Laugardagur 21.10.2017 - 00:22 - FB ummæli ()

Jafnrétti á Kex hostel

Ég var á fundi í kvöld á Kex hostel um jafnréttismál sem fulltrúi Framsóknar. Fundurinn var bæði góður og skemmtilegur. Í mínum huga snýst jafnrétti um það að taka tillit til þarfa ólíkra einstaklinga í allri stjórnun og stefnumótun og reyna að byggja samfélagið okkar upp þannig að það rúmi allt fólk eins ólíkt og það er.

Jafnrétti er mannréttindamál

Jafnrétti er eitt af grunnstefum samvinnu- og framsóknarstefnunnar. Við nálgumst jafnrétti sem mannréttindamál. Í stefnu okkar kemur fram að það er bannað að mismuna eftir kyni, aldri, fötlun, kynhneigð, kynvitund, trú eða stöðu að öðru leyti. Innan Framsóknar starfar jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúi sem vinnur að jafnrétti innan flokksins. Sett er jafnréttisáætlun og allar stofnanir flokksins hvattar til að setja sér starfsáætlun í jafnréttismálum. Markmiðið er að ná jafnri þáttöku félagsmanna óháð uppruna, sérkennum, kyni, aldri eða öðru í störfum á vegum flokksins. Flokkurinn setur sér það markmið að hlutur karla eða kvenna í trúnaðar- eða ábyrgðarstöðum innan flokksins sé ekki lakari en 40%.

Framsóknarflokkurinn kom á feðraorlofinu

Framsóknarflokkurinn hefur á síðustu 100 árum staðið framarlega í jafnréttismálum. Nefna má nokkur dæmi. Rannveig Þorsteinsdóttir, fyrsta þingkona framsóknarmanna, var fremst í baráttunni fyrir lítilmagnann, fyrir jafnrétti og kvenfrelsi um miðja síðustu öld. Hún braust til mennta á miðjum aldri og varð fyrst kvenna til að öðlast hæstaréttarlögmannsréttindi. Árið 2000 lagði Páll Pétursson þáverandi félagsmálaráðherra fram lagafrumvarp um breytingu á fæðingarorlofi þar sem feðraorlof kom til sögunnar, sbr. lög frá 2000. Feðraorlofið er eitt brýnasta jafnréttismál samtímans.

Áherslur Framsóknar í jafnréttismálum

Mikilvægt er að hafa jafnréttismálin alltaf í forgrunni. Helstu áhersluatriði á komandi misserum eru að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Þar leggjum við meðal annars áherslu á að bæta meðferð ofbeldismála í dómskerfinu og bæta aðgengi á landsvísu að sálfræðimeðferð vegna nýrra og eldri áfalla. Einnig er mikilvægt að jafna hlutfall kynjanna í valdastöðum þar meðtalið innan stjórnmálanna. Ráðast þarf gegn kynbundnum launamun en meðal ananrs þarf að skoða kynjaskiptingu vinnumarkaðarins í því samhengi. Mikilvægt er að stytta vinnuvikuna og lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði.

Breyttur heimur og jafnrétti í sinni víðtækustu mynd

Stuttur pistill getur ekki rúmað öll áhersluatriði í jafnréttismálum. Fleiri atriði eru mjög mikilvæg og má þar nefna til dæmis, lögfesting Notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA), vinna vegna manngerðs aðgengis á öllum sviðum (aðgengi að byggingum, aðgengi að vefsíðum og fleira). Einnig þarf að huga að breyttum áherslum í jafnréttismálum þar sem velta má upp hvort í dag gangi upp að hafa aðeins karla og kvennaklósett því hvar á aðili sem skilgreinir sig hvorki sem karl eða kona að pissa? Það sama á við um búningsklefa í sundlaugum.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 19.10.2017 - 00:11 - FB ummæli ()

Konur, áföll og fíkn

Ég sótti góðan fund í kvöld sem fulltrúi Framsóknar um konur, áföll og fíkn. Hann var haldinn á vegum Rótarinnar. Á fundinn mættu fulltrúar allra flokka þar sem gagnleg umræða átti sér stað.

