Miðvikudagur 7.12.2016 - 22:37 - FB ummæli ()

Hjólað í blaðamenn!

Sem áhugamaður um hjólreiðar þá fagna ég því hvað áhugi á þessari góðu íþrótt fer vaxandi hérlendis. Þannig líður varla sá dagur að maður lesi ekki um einhvern sem er að „hjóla í“ þennan eða hinn. Nýjasti hjólreiðamaðurinn er Björn Bjarnason, sem að sögn eyjunnar í dag „hjólar í Fréttablaðið.“

Kannski verður Reykjavík hjólaborg Evrópu 2017.

Gísli Ásgeirsson hefur um árabil haldið vel utan um þessa hjólaáráttu á facebook síðu sinni. Og eins og hann orðar það réttilega: „Að hjóla í fólk er góð skemmtun.“ Hér kemur mín eigin stutta útgáfa:

1) Björn hjólar í Fréttablaðið (Eyjan 07.12.16)
2) Vilhjálmur hjólar í Gylfa (DV 23.11.16)
3) Donald Trump hjólar í Alec Baldwin (Vísir 20.11.16)
4) Ingó hjólar í Iceland Airwaves (Vísir 7.11.16)
5) Sara Heimis hjólar í Rich Piana (Nútíminn 17.11.16)
6) Bjarni hjólar í borgaralaun (Mbl. 29.09.16)
7) Carragher hjólar í markvörð Liverpool (433.is 15.12.16)
8) Friðrik Dór hjólar í Bónus (Séð og heyrt)
9) Höskuldur hjólar í Sigmund (RÚV 06.09.16)
10) Brynjar Níelsson hjólar í Birgittu Jónsdóttur (fréttastofa.is 1.11.16)
11) Sigmundur Davíð hjólar í þjóðfélagsumræðuna (fréttastofa.is 20.10.16)
12) Hjörleifur hjólar í Svandísi sem segist vera döpur (T24 22.11.16)
13) Dagur B. hjólar í borgarbúa (martagudjonsdottir.blog.is 06.09.16)
14) Davíð hjólar í blaðamenn og Birgittu (Hringbraut 14.04.16)
15) Ragga hjólar í fjölmiðla (Bleikt.is 16.08.16)
16) Sunna hjólar í Eggert (Stundin.is 2.02.16)
17) HSG hjólar í WOW Cyclothon (hjalparsveit.is 14.06.16)
18) Birgitta hjólar í Viðreisn (Eyjan 16.11.16)
19) Benedikt hjólar í Frosta vegna fundar með Guðmundi í Brim (DV 24.11.16)
20) Logi Bergmann hjólar í fýlupoka (DV 11.06.16)

Lifi hjólreiðar!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.12.2016 - 18:32 - FB ummæli ()

Pólitískt harakiri!

Það er örugglega gaman að vera ráðherra. Að vera „aðal“ í pólitíkinni. Og geta sagt barnabörnunum seinna frá afrekunum.

Allavega svona oftast nær.

Nú freista Píratar þess að koma saman fimm flokka stjórn ólíkra flokka. Það væri vissulega forvitnilegt að sjá slíka tilraun heppnast – svona út frá pólitísku sjónarhorni. Og það væri ekki síður gaman að sjá Birgittu Jónsdóttur í stól forseta Alþingis – í hlutverki vinnustaðasálfræðingsins. Hlutverk forseta þingsins er nefnilega ekki síst að ná sáttum og finna leiðir til að ólíkt fólk geti unnið saman. Hann þarf að vera sannkallaður vinnustaðasálfræðingur.

Sjálfur sé ég ekki Birgittu fyrir mér í þessu hlutverki, minnugur þess að kalla þurfti til slíkan sálfræðing til að miðla málum í þriggja manna þingflokki Pírata ekki fyrir löngu.

Annað er þó athyglisverðara. Ólíklegt er að fimm flokka stjórn lifi lengi. Til þess eru flokkarnir of ólíkir. Þá mun þvælingslegt og óljóst stjórnkerfi Pírata koma í veg fyrir eðlilega stjórnsýslu. Líklega yrði fljótlega boðað til kosninga að nýju – hætt er við að samstarfið við Pírata verði banabiti eins eða fleiri flokka í þessu samstarfi.

