Föstudagur 20.01.2012 - 00:48 - FB ummæli ()

Refsileysi elítunnar – að gefnu tilefni

Í dag verður rædd á Alþingi tillaga formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, um að draga landsdómskæru á hendur fyrrverandi forsætisráðherra til baka. Með þeim fyrirvara að frávísunartillaga verði lögð fram og samþykkt.

Við höfum öll fylgst með því í þrjú, löng ár hvernig aðalhrunvaldarnir hafa vaðið um á skítugum skónum og látið eins og ekkert hafi í skorist. Þeir sitja á þingi og kvarta jafnvel yfir lágum launum „efri millistéttar„. Þeir stunda sín viðskipti óáreittir, lifa í vellystingum hérlendis og erlendis, sumir á kostnað skattborgara, fá stórar afskriftir af risalánum sínum og gefa þjóðinni fingurinn. Þeir vinna ennþá í bönkunum og græða á tá og fingri. Þeir ritstýra og skrifa bækur, önnum kafnir við að endurskrifa söguna í því skyni að fegra sinn hlut og firra sig ábyrgð.

Nixon og Ford - With Liberty and Justice for Some

Nixon og Ford - With Liberty and Justice for Some

Nýverið kom út í Bandaríkjunum bók með áhugaverðum titli, svo ekki sé meira sagt:  With liberty and justice for some: How law is used to destroy equality and protect the powerful. Í lauslegri snörun yfir á ylhýra: Með frelsi og réttlæti sumum til handa: Hvernig lögin eru notuð til að útrýma jafnræði og vernda hina voldugu. Höfundur bókarinnar er Glenn Greenwald, fyrrverandi mannréttindalögfræðingur og höfundur tveggja metsölubóka um forsetatíð George W. Bush. Á síðasta ári hlaut Greenwald verðlaun fyrir rannsóknir á handtöku og illri meðferð á Bradley Manning og greinar um mál hans. Greenwald skrifar fyrir vefritið Salon.com.

Titillinn kemur ekki á óvart. Við höfum horft upp á það hvernig svokallað réttarríki hér á Íslandi hefur farið silkihönskum um suma – á meðan flestir hafa hvorki efni á að leita réttar síns né að verja sig af því það er svo dýrt. Auðmenn og stöndug fyrirtæki nota fjárhagslegt vald sitt til að þagga niður í gagnrýnum röddum með meiðyrðamálum. Sýknað er fyrir augljósa glæpi. Lagaklækir eru notaðir til að – já einmitt, útrýma jafnræði og vernda hina voldugu. Jafnt hér sem annars staðar.

Jón Þórisson snaraði efnislega útdrætti úr einum kafla bókarinnar sem ætti að höfða alveg sérstaklega til okkar Íslendinga.

Gyðja réttlætis - Halldór Baldursson

Við stöndum frammi fyrir því öðru sinni á rúmu ári, að mögulega koma kjörnir fulltrúar þjóðarinnar í veg fyrir réttarhöld yfir forsætisráðherra hrunstjórnarinnar. Illu heilli var aðeins samþykkt á sínum tíma að draga hann einan fyrir dóm en sleppa hinum þremur. Það voru óafsakanleg mistök en ekki sýknudómur yfir einum eða neinum. En ef réttað verður yfir Geir H. Haarde munu væntanlega ýmsir verða kallaðir til yfirheyrslu og þeim gert að svara spurningum dómenda – eiðsvörnum.