Framsókn gegn ofbeldi

Eygló Harðardóttir fyrrverandi félagsmálaráðherra vann ötullega að þessum málum. Í hennar tíð var unnin framkvæmdaáætlun gegn ofbeldi, opnuð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis (Bjarkarhlíð), ráðið í stöður sálfræðinga á stærstu sjúkrahúsunum til þess að veita áfallamiðaða sálfræðimeðferð, Barnahús var eflt til þess að sinna fötluðum börnum og börnum sem orðið hafa fyrir líkamlegu ofbeldi, settir voru auknir fjármunir í ýmis félagasamtök sem koma að þessum viðkvæmu málum og margt fleira. Þeim sem vinna á sviðinu sem ég hef heyrt í ber saman um að Eygló hafi staðið sig einstaklega vel í þessum málaflokki.

Áherslur Rótarinnar

Samtökin Rótin og talskona þeirra Kristín I. Pálsdóttir hafa unnið hörðum höndum að umbótum. Meðal annars var unnin ítarleg greinargerð um konur og fíkn sem kynnt var heilbrigðisráðherra s.l. sumar. Vinna þessara grasrótarsamtaka er til fyrirmyndar. Þar er meðal annars lögð áhersla á að taka þurfi heildstætt á þessum vanda, veita viðeigandi áfallamiðaða og kynjamiðaða meðferð sem er aðgengileg og sniðin að hverjum og einum. Rannsóknir hafa sýnt að 70-90% þeirra sem þurfa meðferð vegna áfengis- eða vímuefnavanda hafa orðið fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi og 30-50% þjást af áfallastreituröskun. Til þess að ná rót vandans er lykilatriði að veita meðferð við áfallastreituröskun samhliða fíknimeðferð annars er alltaf verið að höggva bara njólann sem sprettur upp við fyrsta tækifæri aftur.

Áherslur Framsóknar

Við tökum undir margt af því góða sem kemur fram í vinnu Rótarinnar. Við leggjum jafnframt áherslu á:

  • Forvarnir og fræðslu sem hefst strax í grunnskóla.
  • Skimun á áföllum og starfsfólk sé þjálfað upp í að spyrja börn um ofbeldi og tilkynna til barnaverndar þegar þarf.
  • Viðeigandi meðferð fyrir gerendur og eflingu sálfræðiþjónustu Fangelsismálastofnunar.
  • Eflingu á áfallamiðaðri sálfræðimeðferð bæði vegna nýrri og eldri áfalla og þjónustan sé aðgengileg í öllum heilbrigðisumdæmum.
  • Eflingu annarra úrræða og niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu.
  • Lögfesta rétt til neyðarathvarfs fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum og mansals í takt við nýleg norsk lög.
  • Huga sérstaklega að ofbeldi gegn fötluðu fólki.

Ég vil vinna að þessum umbótum. Þær eru mjög þarfar og séu þær vel útfærðar mun fjármagnið sem fer í verkefnið skila sér margfalt tilbaka aftur til samfélagsins.

Til þess þarf ég þinn stuðning.

X-B

Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 17.10.2017 - 23:47 - FB ummæli ()

Viltu plastpoka? Nei, takk!

Ég var spurð að þessu í verslun í dag og gaf þetta svar. Undanfarið hef ég æ oftar afþakkað plastpoka. Fyrir nokkrum árum hefði mér ekki komið það til hugar. Í dag reyni ég að endurvinna allt plast sem ég get á heimili mínu. Það hefði ég heldur ekki gert fyrir nokkrum árum. Umhverfisvitund mín hefur sem betur fer aukist eins og hjá fólki almennt. Eins og staðan er þá er þetta ekki þörf heldur nauðsyn. Við verðum að bregðast við og gera það strax. Okkur ber skylda til þess að vera ábyrg í umhverfismálum sem íbúar þessarar jarðar. Plast er hættulegt lífríkinu og eyðist seint í náttúrunni eins og Hjálmar Ásbjörnsson kemur svo vel inn á í þessari grein.