Arfleifðin verður pólitískt harakiri.

Eitt er víst. Það verða jól allt árið í stjórnarandstöðu hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki, fari svo að draumur Birgittu um fjölflokkastjórn rætist.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.11.2016 - 13:03 - FB ummæli ()

Einþykkni og þrjóska

Það má kannski læra eitt af stöðunni sem komin er upp í pólitíkinni.

Stórar yfirlýsingar um að þessi eða hinn flokkurinn muni ekki vinna með ákveðnum flokkum eru ekki skynsamar. Þær bera þvert á móti vott um pólitískan barnaskap og þrjósku.

Stjórnmál snúast um málamiðlanir. Í stjórnamyndunarviðræðum nær enginn öllu sínu fram. Þó að ljósár séu á milli hugmyndafræði flokka ber þeim samt að ræða saman þegar kemur að stjórnarmyndun. Kanna hvar snertifletirnir eru. Síðan er hægt að meta framhaldið.

Stjórnmálin eru smituð af einþykkni og þrjósku. Ef menn eru ósáttur eða í fýlu stofna þeir bara nýja flokka – um sjálfa sig og sitt egó. Dæmin eru fyrir framan okkur. Það er ekkert að því að hafa ákveðnar skoðanir og standa með þeim – það er hins vegar oft gengið of langt.

Því miður bendir fátt til þess að breytingar verði á. Í öllum kosningabaráttum síðari ára hefur verið rætt fjálglega um breytingar á umræðuhefð og vinnubrögðum.

Það bendir fátt til þess að sá draumur sé að rætast.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.11.2016 - 13:12 - FB ummæli ()

Rífandi stemning!

Rífandi stemning er nú á íslenskum hlutabréfamarkaði sem er í frjálsu falli eftir að Katrín Jakobsdóttir tilkynnti um viðræður vinstri flokkanna um stjórnarmyndun.

Þetta gerist á sama tíma og hlutabréfamarkaðir í hinum vestræna heimi eru í mikilli uppsveiflu.

Verðbréfamarkaðir eru næmir fyrir breytingum sem kunna að verða á stjórnarháttum. Hérlendis eru skilaboðin skýr. Fimm flokka ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mun hafa neikvæð áhrif á hagkerfið, efnahagslífið og heimili landsins.

Katrín byrjaði reyndar strax í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Gaf undir fótinn með skattahækkanir á miðstéttina, með því bæta aftur inn skattþrepinu sem átti að fella út um áramótin.

Það verður gaman að lifa á nýju ári!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.10.2016 - 12:52 - FB ummæli ()

Óbærilegur léttleiki

Aflandskrónueigendur eru búnir að kaupa kampavínið til að fagna nýju vinstri stjórninni á Íslandi.

Þeir eru óvitlausir. Vita sem er að nýja vinstri stjórnin verður meðfærilegri en stjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Þannig hefur Financial Times eftir lögmanni tveggja fjárfestingasjóða, sem eiga aflandskrónueignir, að væntanlega muni ný stjórn horfa allt öðruvísi á málin en núverandi stjórn hefur gert. Þannig gera þeir sér vonir um að hægt verði að semja um betri kjör komist vinstri flokkarnir til valda.

Þetta er eflaust rétt hjá þeim. Aflandskrónueigendur hafa alltaf litið á Framsóknarflokkinn sem sinn helsta óvin á Íslandi. Í kosningabaráttunni fyrir rúmum þremur árum hlógu fulltrúar vinstri flokkanna að Framsókn, og þá ekki síst Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir að láta sér detta í hug að hægt væri að ná í fjármagn til kröfuhafa og annarra sem áttu lokað fjármagn hérlendis. Annað kom á daginn.

Aflandskrónueigendur boða núna óbærilegan léttleika tilverunnar komist vinstri stjórn til valda.

Til að koma í veg fyrir það verður að kjósa Framsókn – XB

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.9.2016 - 07:27 - FB ummæli ()

Óvissuferðin

Kjósendur hafa val í lok október.

