vera flokkspólitísk. Þau snúast um að reka skóla, sorphirðu, snjómokstur og aðra þjónustu við íbúanna. Langstærstum hluta tekna er fyrirfram ráðstafað í lögbundin verkefni en fulltrúarnir geta haft mikil áhrif á hvernig þau er gerð og hvað það kostar. Það vantar fleiri og fjölbreyttari raddir, raddir venjulegra íbúa. Samtök ábyrgra hundaeigenda, samtök um skutllausan lífstíl, Kjalnesingar, félag bridsspilandi eldri borgara, þrýstihópar öryrkja og atvinnulausra eiga fullt erindi í borgarmálin. Fleiri kjörnir fulltrúar í borgarstjórn endurspegla íbúana og skilja þarfir þeirra betur og geta þar með veitt betri þjónustu. Fjölgun þeirra þarf ekki og á ekki að fela í sér aukinn kostnað. Borgarbúar eru þegar að greiða her manns laun. Það er ekki nema sanngjarnt að þeir fái að velja það fólk sjálft, þannig að ábyrgð og umboð sé skýrt og fólk hafi meira um sín mál að segja. Það væri farsælt.

Greinin birtist fyrst í Reykjavík Vikublað þann 22. febrúar 2014.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.3.2014 - 14:26 - FB ummæli ()

Ómöguleikinn í lífi og starfi

Ég sá viðtal í sjónvarpinu við lögmann sem fékk ómögulegt verkefni. Síminn hringdi og hann var beðinn um að verja Anders Behring Breivik fyrir dómstólum, manninn sem hafði framið hroðalegustu fjöldamorð sem norska þjóðin hefur þurft að þola, alla vega í seinni tíð. Mann sem við flest fyrirlítum, skiljum ekki og sjáum ekki að eigi sér neinar málsbætur. Lögmaðurinn, Geir Lippestad, ráðfærði sig við konu sína sem er hjúkrunarfræðingur. Hún benti réttilega á að ef Breivik hefði komið særður á sjúkrahús hefðu læknar og hjúkrunarfólk þurft að gera að sárum hans og veita honum nákvæmlega sömu þjónustu og öllum öðrum sjúklingum. Þannig samfélagi viljum við búa í.

Þrátt fyrir að fæst okkar hefðu heyrt orðið „ómöguleiki“ eða verið tamt að nota það fyrir nokkrum vikum er það sennilega fantafínt til að lýsa því verkefni sem Geir Lippestad tók að sér. Það gerði hann vegna þess að allir eiga rétt á verjanda í réttarríki, sama hversu skelfilegur glæpurinn er. Og þrátt fyrir mikla andstöðu, hótanir og almennan ómöguleika verkefnisins sinnti lögfræðingurinn skyldu sinn.

Sjálfsagt er ómöguleikinn mun víðar. Kennara gæti þótt felast í því viss ómöguleiki að vera með óþekkan krakka í bekknum sínum. Hann kennir samt. Strætóbílstjóranum gæti langað að fara nýjar og ótroðnar slóðir en hann verður að láta sér leiðakerfið nægja. Þótt við séum vonandi flest að sinna verkefnum dags daglega sem eru okkur að skapi þá vitum við öll að gera þarf fleira en gott þykir. Einhver þarf að þrífa ísskápinn.

Alþingismenn og ráðherrar eru kjörnir til að vinna fyrir þjóð sína, fólkið í landinu. Verkefnin eru margskonar og misskemmtileg og mörg ekki að finna í nokkurri einustu stefnuskrá flokkanna, hvað þá að þau yrðu kosningaloforð. Leiðinlegasta frumvarp sem ég hef lesið var um rafeyri. Það varð engu að síður að lögum eftir að þingmenn allra flokka höfðu lagst yfir málið, gaumgætt það og yfirfarið. Ég fullyrði að enginn hafði sérstaka ánægju af því. Engu að síður var það gert enda hluti af skyldum þingmanna. Til þess m.a. voru þeir kosnir og þessir hlutir verða að vera í lagi, annars virkar þjóðfélagið ekki.

Það er hins vegar ekki nokkur einasti ómöguleiki fólginn í því að ríkisstjórn sem ekki vill ganga í ESB haldi áfram aðildarviðræðum, væri það niðurstaða þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samninganefnd var að störfum. Hún var skipuð hæfu fólki og samningsmarkmið höfðu verið skilgreind. Það er nefnilega ekki þannig að ráðherrarnir sitji sjálfir við samningaborðið. Það er ekki nokkur einasti vandi í því fólginn að kalla samninganefndina saman að nýju og fela henni að halda áfram viðræðum út frá þeim skynsamlegu samningsmarkmiðum sem utanríkismálanefnd Alþingis skilgreindi sumarið 2009.