Framsókn vill stórminnka notkun plasts og auka endurvinnslu

Fyrir komandi kosningar leggjum við framsóknarfólk áherslu á að stórminnka notkun plasts og aukna endurvinnslu. Við viljum hvetja fólk til að nota umhverfisvænar umbúðir, til dæmis taupoka þegar farið er í matvöruverslanir. Draga þarf úr notkun á öllum plastumbúðum, plastpokum, einnota plástáhöldum og auka kröfur um endurvinnslu á plasti.

Svissneska leiðin

Svisslendingar eru fyrirmyndarþjóð að mörgu leyti. Þeir hafa komið á fót skynsamlegum lausnum í húsnæðismálum sem við Framsóknarmenn höfum kynnt til að aðstoða ungt fólk við að eignast húsnæði. Þeir eru líka með sniðugar lausnir í umhverfismálum. Þar sem ég þekki til í Sviss virkar kerfið þannig að fólk endurvinnur allt sem er hægt að endurvinna og því er skilað í grenndargáma íbúanum að kostnaðarlausu. Óendurvinnanlegt rusl er eingöngu fjarlægt í ákveðnum sorppokum sem viðkomandi þarf að greiða fyrir. Hvatinn er því réttur í kerfinu, því meira sem þú endurvinnur því færri sorppoka þarftu og því meira sparar þú. Sniðugt, ekki satt?

Við viljum draga úr notkun á plasti og finna nýjar og sniðugar leiðir til að auka endurvinnslu.

Getum við ekki öll verið sammála um það?

Ég vil leiða slíkar breytingar og þess vegna býð ég mig fram í komandi Alþingiskosningum.

X-B

Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi.

 

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Lífið og tilveran · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 16.10.2017 - 17:09 - FB ummæli ()

Bætt geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Nýlegar rannsóknir hafa bent til þess að tilfinningavandi eins og kvíði og þunglyndi hafi aukist verulega hjá börnum og unglingum síðastliðin ár og 10% barna hér á landi taki geðlyf. Ómeðhöndlaður tilfinningavandi getur hamlað eðlilegum tilfinninga- og félagsþroska barna ásamt því að auka líkur á neyslu, brottfalli úr skóla, erfiðleikum í fjölskyldu og öðrum vanda. Ekki er ljóst hver orsök þessarar aukningar er en bent hefur verið á að aukin notkun barna og unglinga á samfélagsmiðlum geti ýtt undir vanlíðan. Einnig hefur verið bent á að samfélagsgerð okkar þar sem fjölskyldan nær ekki að verja nægilega miklum tíma saman geti haft áhrif. Löng bið og takmarkað aðgengi hefur verið að bestu mögulegu meðferð. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2016 var meðal annars bent á að þessi langa bið gangi gegn lögbundnum skyldum ríkisins, stefndi langtímahagsmunum samfélagsins og velferð borgaranna í tvísýnu og um kerfislægan veikleika væri að ræða sem yrði áfram til staðar nema ráðist yrði að rót hans. Ef ekki er tekið markvisst á geðheilsuvanda barna og unglinga aukast líkur á þungbærum og langvarandi afleiðingum svo sem alvarlegum geðrænum vanda á fullorðinsárum og örorku. Meðal annars var hvatt til þess að sett yrðu skýr gæðaviðmið um ásættanlegan biðtíma.

Hvað er til ráða?

Mikilvægt er að bregðast við þessu því við viljum börnum okkar hið besta. Börn og unglingar eru framtíðin og með því að leysa úr vanda þeirra er verið að leysa úr framtíðarvanda. Við framsóknarfólk viljum lengja fæðingarorlof foreldra í tólf mánuði því lengi býr að fyrstu gerð. Við viljum líka stytta vinnuvikuna því þannig aukum við möguleika fjölskyldna á samveru. Við viljum taka þátt í endurskipulagningu þess kerfis sem lýtur að geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga þar sem meðal annars er aukið aðgengi að gagnreyndri sálfræðiþjónstu.

