Sunnudagur 26.3.2017 - 15:56 - FB ummæli ()

Golíat á fasteignamarkaði

Ungt par sem ég þekki vel hefur undanfarin ár leigt 2ja herbergja íbúð í hverfi 111 í Reykjavík og er svo heppið að borga ekki nema 170.000 krónur á mánuði.

Eigendur þessarar íbúðar vildu selja íbúðina fyrir rétt um ári síðan og var íbúðin þá metin af fasteignasala á 26 milljónir.   Eigendurnir hættu hins vegar við að selja eignina á þeim tíma enda á leið erlendis þ.a. áfram bauðst unga parinu að leigja íbúðina.   Síðan gerist það fyrir rúmum mánuði að aftur er haft samband við unga parið og þeim tjáð að núna eigi að selja íbúðina og að aftur muni fasteignasali koma til að meta eignina.   Nokkrum dögum síðar lá verðmatið fyrir.   Ásett verð er ekki lengur 26 milljónir eins og fyrir ári síðan heldur er íbúðin nú metin á 34 milljónir eða 8 milljónum hærra – eða hækkun sem nemur um 30% á milli ára.

Og hvað á unga parið að gera?   Reyna að kaupa þó að verðið sé allt of hátt – taka sjens á því að finna aðra leiguíbúð eða eiga á hættu að enda á götunni?   Úr vöndu er að ráða en dapurlegast er að þetta unga par er bara eitt af þúsundum ungmenna sem eru í neyð á húsnæðismarkaðinum og munu verða á næstu árum þvi talið er að það taki 3 til 4 ár að koma jafnvægi á markaðinn á ný.   Svo til hver einasti Íslendingur þekkir til fólks sem er fast í foreldrahúsum, hefur hrakist á milli leiguíbúða eða reynir með aðstoð skyldmenna að kaupa íbúðarhúsnæði sem það ræður engu að síður oft illa við að borga af.    Við getum kennt hruninu um – sofandahætti stjórnvalda, dugleysi verkalýðshreyfingarinnar eða AirBNB um stöðuna en það leysir ekki bráðavandann.   Það leysir ekki vanda unga parsins sem stendur á krossgötum og á fáa kosti í stöðunni.

Og þó að hægt sé að argast út í alla þessa aðila fyrir að leyfa málum að þróast með þessum hætti þá eru fleiri og fleiri sem beina sjónum sínum að leigufélögunum sem fitnað hafa eins og púkinn á fjósbitanum í núverandi árferði.   Leigufélögin hafa keppt við almenning um kaup á fasteignum og átt sinn þátt í hækkun bæði fasteigna- og leiguverðs.  Og það þarf ekki mikinn fjármálaspekúlant til að sjá að ungt fólk á ekki roð í leigufélögin þegar bæði sýna áhuga á sömu eigninni.  Í þeirri viðureign á Davíð ekki roð í Golíat.

En er nú komið að þeirri spurningu hvaða mann Golíat hafi raunverulega að geyma?  Er óskhyggja að leigufélögin dragi úr arðsemiskröfu sinni á meðan núverandi staða ríkir á fasteignamarkaðinum?   Að þau hætti við frekari kaup fasteigna í samkeppni við almenning?   Er óskhyggja að vona að samfélagsleg ábyrgð komi í stað gróðrarhyggju?  

Getur Golíat sett sig í spor unga parsins sem verður mögulega á götunni eftir örfáar vikur?  

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.12.2016 - 11:18 - FB ummæli ()

Frábær fjármálaráðherra

Við gerð rekstraráætlunar fyrir 2017 er ljóst að að fyrirtækið sem ég stjórna getur skilað margfalt betri afkomu en undanfarin ár.

Það dynja reyndar á mér kröfur um útgjöld úr flestum áttum en þegar í augsýn er myndarlegur rekstrarafgangur þarf að standa fast á sínu.

Það hafa reyndar myndast holur við innkeyrsluna og í malbikið á fyrirtækjalóðinni sem fyllast reglulega af vatni og klaka. Þetta er af einhverjum talin slysagildra en eru örugglega ýkjur enda lofuðum við aldrei bestu aðkomu í heimi. Við skellum sand í holurnar í vor og þjöppum vel – það dugar vel.

Eitthvað er um að gluggar leki og í kjölfar hafa myndast svartar skellur sem gárungarnir kalla myglu. En starfsfólkið er flest enn ungt og heilsuhraust enda lofuðum við aldrei besta húsnæði í heimi. Við kíttum í þetta í vor.

