Fimmtudagur 27.2.2014 - 02:16 - Rita ummæli

Svik kosningaloforða í öðru veldi

bb sdg jonsig

Mynd: Valgarður Gíslason á Fréttablaðinu – en ekki veit ég hver breytti myndinni.

Ég hef nokkrum sinnum skrifað um svik kosningaloforða, þar sem ég hef lagt áherslu á að svikin birtist öðru fremur strax í stjórnarsáttmála, frekar en síðar á kjörtímabili (sjá einkum hér, hér og hér). Í þessum skrifum hef ég þumbast við að benda á að ætluð svik komi strax fram við myndun ríkisstjórnar og gerð stjórnarsáttmála – á þeim tímapunkti sé rétt að skoða loforðin og tékka við hver þeirra hafi ratað í stefnumótun viðkomandi samsteypustjórnar og hver þeirra ekki. Í slíkum stjórnarmyndunarviðræðum takast venjulega á flokkar með mismunandi áherslur og stefnu og iðulega þurfa viðsemjendur að fórna einhverju vegna krafna hins aðilans (eða hinna aðilanna).

Meðal annars sagði ég í einni viðtengdu færslanna: „Dæmi: Flokkur A lofar m.a. vinsælu máli X. Flokkur B lofar m.a. vinsælu máli Y. Flokkar þessir mynda stjórn, en vegna gagnkvæmra krafna komast hvorugt málanna X eða Y í stjórnarsáttmála. Var það ekki ÞÁ sem kosningaloforð þessi voru svikin? Og voru þau svikin þarna strax í upphafi vegna andstöðu eins flokksins eða linkindar hins flokksins?“

Undir þessum kringumstæðum getur loforðasvikarinn gjarnan bent á samstarfsaðilann og sagt: Við gátum ekki efnt þetta loforð því samstarfsaðilinn tók það ekki í mál – og því fórnuðum við því máli að við gátum komið öðrum málum í gegn. Sem þá ekki breytir því að kosningaloforð var svikið og það strax við myndun ríkisstjórnarinnar.

Þessi nálgun á hins vegar ekki við um svik ráðamanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hvað loforð um þjóðaratkvæði um framhald viðræðnanna við ESB varðar. Ekki einasta lofuðu báðir stjórnarflokkarnir þessu fyrir kosningar, heldur rataði þetta í stjórnarsáttmála. Þetta eru því „svik kosningaloforða“ í öðru veldi. Svik í úrvalsdeild svikanna!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 19.2.2014 - 16:54 - 7 ummæli

20 ár frá heimför úr sveitinni

Um þessar mundir eru 20 ár liðin frá því að ég kom heim til mín frá Staðarfelli – að baki var almenn meðferð á Vogi og síðan fjögurra vikna framhaldsmeðferð í sveitinni. Með hjálp SÁÁ, AA, fjölskyldu og vina auðnaðist mér að stöðva markvisst niðurrif brennivínsbölsins, sem var um það bil að koma mér út af heimilinu og í ræsið, eða þar til ég „fann til botns“.

 Minn höfuðvandi í vímu-fíkn minni var þetta löglega vímuefni, áfengið. Á einhvern óskiljanlegan hátt hafði mér þrátt fyrir allt tekist að forðast „hörðu efnin“ – en var svo sannarlega byrjaður að hugsa um þau. Cannabis var lengi ósjaldan samferða brennivíninu, en síðarnefnda vímuefnið náði algjörum yfirburðum og er enda af mörgum talið hættulegasta og skaðlegasta vímuefnið. Ég er þeirrar skoðunar. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir „björgunina“ og sérstaklega nú hin síðari ár, þegar maður á barnabörn til að spilla með eftirlæti.