Aðgerðaáætlun um bætta geðheilbrigðisþjónustu og aðgengi að sálfræðimeðferð

Við framsóknarfólk, undir forystu Karls Garðarsonar þáverandi þingmanns, lögðum fram þingsályktunartillögu í apríl 2014 um aðgerðaáætlun um bætta geðheilbrigðisþjónustu og aðgengi að sálfræðimeðferð fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Sú tillaga var felld inn í þingsályktunartillögu um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Í þeirri tillögu er meðal annars lagt til að allir nemendur 9. bekkjar séu skimaðir fyrir kvíða og þunglyndi og þeim sem þess þurfa verði boðið upp á gagnreynt námskeið sem byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar en það er sú meðferð sem á að vera fyrsta meðferð við kvíða og vægu til miðlungs þunglyndi.

Við viljum halda áfram á þessari braut og biðjum um stuðning ykkar í komandi kosningum.

X-B

Kristbjörg Þórisdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi

Willum Þór Þórsson, skipar 1. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi

(greinin birtist á dögunum í Kópavogspóstinum)

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 14.10.2017 - 20:46 - FB ummæli ()

Kjóstu með geðheilbrigði

Góð geðheilsa er gulli betri. Geðrænn vandi er algengur en oft falinn vandi í samfélaginu. Rannsóknir hafa sýnt að þriðjungur fólks þjáist af geðröskun á ári hverju, helmingur einhvern tímann á ævinni og einn af hverjum þremur sem kemur á heilsugæsluna kemur vegna geðræns vanda. Því er spáð að þunglyndi verði helsta ástæða örorku 2030. Tæplega fjórðungur þeirra sem eru á örorku eru það vegna geðraskana. Ungum karlmönnum á örorku hefur fjölgað síðustu ár og sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra karlmanna 18-24 ára hér á landi. Ógreindur og ómeðhöndlaður geðrænn vandi veldur alvarlegum afleiðingum fyrir þann sem þjáist, fjölskyldu viðkomandi og samfélagið allt. Lífsgæði glatast, skerðing verður á vinnuframleiðni, aukin þörf á þjónustu félags- og heilbrigðisþjónustu og tap vegna glataðra tekna og hærri útgjalda úr almannatryggingakerfinu. Í dag er aðgengi að bestu mögulegu meðferð allt of takmarkað og þjónustan sem fólk fær er of lítil, of langt í burtu og kemur of seint.

Við viljum umbætur í geðheilbrigðiskerfinu. Við ætlum að efla forvarnir og auka aðgengi að bestu mögulegu meðferð sem er hugræn atferlismeðferð samkvæmt leiðbeiningum. Við viljum endurskipulagningu á geðheilbrigðiskerfinu þar sem fólk getur fengið viðeigandi meðferð og þjónustu vegna geðræns vanda í nærumhverfi sínu um allt land hvort sem er í heilsugæslunni, skólum, öldrunarheimilum, hjá félagsþjónustu, sjálfstætt starfandi fagaðilum eða á sjúkrahúsum. Því fyrr sem vandi greinist og því fyrr sem fólk fær viðeigandi aðstoð því minni þjónustu þarf. Ráðast þarf í þjóðarátak gegn sjálfsvígum og vinna þarf gegn ofbeldi og þöggun þess.

Ég get lofað því að þessi mál eru mitt hjartans mál. Ég hef barist fyrir bættu aðgengi að sálfræðiþjónustu og umbótum á geðheilbrigðiskerfinu um árabil. Ákveðnar aðgerðir til umbóta eru þegar hafnar en betur má ef duga skal. Fjárfesta þarf sérstaklega í geðheilbrigðiskefinu. Sú fjárfesting mun strax skila sér tilbaka. Ég mun leggja áherslu á þessi mál á Alþingi Íslendinga. Til þess að ég geti gert það þarf ég stuðning þinn þann 28. október næstkomandi.