Þeir geta valið um áframhaldandi hagvöxt, áframhaldandi uppbyggingu, lágt atvinnuleysi og ábyrga fjármálastjórn sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa staðið fyrir. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur kaupmáttur heimila hækkað til muna, skuldir heimila lækkað og tekjur hækkað.

Því fer fjarri að uppbyggingunni sé lokið. Verulega þarf að bæta í heilbrigðiskerfið, bæta kjör aldraðra og öryrkja og verja menntakerfið, svo fátt eitt sé nefnt.

Hinn valkosturinn sem kjósendur hafa er óvissuferð í boði vinstri flokkanna og Pírata. Óvissuferðir geta vissulega verið skemmtilegar. Oftast byrja þær afar vel, en stundum verður hausverkurinn afar mikill daginn eftir.

Við höfum ekki efni á slíku árið 2016.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.9.2016 - 19:42 - FB ummæli ()

Afsökunarbeiðni

Það er full ástæða til að biðja eldri borgara og öryrkja afsökunar á kjör þeirra skuli ekki hafa verið bætt meira en raun ber vitni af þeirri ríkisstjórn sem ég tilheyri.

Það er ófyrirgefanlegt.

Þegar rétt um sjö vikur eru til kosninga bólar ekkert á aðgerðum. Og það þó að nægir fjármunir séu fyrir hendi.

Ég var í hópi þeirra þingmanna sem greiddi atkvæði gegn afturvirkum hækkunum til aldraðra og öryrkja á sínum tíma. Það gerði ég þar sem ég taldi að raunverulegar kjarabætur til framtíðar væri það sem raunverulega skipti máli fyrir þessa hópa. Ekki eingreiðsla upp á nokkra tugi þúsunda sem færi að stórum hluta í ríkiskassann aftur í formi skatta.

Því talaði ég fyrir 300.000 kr. lágmarksgreiðslum til þessara hópa á þeim tíma sem þessi mál voru í umræðunni, í þeirri trú að það yrði niðurstaðan áður en langt um liði. Það hefur ekki gerst og því voru það mistök að samþykkja ekki afturvirku greiðsluna – hún hefði verið betri en ekkert.

Nú er það svo að aldraðir og öryrkjar eru stór hópur og staða fólks er mismunandi. Það hefði verið í lófa lagið að byrja á þeim sem verst standa – en það eru um 9000 manns.

Áhugaleysi þingmanna gagnvart málefnum aldraðra er ekki bundið við kjarabætur. Velferðarnefnd, undir forystu Samfylkingar, stakk tillögu minni um umboðsmann aldraðra snarlega undir stól. Áhugi ákveðinna þingmanna í nefndinni á málinu var minni en enginn.

Það er ekki björgulegt fyrir stjórnarflokkana að fara í kosningar án þess að hafa tekið á málum aldraðra og öryrkja. Kosningaloforð um að taka eigi á þessum málum í næsta lífi verða aldrei sannfærandi.

Það er gott að vita að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, krefst tafarlausra aðgerða í pistli í dag.

Og verði ekkert gert á næstu sjö vikum – þá væri forvitnilegt að vita hvaða ráðherrar draga lappirnar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.9.2016 - 16:52 - FB ummæli ()

Auglýst eftir verðlækkun!

Ég auglýsi eftir verðlækkun á innfluttum vörum vegna styrkingar krónunnar og lækkunar á sköttum og gjöldum sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir- Hvar eru þessar lækkanir? Ég verð lítið var við þær.

Þannig bendir Alþýðusamband Íslands á að afnám vörugjalda á byggingavörur, lægri virðisaukaskattur og styrking krónunnar, hafi ekki skilað sér til neytenda Þvert á móti hefur vísitala byggingavara hækkað þrátt fyrir að ætla mætti að vörurnar hefðu getað lækkað umtalsvert.

Það er ekki langt síðan að ein evra var skráð á um 145 krónur. Í morgun var hún skráð á 129 krónur. Það er ekki langt síðan að dollarinn stóð í rúmum 130 krónum. Í morgun var hann í um 116 krónum. Pundið hefur síðan hrunið í kjölfar Brexit.