 Nú áðan hlýddi ég á umræðu á Alþingi um stefnumótun í fíkniefnamálum og þar virtist mér viðkvæðið vera hjá flestum ræðumönnum að refsistefna fyrir neyslu (andstætt við innflutning, framleiðslu o.s.frv.) vímuefna væri úrelt. Ég get tekið undir það. Ég er ekki einn af þeim „ölkum“ sem vilja hörð boð og bönn sem ná til allra. Þótt ég sé á meðal þeirra um 10 prósent landsmanna, sem alkar eru, þá hef ég enga þörf fyrir að færa  helsi yfir 90 prósentin. Níu af hverjum tíu geta stjórnað sinni neyslu vandræðalítið eða –laust og ástundað hana í hófi sem afþreyingu og skemmtan. Hjá okkur hinum er það vímuefnið sem stjórnar en ekki neytandinn. Það fólk þarf hjálp en ekki refsingu. Og það margborgar sig að hjálpa því fólki frekar en að stinga því í fangelsi. Annað mál gildir um innflytjendur og dreifingaraðila – og það á að gera skýran greinarmun á þessum ólíku hópum. Kannski er það meira og minna gert í reynd og segir það þá sína sögu, rétt eins og fregnir af lögleiðingu og/eða afglæpavæðingu erlendis, ekki síst í Bandaríkjunum og sumstaðar í V-Evrópu.

 Ég tók út mína refsingu á sínum tíma með ömurlegri neyslu og vanlíðan. Mér var hjálpað út úr þeim ógöngum og fékk meira að segja verðlaun; margfalt betra líf. Þannig á það að vera.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

Fimmtudagur 16.1.2014 - 12:00 - 6 ummæli

Hin óguðlega manndómsvígsla

Ekki hefur mér fundist sílækkandi hlutfall meðlima trúfélagsins Þjóðkirkjan af þjóðinni allri (í nútímanum úr ca. 95% í 75%) vera neitt sérstakt merki um „afkristnun“. Þótt margir segi sig úr Þjóðkirkjunni og margir skrái sig utan trúfélaga er hvað mesta fjölgunin í öðrum trúfélögum, einkum kristnum á borð við Kaþólikka og Fríkirkju-trúfélögin tvö. Í mínum huga er vita vonlaust að „kenna um“ vondum trúleysingjum (ég er notabene ekki trúleysingi) um fækkun í stærsta kristna trúfélaginu.

En nú velti ég fyrir mér hvort tiltekin þróun meðal fermingarbarna sé til marks um einhverja stórmerkilega andlega þróun. Allflest fermingarbörn tilheyra trúfélagi foreldra sinna og fermast innan þess trúfélags umhugsunarlítið – hugsa að líkindum meira um að „komast í tölu fullorðinna“ og sjálfsagt enn meir um veislu og gjafir. Nýjustu tölur yfir þróun og fjölda þeirra fermingarbarna sem velja að fermast borgaralega (sjá t.d. hér) eru mjög athyglisverðar. Að um 300 börn séu skráð til borgaralegrar fermingar á þessu ári er merkilegt, en hlutfallstalan er enn merkilegri. Þetta eru sem sagt 7,3 prósent ungmenna á fermingaraldri. Um fjórtánda hvert barn. Þetta byrjaði með 16 börnum fyrir 25 árum og hefur vaxið ár frá ári síðan.

Kannski er þetta talið til árásar á kristna trú – að bjóða upp á valkost; annars konar manndómsvígslu en trúarlegrar?

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 7.1.2014 - 15:50 - 11 ummæli

… sjúkrabíll með vængi

Sjúkraflugvél er sjúkrabíll með vængi. Hvorugt farartækið á erindi á spyrnukeppni.

 Sjáið þið fyrir ykkur eftirfarandi: Það kemur útkall og sjúkrabíll fer af stað með tveimur sjúkraflutningamönnum og einum heilbrigðisstarfsmanni. Sjúklingur er sóttur og færður á bráðamóttöku. Því næst skyldi sjúkrabíllinn og viðkomandi teymi fara á starfsstöð sína og vera í viðbragðsstöðu fyrir næsta útkall. Á leiðinni ákveður bílstjórinn að koma við á Kvartmílubrautinni, þar sem spyrnukeppni er í gangi. Sjúkrabíllinn æðir inn á svæðið á miklum hraða, en of miklum því í beygju inn á svæðið kútveltist bíllinn. Litlu má muna að enginn áhorfandi slasist, hvað þá meir, en áhöfn bílsins deyr eða slasast.