Ég vil fá þær upplýsingar. Þær skipta höfuðmáli. Hvort Geir yrði dæmdur sýkn eða sekur er í sjálfu sér aukaatriði, enda myndi sektardómur trúlega ekki gera annað en staðfesta ábyrgð hans sem forsætisráðherra og þar með ráðherra efnagsmála og Seðlabankans – og jafnvel sem fjármálaráðherra á árunum 1998 til 2005. Það tímabil var mjög mikilvægt í sögu aðdraganda hrunsins. Ég hef ekki trú á að honum yrði dæmd refsing í nokkru formi. Við vitum öll að Geir er fráleitt einn ábyrgur fyrir hruninu og það er ósanngjarnt að aðeins sé réttað yfir honum af öllum stjórnmálamönnunum sem hlut áttu að máli. Mun fleiri ættu að axla ábyrgðina sem flestir sitja nú í hægindum og hlakka yfir því að sök þeirra sé fyrnd. En svona er staðan og alþingismenn hafa engan rétt á að svipta þjóðina þeirri örlitlu réttlætisglætu og þeim upplýsingum sem réttarhöldin hefðu í för með sér. Jafnvel þótt svona sé í pottinn búið.

Í bókinni „With liberty and justice for some…“ fjallar Greenwald um hvernig stjórnmálaelítan í Bandaríkjunum hefur tryggt sér refsileysi (impunity). Í eftirfarandi kafla úr bókinni bendir Greenwald á, að náðun Fords á Nixon forseta í kjölfar Watergate hneykslisins hafi fest í sessi refsileysi valdastéttarinnar. En lítum á efnislega snörun Jóns Þórissonar á bókarbrotinu:

****************************************

„Eins og fjölmörg dæmi sanna var trúin á að refsileysi elítunnar sé bæði nauðsynleg og réttlætanleg fest í sessi meðal æðstu áhrifamanna. Á undanförnum árum hafa valdamiklir stjórnmálamenn og álitsgjafar stöðugt haldið fram að líta bæri framhjá alvarlegum glæpum æðstu ráðamanna. Ýmist í nafni almannahagsmuna eða skrumskældrar sanngirni. Rökin voru þau, að æðstu ráðamenn eigi mestan rétt á virðingu og skilningi.

Þetta viðhorf er nýtt og fordæmalaust við lögleysi líðandi stundar í Bandaríkjunum. Það er nú orðið mjög algengt og viðurkennt sjónarmið að tala fyrir refsileysi elítunnar. Og það hefur haft tilætluð áhrif: Bandaríkin eru orðin samfélag þar sem lög og réttur ná ekki til elítunnar, með öðrum orðum: Bandaríkin eru ekki réttarríki.

Ef hættan á raunverulegri refsingu fyrir að fremja glæpi er ekki lengur fyrir hendi  eru fá rök fyrir því að fylgja lögum og töluverð hvatning til að brjóta þau. Alexander Hamilton útskýrir hvers vegna:

„Það er grundvallarhugmynd laga, að þau hafi afleiðingar; eða, með öðrum orðum, brot varði fangelsi eða refsingu. Ef broti fylgir engin refsing eru samþykktir og reglur sem teljast til laga í raun lítið annað en ráðleggingar eða tillögur.“

Fyrir valdamestu elítur þjóðarinnar hafa lögin í raun verið útþynnt í að verða „lítið annað en ráðleggingar eða tillögur“. Þótt í sögu Bandaríkjanna séu mörg dæmi um refsilaust ólöglegt athæfi elítunnar þá er það fyrst í Watergate-málinu sem fram kemur kerfisbundið samþykki hugmyndarinnar um að slíkt athæfi eigi ekki að hafa lagalegar afleiðingar. Watergate-málið var eitt skýrasta dæmið um einbeittan brotavilja og umfangsmikla glæpi æðstu manna í ríkisstjórn Bandaríkjanna.

Nixon og Ford

Nixon og Ford

Þegar Watergate málinu lauk voru fáir sem efuðust um að ekki einungis nánustu ráðgjafar Nixons forseta hefðu framið alvarlega glæpi, heldur einnig forsetinn sjálfur – með skipunum um innbrot og tengda glæpi og/eða með því að reyna að koma í veg fyrir rannsókn málsins. Samt sem áður slapp Nixon við allar afleiðingar gjörða sinna, þökk sé náðun Geralds Ford, eftirmanns Nixons. Álitið var að Nixon hafi sjálfur tryggt útnefningu Fords gegn loforði um sakaruppgjöf.