X-B

Kristbjörg Þórisdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi

(greinin birtist fyrst í Garðapóstinum 12. október 2017).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 11.10.2017 - 22:43 - FB ummæli ()

Litla stórmálið sem felldi ríkisstjórnina

Fyrir nokkrum árum hefði mál sem snýr að kynferðisofbeldi og þöggun þess líklega ekki fellt ríkisstjórn. Í dag er það raunin og þess vegna erum við að fara að kjósa 28. október n.k. Þolendur og aðstandendur þeirra hafa stigið fram og gert byltingu. Við erum ekki ein um þetta og núna skekur kynferðisofbeldismál Hollywood þar sem hver stjarnan á fætur annarri stígur fram vegna kynferðisbrots þekkts og valdamikils kvikmyndaframleiðanda. Viðhorf hafa breyst og skömminni er skilað til geranda. Þöggunin þrífst ekki eins vel lengur. Kynferðisbrotamál eru alltaf stórmál. Getum við ekki öll verið sammála um það?

Oft getur þolandi ekki varið sig

Í hundruðir ára hefur verið brotið kynferðislega á börnum og fullorðnum. Ein grimmilegasta árás sem hægt er að gera á aðra manneskju er að brjóta á henni kynferðislega. Árás sem er þess eðlis að oft getur þolandi ekki varið sig. Til þess að forða verri andlegum eða líkamlegum skaða bregst líkaminn við með því að frjósa. Þolandi sem frýs þegar brotið er á honum/henni getur því hvorki barist við ógnina né flúið hana. Afleiðingar kynferðisofbeldis eru gríðarlegar fyrir þolanda, ástvini viðkomandi og samfélagið allt. Því miður er allt of algengt að fólk geti ekki sagt frá, burðist með skömmina, reyni óhjálplegar leiðir eins og til dæmis neyslu vímuefna til að takast á við afleiðingarnar, missi fótanna í skóla eða á vinnumarkaði og einstaka aðilar svipta sig lífi. Sem betur fer jafna sumir sig á eðlilegan hátt eftir slík áföll en þeir sem ekki gera það geta fengið viðeigandi meðferð og náð að blómstra að nýju. Það er okkar stjórnmálamanna að tryggja það.

Stöndum með þolendum

Við höfum búið í samfélagi sem hefur of oft hlíft þeim sem beita kynferðisofbeldi. Skömmin hefur legið hjá þolandanum meðal annars með athugasemdum eins og „bauð hún ekki bara upp á þetta?“ Ábyrgðin á árásinni hefur legið hjá þolanda en ekki geranda. Þolendur hafa þurft að bíða allt of lengi eftir að mál þeirra fái rétta úrvinnslu í dómskerfinu. Ofan á allt þá höfum við verið með kerfi þar sem dæmdir ofbeldismenn hafa getað sótt um uppreista æru og fengið valinkunna menn til þess að mæla með sér. Jafnvel þó þeir sýni engin merki um að taka ábyrgð á gjörðum sínum eða iðrun. Þessu þarf að breyta. Kynferðisofbeldismál þurfa að fá hraða úrlausn dómstóla og við eigum alltaf að standa með þolandanum.

Stígum fram, upprætum þöggun, höfnum kynferðisofbeldi og stöndum alltaf með þolendum kynferðisbrota.

Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sætið fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi

X-B

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 8.10.2017 - 13:21 - FB ummæli ()

Traust og stöðugleiki

Við erum forréttindaþjóð. Við erum tæplega 340.000 og búum í stóru og gjöfulu landi. Hér eiga allir að geta blómstrað á sínum forsendum og átt góða ævi. Til þess þurfa stjórnmálamenn að geta skapað rétta umgjörð um samfélagið. Grunnstoðir þurfa að vera tryggar, fólk þarf að hafa frelsi til athafna og stuðning þegar á þarf að halda.

