Fimmtudagur 27.10.2016 - 22:56 - FB ummæli ()

Framsókn ætlar að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga

Heilbrigðismálin eru stóra málið fyrir þessar kosningar. Íslenska þjóðin vill heilbrigðiskerfi í fremstu röð og að það sé aðgengilegt öllum. Eitt þeirra atriða sem þarf að efla innan heilbrigðisþjónustunnar er geðheilbrigðisþjónusta. Því miður hefur ákveðin brotalöm verið á þeirri þjónustu lengi þrátt fyrir að margt hafi vissulega verið vel gert og umbætur átt sér stað. Eitt af því sem ráðast þarf í strax til að bæta geðheilbrigðiskerfi landsmanna er að auka aðgengi að þjónustu sálfræðinga.

Þunglyndi og kvíði er heilbrigðisvandi sem allt of margir þjást af í hljóði án þess að fá viðeigandi meðferð. Rannsóknir hafa sýnt að þriðjungur fullorðinna þjáist af að minnsta kosti einni geðröskun á hverju ári og helmingur einhvern tímann á ævinni. Rannsóknir, þar meðtalin rannsókn sem undirrituð vann á heilsugæslustöðvum hafa sýnt að þriðjungur þeirra sem leita sér aðstoðar á heilsugæslu þjáist af tilfinningavanda. Bent hefur verið á það að árið 2030 verði þunglyndi líklega mesti orsakavaldur örorku  í heiminum.

Um árabil hefur þjónusta geðlækna verið niðurgreidd af ríkinu en fólk þurft að greiða fyrir sálfræðiþjónustu úr eigin vasa. Þrátt fyrir að Lög um réttindi sjúklinga kveði á um að veita skuli bestu mögulegu meðferð. Hugræn atferlismeðferð er sú meðferð sem Leiðbeiningar um bestu mögulegu meðferð mæla með við kvíða og þunglyndi.

Framsóknarflokkurinn hefur nú þegar sýnt mikið frumkvæði að því að vinna að bættri geðheilbrigðisþjónustu. Karl Garðarson þingmaður og oddviti Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi norður var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu þar sem ályktað var að bæta geðheilbrigðisþjónustu barna, unglinga og fjölskyldna þeirra. Sú tillaga var síðar felld inn í nýja geðheilbrigðisáætlun sem lögð var fram sem stjórnartillaga af heilbrigðisráðherra. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur einnig markað þá stefnu að fjölga sálfræðingum á heilsugæslustöðum í anda verkefnis sem unnið hefur verið í Bretlandi og ber nafnið IAPT (Improving Access to Psychological Therapies).

En betur má ef duga skal. Mikið verk er óunnið í því að byggja upp betri geðheilbrigðisþjónustu til framtíðar. Það felur meðal annars í sér að auka aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum, í framhaldsskólum, setja hámarksbiðtíma eftir greiningu sálfræðinga og síðast en ekki síst að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga þannig að fólk eigi raunverulegt aðgengi að bestu mögulegu meðferð við kvíða, þunglyndi og fleiri geðröskunum.

Á nýafstöðnu flokksþingi ályktuðum við framsóknarfólk um að við viljum niðurgreiða þjónustu sálfræðinga. Við höfum sýnt vilja til verksins og við viljum gjarnan halda áfram að byggja upp öflugri geðheilbrigðisþjónustu í anda þess besta sem gerist erlendis og í takt við það sem almenningur hefur kallað eftir um áraraðir.

Undirrituð skipar 6. sætið á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 4.4.2016 - 10:35 - FB ummæli ()

Velferð þjóðar í stormi

Enn eina ferðina gefur á bátinn og stormur gengur yfir íslenska þjóð. Smám saman hefur verið að bæta í vindinn og kannski má segja að fárviðri hafi skollið á í kjölfar Kastljóss þáttar í gærkvöldi þegar fjallað var um leynigögn sem ljóstrað hefur verið upp samtímis í mörgum löndum.

Í mínum huga er þetta mál ekki svart eða hvítt eða fólkið sem þar er fjallað um algott eða alslæmt. Ég held að mikilvægt sé að anda rólega í stað þess að ýta undir múgæsing.