Ford tilkynnti ákvörðun sína um sakaruppgjöf Nixons í ávarpi til þjóðarinnar þann 8.september 1974. Hinn nýi forseti hóf mál sitt á málamyndayfirlýsingu um réttarríkið: „Trú mín á jafnrétti allra Bandaríkjamanna fyrir lögum, óháð þjóðfélagsstöðu, er staðföst. Enginn er undanþeginn lögum, hvorki guðs né manna, en…“ – og hér bætti hann við nýskáldaðri viðbót sem eyðilagði merkingu áður sagðra orða – „…lögin eru ekki undanþegin raunveruleikanum„. Ford hélt síðan áfram og setti fram það, sem nú er orðinn staðlaður orðaleppur stjórnmálamanna til að réttlæta refsileysi.

„WATERGATE,“ þrumaði hann…

„…er bandarískur harmleikur sem við tókum öll þátt í. Harmleikurinn gæti haldið áfram í hið óendanlega nema einhver stöðvi hann. Niðurstaða mín er, að einungis ég geti það og fyrst svo er beri mér skylda til þess…

Eins og staðreyndirnar koma mér fyrir sjónir yrði fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í stað þess að njóta sömu meðferðar og aðrir borgarar sakaðir um lögbrot, refsað grimmilega og óhóflega. Annað hvort með því að neita honum um þann rétt að teljast saklaus þar til sekt hans er sönnuð eða með skyndimeðferð til þess að ákvarða sekt hans og þannig láta hann gjalda fyrir lagalega skuld við samfélagið.

Miklar seinkanir á málsmeðferð og langdregin réttarhöld myndu ýfa upp sárin. Þjóðin myndi aftur skiptast í fylkingar. Og trúverðugleiki frjálsra stofnana og ríkisvaldsins yrði aftur dregin í efa, bæði heima og erlendis…

Samviska mín segir mér, hátt og snjallt, að ég get ekki tekið þátt í að lengja þær martraðir sem héldu áfram við að opna þann kafla sem lokið er. Samviska mín segir mér að einungis ég, sem forseti, hafi stjórnarskrárbundið vald til að ljúka þessu máli tryggilega og innsigla það. Samviska mín segir mér að það sé skylda mín, ekki einungis að tryggja stöðugleika innanlands, heldur einnig að nota öll tiltæk ráð til að efla þann stöðugleika.“

Athyglisvert er að Ford bendir sérstaklega á samfélagsstöðu Nixons sem ástæðu fyrir því að hann skuli ekki dreginn til ábyrgðar eins og venjulegir Bandaríkjamenn – sem er fullkominn útúrsnúningur og höfnun á grundvallaratriði stjórnarskrárinnar. Lokaorð Fords,  – „…langri martröð þjóðarinnar er lokið“ (our long national nightmare is over) – er tilraun til að fegra svikin við réttarríkið: Við stöðvum „martröð“ lögbrota á æðstu stöðum með því að sópa þeim undir teppið, verndum gerendurna og látum eins og glæpirnir hafi aldrei verið framdir.

Rumsfeld, Ford og Cheney - Lægsti samnefnarinn

Rumsfeld, Ford og Cheney - Lægsti samnefnarinn

Við dauða Fords í desember 2006 kepptust framámenn við að hæla sakauppgjöfina sem hann veitti Nixon. Þeir kölluðu hana hetjudáð, stórvirki og fórnfýsi og blessuðu þannig forsendur ákvörðunarinnar. Það kemur ekki á óvart að fremstur í þessum flokki var Dick Cheney, fyrrverandi starfsmannastjóri Fords og þá varaforseti. Þegar hér var komið sögu, árið 2006, hafði Cheney sjálfur verið ásakaður um aðild að fjölda ólöglegra ákvarðana. Þær voru allt frá því að koma á pyntingum víða um heim, stuðla að njósnum um samborgara sína án dómsúrskurðar, til þess að afhjúpa njósnara CIA og spilla síðan fyrir rannsókn málsins.