Stjórnarskrá okkar er samfélagssáttmáli sem þarf að skapa réttan ramma um hvernig við viljum haga málum okkar. Hávært ákall hefur verið um breytingu á stjórnarskránni til þess að mæta þörf á umbótum í stjórnarfari landsins. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hefur lagt á það áherslu að mikilvægt sé að endurskoða stjórnarskrána og ekki síst ákvæði um völd forseta Íslands. Þessu er framsóknarfólk sammála og hefur meðal annars ályktað um að tryggja þurfi í kosningum að forseti hafi skýrt umboð frá meirihluta þjóðarinnar. Flokkurinn hefur að auki ályktað um að hann sé hlynntur endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins og mikilvægt sé að horfa til breytinga sem lúta að nýju auðlindaákvæði, skýrum ákvæðum um beint lýðræði þar sem vægi þess er aukið meðal annars með lögfestingu reglna um þjóðarfrumkvæði. Jafnframt ályktaði flokkurinn um að ekki verði opnað á framsal fullveldis. Einnig hefur flokkurinn ályktað um að hann sé hlynntur persónukjöri. Það er mikilvægt að halda áfram þessari vinnu á næsta kjörtímabili enda er stjórnarskráin undirstaða alls annars. Hér þarf að vanda vel til verka.

Í ljósi þess óstöðugleika sem hefur ríkt er skiljanlegt að fólk upplifi þreytu og skortur sé á trausti. Við getum gert betur. Við getum skapað traust stjórnarfar þar sem stöðugleiki ríkir. Við höfum þekkingu og kjark til þess að koma mikilvægum hlutum í framkvæmd.

Eitt af því sem hefur valdið vandræðum undanfarin misseri eru mál vegna einstaklinga sem telja sig vel til þess fallna að vera í forystu fyrir íslenskt samfélag en eru ekki tilbúnir til þess að deila samfélaginu með okkur hinum. Þeir velja það til dæmis að geyma sitt fé í skattaskjólum erlendis. Til þess að traust og stöðugleiki skapist er mikilvægt að fólk veljist til forystu sem er tilbúið til þess að deila samfélaginu með þeim sem þeir ætla að starfa fyrir. Þannig verður uppskera samfélagsins rík en ekki einungis uppskera einstaklingsins.

Við þurfum gott fólk inn á þing. Fólk sem er tilbúið til þess að berjast fyrir hagsmunum heildarinnar. Fólk sem er tilbúið til þess að skapa þann ramma sem þarf til þess að allir hér geti notið sín á sínum forsendum, hafi frelsi til framkvæmda og geti reitt sig á samfélagið þegar á þarf að halda.

Framsókn á yfir að skipa slíkum einstaklingum. Ég er ein af þeim tólf þúsund manns sem vil bæta samfélagið undir merkjum Framsóknarflokksins.

Ég skipa annað sætið á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og bið um þinn stuðning í komandi kosningum þann 28. október næstkomandi.

X-B

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 27.10.2016 - 22:56 - FB ummæli ()

Framsókn ætlar að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga

Heilbrigðismálin eru stóra málið fyrir þessar kosningar. Íslenska þjóðin vill heilbrigðiskerfi í fremstu röð og að það sé aðgengilegt öllum. Eitt þeirra atriða sem þarf að efla innan heilbrigðisþjónustunnar er geðheilbrigðisþjónusta. Því miður hefur ákveðin brotalöm verið á þeirri þjónustu lengi þrátt fyrir að margt hafi vissulega verið vel gert og umbætur átt sér stað. Eitt af því sem ráðast þarf í strax til að bæta geðheilbrigðiskerfi landsmanna er að auka aðgengi að þjónustu sálfræðinga.

Þunglyndi og kvíði er heilbrigðisvandi sem allt of margir þjást af í hljóði án þess að fá viðeigandi meðferð. Rannsóknir hafa sýnt að þriðjungur fullorðinna þjáist af að minnsta kosti einni geðröskun á hverju ári og helmingur einhvern tímann á ævinni. Rannsóknir, þar meðtalin rannsókn sem undirrituð vann á heilsugæslustöðvum hafa sýnt að þriðjungur þeirra sem leita sér aðstoðar á heilsugæslu þjáist af tilfinningavanda. Bent hefur verið á það að árið 2030 verði þunglyndi líklega mesti orsakavaldur örorku  í heiminum.