Mínar áhyggjur snúa að velferð þjóðarinnar. Að mínu mati fóru ýmsir illa út úr síðasta fárviðri sem geisaði í kringum hrunið. Margir urðu helteknir af því og týndu sjálfum sér í reiði, biturð, þunglyndi og fleiri neikvæðum tilfinningum. Fólk fann farveg fyrir það neikvæða í lífi sínu og samfélaginu og festist í honum. Sumir eru jafnvel enn að jafna sig. Þess vegna þykir mér það áhyggjuefni og miður þegar nú skellur á nýr stormur á sama tíma og sárin voru við það að gróa og sólin farin að skína að nýju.

Það er skiljanlegt að við tökum nærri okkur þegar réttlætiskennd okkar er ógnað, þegar fólk upplifir óheiðarleika, svik og að ákveðnir aðilar hafi leikið tveimur skjöldum. Vissulega þarf að taka þá umræðu og komast í gegnum hana með farsælum og málefnalegum hætti og þeir sem þurfa að axla ábyrgð á mistökum þurfa að gera það. En pössum okkur á heygöfflunum og galdrabrennum. Þær munu ekki koma okkur áfram sem samfélagi. Munum líka að margir þeirra sem spjótin beinast nú að, þar meðtalinn hæstvirtur forsætisráðherra hefur einnig skilað góðu verki og barist af miklum móð fyrir hagsæld þjóðarinnar. Baráttu sem aðrir þorðu ekki að taka fyrir þjóð sína. Margir þeirra sem nú hrópa hæst eru heldur ekki hvítþvegnir með hreinan skjöld.

Höldum rónni, leyfum ekki neikvæðninni að skapa okkur rörsýn og reynum að standa saman um betra samfélag. Það mun í lok dags lægja storminn og þá er mikilvægt að við stöndum keik áfram og hlúum að okkur sjálfum og samfélaginu í heild sinni.

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 24.2.2016 - 16:10 - FB ummæli ()

Góðsemi og frönsk súkkulaðikaka

Frönsk súkkulaðikaka Í dag fékk ég heitan og ljúffengan glaðning. Nágrannakona mín hún Sara bankaði upp á með heita franska súkkulaðiköku. Tilefnið var að létta mér, manninum mínum og litla bumbubúanum aðeins lífið þar sem við höfum eins og margir landsmenn verið að glíma við óvæginn flensuskratta undanfarnar vikur ofan í aðra erfiða hluti. Lífið er víst þannig hjá okkur flestum að það skiptist á milli dásamlegra tímabila, erfiðra tímabila og svo allra þessara stunda á milli. Ætli flestum sé ekki tamara að tala um og deila góðu stundunum frekar en þeim erfiðu. Það eru ekki erfiðleikarnir eða flensan sem vakti hjá mér löngun að skrifa þennan pistil heldur góðsemi og viðbrögð fólksins í kringum mig.

Góðsemin hefur verið alltumlykjandi og frönsk heit súkkulaðikaka beint úr ofninum gæti varla komist nær því að tákna hana. Ég hef líka fengið fallegar kveðjur og símtöl frá góðum vinkonum og hef ekki einu sinni náð að hringja tilbaka í þá sem hafa hringt. Í sínu daglega amstri þá lætur fólk sig mann varða. Það skiptir máli. Vinsemd við náungann í erfiðleikum eða veikindum er aldrei sjálfsögð en hún er í raun svo mikil undirstaða góðs samfélags og góðs lífs. Að kvöldi er hún kannski það sem skipti einna mestu máli og skilur mest eftir sig.

Ég hef stundum hugsað það þegar ég fæ svona áminningar hvað við getum hvert og eitt gert samfélagið og heiminn svo miklu betri með því að hafa fókusinn okkar stilltan á góðsemi og góðverk. Ef allir gera eitthvað fallegt á hverjum degi þá verður heimurinn svo miklu betri fyrir okkur öll. Stundum er talað um hugtakið „pay it forward“ sem snýst um að gera eitthvað fyrir náungann eins og að skella fimmtíukalli í stöðumæli sem er að renna út hjá bílnum við hliðina á eða að rúlla innkaupakerru náungans upp að búðinni. Þessi góðmennska er svo talin skila sér til þín sjálfrar/sjálfs þegar stöðumælirinn rennur út á þínum bíl og þú ert hvergi nærri þá setur kannski einhver annar í fyrir þig. Þetta er kannski aðeins í anda karma og búddisma sem mér þykir mjög heillandi. Ég held samt að það séu fæstir sem ætlist til þess að góðsemin skili sér beint tilbaka en vonandi gerir hún það með einum eða öðrum hætti.