Það þjónaði því augljóslega hagsmunum Cheneys að nýta dauða Fords til að styrkja áróðurinn um að refsileysi elítunnar þjóni ekki valdastéttinni heldur þjóðarhagsmunum. Við útför Fords dásamaði Cheney fyrrverandi yfirmann sinn með því að lýsa náðuninni sem þátt í björgun þjóðarinnar…

Til að gæta sanngrini gagnvart Dick Cheney þá kveður við sama tón hjá fleirum. David Broder, blaðamaður Washington Post og svokallaður leiðtogi blaðamanna í Washington, talaði fyrir hönd margra fyrrverandi og núverandi blaðamanna þegar hann spurði hvað hefði gerst ef Nixon hefði ekki verið náðaður.

„Ég giska á að skapast hefði mikill þrýstingur frá almenningi um að ákæra Richard Nixon þar sem margir samstarfsmenn hans úr Hvíta húsinu höfðu þegar verið ákærðir. Langdregin réttarhöld hefðu orðið erfið raun fyrir landið sem Ford forseti vildi hlífa Bandaríkjamönnum við.“

Sakaruppgjöfin kom að sjálfsögðu ekki hinum almenna Bandaríkjamanni til góða, heldur Richard Nixon. Þökk sé ákvörðun Fords, var Nixon sjálfum hlíft við þeim refsingum sem hann – í hlutverki hins „law and order“ Repúblíkana – hafði allan sinn starfsferil lagt áherslu á að koma yfir venjulega Bandaríkjamenn sem komust í kast við lögin, hversu léttvæg sem brotin kynnu að vera. Samt sem áður var náðun valdamesta manns landsins stöðugt dregin fram sem dæmi um vildargjöf til almennings sem – eins og endurtekið var í sífellu – var þannig hlíft við angist, biturð og skömm við að sjá leiðtoga sinn dreginn til ábyrgðar fyrir glæpi sína eins og hver annar almennur borgari hefði verið.

Frelsi og réttlæti fyrir suma

Frelsi og réttlæti fyrir suma

Sakaruppgjöf Nixons, og hvernig hún var „seld“ landsmönnum, varð fyrirmyndin að réttlætingu á refsileysi elítunnar. Um þessar mundir, með örfáum undartekningum, eru dregnar fram sömu ástæðurnar til að sleppa einhverjum úr stjórnmálaelítunni í hvert skipti sem einhver þeirra er staðinn að verki við glæpsamlegt athæfi.  Saksókn opinberra embættismanna dregur okkur aftur til umdeildrar fortíðar þegar við ættum að horfa fram á veginn. Það er rangt að „glæpavæða deilur um stefnumörkun“ – það er að segja glæpi sem framdir eru í krafti póitísks valds. Stjórnmálaelítur sem fremja glæpi við skyldustörf „vilji vel“ og eigi þar af leiðandi ekki skilið sömu meðferð og venjulegir glæpamenn. Ennfremur að stjórnmálamenn, sem hraktir eru úr embætti og missa mannorð sitt, hafi þegar „þjáðst nóg“.  Að sækja þá til saka myndi leiða til vítahrings hefnda. Þannig sé pólitískur stöðugleiki mikilvægari en nauðsyn þess að uppfylla kröfur réttarríkisins.

Það er óþarfi að taka fram, að eðli málsins samkvæmt eru allar glæparannsóknir endurlit til fortíðar fremur en til framtíðar. Allar glæparannsóknir eru íþyngjandi fyrir hinn grunaða, kosta mikla fjármuni og tíma og ferlið er að mörgu leyti gallað. Þjóðin stendur sífellt frammi fyrir brýnum áskorunum og áríðandi vandamálum sem fjölmiðlasjúkir saksóknarar draga athyglina frá. Allir sem sakaðir eru um alvarlega glæpi líða margvíslegar þjáningar löngu áður kemur að raunverulegri refsingu og óháð henni. Þótt það sé rétt að rannsóknir vegna aðildar stjórnmálamanna að glæpum í starfi leiði óhjákvæmilega til deilna og grafi undan pólitísku jafnvægi, þá jafngildir það í raun útgáfu leyfis til að fremja lögbrot að nota þessi rök fyrir undanþágu frá lögsókn.