Starfsfólkið er síðan að nefna að ýmiss búnaður sé orðinn lélegur – tölvur, prentarar og skrifborð. En við sem stjórnum fyrirtækjum vitum líka að starfsfólk heimtar oft hluti sem engin þörf er á. Þarf alltaf að vera með allt það nýjasta og flottasta – getur gamall búnaður ekki alveg skilað sínu? Enda lofaði ég aldrei bestu starfsaðstöðu í heimi.

Og kostnaðarliðirnir hrannast upp sem hægt er að skera út – þarf t.d. að kaupa alla þessa happdrættismiða og styðja þessi líknarfélög – er samfélagsleg ábyrgð ekki ofmetin?
Og ég er rétt að byrja að fikra mig niður excelskjalið!

Fór í framhaldinu að velta því fyrir mér hvort ég yrði ekki frábær fjármálaráðherra?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.4.2016 - 12:41 - FB ummæli ()

Konur víkja en karlar mega?

Á vordögum árið 2010 ríkti umsátursástand fyrir utan heimili tveggja stjórnmálakvenna þeirra Þorgerðar Katrínar (vegna skulda maka) og Steinunnar Valdísar (vegna prófkjörsstyrkja). Dag eftir dag, viku eftir viku stóð fólk fyrir utan heimili þeirra og mótmælti.

Fáir komu þessum konum til varnar og komst fámennur hópur upp með að rjúfa heimilisfrið þeirra – þann griðarstað sem við teljum hvað helgastan. Í kjölfarið sagði Steinunn Valdís af sér þingmennsku og Þorgerður Katrín lét af starfi varaformanns Sjálfstæðisflokksins, tók sér hlé sem þingmaður og hætti síðar á þingi. Á sínum tíma þótti sæta furðu að Guðlaugur Þór sem hafði þó fengið mun hærri prófkjörsstyrki en Steinunn Valdís slapp að mestu við áreiti mótmælenda og situr enn á þingi. Í fyrra komust síðar tveir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn í hann krappan sem lauk á þann veg að Hanna Birna sagði af sér eftir lekamálið en Illugi situr enn þrátt fyrir að hafa í besta falli sýnt dómgreindarleysi í samskiptum við Orku Energy.

Þessi dæmi vekja upp þá spurningu hvort við sem samfélag göngum harðar fram gagnvart konum og þolum þeim síður mistök? Fullvíst má a.m.k. telja að brandararnir hefðu verið færri og fordómarnir þyngri ef Icehot1 hefði verið kvenkynsráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Stjórnmálakonur virðast bera ábyrgð á eiginmönnum sínum – þá eru hjónin eitt. En það hentar síðan vel að draga línu á milli hjóna þegar athafnir eiginkvenna stjórnmálamanna setja kusk á hvítflibbann. Þá eru hjónin tveir sjálfstæðir einstaklingar sem hvor ber ábyrgð á eigin gjörðum.

Er þetta ekki það sem kallað er tvöfalt siðferði?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.12.2015 - 11:25 - FB ummæli ()

Heilbrigðiskerfið-hækjur eða aðgerðir

Ég hitti vinkonu mína um daginn sem ég hafði ekki séð í nokkra mánuði og sá strax að hún var ekki eins og hún átti að sér að vera. Þegar við fórum að spjalla saman kom í ljós að hún hafði áhugaverða sögu að segja.

Árið 1996 hafði móðir hennar þurft að fara í mjaðmaaðgerð enda komið „bein í bein“ eins og sagt er. Ákvað bæklunarlæknir móður hennar að skera þyrfti hana strax og fór aðgerð fram um mánuð eftir að ljóst var hver staðan var.

Nú tæpum 20 árum seinna er þessi vinkona mín í sömu sporum. Eftir að hafa beðið mánuðum saman eftir viðtali við bæklunarlækni fékk hún loks tíma í byrjun desember og eftir myndatökur var ljóst að sama staða var uppi þ.e. „bein í bein“ og var henni sagt að hún fengi flýtimeðferð þar sem staðan væri þetta alvarleg. Með bjartsýnina að vopni spurði þessi vinkona mín hvort að nokkur von væri til að hægt væri að framkvæma aðgerðina fyrir jól en var svarað; að vonandi yrði hægt að gera aðgerðina innan árs – en venjulegur biðtími eftir mjaðmakúluskiptum væri 3 ár.