Mikið hlakka ég til að geta glatt einhvern og stutt með sama hætti og ég hef notið undanfarið. Ég hvet þig kæri lesandi til að velta því fyrir þér hver þarf á þinni góðsemi að halda eða hver hefur sýnt þér góðsemi undanfarið.

Takk fyrir mig.

Flokkar: Lífið og tilveran

Föstudagur 12.2.2016 - 19:55 - FB ummæli ()

Stóra pítsumálið í borginni

Fréttir berast nú af því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi fundað með skólastjórnendum Fellaskóla vegna pítsumálsins svokallaða. Dagur hefur verið með miklar yfirlýsingar um þetta mál, m.a. um að það hafi komið honum tilfinningalega úr jafnvægi. 

Er þetta virkilega það sem borgarstjóri hefur mestar áhyggjur af í skólamálum borgarinnar?

Hvað með sívaxandi kvíða og depurð meðal barna sem flest fá ekki viðeigandi meðferð samkvæmt leiðbeiningum um bestu mögulegu meðferð?

Hvað með stöðu barnaverndar í borginni þar sem of oft næst ekki að sinna málunum fyrr en í algjört óefni er komið?

Hvað með margra ára biðlista eftir greiningu til að kortleggja vanda barnanna sem er aðgangsmiði sömu barna að snemmtækri íhlutun eins og sérkennslu sem í sumum tilfellum er veitt mörgum árum of seint?

Hvað með þá staðreynd að borgarstjórnin hans hefur ákveðið að skera gríðarlega mikið niður í skólamálum:

Sérkennsla í leikskólum verði skorin um 80 milljónir á þessu ári en 100 milljónir á því næsta. Niðurskurður á skóla- og frístundasviði verði 670 á þessu ári en 955 milljónir árið 2017.

Það er vissulega gott að borgarstjóri hafi áhyggjur af mismunun og gott hjá honum að bregðast við því. Persónulega hef ég þó mun meiri áhyggjur af ofangreindu ásamt fyrirhuguðum niðurskurði sem mun væntanlega hafa afar slæm áhrif á mismunun sem nú þegar á sér stað og hefur ekki verið leiðrétt. Það hefur meðal annars verið rætt á vettvangi borgarstjórnar og víðar að börn í Breiðholti þurfa að bíða margfalt lengur eftir greiningu en í Vesturbænum. Það er mjög alvarleg mismunun sem Dagur þarf að leiðrétta.

Ef Dagur hefur svona mikinn áhuga á skólamálum borgarinnar þá stendur hann upp í klof á óplægðum akri af verkefnum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 13.12.2015 - 14:47 - FB ummæli ()

Þegar stressið stal jólunum

Ég kom seint heim á Þorláksmessukvöld og það sem fyrir augu bar er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma og mun hafa áhrif á mig um ókomna tíð. Þarna lá litli frændi minn sofnaður við óskreytt jólatréð.

Ég ætla að segja ykkur aðeins aðdraganda þessa augnabliks sem mun aldrei líða mér úr minni.

