Þriðjudagur 24.1.2017 - 20:57 - FB ummæli ()

Af umhverfismálum í Hafnarfirði, eða skorti á þeim

Umhverfismál eru einn mikilvægasti málaflokkur sem hið opinbera, hvort sem það er Alþingi eða sveitarfélög, þurfa að takast á við í nútímasamfélagi.

En mjög lítið fer fyrir þeim og byggist umræðan um þau og aðgerðir í raun á áhuga einstaka kjörinna fulltrúa á málaflokknum.

Samkvæmt nýjum rannsóknum alþjóðlegra rannsóknastofnanna á sviði haffræða er súrnun sjávar hvergi eins mikil og hröð og við strendur Íslands. Ef ekki verður dregið úr notkun plasts þá verður meira af plasti í hafinu en fiski árið 2050 og örplast finnst nú orðið í hormónabúskap 80% barna í Bandaríkjunum. Jöklarnir okkar eru að hverfa  vegna loftslagsbreytinga. Vatnsskortur er viðvarandi vandamál víða og fyrirséð að hann á eftir aukast og sótt er fast eftir  vatnsauðlindum okkar Hafnfirðinga. Þá hefur ágangur stóraukist á náttúruperlur okkar vegna ferðaþjónustu, til að mynda í hraunhella, í uppland okkar og í Krýsuvíkursvæðið og við erum að drukkna í rusli.

Hægt er að hafa áhrif með að sýna fram á metnað í stefnu og fjárhagsáætlun sveitarfélaga.

Þriðja stærsta sveitarfélag landsins, Hafnarfjörður, ætlar að sitja hjá þegar kemur að róttækum aðgerðum gegn súrnun sjávar, loftslagsbreytingum, sjálfbærri þróun og verndun náttúrunnar.

Þann 13. mars 2012 var samþykkt metnaðarfull Umhverfis- og auðlindastefna fyrir Hafnarfjörð. Þar kemur skýrt fram að ,,[m]eta þarf árangur stefnumótunar af þessu tagi með reglubundnum hætti og er lagt til að framvinduskýrsla verði tekin saman eigi síðar en 4 árum eftir samþykkt hennar“. Í dag eru liðin 4 ár og 6 mánuðir og ekkert bólar á endurskoðun eða mati á hvort stefnunni hafi verið fylgt eftir og markmiðum hennar náð.

Í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2017 er hvergi minnst á róttækar aðgerðir í umhverfismálum. Til samanburðar hefur Reykjavíkurborg mótað sér stefnu og gert aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og Höfn í Hornafirði er í samstarfi við Landvernd um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, matarsóun og hefur hafist handa við að vinna gegn plastpokanotkun, plasti almennt og minnkun á urðun sorps. Aldrei hefur verið fjallað um Parísarsamkomulagið innan Hafnarfjarðarbæjar og áhrif þess að rekstur bæjarins eða hvað við getum tileinkað okkur strax í því samkomulagi.

Mér þykir það miður sem íbúi og sem bæjarfulltrúi að ég finn ekki fyrir neinum metnaði að hálfu meirihlutans í bæjarstjórn að gera Hafnarfjörð að framsæknu sveitarfélagi í umhverfismálum. Í dag er starfandi umhverfisfulltrúi í 50% starfi sem á að hækka í 100% starfshlutfall. Ég vona að það skili einhverjum árangri en bæjarfulltrúar verða að fylgja umhverfismálunum fast eftir. Stærsta ógnin við jörðina er sú ranghugmynd að einhver annar muni bjarga henni

Það þurfa allir að leggja sitt á vogarskálarnar gegn umhverfisógninni, ekki síst sveitarfélögin.