Frá einni kynslóð til annarrar hefur heilbrigðiskerfi okkar sem sagt farið úr því að sjúklingur í flýtimeðferð eftir mjaðmaaðgerð þurfi að bíða í 52 vikur í stað 4 vikna áður.

Þessi sjúklingur var því sendur heim með hækjur til að létta álaginu á mjaðmagrindinni með þau skilaboð frá kerfinu að vonandi fái hún aðgerð á árinu 2016 en þurfi ekki að bíða fram til 2017. Send heim með hækjur til að styðjast við í heilt ár – svo kvalin að þegar við kvöddumst sagðist hún vita það að hún héldi þetta ekki út í heilt ár.

Og þannig er raunveruleikinn á árinu 2015 þegar við vitum að til er nóg af peningum í landinu – það sjáum við allsstaðar. Það er til nóg af peningum – en við erum einfaldlega ekki að deila birgðunum jafnt og skipta því sem til skiptanna er þannig að um það ríki samfélagsleg sátt.

Enda leggjumst við vonandi aldrei svo lágt að sætta okkur við að hækjur komi í stað læknisaðgerða?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.2.2015 - 14:14 - FB ummæli ()

ESB = Ekki Sigmundur og Bjarni

• EKKI fækka framtíðarmöguleikum okkar með þvi að draga aðildarumsókn Íslands að ESB til baka

• EKKI eyðileggja þau verðmæti sem felast í aðildarumsókn okkar – það er ekki gefið að við komumst í þá stöðu á ný

• EKKI draga úr möguleikum atvinnulífsins til að vaxa og dafna hér á landi og skapa störf fyrir velmenntað fólk

• EKKI gera neitt sem fækkar möguleikum okkar til að losna við verðtryggingu og háan vaxtakostnað heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs

• EKKI fækka tækifærum barnanna okkar til að afla sér menntunar erlendis eða draga úr atvinnumöguleikum okkar ef EES samningurinn heldur ekki í framtíðinni

• EKKI stofna til óþarfa ófriðar

• EKKI svíkja gefin loforð

• EKKI
• EKKI

Stjórnmálamenn sem taka þjóðarhagsmuni fram yfir sérhagsmuni fækka ekki framtíðarmöguleikum þjóðarinnar .
Látið aðildarumsóknina liggja áfram á ís – fyrir því er fullur skilningur. Næg eru verkefnin samt sem bíða ykkar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.12.2014 - 09:16 - FB ummæli ()

Til hamingju íslensk verslun – til hamingju neytendur

Þann 1. janúar n.k. mun eitt stærsta baráttumál íslenskra verslunar vera í höfn þegar vörugjöldin verða afnumin. Vörugjöldin eru mjög ógagnsæ skattheimta og fátt hefur skaðað samkeppnishæfni verslunarinnar eins og álagning þeirra.

Við afnám þeirra mun verðlag á mörgum vörum lækka um tugi prósenta og allur samanburður á verðlagi á milli landa verður mun auðveldari. Það mun veita versluninni aukið aðhald en ekki síður mun afnám vörugjaldanna setja íslenska verslun í sanngjarnari samanburð. Við sem vinnum í verslun höfum nefnilega oft lent í því að neytandi ber saman vöru sem seld er erlendis án vörugjalda við vöru hér heima með vörugjöldum og það segir sig sjálft að sá samanburður verður ekki hagstæður fyrir íslenska verslun.

Vörugjöldin hafa verið hluti af íslenska skattkerfinu síðan 1971 og alla tíð verið andstætt reglum um góða skattheimtu – enda flókin og ógagnsæ. Í rúma fjóra áratugi hefur verslunin barist gegn þessari hörmung og má segja að það hafi tekið tvær kynslóðir kaupmanna að tryggja sigur í þessu máli. Þó að óvenjumikið hafi verið rifist um fjárlagagerðina í ár – var einkar áhugavert að sjá að það virtist ríkja þverpólitísk sátt um afnám vörugjaldanna. Fyrir það ber að þakka og þetta mál sýnir að stjórnmálamennirnir okkar geta alllir sem einn tekið sömu skynsamlegu ákvörðunina.

Fyrir hönd íslenskra kaupmanna segi ég TAKK!