Þegar stressið stal jólunum Ég var þessi týpa sem langaði að gera allt fyrir alla og sérstaklega í kringum jól. Ég átti erfitt með að segja nei og var stundum búin að lofa langt upp í allar ermar og skálmar. Ég var á síðustu stundu með allan jólaundirbúning og ætlaði mér allt of mikið. Ég var í krefjandi starfi og hlaðin ýmsum öðrum verkefnum. Þessi Þorláksmessa var því ekki ólík öðrum sem á undan höfðu gengið. Ég var á fullu allan daginn í því að redda hinu og þessu sem var auðvitað alveg nauðsynlegt til þess að jólin gætu komið. Ég eyddi löngum tíma í búðum að versla síðustu hlutina sem auðvitað var upplagt að versla á Þorláksmessu, enginn tími betri til þess. Eitt af því sem mér þótti mikilvægt að ná var gólfmotta sem ég hafði lofað að kíkja á til að setja í forstofuna. Hver þarf ekki svoleiðis til að jólin geti gengið í garð?! Ég man einnig eftir mér fastri í umferðaröngþveiti þennan dag því auðvitað reiknaði ég með að ég kæmist á milli staða á sama hraða og um hábjarta umferðarlausa sumarnótt. Ég leit við hjá vinkonu minni sem var í rólegheitum með jólaboð til að koma pakka til hennar og auðvitað stoppaði ég heillengi þar. Ég hafði nú einu sinni allan tímann í heiminum, þess fullviss að tíminn og jólin biðu eftir mér. Eftir langan og strangan dag skrölti ég heim og þá greip mig skelfing. Eitt af loforðunum sem ég hafði ekki efnt þennan dag var að skreyta jólatréð með litla frænda mínum. Ég hafði svikið loforðið sem var í raun og veru það eina sem skipti máli á Þorláksmessu. Ég ætla ekki að lýsa því hvað fór í gegnum hugann á mér en eins og áður sagði gleymi ég þessu augnabliki seint.

Augnablikið varð mér þó afar dýrmætt því það veitti mér eitt besta lærdómstækifæri sem ég hef fengið í tengslum við jólaundirbúning og jólastress. Því miður þekkjum við flest dæmi um það þegar stressið stelur frá okkur jólaandanum. Kvíði, streita, depurð, pirringur, vonbrigði og aðrar neikvæðar tilfinningar eru því miður fastagestir í aðdraganda jólanna á mörgum heimilum. Ég vona að dæmisagan mín geti hjálpað fleirum en mér að draga úr áhrifum þessara vágesta um hátíðina og bjóða frekar rósemi, gleði, tilhlökkun, ánægju og hamingju í bæinn í staðinn. Við höfum bein áhrif á líðan okkar sem birtist í tilfinningum og líkamlegum einkennum með því að vera meðvituð um hugsanir okkar og hegðun. Hér að neðan eru nokkur ráð sem mig langar að deila með ykkur sem gætu verið gagnleg þeim sem eru í áhættu á að verða jólastressinu að bráð.

 • Jólaundirbúningur krefst skipulags, yfirvegunar og forgangsröðunar. Gerðu lista yfir það sem þig langar að gera fyrir jólin. Merktu fimm atriði með áherslupenna sem skipta þig mestu máli. Strikaðu strax yfir það sem þú veist innst inni að er ekki raunhæft að gera núna og má bíða betri tíma. Ég skal lofa þér því að jólaandinn mætir þó þú náir ekki að skipta um höldur á eldhússkápnum.
 • Þakklæti er móðir allra dyggða. Skrifaðu niður eitt atriði á dag sem þú ert þakklát(ur) fyrir.
  Settu þér og öðrum mörk. Oft ætlum við að gera ótalmargt á þessum fáu dögum og aðrir krefjast eins mikils af tíma okkar.
 • Hlúðu að þér. Reglulegur og nægur svefn, dagleg, létt hreyfing, góð næring og slökun er undirstaða alls annars.
 • Veltu því fyrir þér hvað þú myndir gera ef þetta væri síðasta skiptið sem þú upplifir aðventu og jólahátíð. Hvað skiptir mestu máli?
 • Veltu því fyrir þér hvaða minningar þú átt frá þínum æskujólum sem þér þykja dýrmætastar. Hvað varstu að gera, með hverjum varstu og hvað varstu að hugsa?

