Mánudagur 21.03.2016 - 14:33 - FB ummæli ()

Óvinur nr. 1

Ríkisútvarpið hefur staðið fyrir herferð gegn forsætisráðherra undanfarna viku og þar hafa allar reglur um hlutlægni látið undan. Hér eru nokkur dæmi:

Í Kastljósi lék lausum hala Jón Ólafsson, sem stjórnaði innra umbótastarfi Samfylkingarinnar eftir hrun og hefur verið óspar á neikvæðu lýsingarorðin um Sigmund Davíð síðan sá síðarnefndi tók af honum formennsku í siðanefnd stjórnarráðsins, bitlingnum sem hann fékk í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Í morgunútvarpið á föstudaginn voru kallaðir til að ræða mál forsætisráðherra þeir Jóhann Hauksson fyrrum upplýsingafulltrúi Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður á Stundinni, sem hefur skrifað ótal greinar um Sigmund og Framsókn, þar sem hatri og fyrirlitningu á flokknum hefur verið sáð. Það er ekki að ástæðulausu að jafnvel Egill Helgason segir opinberlega að Stundin sé fjölmiðill sem hati Framsóknarflokkinn. Þannig fólki þykir RÚV ástæða til að veita lausan tauminn í útvarpi allra landsmanna. Jóhann Hauksson var ekki einu sinni kynntur sem blaðamaður í upphafi þessa viðtals, hvað þá sem fyrrum spunameistari Jóhönnu Sigurðardottur og augljós pólitískur andstæðingur forsætisráðherra um árabil. Það hefði verið jafn hlutlaust að fá Hannes Hólmstein til að tala um fjölsklydumálefni Árna Páls eða Steingríms Joð í útvarpi.

Til að svara spurningum fréttamanns í kvöldfréttum sama dag um hvort Sigmundur hafi farið eftir siðareglum velur RÚV að kalla til prófessor Vilhjálm Árnason, sem á sínum tíma kallaði afstöðu Sigmundar Davíðs um að segja nei við Icesave samningum „siðferðilega óverjandi“.

Nú á mánudagsmorgni tók svo steininn úr þar sem enn á ný voru boðnir til að tjá sig tveir yfirlýstir andstæðingar Sigmundar Davíðs, þeir Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar og Indriði H. Þorláksson hægri hönd Svavars Gestsonar í Iceasave samninganefndinni. Það þarf ekki lengi að lesa skrif og ræður Róberts til að átta sig á því að hann fyrirlítur Framsóknarflokkinn – „Til hvers er Framsóknarflokkurinn?“ spyr hann í blaðagrein árið 2007 – „Hann er vítið sem öllum ber að varast.“ er svarið.

RÚV virðist líka alveg hafa gleymt því að Indriði H. Þorláksson á sér sögu í pólitískri andstöðu við Sigmund Davíð, að hann samdi um og skrifaði undir Svavarssamningana árið 2009 og var hægri hönd Steingríms J. Sigfússonar þegar bankarnir voru gefnir hrægammasjóðunum, eins og Víglundur Þorsteinsson hefur upplýst með því að draga fundargerðir eins og tennur úr kjafti kerfisins. En Indriði er að sjálfsögðu aðeins kynntur sem „fyrrverandi ríkisskattstjóri“ þegar hann mætir í Ríkisútvarpið til viðtals.

Allt er þetta bullandi hlutdræga fólk er bara kynnt sem hlutlausir álitsgjafar í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins, í spjalli um fréttir vikunnar og vangaveltum í morgunútvarpi. Ofan á þetta bætist að á meðan Þórður Snær Júlíusson á Kjarnanum gengur nær af göflunum í því heilaga stríði gegn Sigmundi, leiðréttingunni og Framsóknarflokknum, sem hann hefur háð frá því hann skrifaði um Óvin númer 1 fyrir kosningar 2013, sér fyrrverandi félagi hans og meðeigandi að Kjarnanum Ægir Þór Eysteinsson um helftina af fréttaflutningi Ríkisútvarpsins af málinu.

Ríkisútvarpið hefur loksins fellt grímuna. Hún er ófögur ásjónan sem við blasir. Óvinur nr. 1 er fundinn í Framsóknarflokknum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is