Um árabil hefur þjónusta geðlækna verið niðurgreidd af ríkinu en fólk þurft að greiða fyrir sálfræðiþjónustu úr eigin vasa. Þrátt fyrir að Lög um réttindi sjúklinga kveði á um að veita skuli bestu mögulegu meðferð. Hugræn atferlismeðferð er sú meðferð sem Leiðbeiningar um bestu mögulegu meðferð mæla með við kvíða og þunglyndi.

Framsóknarflokkurinn hefur nú þegar sýnt mikið frumkvæði að því að vinna að bættri geðheilbrigðisþjónustu. Karl Garðarson þingmaður og oddviti Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi norður var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu þar sem ályktað var að bæta geðheilbrigðisþjónustu barna, unglinga og fjölskyldna þeirra. Sú tillaga var síðar felld inn í nýja geðheilbrigðisáætlun sem lögð var fram sem stjórnartillaga af heilbrigðisráðherra. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur einnig markað þá stefnu að fjölga sálfræðingum á heilsugæslustöðum í anda verkefnis sem unnið hefur verið í Bretlandi og ber nafnið IAPT (Improving Access to Psychological Therapies).

En betur má ef duga skal. Mikið verk er óunnið í því að byggja upp betri geðheilbrigðisþjónustu til framtíðar. Það felur meðal annars í sér að auka aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum, í framhaldsskólum, setja hámarksbiðtíma eftir greiningu sálfræðinga og síðast en ekki síst að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga þannig að fólk eigi raunverulegt aðgengi að bestu mögulegu meðferð við kvíða, þunglyndi og fleiri geðröskunum.

Á nýafstöðnu flokksþingi ályktuðum við framsóknarfólk um að við viljum niðurgreiða þjónustu sálfræðinga. Við höfum sýnt vilja til verksins og við viljum gjarnan halda áfram að byggja upp öflugri geðheilbrigðisþjónustu í anda þess besta sem gerist erlendis og í takt við það sem almenningur hefur kallað eftir um áraraðir.

Undirrituð skipar 6. sætið á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 4.4.2016 - 10:35 - FB ummæli ()

Velferð þjóðar í stormi

Enn eina ferðina gefur á bátinn og stormur gengur yfir íslenska þjóð. Smám saman hefur verið að bæta í vindinn og kannski má segja að fárviðri hafi skollið á í kjölfar Kastljóss þáttar í gærkvöldi þegar fjallað var um leynigögn sem ljóstrað hefur verið upp samtímis í mörgum löndum.

Í mínum huga er þetta mál ekki svart eða hvítt eða fólkið sem þar er fjallað um algott eða alslæmt. Ég held að mikilvægt sé að anda rólega í stað þess að ýta undir múgæsing.

Mínar áhyggjur snúa að velferð þjóðarinnar. Að mínu mati fóru ýmsir illa út úr síðasta fárviðri sem geisaði í kringum hrunið. Margir urðu helteknir af því og týndu sjálfum sér í reiði, biturð, þunglyndi og fleiri neikvæðum tilfinningum. Fólk fann farveg fyrir það neikvæða í lífi sínu og samfélaginu og festist í honum. Sumir eru jafnvel enn að jafna sig. Þess vegna þykir mér það áhyggjuefni og miður þegar nú skellur á nýr stormur á sama tíma og sárin voru við það að gróa og sólin farin að skína að nýju.