Förum á undan með góðu fordæmi í Hafnarfirði

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.10.2016 - 15:32 - FB ummæli ()

Ég get, ég ætla, ég skal

Ég get, ég ætla, ég skal eru ekki bara skemmtileg og táknræn slagorð kvennafrelsisbyltingarinnar á 8. áratugnum heldur vísindaleg sannindi. Albert Bandura var umdeildur vísindamaður sem með ákveðnum aðferðum gat sýnt fram á að ef þú trúir á það sem þú gerir og talar þig upp þá eru meiri líkur á að þér takist verkefnið og ljúkir því. Ef þú tekur sjálfan þig í sjálfsskoðun reglulega og lærir af mistökum þínum, horfir á verk þín og hegðun með gagnrýnum augum, tekur þú framförum. Þannig að, það skiptir sköpum hvernig við tölum við okkur sjálf og hvernig við tölum við aðra.

Einnig gerði hann ýmsar rannsóknir á lærðri hegðun og hvernig við ,,hermum” hvert eftir öðru og hugsið ykkur nú ef við myndum nú öll tala fallega til hvors annars með það að tilgangi að byggja hvort annað upp, hvað heimurinn væri betri staður. Ég er í stjórnmálum, kannski ekki uppbyggilegasta starfsumhverfi í heimi – meira svona eitt það erfiðasta, og ég fæ oft þá spurningu hvernig ég ,,meika þetta” – allt þetta baktal, niðurrif, fólk með ljótar skoðanir á mér og þrá margra til að níða af mér skóinn.

Ég hef bara eitt svar við því, ég get ekki stjórnað hegðun annarra, ég get eingöngu stjórnað því hvernig ég bregst við henni. Ég tók þá ákvörðun fyrir löngu að byrja að æfa mig á þessu, að byrgja mig fyrir þessum orðum með því að láta þau ekki hafa áhrif á mig. Það var ekki auðvelt í fyrstu en svínvirkar í dag. Það verður alltaf fólk sem vill ekki byggja upp jákvætt umhverfi í kringum sig, hvað þá senda öðru fólki jákvæða strauma og góða orku, og það er ekkert sem ég get gert í því.

Ég get, ég ætla, ég skal og mér er alveg sama hvað ykkur finnst um það!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.8.2016 - 19:32 - FB ummæli ()

Nútímafólk (og hollráð Dolly Parton)

Ég og fjölskylda mín búum nú við aðstæður sem margir Íslendingar þekkja vel. Við hjónin erum í fjarbúð og kílómetrarnir sem skilja okkur að slaga hátt í 500. Forsagan er sú að eftir langa og erfiða atvinnuleit fékk eiginmaðurinn frábært starf sem hæfði hans háskólamenntun fullkomlega. Staðsetningin hentaði þó ekki jafn vel, Höfn í Hornafirði var býsna langt frá Hafnarfirði. En við ákváðum að láta slag standa og flytja á Höfn enda fékk ég líka atvinnutilboð. Síðan hafa liðið tvö ár. Núna  er ég komin aftur í hýra Hafnarfjörðinn, með yngsta son okkar en eiginmaðurinn og tvær dætur eru enn á Höfn við nám og störf.

Við hjónin megum ekki vera með lögheimili hvort í sínu sveitarfélaginu samkvæmt úreltum lögum sem eru í engum takti við nútímann. Sveitarfélögin eru nútímalegri og sveigjanlegri en ríkisvaldið og þökk sé samningi þeirra á milli sveitarfélaga getur dóttir mín stundað grunnskólanám á Höfn.

En saga okkar er ekkert einstök, hún er alveg eins og saga ótal margra ísenskra fjölskyldna undanfarin ár. Menn og konur hafa flutt til Noregs og víðar til að fá starf við hæfi – eða bara starf yfirleitt. Árferðið nú er ögn skárra en fyrir nokkrum árum, ekki síst vegna mikils uppgangs í ferðaþjónustu. Hann skilar sér í auknum tekjum og fleiri störfum en engu að síður er ennþá alvarlegur skortur á störfum við hæfi fyrir háskólamenntað fólk á Íslandi. Háskólamenntaðar konur eru til að mynda sístækkandi hópur á atvinnuleysisskrá.