Það er hins vegar heilmikill ómöguleiki fólginn í því að sitja uppi með ráðherra sem áttar sig ekki á að það er ekki í lagi að segja eitt en gera annað og að maður á ekki að lofa neinu nema treysta sér til að standa við það. Jafnvel enn verra er að vera með ráðherra sem átta sig ekki á því að störf þeirra eiga að vera í þágu þjóðarinnar en ekki þeirra sjálfra eða flokksins þeirra. Ráðherra sem treystir sér ekki til að framfylgja vilja þjóðarinnar, hann hlýtur hreinlega að segja af sér.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.3.2014 - 21:14 - FB ummæli ()

Pissað á staur

Ég á dásamlegan hund sem heitir Loki (eða kannski á hann mig). Hann er rúmlega átta ára labrador, blíður, góður en umfram allt skemmtilegur. En hann er ógeldur.

Þótt hann sé eins blíður og góður og hugsast getur er honum annt um karlmennsku sína. Þegar við erum í göngutúr og hann verður var við aðra hunda á svæðinu þarf hann mjög nauðsynlega að pissa á næsta staur. Hann þarf að láta umheiminn vita að hann sé þarna, eigi þetta og megi þetta. Hann er aðalgaurinn í hverfinu, sko.

Hegðun ríkisstjórnar Íslands minnir mig stundum á hann Loka minn. Menn eru mikið í því að marka sér stöðu án þess að nokkur sýnileg þörf sé á því að mínu mati.

Dæmi um það er að Illugi Gunnarson lét það nánast verða sitt fyrsta verk sem ráðherra að skipa Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóra FME, stjórnarformann LÍN ásamt  því að setja fleiri sjálfstæðismenn í stjórn. Í raun skiptir engu hver er stjórnarformaður LÍN svo lengi sem hann sé hæfur, lög um sjóðinn eru nokkuð skýr en þetta er hrein og klár yfirlýsing um yfirráð sjálfstæðismanna yfir málaflokknum og að það skipti litlu í augum ráðherrans hvað menn voru að sýsla fyrir hrun. Pissað á staur.

Skýrasta dæmið um þesskonar markeringu er hins vegar tillaga svokallaðs utanríkisráðherra um að umsókn Íslands að Evrópusambandinu verði dregin til baka. Það er flestum hulin ráðgáta hvernig nokkur maður gat orðað tillöguna svo freklega og augljóslega í andstöðu við margsögð kosningaloforð beggja flokka. Tillöguflytjandi getur ekki talist mjög næmur á umhverfi sitt. Hér hæfir klisjan „blaut tuska í andlitið“ prýðilega. Tillögunni er hins vegar ætlað að sýna vald ráðherrans, sýna að það er hann sem ræður og það skiptir engu máli hvað þjóðinni finnst. Hann ræður, hann á þetta, hann má þetta. Hann er aðalgæinn, allavega í Skagafirðinum. Ég held reyndar að hann hafi misreiknað sig aðeins. Fólki er verulega misboðið og ég er sannfærð um að enginn maður hafi framleitt eins marga Evrópusinna á eins stuttum tíma og svokallaður hæstvirtur utanríkis.

Sem leiðir hugann að orðum Dr. Rogers Mugford, frumkvöðli í hundaþjálfun sem bendir á það í bók sinni Never say no! að heimurinn væri örugglega betri staður ef helstu ráðamenn veraldar væru geldir.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.2.2014 - 12:03 - FB ummæli ()

Ef …

Þau eru mörg „EF-in“ í mannkynssögunni. Eitt er mér hugleikið þessa dagana, „ef“ sem stendur okkur nærri í tíma og hefði gjörbreyta stöðu almennings í landinu þessa dagana og fært fólkinu raunveruleg völd,  svo borgararnir geti ráðið sínum málum og veitt stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald.

Ef aðeins Alþingi Íslendinga hefði borið gæfu til að samþykkja nýja stjórnarskrá, byggða á tillögum stjórnlagaráðs. Þá hefðum við, borgarar þessa lands, getað haft frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum með því að safna undirskriftum 10% kjósenda. Þá gætu stjórnmálamennirnir lofað og svikið en við hefðum alltaf lokaorðið. Svoleiðis er það ekki í dag, kannski einmitt vegna þess að stjórnmálamennirnir vilja fá að lofa og svíkja áfram í friði fyrir lýðnum. Það hlýtur að vera verkefni okkar allra að breyta því.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is