 Sjáið þið eitthvað annað fyrir ykkur en að í kjölfar svona alvarlegs atviks færi fram ígrunduð sakamálarannsókn – og það algerlega burt séð frá því hvort Rannsóknarnefnd samgönguslysa gerði nokkurn skapaðan hlut?

 Flugslysið fyrir norðan í ágúst á ekki bara að lúta flugtæknilegri rannsókn (með þröngt skilgreindri rörsýn). Það er heilmargt fleira í húfi en flugtæknileg atriði – lagaleg ábyrgð, skaðabætur, tryggingar og fleira, sem ekki bíður eftir lokaskýrslu flugtæknilegrar rannsóknarnefndar (sem samkvæmt reynslu tekur um 3 ár að komast á blað). Ef lögreglan hefur ekki hafið sjálfstæða sakamálarannsókn nú þegar, að eigin hvötum, er það óeðlilegt. Enginn áhugi getur verið á því að velta sér upp úr mannlegum harmleik, heldur eingöngu að læra af honum, læra af mistökum, læra af sannleikanum. Það er enginn tillitsemi, enginn lærdómur, fólginn í því að sópa staðreyndum undir teppið – slíkt er misskilin tillitsemi og skaðleg. Mikilvægast af öllu er að sannleikurinn komi fram, í þágu almannahagsmuna og í þeim tilgangi að læra af því sem gerðist og leitast við að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni · Viðskipti og fjármál

Mánudagur 25.11.2013 - 01:42 - 8 ummæli

Bókhaldarinn – uppfært

„Bókhaldarinn“ hefur í mörg ár fært syndir svokallaðra vinstrimanna til bókar.

Hann hefur farið með slíkt bókhald til útvarpstjóra og í kjölfarið fengið hringingu.

Á facebook fóru 2-3 einstaklingar með háðuleg ummæli um framlag bókhaldarans í Spegli RÚV, þar sem átti að fjalla um Kennedy, en bókhaldarinn fjasaði um flest annað. Til dæmis að Vestur-Svíar hefðu það betra en Svíar sjálfir!

Nú hefur bókhaldarinn búið til nýjan óvinalista í excel; fólk sem lækað hefur háðið í garð bullsins. Skrifaði pistil um niðurstöðuna og kallar þar allskonar fólk „vinstrimenn“ sem enginn fótur er fyrir að séu til vinstri (þótt það „læki“ eitthvað sem er andstætt vel-líkan bókhaldarans).

Hví eru Margrét Tryggvadóttir og Jón Þórisson flokkuð til vinstri? Mér sýnist megnið af upplistuðu fólki (óvinum) vera baráttufólk úr Búsáhaldabyltingunni, fólk sem er stolt af því að hafa komið Hrun-stjórn bókhaldarans frá völdum, fólk sem í kosningum hefur algerlega og absólútt hafnað nýfrjálshyggju bókhaldarans, fólk sem er búið að fá yfirum nóg af ruglinu sem upp úr bókhaldaranum kemur.

Bókhaldarinn er fyrir löngu búinn að yfirgefa fyrrum uppáhaldstilvitnun: „Forgive your enemies, but don´t forget them“ og stímir nú áfram undir „Neither forgive your enemies nor forget them„. Eflaust sannfærður um að hans tími sé aftur kominn.

Vona að fært verði til bókar: Ég er búinn að „læka“ viðkomandi facebook-statusa.