Fjarbúð okkar hjóna er nýhafin og við erum bjartsýn. Sjálfsbjargarviðleitnin er auðvitað sterk hjá ungu fólki og það finnur leiðir til að sjá fyrir sér og sínum og bæta lífsgæði fjölskyldunnar. En það er sannarlega ekki í takti við kröfur nútímans að búa við löggjöf árið 2016 sem kveður á um að að hjón geti ekki verið með lögheimili á tveimur stöðum.

Margir kjósa að búa ekki undir sama þaki en þó vera hjón. Margir vilja geta verið með lögheimili sitt á þeim stað sem það starfar og það starfar fullt af fólki út um allt,  en býr á öðrum stað. Margir þurfa að taka upp tímabundna fjarbúð til að öðlast reynslu og þekkingu á vinnumarkaði og byggja upp ferilskrá. Mörgum er illa við að vera bundnir átthagafjötrum lagabókstafs sem skikkar hjón til að búa undir sama þaki þó kringumstæður séu allt aðrar.

Oddný Harðardóttir lagði fram þingsályktunartillögu um breytingar á þessari úreltu löggjöf árið 2015, ég vil sjá þessa tillögu verða að lögum. http://www.althingi.is/altext/145/s/0032.html

p.s Dolly Parton hélt þeim hollráðum á lofti nýverið að ástæðan fyrir farsælu hjónabandi hennar og eiginmannsins hafi verið  fjarvera hennar í 47 ár af þeim 50 sem höfðu verið gift – og ekki lýgur Dolly!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 25.8.2016 - 13:40 - FB ummæli ()

Haustkvíðinn

Ég elska haustin, haustlitirnir og lyktin í loftinu ilmar af nýju upphafi. Þegar ég var yngri elskaði ég þetta tímabil, fékk pening hjá foreldrum mínum og hljóp uppí Bókabúð Böðvars til að kaupa skóladót og eyddi svo deginum í að merkja það allt og plasta (já, ég var með fullkomnunaráráttu).

Síðan varð ég foreldri sjálf 2ja grunnskólabarna og eins framhaldsskólanemanda og nú skil ég afhverju foreldrar mínir voru alltaf nett teygð, toguð og stressuð á haustin. Ég skildi það ekki þá, var bara svífandi um á bleiku skýji með nýju artline pennana mína.

Að eiga börn á Íslandi er ógeðslega dýrt og fyrir marga ekki gerlegt nema með utan að komandi hjálp. Ég og eiginmaður minn erum háskólamenntuð og eigum því að flokkast sem svona ágætlega sett fólk en ég skal fúslega viðurkenna það hér, ég get ekki leyft þeim allt það sem ég myndi kjósa að veita þeim. Að kaupa ritföng, skólatösku, regngalla, kuldagalla, föt, æfingarföt, borga íþróttagjöld, keppnisferðir, takkaskór, borga tónlistarnám, kaupa bækur fyrir tónó, afmæli, hollan mat, hádegismat í skóla, frístundarheimilið, gríðarlegan bókarkostnað fyrir framhaldsskóla, fartölvu, skólagjöld, klæðnaður og gaman væri að reikna inní þetta tekjutapið við að fara í fæðingarorlof og dráttarvextirnir af yfirdráttaheimildunum sem voru teknar til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með gríðarlega háum kostnaði við að vera með barn hjá dagforeldri, sé ekki minnst á leikskólagjöld, sem eru býsna há miðað við meðaltekjur einstaklinga. Fyrir utan gríðarlega hátt bensínverð, matarkostnað og húsnæðisverð sem bara hækkar og hækkar og hækkar.

En bleyjur voru lækkaðar í skattþrepi! Munaði öllu…..(sagt í kaldhæðni).

Samkvæmt skýrslu Seðlabanka Íslands þá eru barnafjölskyldur landsins þær skuldsettustu og viðkvæmasti hópurinn þegar kemur að stöðugleika í fjármálum. Það má ekkert bregða útaf, bílinn bilar og allt fer í döðlu.

