Laugardagur 18.03.2017 - 13:49 - FB ummæli ()

Geimferð aldraðra

Fyrir nokkrum mánuðum horfði ég á þingmann Pírata nánast tárast þegar tillaga þeirra um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu var samþykkt á Alþingi. Á sama tíma var tillögu undirritaðs og fleiri þingmanna Framsóknarflokksins um að aldraðir fengju umboðsmann kurteislega sópað undir teppið.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr geimvísindum og möguleikum okkar þar – en þetta vakti mig þó til umhugsunar um forgangsröðun þingsins.

það eru tæp tuttugu ár frá því að tillaga um stofnun umboðsmanns aldraðra leit fyrst dagsins ljós á Alþingi. Aldrei hefur málið náð í gegn. Þörfin er hins vegar mikil. Við búum í flóknu þjóðfélagi þar sem aldraðir þekkja oft á tíðum illa rétt sinn Þetta leiðir iðulega til þess að lífsgæði þeirra verða lakari en ella. Það þarf að upplýsa aldraða um réttindi sín og það þarf að gæta þess að ekki sé brotið á þeim.

Nú berast fréttir af málaþurrð á Alþingi. Á meðan dunda þingmenn sér við að leggja fram gömul mál að nýju. Ekki hef ég heyrt af því að umboðsmaðurinn sé kominn á dagskrá.

Á ég að trúa því að enginn ætli að leggja fram tillögu um umboðsmann aldraðra? Eða eru aldraðir kannski bara best geymdir úti í geimnum?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is