Ég er enn týpan sem langar til þess að gera allt fyrir jólin. Hafa allt skrúbbað í hólf og gólf, minnast allra sem skipta mig máli með einhverjum hætti, gefa flottustu gjafirnar, elda besta matinn, baka margar sortir, standa mig fullkomlega í vinnu og ná að gera allt sem setið hefur á hakanum fram að þessu. Ég lærði það hins vegar af biturri reynslu þessa Þorláksmessu að ofurmanneskjan er ekkert annað en teiknimyndapersóna. Það mun alltaf eitthvað láta undan. Það er þitt að velja hvað skiptir mestu máli og sleppa tökunum á því sem er síður mikilvægt rétt fyrir jól. Í mínum huga skiptir það mestu máli að eignast dýrmætar minningar með fólkinu sem stendur manni næst. Til þess að það sé hægt er gott að skipuleggja sig vel og forgangsraða. Að lokum er ágætt að minna sig á að við lok dagsins eru það litlu hlutirnir sem verða stóru minningarnar.

Þessi pistill birtist fyrst inn á vefsíðunni Fagurkerar.is  sem gestafærsla en ég ákvað að deila honum hér líka.

Flokkar: Lífið og tilveran

Mánudagur 30.11.2015 - 21:24 - FB ummæli ()

Jólaandann er ekki hægt að kaupa

Í upphafi aðventu langar mig til þess að rifja upp stuttan pistil sem blaðakonan Sólveig Gísladóttir skrifaði árið 2013 í tengslum við viðtal sem hún tók við mig. Þar vorum við að velta fyrir okkur hvað skiptir mestu máli í aðdraganda jóla og um jól. Einfaldur lífsstíll er vinsæll nú um mundir og eru ráðin í þeim anda að minna sé meira. Það er ágætt að minna sig á slíkt á tímum þar sem skilaboð dynja á okkur um hversu ómissandi ýmiss konar veraldlegir hlutir séu til að kaupa hamingju og jólaanda. Hér að neðan má sjá greinina.

 

Mynd af Kristbjörgu Þórisdóttur sálfræðingi

Kristbjörg Þórisdóttir sálfræðingur

Best er að byrja snemma að skipuleggja, stilla væntingum í hóf og gera ekki óhóflegar kröfur á sjálfan sig og aðra til að jólahátíðin verði sem best heppnuð að sögn Kristbjargar Þórisdóttur, sálfræðings hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts. Kristbjörg er sjálf mikið jólabarn og á afar góðar minningar frá sínum æskujólum. „Það sem ég man helst eftir eru ákveðin augnablik. Í mínum huga snúast jólin um fólkið í kringum mig, að minnast látinna ástvina og senda jólakort til fólks sem hefur fylgt mér með einum eða öðrum hætti á árinu og sýna þannig þakklæti,“ segir Kristbjörg, sem hugsar hlýlega til jólahefða fjölskyldunnar. „Við fórum alltaf austur að leiði afa og ömmu á aðfangadag sem var yndisleg stund. Þá var ógleymanlegt augnablikið þegar maður kom heim og fann matarilminn taka á móti sér,“ rifjar hún upp og bætir við að löng spilakvöld og göngutúrar með hundana standi einnig upp úr. Allt hlutir sem ekki kosti krónu. Kristbjörg segist enn halda í sumar jólahefðir æskunnar eins og að fara austur. „Þegar við pabbi höfum farið rúntinn og lagt ljós á leiði ástvina þá koma jólin hjá mér.“

Kristbjörg segir mikilvægt fyrir fólk að rifja upp hverjar eru bestu jólaminningar þess úr æsku þegar það ákveður hvers konar jól það vill halda. „Þá væri einnig hægt að velta fyrir sér þessari spurningu: „Hvað myndi ég gera ef þetta væru síðustu jólin mín?“ Hún segir margt sem fólk gerir í aðdraganda jóla geta aukið á streitu og dregið úr líkum á vel heppnaðri hátíð. Hún gefur hér nokkur ráð til að auka líkurnar á ánægjulegu jólahaldi:

 • Forðastu að gera þér óraunhæfar væntingar. Til dæmis varðandi matinn, eigin líðan, útlit, gjafir, hvernig aðrir og þú sjálfur átt að vera. Dragðu úr væntingunum og leyfðu jólunum að koma.
 • Vertu raunsær. Við höfum ekki tíma til að gera allt og ekki peninga til að framkvæma og kaupa allt sem okkur langar til.
 • Forðastu að gera smámuni að aðalatriðum jólanna. Ekki örvænta þótt þú þurfir að sleppa jólakortunum eitt árið eða ef gólfin voru ekki bónuð.
 • Byrjaðu snemma að undirbúa jólin. Jólaundirbúningur sem hefst 22. desember veldur óhjákvæmilega streitu og uppnámi.
 • Skrifaðu lista yfir allt sem þú vilt gera fyrir jólin og byrjaðu strax á því að strika helminginn út. Flokkaðu úr það sem skiptir mestu máli.
 • Finndu hvað jólin eru fyrir þér, hvaða þýðingu þau hafa og hvaða minningar eru þér kærastar frá jólum.
 • Forðastu að láta auglýsingar segja þér hvað þurfi til að halda hin fullkomnu jól. Rándýrir tónleikar eða dýrar gjafir eru ekki kjarni hins sanna jólaanda.
 • Pör geta haft mismunandi hugmyndir um jólahald. Gerið málamiðlanir og blandið saman jólahefðum úr báðum áttum.
 • Jólin geta verið mörgum erfiður tími. Þeim sem líður illa líður oft enn verr á jólum. Jólin eru tími til að huga að náunganum og gefa af okkur til þeirra sem eru ekki eins lukkulegir.
 • Hugaðu vel að börnunum og búum til góðar minningar fyrir þau. Erfitt er fyrir jólaandann að birtast þegar andrúmsloftið er þrúgað af streitu og kvíða yfir væntingum sem ekki er hægt að uppfylla.
 • Notaðu tímann í desember til að líta yfir farinn veg og fram á veginn. Ákveddu hvaða reynslu og minningar þú vilt taka með þér inn í nýtt ár og hvernig þú vilt breyta til betri vegar.
 • Njóttu augnabliksins og mundu að það þarf lítið til að mynda jólastemningu. Kveiktu á kerti, bakaðu eina sort, hitaðu kakó og spilaðu huggulega tónlist.
 • Mundu að klisjan um að hugurinn skipti mestu máli þegar gefnar eru gjafir, stendur alltaf fyrir sínu.

Upphaflegu greinina má finna á þessum hlekk hér.

Flokkar: Lífið og tilveran · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 18.8.2015 - 21:27 - FB ummæli ()

Hlauptu kona, hlauptu!

Næsta laugardag fer fram Reykjavíkurmaraþon. Hlaupið er eins konar uppskeruhátíð og segja má að það sé hátíð hreyfingar. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það mikilvægasta er að taka þátt með einum eða öðrum hætti. Á sama tíma safna margir hlauparar áheitum á vefsíðunni hlaupastyrkur.is þar sem áheitunum er ætlað að hvetja hlaupara áfram og styðja mikilvæg málefni.

Að mínu mati er margt í svona hlaupi sem heimfæra má upp á lífið sjálft. Það skiptir mestu máli að taka þátt. Vera með á sínum eigin forsendum því öll erum við ólík. Það er mikilvægt að hlusta á sjálfan sig, finna hversu hratt maður kemst og hvaða stíll hentar manni sjálfum. Það er mikilvægt að keppa við sig og standa uppi sem sinn eigin sigurvegari í lok dags. Mikilvægasta hvatningin kemur innan frá. Við erum okkar besti liðsfélagi og förunautur.

Rétt eins og í lífinu sjálfu skipta aðrir og hvatning annarra samt sem áður máli. Við erum hluti af órjúfanlegri sammannlegri heild. Froskasagan er góð áminning um það hversu mikilvægt er að við eltum okkar eigin drauma og óskir og látum ekki draga úr okkur kjarkinn.

Gott máltæki segir að það sé leiðin en ekki áfangastaðurinn sem skipti máli. Það á vel við hér. Það skiptir sennilega mun meira máli að njóta ferðarinnar og týna upp demantana sem liggja vítt og breitt í vegakantinum í stað þess að einblína á gullpottinn sem bíður handan marklínunnar.