Uppfærsla:

Ákvað að leika mér svolítið við bókhald að hætti bókhaldarans. Ef þeir sem „læka“ viðkomandi færslur Margrétar Tryggvadóttur og Jóns Þórissonar eru „öfgavinstrimenn“ leyfi ég mér að gagnálykta að þeir sem sí og æ „læka“ statusa bókhaldarans séu nokkuð greinilega öfgahægrimenn. Og hverjir eru þeir þá? Miðað við gærdaginn og 35 síðustu statusa bókhaldarans þá eru það þessi í topp 18 sætum:

Ársæll Jónsson = 19

Haraldur Örn Pálsson = 19

Jón Ragnar Ríkharðsson =  14

Hafthor Gunnarsson = 13

Örn Bergmann Jónsson = 11

Guðrún Hanna Ólafsdóttir = 9      

GuðBjartur Kristján Kristjánsson = 8

Jón Þorbjörnsson = 8

Magnús Viðar Skúlason = 8

Ásgeir Jóhannesson = 7

Haukur Hauksson = 7

Gunnlaugur Jónsson = 7

Ásgeir Geirsson = 6

Skafti Harðarson = 5

Gústaf Níelsson = 4

Jóhann Gunnarsson = 4

Kjartan Magnússon = 4

Elís Rúnarsson = 4

Í raun kemur það mér mest á óvart hversu fáir nafntogaðir sjálfstæðisforkólfar eru almennt og yfirleitt að „læka“ hjá bókhaldaranum!

Flokkar: Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 21.11.2013 - 12:40 - Rita ummæli

Aðstoðarmanna-farsinn

Enn einn aðstoðarmaður ráðherra hefur litið dagsins ljós, nú hjá fjármálaráðherra.

Hagræðing og sparnaður eru einkunnarorð ríkisstjórnar SDG, nema þegar kemur að ríkisstjórninni sjálfri. Ekki einasta fjölguðu stjórnarflokkarnir ráðherrum og hyggjast fjölga þeim enn, heldur er aðstoðarmannalið ráðherranna komið upp í rúm tvö handboltalið. Þarna má auka útgjöld um tugi og hundruð milljóna – og formaður fjárlaganefndar hefur meira að segja uppgötvað orðfæri til að varpa sökinni á síðustu ríkisstjórn! Það er aldeilis vel af sér vikið, en auðvitað í hróplegu ósamræmi við raunveruleikann.

Þetta er kjarni skilaboðanna: Við skerum niður aðstoð við alþýðuna og annað fólk sem berst í bökkum, en aukum aðstoð við ráðherra-elítuna.

Svona er forgangur silfurskeiðarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Mánudagur 11.11.2013 - 01:32 - 11 ummæli

Kynjahlutföll meðal viðmælenda (varúð: storkun)

Þessa dagana eru kynjahlutföllin meðal viðmælenda í fjölmiðlum “heitt” mál. Það er gott. En ekki beint nýtt af nálinni. Á mínum 30 árum í blaða- og fréttamennsku kom þetta líka oft og iðulega til umræðu á ritstjórnum. Á einhverjum þessara fjölmiðla var efnt til átaks til að fjölga kvenkyns viðmælendum og á engri þessara ritstjórna kannast ég við að menn væru á móti því að tala oftar við konur en gert hefði verið. Ég man eftir listum sem brúkaðir voru til að vita og kunna meir hvar vænlega kvenkyns viðmælendur væri að finna.

Ég man líka vel hversu treglega þessar heitstrengingar gengu (nema kannski í blabyrjun). Ekki gerði ég rannsókn á þessu og veit ekki um djúpar íslenskar rannsóknir sem skýra þetta. Sumar skýringar virðast blasa við en aðrar fara kannski huldu höfði. Ein skýring sem auðvitað blasir við er að fjölmiðlar tala gjarnan við “toppana” og á meðan karlarnir eru með yfirburðastöðu á “toppunum” er þá skiljanlegt að slagsíða sé einhver. Ekki síst ef “toppar” fjölmiðlanna sjálfra eru að drjúgum meirihluta til karlar.

Að þessu frátöldu og að ekki sé um áþreifanlega mótstöðu gegn auknu jafnrétti að ræða á ritstjórnunum beinast augun að öðrum þáttum. Þá er gagnlegt að setja sig í spor blaða- og fréttamanna og íhuga kringumstæður þeirra. Og þar höfum við ágætar rannsóknir, fræðimanna af báðum kynjum. Ritstjórnir glíma við undirmönnun og miklar og auknar framleiðnikröfur herja á hinar fáu hendur. Það er tímaþröng og vinnuálag og “deadline” er sífellt handan við hornið. Þessir hart keyrðu fagmenn þurfa að fá komment frá mörgum um margt og það þarf að vera komið í hús í gær frekar en í dag. Við erum að tala um hraðar hendur, gott fólk, þar sem “bestu” viðmælendurnir eru þeir sem svara fljótt og vel, gjarnan “í fyrirsögnum” og heimta ekki yfirlestur að viðtali loknu.