Fyrir áhugasama er hér tengill inn á skýrslu um ágalla vörugjalskerfisins sem Samtök verslunar og þjónustu gerðu árið 2012 í náinni samvinnu við fjármálaráðuneytið og tollstjóra.

http://www.svth.is/images/stories/vorugjaldsskyrsla_februar_2012.pdf

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.9.2014 - 08:12 - FB ummæli ()

„Freistnivandi“ kaupmanna

Í fjárlögum eru fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar sem vakið hafa hörð viðbrögð eins og vænta mátti. Mörg viðbrögð voru fyrirséð – önnur ekki og verður áhugavert að fylgjast með hvort og þá með hvaða hætti frumvarpið breytist í meðförum Alþingis.

Verslun á Íslandi hefur í áratugi barist fyrir niðurfellingu vörugjalda sem skekkir samkeppnisstöðu þessarar atvinnugreinar verulega – enda þekkjast vörugjöld hvergi í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Segja má að vörugjöld séu sérstakur skattur á íslenska neytendur og sé löngu úrelt fyrirkomulag neyslustýringar. Enda hvaða vit er í því að skattleggja sérstaklega þvottavélar, kæliskápa, bílavarahluti, klósett og gólfefni sem lúxusvarning væri.

Þegar fjármálaráðherra fylgdi fjárlögum úr hlaði sagði hann að fyrirhugaðar breytingar myndu hafa jákvæð áhrif á kaupmátt heimilanna og verðlag í landinu.

Hagfræðingur ASÍ dróg þetta í efa í tíufréttum á RÚV þann 9. september s.l. og sagði að þessar breytingar væru ekki gott innlegg í komandi kjaraviðræður. Síðan bætti hagfræðingurinn við að ASÍ hefði áhyggjur að freistnivanda kaupmanna myndi skila þeim hærri álagningu.

Svo þetta sé orðað á venjulegri íslensku þá ætla kaupmennirnir – sem barist hafa fyrir vörugjaldsniðurfellingu í tæp 40 ár – að stinga öllum ágóðanum í eigin vasa og gefa skít í neytendur.

Og hvað skyldi ASÍ hafa fyrir sér í þessum málflutningi? Ekki neitt nema eigin vangaveltur!

Ef hins vegar er litið á staðreyndir gaf Samkeppniseftirlitið út skýrslu í ársbyrjun 2012 þar sem segir orðrétt: „Lækkun á virðisaukaskatti á matvælum úr 14% í 7% sem og lækkun á vörugjöldum, einkum gosdrykkjum, í mars 2007 skilaði sér í samsvarandi lækkun á verði matvöru í smásölu.“

Svo mörg voru þau orð – verslunin skilaði allri lækkun beint til neytenda!

Meiri var freistnivandi verslunarinnar nú ekki.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.1.2014 - 14:53 - FB ummæli ()

Íslensk verslun hefur aldrei beðið um tollvernd

Íslensk verslun hefur undanfarin misseri barist hart fyrir að dregið verði úr tollvernd á innlendan landbúnað – ekki síst hvíta kjötið svokallaða sem á lítið skylt við landbúnaðarframleiðslu að flestra mati.

Þessi barátta hefur skilað því að umræða um breytingar á fyrirkomulagi styrkja til íslensks landbúnaðar er nú mjög hávær. Er það vel því orð eru til alls fyrst. Án efa er hægt að komast að niðurstöðu um breytt kerfi sem styður vel við hinn hefðbundna íslenska landbúnað s.s.sauðfjárræktina en á sama tíma fái aðilar sem notið hafa gríðarlegrar tollverndar t.d. í hvíta kjötinu aukna samkeppni þ.a. íslensk heimili njóti kaupmáttaraukningar í gegnum verðlækkanir á þeim vörum. Sérhagsmunagæsla um óbreytt landbúnaðarkerfi er ekki í boði að okkar mati og þeirri skoðun vex hratt fylgi og verður fylgt eftir m.a. af aðilum vinnumarkaðarins.

Undanfarnar vikur hafa þeir aðilar sem standa vörð um sérhagsmuni núverandi landbúnaðakerfis fullyrt að þetta sé undarleg barátta hjá versluninni sem sjálf biður um tollvernd þegar henni hentar. Þessi fullyrðing er alröng – enda nýtur verslunin engrar tollverndar, hefur aldrei gert og mun aldrei fara fram á. Þvert á móti býr verslunin hér við ofurálögur í formi tolla og vörugjalda sem hvergi er lögð á þessa atvinnugrein í þeim löndum sem við helst viljum bera okkur saman við. Á verslunina hér á landi eru sem sagt lagðir tollar sem ekki eru lagðir á verslun erlendis.