Ég verð ein þeirra sem hleyp næsta laugardag og get fullyrt það að ég mun ekki sigra hlaupið. En það skiptir mig ekki máli þó ég muni vissulega fagna með þeim sem gerir það. Ég hef þau markmið að njóta hlaupsins og koma brosandi í mark á mínum tíma. Þannig hef ég sigrað. Ég ætla að hlaupa fyrir Hugarafl sem eru félagasamtök sem unnið hafa brautryðjendastarf í geðheilbrigðismálum hér á landi. Hugarafl leggur mikla áherslu á vinnu á jafningjagrunni og valdeflingu þannig að segja má að í Hugarafli hlaupi hver í sínum takti rétt eins og í maraþonhlaupi. Sérstök áhersla er lögð að þessu sinni á að efla starf ungs fólks innan Hugarafls sem ganga undir nafninu Unghugar. Ég þigg stuðning við að leggja Unghugum og Hugarafli lið. 

Sjáumst á laugardaginn og hlaupum hvert í sínum takti en öll í takt.

Reykjavíkurmaraþon

Flokkar: Lífið og tilveran · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 8.8.2015 - 12:47 - FB ummæli ()

Ég er eins og ég er – uppskrift að hamingju!

Mynd fengin af fésbókarsíðu Páls Óskars Hjálmtýssonar

Til hamingju með daginn kæru vinir.

Í dag skulum við muna að við eigum öll bara þetta líf og ekkert er dýrmætara en fá að vera frjáls í því lífi og lifa því á þann hátt sem veitir hverju og einu okkar mesta hamingju. Hvert og eitt okkar á rétt á því. Við skulum líka muna að styðja hvert annað svo sem allra flestir geti notið hamingju.

Ég hvet stjórnvöld af þessu tilefni til þess að beina sjónum sínum að þeim atriðum sem enn er ábótavant varðandi réttindabaráttuna. Þar mætti t.d. nefna réttindi transfólks. Við eigum að vera framúrskarandi í allri réttindabaráttu og ryðja þannig brautina fyrir aðrar þjóðir!

Á sama tíma skulum við minnast þeirra og syrgja fyrir hönd þeirra sem hafa þjáðst fyrir það eitt að falla ekki í fjöldann og ekki hlotið það tækifæri að fá að lifa lífi sínu til fulls vegna fordóma, fáfræði og hreinnar mannvonsku.

Ég ætla að fagna fjölbreytileikanum í dag í göngunni og man alltaf hvað ég upplifði mikla gleði í fyrstu göngunni minni. Hef sjaldan upplifað jafn mikla og einlæga gleði og kærleika. Þannig gleði skapast þegar fólk fær að njóta sín til fulls og vera eins og það er.

Kannski er aðalhráefnið í hamingjunni einmitt það að fá að vera eins og maður er.

Áfram fjölbreytileikinn!

11866321_1136253689737512_1253145193653820722_n

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.7.2015 - 22:43 - FB ummæli ()

Skömminni skilað

Ef enginn myndi nauðga þá myndi enginn þola. Allt of lengi hefur sjónarhornið í kynferðisbrotamálum beinst að þolandanum. Í samfélaginu hefur líka endurspeglast slík umræða. Var hún ekki bara of full? Af hverju var hún að klæða sig svona? Hvað hélt hún að myndi gerast? Þekkt er að þolandinn leiti einnig fyrst skýringa hjá sér. Hvað gerði ég rangt? Gaf ég eitthvað til kynna? Af hverju fór ég heim með honum/henni? Af hverju fór ég þangað? Ef ég hefði… og svo framvegis…

Við vinkona mín ræddum þessi mál í dag þar sem hún komst vel að orði. Ef brotist væri inn í skartgripabúð þá myndi sennilega fáum detta í hug að leita skýringa hjá búðareigandanum. Af hverju var hann með svona glitrandi útstillingar? Af hverju var hún með svona stóran glugga? Hvað hélt búðareigandinn eiginlega að myndi gerast með svona flott dót í glugganum eða allar þessar auglýsingar? Nei, þá leikur enginn vafi á því hver ber ábyrgð á glæpnum. Ábyrgðin og skömmin er innbrotsþjófsins.