Alhæfum oggulítið út frá þessu – og ýkjum. Ofannefndar “kröfur” eru karlar mun líklegri til að samþykkja en konur. Konur eru nefnilega mun vandaðri en karlar. Það sem frá þeim kemur þarf að vera tipp-topp, ef ekki fullkomið. Þær vilja lesa yfir, ekki bara kvótin heldur efnið allt. Og þær breyta miklu og eru enda lengi að lagfæra.

Aðstæðurnar á ritstjórnum fjölmiðlanna eru óhagfelldar ábyrgu og vönduðu fólki eins og konum, en hagfelldar gasprandi og kærulausu fólki eins og körlum.  Íhugum þetta og veltum um leið fyrir okkur hvort kvenkyns blaða- og fréttamenn séu með skárra kynjahlutfall hjá viðmælendum sínum en karlkyns blaða- og fréttamenn. Mér er til efs að munurinn sé þá mikill. Og þá getum við byrjað á næsta kafla, sem eru svik kvenkyns blaða- og fréttamanna við kyn sitt, er það ekki? Og höfum þá í huga að konum hefur stórfjölgað á fjölmiðlunum á undanförnum árum, eru áreiðanlega að verða jafn margar og karlarnir og – íhugið það – konur eru snöggtum fleiri að læra til BA og MA í fjölmiðlafræði og blaða- og fréttamennsku. Samt breytast hlutföllin lítið meðal viðmælenda?

Vonandi breytast kringumstæðurnar og þá vonandi vegna þess að faglegir blaða- og fréttamenn fái aukið svigrúm til að vinna vinnu sína. Það er vænti ég talin betri leið en að konur gerist óvandaðar og kærulausar eins og karlar!

Flokkar: Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 7.11.2013 - 15:25 - 11 ummæli

Stjórnarskrá valinkunnra og innvígðra

Með formennsku Sigurðar Líndal yfir nýrri stjórnarskrárnefnd og eiginlegri varaformennsku Birgis Ármannssonar eru mörkuð djúp spor í áttina til baka í stjórnarskrármálum lýðveldisins. Þessi forysta er íhaldsemin uppmáluð og fær sérstakan hæglætis-stimpil með nærveru Jóns Kristjánssonar og tilvísunarinnar til hinnar settlegu en grunnu vinnu sem átti sér stað 2005-07.
Þetta fólk er að mínum gildisdómi líklegt til að vilja aftengja mikinn hluta, ef ekki meirihluta, tillagna Stjórnlagaráðs, þótt þjóðin hafi gefið ótvírætt grænt ljós á að þær tillögur skuli vera grunnur nýrrar stjórnarskrár. Í þeim efnum ber þessi nýja nefnd með sér að nú eigi ríkjandi flokkapólitík að taka við málinu – og koma regluveldislegu skikki á það. Það á að koma þjóðinni niður á jörðina. Aðeins verður farið út í það sem flokksstofnanir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og skjólstæðingar þeirra telja nothæft og skaðlaust mikilvægum hagsmunum.
Sú flokkspólitíska ákvörðun hefur verið tekin að þjóðin hafi lítt og helst ekkert með innleiðingu nýrrar stjórnarskrár að gera. Slíkri vinnu eigi „valinkunnir“ og „innvígðir“ að sinna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 23.10.2013 - 18:26 - Rita ummæli

Hverjum er (nú) kennt um efnahagshrunið?

lillo á útifundi 2Geysilega spennandi fyrirlestur á Þjóðarspegli Félagsvísindastofnunar HÍ nú á föstudag, eftir Huldu Þórisdóttur. Ágrip fyrirlestursins:

„Allt frá því að efnahagshrunið skall á í október 2008 hafa Íslendingar krafist þess að fá að vita hvers vegna fór sem fór og hverjum sé um að kenna. Í þessum fyrirlestri er spurt að því hvort að nú fimm árum, búsáhaldabyltingu, Rannsóknarskýrslu Alþingis og nokkrum ólíkum kosningum síðar, það hafi breyst frá 2009 til 2013 hverjum Íslendingar kenna um hrunið. Greind verða gögn úr íslensku kosningarannsókninni frá 2009 og 2013 til þess að leggja mat á þessa spurningu. Sett er fram sú tilgáta að þrátt fyrir að kjósendur kenni fyrst og fremst viðskiptabönkunum um hrunið þá hafi hlutfall kjósenda sem kennir stjórnmálamönnum um hrunið aukist milli kannnana. Þetta helgast af því að stjórnmálamenn hafa staðið í eldlínunni undanfarin ár á meðan útrásarvíkingar hafa dregið sig í hlé. Kjósendur Sjálfstæðisflokks eru taldir líklegri til að kenna neyslugleði almennings um hrunið heldur kjósendur annarra flokka. Niðurstöður verða greindar eftir stjórnmálaafstöðu, tilfinningum sem fólk upplifir í tengslum við hrunið og hvernig fólk metur stöðu efnahagsmála í dag“.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 14.8.2013 - 14:09 - 7 ummæli

Um afa minn og horfna flokkinn

Föðurafi minn og nafni var einlægur og ötull stuðningsmaður og talsmaður „gamla“ Framsóknarflokksins. Hann trúði á samvinnuhugsjónina og vildi allt til þess gera að bændur, leiguliðar, vinnufólk og önnur alþýða til sveita mætti upplifa framfarir og bættan hag, á öllum sviðum; í afkomu, í aðbúnaði, í samgöngum, með rafvæðingu sveitanna, með strandsiglingum, með bæði framþróun gömlu atvinnuháttanna og upptöku nýrra atvinnuhátta, með efldu félagslífi og áfram mætti telja.

Þetta var Framsóknarflokkurinn sem hélt uppi hagsmunum alþýðunnar og stuðlaði að vexti samvinnuhreyfingarinnar og kaupfélaganna – til höfuðs verslunar- og útgerðarauðvaldinu. Muni ég söguna rétt kom Hriflu-Jónas að stofnun bæði Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins og hafði þá hag alþýðunnar að leiðarljósi: Alþýðuna „á mölinni“ (Alþýðuflokkurinn var fyrir hana) og alþýðuna í sveitunum (Framsóknarflokkurinn var fyrir hana).

Friðrik afi minn dó 1983, en á þeim árum var samvinnuhreyfingin, þ.e. SÍS og kaupfélagsveldið, orðin allsvakalegt stórveldi, sem þó hafði veikar stoðir og hrundi ekki löngu seinna. Sagnfræðin mun án efa sýna að eigingjarnir fjárplógsmenn hafi sölsað undir sig eigur hreyfingarinnar, eigur sem bændur og önnur sveitaalþýða átti. Afi þurfti ekki að upplifa þau ósköp, né heldur upplifa þá óheillaþróun sem einkenndi hans gamla flokk næstu 25-30 árin, Halldórs- og Finnsárin.

Afi hefði ekki setið aðgerðarlaus og tekið þátt í því að snúa Framsóknarflokknum upp í andhverfu sína, horft aðgerðarlaus upp á flokk samvinnuhugsjónarinnar færast öfugu megin við Sjálfstæðisflokkinn í afturhaldi, þjóðrembu og sérhagsmunagæslu. Friðrik afi minn hefði fyrr sagt sig úr sínum kæra flokki en að upplifa flokkinn færa fólki eins og Vigdísi Hauksdóttur valdatauma. Ég leyfi mér að fullyrða að hann hefði litið svo á að flokkur sinn væri óþekkjanlegur orðinn og í raunni horfinn á braut. Honum hefði verið stolið, eins og eigum samvinnuhreyfingarinnar.

Þetta er minn röklegi gildisdómur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda · Viðskipti og fjármál

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is