Þetta þarf ekki að vera svona, þetta á ekki að vera tímabil sem einkennist af álagi og stöðugum áhyggjum. Við getum gert svo miklu betur, við höfum margar leiðir til þess t.d að gera grunnskólann algerlega gjaldfrjálsan, ritföng og mat, að auka niðurgreiðslur til íþrótta- og tómstundariðkunar, að lækka gjaldskrár tónlistarskóla, að gera barnabætur þannig að við getum keppt við hin Norðurlöndin þegar að þeim kemur, að bæta húsnæðismarkaðinn og vera stanslaust vakandi yfir því hvernig þessum hóp vegnar.

Þetta er ekki fyrir hag fullorðna fólksins, þetta er fyrir þau börn sem hér fæðast og alast upp. Þeirra tilvera verður betri, áhyggjulausari og fallegri. Þau munu öll hafa jöfn tækifæri til að blómstra og vera þau sjálf, burt séð frá efnahag foreldra.

Þannig landi vil ég búa í.

P.s og takk elsku Guðbjartur fyrir að gefa öllum börnum landsins heilbrigðar tennur og góða tannheilsu. Þú varst sko sannur jafnaðarmaður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 19.8.2016 - 15:59 - FB ummæli ()

Að gefast upp er ekki valkostur

 

Ég er komin í prófkjör, í fimmta sinn, fyrir utan varaformannsframboð.

Mér finnast prófkjör erfið, ekki eins erfið og mér fannst fyrst en erfið samt. Þegar maður fer í prófkjör hringir maður í vini og vandamenn og lætur vita, svo þeir frétti það ekki í fjölmiðlum og líka til að taka stöðuna, finna jarðveginn. Í þetta skipti snérust samtölin meðal annars um að svara spurningunni:  Af hverju Samfylkinguna, er hún ekki búin að vera?“

Það skal nú alveg viðurkennast að Samfylkingin hefur verið í betri málum út á við, en ég tel mig geta fullyrt að hún er í góðum málum inn á við. Fullt af frábæru fólki sem brennur fyrir réttlátara samfélagi og betri heimi á öllum vígstöðum. Fólk sem er allskonar og kemur úr öllum áttum,. Fóli með svipaða lífssýn og gildi. Svo eru þessi hópur líka drulluskemmtilegur, það skemmir ekki.

Og hvað?

Eigum við bara að hætta? Gefast upp? Skila inn handklæðinu?

Láta sérhagsmunaröflin ráða ennþá stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, sér í hag?

Láta eftir það grunn prinsipp að í stjórnarskrá Íslendinga stendur skýrum stöfum að auðlindir landsins séu í eigu almennings?

Láta heilbrigðisþjónustuna okkar grotna og veikt fólk borga háar upphæðir fyrir þjónustu þess?

Láta menntakerfið okkar grotna niður og sætta okkur við nýttnámslánakerfi sem sinnir síst þeim sem þurfa á því að halda?  Námslánakerfi sem kemur í veg fyrir að fólk geti sótt sér menntun erlendis?

Láta það viðgangast að fólk, sem hefur ekki val annað en að hoppa um borð í gúmmibát og sigla yfir eitt stykki haf til að bjarga lífi sínu, eigi hér ekki skjól?

Láta börnin okkar borga fyrir niðurgreiðslu lána inní framtíðina með himinháum vöxtum og skapa þeim aðstæður þar sem þau komast ekki að heiman fyrr en um fertugt?

Láta hamlandi reglur um inntökualdur í framhaldsskóla koma í veg fyrir að fólk sem er eldra en 25 ára geti sótt sér menntun??

Láta það bara yfir mig og aðrar konur ganga að vera með 18% lægri laun er karlmenn fyrir sömu vinnu?

Láta það gerast að Ísland sé ekki fyrirmyndarríki þegar kemur að umhverfismálum á öllum sviðum?

Láta það tækifæri renna okkur úr greipum að gera hálendi Íslands að einum þjóðgarði og efla þá sem fyrir eru?