Að nauðga annarri manneskju er einn skelfilegasti glæpur sem hægt er að fremja. Það er eins og innbrot í líkama og sálarlíf þolandans sem mun aldrei gleyma. Atburður sem skilur eftir sig flókin einkenni í fyrstu og sára minningu til lengri tíma. Sem betur fer erum við flest vel búin til að fást við áföll og erfiða lífsreynslu og flestir jafna sig smám saman á þeim miklu streitueinkennum sem koma í kjölfar meiriháttar áfalls. Það er alltaf ákveðinn hópur sem gerir það ekki nema með sérhæfðri meðferð.  Rannsóknir sýna að nauðgun er líklegri en önnur áföll til að leiða til áfallastreituröskunar og greinast 30-50% þeirra sem verða fyrir kynferðisbroti með PTSD.

Flest þekkjum við sennilega til fólks sem hefur verið nauðgað. Sumum sem börnum og sumum sem fullorðnum. Sumum oftar en einu sinni. Einhverjir sem lesa þetta munu því miður hafa upplifað þessa ömurlegu lífsreynslu sjálf og enginn atburður er eins. Við vitum líka hversu mikið slíkt brot tekur frá manneskju og hve mikilvægt er að hún fái strax alla þá aðstoð sem hægt er að veita til að jafna sig og byggja sig upp að nýju.

Það verður aldrei endurtekið nógu oft að skömminni á að skila. Hún á ekki heima hjá þér kæri þolandi. Þú gerðir ekkert rangt. Þú berð ekki ábyrgð á afbrotum annarra. Sá sem nauðgar og brýtur á annarri manneskju á að svara til saka fyrir það, rétt eins og innbrotsþjófurinn sem brýst inn í skartgripabúð. Það eina sem þú berð ábyrgð á er að taka stjórnina í þína hendur, leita réttar þíns og láta slíkan atburð ekki skilgreina þig heldur gera þig að sterkari manneskju.

Mætum öll í druslugönguna á morgun. Tökum á kynferðisbrotum, skilum skömminni og rjúfum þögnina. #drusluákall

 

 

Flokkar: Lífið og tilveran

Sunnudagur 28.6.2015 - 21:37 - FB ummæli ()

Vigdís

vigdis-finnbogadottir

 

Í dag eru 35 ár frá því að íslenska þjóðin tók þá kjarkmiklu og afdrifaríku ákvörðun að kjósa konu sem forseta landsins, fyrst allra þjóða. Frú Vigdís Finnbogadóttir hefur markað svo djúp spor að því verður ekki lýst í stuttri bloggfærslu. Vigdís hefur haft mikil áhrif á mig og hún er ein af þeim Íslendingum sem ég held allra mest upp á.

Ég var svo lánsöm að hitta frú Vigdísi í afmælisveislu forsætisráðherra í vor. Það var svo sannarlega einn af hápunktum veislunnar að ræða við hana í stutta stund. Mín upplifun af Vigdísi var sú að hún hefði svipaða nærveru og Dalai Lama en ég hlustaði á hann þegar hann kom til landsins 2009.  Bæði eru þau manneskjur sem eru það stórar að þau koma fram við alla af sömu alúð og virðingu. Þau reyna ekki að vera eitt eða neitt, þau bara eru. Eiginleiki sem marga skortir. Af þeim báðum geislar ólýsanleg orka góðvildar, kærleika og visku.

Það verður aldrei önnur Vigdís forseti Íslands. Helst myndi ég vilja að við gætum kosið hana bara aftur. Vonandi auðnast okkur að kjósa konu sem er í líkingu við Vigdísi. Það væri mikið heillaskref.

Ég vona líka að við getum öll reynt að finna Vigdísi í okkur. Ég hef trú á því að ef við gerum það þá muni okkur farnast betur sem þjóð. Ef við finnum hjá okkur gildi Vigdísar þá munum við græða í stað þess að „græða“, horfa til þess sem sameinar okkur í stað þess sem sundrar, reyna alltaf að læra, stefna á fullkomið jafnrétti, auðga líf okkar með menningu og listum og varðveita það sem skiptir okkur mestu máli sem er land okkar, tungumál, menning og þjóð.

Til hamingju með daginn frú Vígdís Finnbogadóttir og til hamingju með daginn Íslendingar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is