Þessi afstaða lýsir duldum ástæðum þess að stjórnmála- og fjölmiðlamenn verja refsileysi elítunnar: með því að verja rétt annarra valdamikilla einstaklinga til að fremja lögbrot, styrkja þeir í sessi hefð sem þeir gætu sjálfir þurft að grípa til ef þeir fremja sjálfir glæpi og sæta ákæru síðar. Þetta er stéttbundin eiginhagsmunagæsla. Þess vegna er trúin á þessi forréttindi og alúðin við að verja þau óháð pólitískri hugmyndafræði eða flokkum, ímynduðum gjám milli stjórnmála- og fjölmiðlamanna og öllum öðrum meintum hagsmunaárekstrum innan valdastéttarinnar. Það er hagur allra í forréttindastétt stjórnmála jafnt sem fjármála, óháð hlutverki eða stöðu, að viðhalda þessari friðhelgi. Atburðir síðasta áratugar eru óhjákvæmilegar afleiðingar friðhelgi elítunnar: Viðvarandi og ótakmörkuð spilling og glæpir elítunnar.“

****************************************

Hér er viðtal við höfund bókarinnar, Glenn Greenwald. Yfirskrift viðtalsins í þættinum Conversations With History á Guernica-vefnum er athyglisverð: „Glenn Greenwald analyses the relationship between principle, power, and law, and describes the erosion of justice in the United States.“ Á íslensku útleggst þetta eitthvað á þessa leið: „Glenn Greenwald kryfur tengsl lögmáls, valda og laga og lýsir útrýmingu réttlætis í Bandaríkjunum.“ Er þetta líka að gerast á Íslandi? Maður spyr sig…


.

Í gærkvöldi skrifaði Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor í Háskóla Íslands, þetta á Facebook-vegginn sinn:

‎“Í byrjun apríl 2008 voru forsætisráðherra og utanríkisráðherra kölluð á fund bankastjóra Seðlabankans. Þar var þeim sagt að Icesave reikningarnir í London ættu 6 daga eftir „ólifaða“. Fjármagn rynni út af reikningunum en gjaldeyrisforði Seðlabankans væri aðeins 1/7 af þeirra upphæð sem breskir innistæðueigendur væru að innleysa þar. – Þetta var áhlaup. – Það var hættuástand. – Ein harðasta milliríkjadeila sem Ísland hefur átt í var í uppsiglingu.

Að loknum fundi fóru ráðherrarnir heim til sín í kvöldmat. Ekkert var aðhafst. Ekkert samband var haft við kollega í London til að kanna hvaða staða væri að koma upp og hvað menn kynnu að þurfa að búa sig undir við þessar aðstæður.“

Það mátti heyra saumnál detta þegar nemendur mínir í HÍ hlustuðu á gestafyrirlesarann okkar lýsa þessu atviki í fyrirlestri dagsins. Til er nokkuð sem kallast á máli lögfræðinnar „hættubrot“, en það er þegar fólk lætur hjá líða að kalla til sjúkrabíl þegar menn horfa upp á deyjandi mann.

Fyrirlesarinn var einn af sérfræðingunum sem unnu að rannsókninni sem birtist í Rannsóknarskýrslu Alþingis.

Að lokum skulum við rifja upp ályktun, sem samþykkt var samhljóða á Alþingi 28. september 2010. Hverjar hafa efndirnar verið? (Smellið í læsilega stærð.)

Þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010

Þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010

Flokkar: Bloggar

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Ummæli

 • Vönduð úttekt og áhugaverð lesning. Vona að „rúlla yfir“ syndrómið sem var afhjúpað í dag, með frussulegum ályktunum í kjölfarið, sé einangrað við þykka veggi Alþingis.

 • Takk fyrir þetta, Lára Hanna. Nauðsynlegt að ryfja upp, áður en byltingin byrjar. Valdarán er boðað með hroka – látum þau ekki komast upp með það!

 • Við fyrsta lestur fannst mér þetta vera þrusugrein hjá þér Lára.
  En mér finnst vanta alla ádeilu á núverandi stjórnvöld.

  Þú gleymir að nefna nýju upplýsingalögin sem myndu gera þessi réttarhöld að skrípaleik.

  “ 5. gr.
  Gögn undanþegin upplýsingarétti.

  Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur ekki til:
  1. fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi,
  2. gagna sem útbúin eru af sveitarfélögum, samtökum þeirra eða stofnunum og varða sameiginlegan undirbúning, tillögugerð eða viðræður þessara aðila við ríkið um fjárhagsleg málefni sveitarfélaga,
  3. bréfaskipta við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað,
  4. gagna sem ráðherra aflar frá sérfróðum aðilum vegna undirbúnings lagafrumvarpa,
  5. gagna sem tengjast málefnum starfsmanna, sbr. 7. gr.,
  6. vinnugagna, sbr. 8. gr. “

  Þetta minnir á minnisblöðin hans Davíðs, sem hann vildi ekki láta af hendi.

  Er það ekki?

  Sé fyrir mér Geir neita að svara í annarri hvorri spurningu og vitna í upplýsingalög, sem núverandi stjórnvöld eiga heiðurin að.

  Já, við stöndum frammi fyrir því að núverandi ríkisstjórn gerðu ókomin réttarhöldin að skrípaleik, með lögum sem verða ekki afturvirk, að mér skilst.

 • Mér finnst viðbjóðslegt hvernig núverandi stjórnvöld traðka á almenningi.

  Dæmi í upplýsingalögum.

  „Aðgangur aðila að upplýsingum um hann sjálfan.

  14. gr.

  Upplýsingaréttur aðila.

  Skylt er, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan.
  Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki:
  1. um gögn sem talin eru í 6. gr., “

  „6. gr.

  Gögn undanþegin upplýsingarétti.

  Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur ekki til:
  1. fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi,
  2. gagna sem útbúin eru af sveitarfélögum, samtökum þeirra eða stofnunum og varða sameiginlegan undirbúning, tillögugerð eða viðræður þessara aðila við ríkið um fjárhagsleg málefni sveitarfélaga,
  3. bréfaskipta við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað,
  4. gagna sem ráðherra aflar frá sérfróðum aðilum vegna undirbúnings lagafrumvarpa,
  5. gagna sem tengjast málefnum starfsmanna, sbr. 7. gr.,
  6. vinnugagna, sbr. 8. gr. “

  Sem sagt, öll samskipti sveitarfélaga og ríkisins um upplýsingar um hana/hann sjálfa/ann, koma þér, sem hann eða hún, ekki við!

  Ég tek undir orð Smára McCarthy

  „Ríkið er til fyrir tilstilli vilja almennings. Almenningur skipar stjórn þess, og stjórnin starfar í þágu almennings.

  Allar upplýsingar sem ríkið hefur undir höndum varða því við almenning. Í einhverjum tilfellum getur verið mikilvægt að almenningur hafi ekki aðgang að gögnunum almennt, því þær upplýsingar geti leitt til vandræða fyrir ákveðna einstaklinga, veikt stöðu rannsókna á glæpum, eða gefið öðrum löndum færi á að skaða okkur, en almenningur á rétt á því að vita hvaða upplýsingar það eru.“

 • Jóhann Gunnarsson

  … Lára Hanna… líkt og í JFK hylmingu Warren nefndarinnar… vill skera eigin félaga niður úr hrun snöruni…Össur… ISG … Björgvin G… og Jóhönnu …