Láta stjórnmálamenn sem eru tækifærissinnar koma sínum málum á framfæri við að búa til ósýnilega óvini í ,,þið og við“ aðferðafræðinni og breikka þannig bilið milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar?

Láta það ókjurt að fólk þurfi að borga himinháa reikninga þegar það leitar sér aðstoðar til sálfræðings eða geðlæknis?

Láta það bara viðgangast að fjöldi barna á Íslandi lifa við fátækt?

 

Því miður gæti ég haldið lengi áfram á þessum nótum.

 

Nei, vitiði, ég ætla ekki að gefast upp, ég veit alveg hvað býr í þessari þjóð og hvað hún hefur að gefa. Ég veit að við getum búið í fallegu og góðu samfélagi þar sem allir hafa jöfn tækifæri til að blómstra, og gefur íbúum sínum tækifæri á að skipta um skoðanir, breyta um starfsvettvang, menntast á öllum aldri, hlúa að okkur þegar við veikjumst og leggur sig fram við að valdefla fólk í eigin lífi, hvetja áfram og ná því besta fram í öllum.

Ég er jafnaðarmaður, ég hef alltaf verið það, ég verð það alltaf.

Ég ætla ekki að gefast upp.

Annars er ég bara nokkuð hress, góða helgi!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 9.7.2016 - 20:10 - FB ummæli ()

Holland 2017, hver er með?

Ég trúi ekki að þetta ævintýri sé búið, sigurganga karlalandsliðsins okkar í knattspyrnu á EM 2016 er lokið en vá hvað er búið að vera gaman. Ótrúlegasta fólk gerðist fótboltabullur og stóð ekki bara málað fánalitunum í framan og öskraði á sjónvarpið eða hoppaði á Arnarhóli, það mætti á leiki. Ótrúlegasta fólk sem hefur í raun engan áhuga á fótbolta keypti treyju og eyddi sumarfrísdögunum sínum og öllu sparifé og botnaði kreditkortin til að standa þarna í stúkunni og öskra strákana alla leið í 8 liða úrslitin.

Ykkur ætla ég að tileinka þessa grein og þakka ykkur fyrir. Ég veit að þetta var engin kvöð og af myndum á samfélagsmiðlum að dæma var þetta eflaust ógleymanleg lífsreynsla en þið gerðuð það samt. Þið mættuð þrátt fyrir að strákunum var ekki spáð neinu gengi, það stoppaði ykkur ekki. Þið mættuð ekki bara og gerðu ,,huh“ með hendur uppí loft, þið sunguð ykkur inní hjörtu okkar allra hérna heima, þið sunguð ykkur inní hjörtu heimsbyggðarinnar. Þið brostuð alla daga og þið voruð til fyrirmyndar, svo mikið, að það er umtalað. Það er (loksins) búið að vera svo gaman að vera Íslendingur, ekki bara vegna stolts af góðu gengi landsliðsins, heldur að finna samstöðuna, allir í sama liði, og það er ykkur að þakka, þið ,,húuðu“ okkur saman.

Ég mætti ekki, en þessu ævintýri er ekki lokið, við erum rétt að byrja. Ég er búin að stofna sparireikninginn ,,Holland 2017“ og ég ætla að upplifa þennan draum, standa vaktina og gera ,,húh“ og syngja Ferðalok í blárri treyju þegar Íslenska kvennalandsliðið mun brillera á Evrópumeistaramótinu í fótbolta.

Hver kemur með mér?

 

Greinin birtist í Suðri

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.6.2016 - 15:26 - FB ummæli ()

Takk amma mín

Þegar þetta er skrifað er 19. júní og við fögnum 101 árs afmæli kosningarréttar kvenna. Í daglegu amstri gleymist oft hversu miklum árangri við, konur, höfum náð í baráttunni fyrir jöfnum tækifærum. Í dag er hún Hanna amma mín mér efst í huga. Hún var dásemdin ein, kona sem umvafði okkur fjölskyldu sína ást og hlýju. Hún var okkar aðdáandi nr 1 og fannst allt stórkostlegt sem við gerðum og var ekki spör á að láta okkur vita af því.