Það er skiljanlegt að við tökum nærri okkur þegar réttlætiskennd okkar er ógnað, þegar fólk upplifir óheiðarleika, svik og að ákveðnir aðilar hafi leikið tveimur skjöldum. Vissulega þarf að taka þá umræðu og komast í gegnum hana með farsælum og málefnalegum hætti og þeir sem þurfa að axla ábyrgð á mistökum þurfa að gera það. En pössum okkur á heygöfflunum og galdrabrennum. Þær munu ekki koma okkur áfram sem samfélagi. Munum líka að margir þeirra sem spjótin beinast nú að, þar meðtalinn hæstvirtur forsætisráðherra hefur einnig skilað góðu verki og barist af miklum móð fyrir hagsæld þjóðarinnar. Baráttu sem aðrir þorðu ekki að taka fyrir þjóð sína. Margir þeirra sem nú hrópa hæst eru heldur ekki hvítþvegnir með hreinan skjöld.

Höldum rónni, leyfum ekki neikvæðninni að skapa okkur rörsýn og reynum að standa saman um betra samfélag. Það mun í lok dags lægja storminn og þá er mikilvægt að við stöndum keik áfram og hlúum að okkur sjálfum og samfélaginu í heild sinni.

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 24.2.2016 - 16:10 - FB ummæli ()

Góðsemi og frönsk súkkulaðikaka

Frönsk súkkulaðikaka Í dag fékk ég heitan og ljúffengan glaðning. Nágrannakona mín hún Sara bankaði upp á með heita franska súkkulaðiköku. Tilefnið var að létta mér, manninum mínum og litla bumbubúanum aðeins lífið þar sem við höfum eins og margir landsmenn verið að glíma við óvæginn flensuskratta undanfarnar vikur ofan í aðra erfiða hluti. Lífið er víst þannig hjá okkur flestum að það skiptist á milli dásamlegra tímabila, erfiðra tímabila og svo allra þessara stunda á milli. Ætli flestum sé ekki tamara að tala um og deila góðu stundunum frekar en þeim erfiðu. Það eru ekki erfiðleikarnir eða flensan sem vakti hjá mér löngun að skrifa þennan pistil heldur góðsemi og viðbrögð fólksins í kringum mig.

Góðsemin hefur verið alltumlykjandi og frönsk heit súkkulaðikaka beint úr ofninum gæti varla komist nær því að tákna hana. Ég hef líka fengið fallegar kveðjur og símtöl frá góðum vinkonum og hef ekki einu sinni náð að hringja tilbaka í þá sem hafa hringt. Í sínu daglega amstri þá lætur fólk sig mann varða. Það skiptir máli. Vinsemd við náungann í erfiðleikum eða veikindum er aldrei sjálfsögð en hún er í raun svo mikil undirstaða góðs samfélags og góðs lífs. Að kvöldi er hún kannski það sem skipti einna mestu máli og skilur mest eftir sig.

Ég hef stundum hugsað það þegar ég fæ svona áminningar hvað við getum hvert og eitt gert samfélagið og heiminn svo miklu betri með því að hafa fókusinn okkar stilltan á góðsemi og góðverk. Ef allir gera eitthvað fallegt á hverjum degi þá verður heimurinn svo miklu betri fyrir okkur öll. Stundum er talað um hugtakið „pay it forward“ sem snýst um að gera eitthvað fyrir náungann eins og að skella fimmtíukalli í stöðumæli sem er að renna út hjá bílnum við hliðina á eða að rúlla innkaupakerru náungans upp að búðinni. Þessi góðmennska er svo talin skila sér til þín sjálfrar/sjálfs þegar stöðumælirinn rennur út á þínum bíl og þú ert hvergi nærri þá setur kannski einhver annar í fyrir þig. Þetta er kannski aðeins í anda karma og búddisma sem mér þykir mjög heillandi. Ég held samt að það séu fæstir sem ætlist til þess að góðsemin skili sér beint tilbaka en vonandi gerir hún það með einum eða öðrum hætti.

Mikið hlakka ég til að geta glatt einhvern og stutt með sama hætti og ég hef notið undanfarið. Ég hvet þig kæri lesandi til að velta því fyrir þér hver þarf á þinni góðsemi að halda eða hver hefur sýnt þér góðsemi undanfarið.

Takk fyrir mig.

Flokkar: Lífið og tilveran

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is