  …Warren nefndin skipuð helstu andstæðingum JFK… eins og Allen Dulles fv CIA forstj sem JFK rak… og Gerald Ford eina forseta USA sem aldrei var kosinn… ofl … en allir helstu „players“ Watergate … áttu þátt í JFK hylmgunni… sem Lára Hanna líkir við Landsdómsmál Geirs Haarde …

  … Lára Hanna tekur réttlætinu fullnægt… ef Geir Haarde þarf að eyða 4-5 árum af stuttri starfsævi í að verja sig með tugmilljóna kostnaði …

 • Þorgrímur Gestsson

  sÁ SEM SÍÐSTUR TÓK TIL MÁLS HÉR VIRÐIST EKKERT HASFA SKILIÐ AF ÞVÍ SEM HÉR STENDUR.

 • Bjarnveig Ingvadóttir

  Þrátt fyrir góða greiningar oft á tíðum hjá þér Lára Hanna, þá forðastu alltaf að tala um þátt Samfylkingarinnar.
  Og minnist helst ekkert á að núverandi ríkisstjórn hefur akkúrat engu breytt.

 • samfylkinging getur sjálfri sér um kennt hvernig þetta hefur farið, með því að velja Geir einann sem sökudólg en sleppa hinum 3 sem voru jafn ”sekir” og Geir. Sama ömurlega pólitíkin sem var og mun verða áfram.

 • Fín grein og ágæt samantekt eins og oft áður.. En þetta allt saman varð að skrípaleik við fyrstu atkvæðagreiðslu, þegar sumir voru undanþegnir málssókn á pólitískum forsendum og tillaga Sjálfstæðismanna er í raun ekkert annað en sami farsinn bara þáttur 2.

  Til viðbótar þá er þáttur 3 í farsanum frávísunartillaga Ólínu og félaga..

  Með þessu er ég ekki að taka afstöðu með eða á móti, ég er einungis að benda á að þetta mál er meira og minna útatað í pólitískum fingraförum allra flokka og í raun orðið handónýtt af þess völdum.. Hefði mönnum borið gæfa til að leggja flokklínur til hliðar þegar þessi vegferð hófst og vinna með staðreyndir og sönnunargögn þá værum við ekki að ræða þetta hér.

 • Þorsteinn Úlfar Björnsson

  Stjórnskipunarréttur, bls. 179 um Landsdómsferlið:

  Þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun og kosið sækjanda […] er málið komið úr höndum þingsins. Hvorki hið sama þing né annað nýskipað getur eftir það afturkallað málsókn.

 • Góðar athugasemdir hjá Leibba.

 • Góð færsla. Mæli svo með fyrri hluta þessa pistils http://gudmundur.eyjan.is/2012/01/rettltisvitund-samfelagsins-ofboi.html

 • Hlynur Jörundsson

  Ég skil hvað þú ert að fara Lára … en ef við heimilum krimmum að koma með meyjarfórnir á sínum „málefnarlegu“ grundvelli og þeirra „túlkun“ … þá erum við komin á byrjunarreit.

  Svo … já … samþykkja tillögu Bjarna og afnema líka í leiðinni alla fyrningarfresti 30 ár aftur í tímann.

  Og þá fenguð þið loksins að sjá viðbrögð valdaelítunnar … það sem er að gerast og gerðist eru bara hefðbundin vinnubrögð sem þjóðin hefur liðið með aðgeraðleysi af því einungis hluti hennar var höggvinn niður við trog … nú er sá hluti orðinn það stórt hlutfall að erfitt er að halda áfram nema sefa lýðinn … með sýndarleikjum og meyjarfórnum. Og þetta Landsdómsmál er bara show.

 • Svo er fólk dæmt í átta mánaða fangelsi hér á landi fyrir að stela lambalær. Mér dettur í hug Jón Hreggviðsson af þessu tilefni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is