Síðustu ár hef ég lagt mig fram við að horfa á ömmu mína sem konu með mikla hæfileika og stóra drauma. Amma mín var listamaður, prjónaði, saumaði út, gerði ofin veggteppi sem áttu engan sinn líka og glerverk sem komu manni alltaf á óvart, aldrei eftir uppskrift, heldur hennar sköpun frá upphafi til enda. Hún hélt samt aldrei sýningar, nema á Sléttuveginum fyrir okkur fjölskylduna og vini. Eitt kvöldið sátum við og drukkum malt og ræddum lífið og tilveruna. Ég spurði ömmu hvernig hún héldi að líf sitt hefði orðið hefði hún fæðst sama ár og ég og haft öll þau tækifæri og stuðning sem ég hef haft. Hún sagði mér að hún hefði viljað menntast meira og fara út í sinn eigin rekstur. Hana dreymdi að eiga sína eigin búð eftir að hafa unnið í skódeild Kaupfélagsins á Selfossi mest alla sína fullorðinsævi. Þarna var munurinn á mér og ömmu, ég fæddist með ákveðin forréttindi. Ég fæddist inní samfélag þar sem hefur verið unnið markvisst í að skapa öllum jöfn tækifæri. Það er skylda okkar allra að sjá til þess að svo verði áfram.

Í gærkveldi lést amma mín. Ég veit að hún var sátt við sitt, hún elskaði fólkið sitt meira en allt og gerði það vel og lét okkur öll vita að við hefðum allt til alls til að láta drauma okkar rætast.

Takk elsku Hanna amma mín, fyrir sjálfstraustið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.6.2016 - 23:24 - FB ummæli ()

I <3 Berlin

Ég heimsótti Berlín í fyrsta skiptið í mánuðinum. Þar eru mögnuð söfn útum allt og hafa þjóðverjar greinilega lagt mikið í að læra af sögunni, okkur öllum til varnaðar, um hvað það var sem gerðist og hvernig ílskan varð svona gríðarleg. Auðmýktin drýpur af hverju horni borgarinnar, á milli flóttamannabúða.
Sagan byrjar eftir efnahagskreppu og fólk missti traust á stjórnvöldum og kusu nokkra Nazizta, sem var spútnikflokkurinn, í borgarstjórn Berlínar. Kannisti við þessa sögu? Það sama gerðist hér nema við Íslendingar vorum svo klók að við kusum húmanistann og gleðigjafann Jón Gnarr. Við komum með krók á móti bragði.
Þessi saga endurtekur sig í sífellu, stundum höfum við dug og þor og svörum ákallinu, kjósum konu sem forseta, kjósum Kvennalista og segjumst ætla að kjósa mannréttindasinnana Pírata í skoðunarkönnunum. Við oft náum að snúa þetta fólk niður, sem öskra á okkur að við þurfum reynslu, styrk og ákveðni. En við hvíslum  angurvært á móti og segjum ,,nei, við erum ok, við ætlum að hlusta á hvort annað, standa saman og koma okkur í gegnum þetta með auðmýkt að leiðarljósi, við höfum ekkert að óttast“
Við þurfum ekki fólk sem ber í borðið og öskrar á okkur eins og ílla þunnir og pirraðir kennarar um hvernig hlutirnir eiga að vera. Við þurfum ekki fólk sem öskrar á okkur að það hafi öll svörin og viti allt.
Við þurfum að lækka rómin og tala saman, við höfum lausnirnar, við þurfum bara ró og næði til að brainstorma um þær og komast að niðurstöðu.
Og við þurfum leiðtoga sem hlustar.
Og ég mæli með safnaferð til Berlínar, það verður engin samur á eftir, og tehcnostaðirnir eru engu síðri.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 30.5.2016 - 13:31 - FB ummæli ()

Tilkynning um framboð til varaformanns Samfylkingarinnar

Kæru Samfylkingarfélagar,

Um helgina verður haldinn langþráður landsfundur þar sem við fáum tækifæri til að koma saman og ræða málin og af nógu er að taka. Við fáum einnig tækifæri til að velja fólk í stjórnir og embætti flokksins.  Nú eru fjórir góðir frambjóðendur að bjóða sig fram til formanns og hef ég ákveðið að gefa kost á mér til embættis varaformanns flokksins.