Þennan útúrsnúning sérhagsmunanna má líklega rekja til athugasemda sem verslunin gerði við fyrirhugaðar breytingar á póstverslun við útlönd. Þar var verslunin hins vegar ekki að fara fram á tollvernd heldur eingöngu að fá að sitja við sama borð og aðrir sem flytja inn vörur hingað til lands. Enda felst engin sanngirni í því að fella niður opinber gjöld við innflutning hjá einstaklingum en krefja verslunin áfram um himinhá opinber gjöld á sömu vöru? Ef þessar álögur verða hins vegar felldar niður af versluninni á sama tíma þ.a. allir sitji við sama borð gerir verslunin engar athugasemdir við breytt fyrirkomulag póstverslunar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.7.2013 - 16:30 - FB ummæli ()

Í gegnum skráargatið

Ríkisstjórn Íslands hefur sett aðildarviðræður Íslands við ESB á ís og erfitt er að ráða í hver næstu skref verða. Mun ríkisstjórnin slíta viðræðum eða mun þjóðin fá að kjósa um næstu skref og þannig koma sér í stöðu til að legga sjálf mat á kosti og galla aðildar. Er það t.d. rétt eða rangt sem Dr. Magnús Bjarnason stjórnmálahagfræðingur heldur fram að kostir aðildar séu fleiri en ókostir fyrir um 90% landsmanna? Um þetta verður aldrei hægt að fullyrða nema klára aðildarferlið – sjá samninginn og kjósa.

En hver sem niðurstaðan verður heldur heimurinn áfram að þróast. Í byrjun mánaðarins hófu stærstu viðskiptablokkir heims – ESB og Bandaríkin viðræður um fríverslunarsamning og mun samningurinn – ef af verður – hafa gríðarleg áhrif á viðskipti um heim allan. Er talið að öll aðildarríki ESB muni hagnast á þessum samningi – en lönd utan ESB tapa og hefur m.a. verið lagt mat á það að tekjur á hvern Íslending muni dragast saman um tæp 4% og að störf hér á landi verði þúsund færri en ella.

Í núverandi stöðu var því hárrétt hjá utanríkisráðherra Íslands að stofna samráðsvettvang um hagsmunagreiningu vegna þessara fríverslunarviðræðna ESB og Bandaríkjanna. Var utanríkisráðherra spurður nánar út i þetta í kvöldfréttum RÚV nýverið og sagði hann að þetta væri m.a. gert til að fylgjast með – gæta hagsmuna okkar og „láta ekki taka okkur í bólinu“ eins og hann orðaði það.

Hér greinir utanríkisráðherra stöðuna hins vegar rangt. Við Íslendingar erum ekkert í bólinu – við erum ekki einu sinni í svefnherberginu. Við stöndum einfaldlega fyrir utan herbergið þar sem ákvarðanirnar verða teknar.

Við höfum verið sett í þá stöðu að fylgjast áhrifalaus með þróun mála í gegnum skráargatið á læstri hurð.

Sannarlega dapurleg staðreynd fyrir alla sem aðhyllast frelsi í viðskiptum og telja það eina af forsendunum fyrir bættum lífskjörum hér á landi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 7.6.2013 - 12:35 - FB ummæli ()

Bændur og sjómenn

Enn á ný erum við í versluninni sökuð um að „vera í stríði við bændur„.

Ítrekað höfum við leiðrétt þessar rangfærslur en það virðist henta málfutningi sumra að halda þessum klisjum á lofti.

Staðreynd málsins er hins vegar að íslenska landbúnaðarkerfið er dýrt fyrir skattgreiðendur og neytendur en þrátt fyrir það eru bændur láglaunastétt – atvinnutekjur þeirra eru einar þær lægstu í landinu.

Þeir aðilar sem vilja halda dauðahaldi í óbreytt landbúnaðarkerfi eru varla með hag bænda í huga.

Það vilja allir sjá öflugan íslenskan landbúnað en mjög margir í breyttu kerfi þar sem við sjáum kostnað skattgreiðenda lækka – verð til neytenda lægra og að bændur fái meira í sinn hlut.

Að leggja til breytingar á landbúnaðarkerfinu þýðir ekki að viðkomandi efni sjálfkrafa til stríðs við bændur – enda voru þeir aðilar sem vildu breytingar á sjávarútvegskerfinu aldrei sakaðir um að vera í stríði við sjómenn.

Bændur eru þjóðinni mikilvægir, alveg eins og og sjómenn, og þeir eiga einfaldlega betra skilið en að vera haldið í gíslingu óbreytts kerfis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is