Eftir tveggja ára hlé frá sveitarstjórnarmálum og búsetu á Höfn í Hornafirði hafa augu mín opnast enn frekar fyrir því hversu mikið erindi við eigum við fólkið í landinu og ég vil leggja mitt lóð á þær vogarskálar að Samfylkingin verði á ný leiðandi flokkur og jafnaðarstefnan fái verðskuldaðan framgang í stjórnmálum landsins.

Ég gef kost á minni reynslu, sem almennur félagsmaður, kjörinn fulltrúi í Hafnarfirði síðustu 10 ár og sem varaþingmaður. Einnig hef ég fram að færa víðtæka menntun og reynslu af starfi með ungu fólki og sérþekkingu á valdeflingu og lýðræðismenntun

Reynslan af því að búa í litlu samfélagi úti á landi sem ber öll merki þess að vera að breytast úr frumframleiðslusamfélagi í ferðamannabæ með öllu sem því fylgir hefur kennt mér margt. Ég hef einnig ágæta reynslu af því að byggja upp félag eftir fylgistap, og það er ekki gert nema með auðmýkt, virðingu, húmor og gleði.

Ég hlakka til að eyða með ykkur næstu helgi og að finna að hjartað er ennþá á réttum stað. Þá eru okkur allir vegir færir.

Með kærri kveðju,

Margrét Gauja Magnúsdóttir

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.5.2016 - 16:14 - FB ummæli ()

Auga fyrir auga?

Ég slysaðist til að horfa á myndband þar sem tveir unglingar eru að ganga í skrokk á liggjandi unglingsstúlku og einn stendur hjá og tekur allt upp.

Ég heyri hjálparöskrin í henni óma í höfðinu á mér þar sem grátandi skjálfandi rödd kallar ,,fyrirgefðu“.

Auðvitað bregst manneskja í neyð með þessum hætti, telur sjálfa sig vera ábyrga á barsmíðunum á sér og hugsar ,,ég hlýt að eiga þetta skilið“. Þetta eru ákveðin varnarviðbrögð því innst inni neitum við að trúa að önnur manneskja hati okkur svona mikið eða hafi það í sér að gera einhverjum öðrum eitthvað svona.

Einelti er ótrúlega flókið fyrirbæri sem virðist vera erfitt að uppræta, það liggur undir niðri, kraumar hjá ákveðnum einstaklingum, þörfin til að láta öðrum líða ílla, setja þá niður, neðar en maður sjálfur, goggunarröðin skýr og jafnvel þörf fyrir að meiða líkamlega.

Samfélagsmiðlarnir öskra að foreldrarnir séu gerðir ábyrgir, foreldrarnir eigi að taka á gerendunum, jafnvel hýða þá og kenna þeim lexíu.

Kennum við börnum og unglingum að hætta að beita aðra andlegu og líkamlegu ofbeldi með því að beita þau andlegu og líkamlegu ofbeldi? Hvenær hefur það gefist vel? Ég hef ekkert fyrir mér hvað þetta tiltekna mál varðar en eitt er ekki ólíklegt, að barn eða unglingur sem hefur þörf til að skaða aðra manneskju með þessum hætti, hefur verið sköðuð að einhverju leyti sjálf.

Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

Skólasamfélagið hefur þá ábyrgð að kalla til sérfræðinga til að að hjálpa gerendum við að breyta sinni hegðun, og henni er breytt með að tækla tilfinningarnar, þessar vondu tilfinningar, þessi skaði og þörf til að láta aðra manneskju í raun spegla sína eigin vanlíðan.

Við þurfum að sjá málin fyrir það sem þau í raun og veru eru og vinna með þau, með ást og hlýju.

LUV always wins.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is