Og hvar eru verðlækkanir til neytenda?

Staðreyndin er sú að að skatta og gjaldahækkanir skila sér yfirleitt fljótt og vel út í verðlagið með hækkun vöruverðs. Skattalækkanir og styrking krónunnar seint og illa.

Aðgerðir, sem ekki síst eru ætlaðar eru til að styðja við heimilin í landinu, gagnast fyrst og fremst þeim sem stunda innflutning og smásölu.

Þannig sýndi kannanir að verðlækkanir á heimilistækjum vegna afnáms vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts á sínum tíma voru mun minni en gera mátti ráð fyrir.

Skilaði afnám tolla á fatnaði og skóm sér til neytenda? Ekki var það mikið.

Þetta er ekki bara spurning um viðhorf þeirra sem reka fyrirtæki. Þetta er líka dæmi um lítinn og óþroskaðan markað þar sem samkeppni er lítil.

Og í guðs bænum – höfum það hugfast að þó að excel skjalið segi okkur að verð á vöru og þjónustu eigi að lækka, þá er raunveruleikinn oftar en ekki allt annar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 31.8.2016 - 15:20 - FB ummæli ()

Raunir Ríkisútvarpsins

Undanfarna daga hefur heyrst sú skoðun að samkeppnisstaðan á fjölmiðlamarkaði sé ójöfn – hún sé ósanngjörn og komi í veg fyrir að einkareknir fjölmiðlar, sem flestir eða allir verða að reiða sig á auglýsingatekjur, geti vaxið og dafnað og þar með sinnt sínu hlutverki sem skyldi.

Ég er sammála þessu viðhorfi

Það er þó nauðsynlegt að hafa eitt í huga. Ef við ætlum að taka RÚV út af auglýsingamarkaði, eða skerða tekjur félagsins, kannski um milljarð eða meira – þá verður að svara þeirri spurningu hvort bæta eigi félaginu upp tekjumissinn, og þá hvernig. Á að auka framlög úr ríkissjóði, eða draga úr þjónustu? Þetta er lykilspurning sem verður að svara – það er ekki hægt að ákveða einhliða að gera breytingu á tekjumódeli RÚV nema ákveða framtíð þess í leiðinni.

Rekstur einkarekinna lítilla fjölmiðla er þungur og það verður að styðja þá og styrkja. Fjölmiðlun er einn af hornsteinum lýðræðis og lyðræðislegrar umræðu í þjóðfélaginu. Það er skylda okkar að hlúa að þessum miðlum, þó ekki sé nema til að tryggja að sem flestar raddir fái að heyrast í þjóðfélagsumræðunni.

Það er hins vegar ekki sjálfgefið að sú aðgerð að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði með einu pennastriki gagnist nógu vel. Það er til dæmis ekki víst að auglýsendur beini auglýsingum sínum jafnt á alla aðra miðla, það er hætta á að þeir smæstu verði útundan og að þeir stærstu éti kökuna.

Annar möguleiki er að hækka verðskrá RÚV á auglýsingum verulega til að gefa öðrum á þessum markaði aukið rými til athafna. Það er of lítill munur á verði auglýsinga sem leiðir til þess að auglýsendur velja oft RÚV þar sem þeir ná til flestra.

Loks vil ég nefna þann möguleika að setja þak á auglýsingatekjur RÚV. Í dag nema þessar tekjur á 2,2 milljörðum á ári. Hægt væri að setja þak á þessa upphæð, þannig að hún væri t.d. einn og hálfur milljarður á ári og síðan gæti sú upphæð smá saman lækkað. Ef þessi leið yrði farin þyrfti að bæta féaginu upp tímabundið tekjumissinn.

Þetta er umræða sem við verðum að taka í tengslum við framtíð RÚV.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.8.2016 - 19:01 - FB ummæli ()

Lýðræðisást þegar hentar

Ég er í hópi 25 þingmanna sem lögðu í dag fram þingsalyktunartillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Flugvöllurinn getur aldrei verið einkamál borgarstjórnar Reykjavikur. Þetta er flugvöllur landsmanna allra, hvað svo sem misvitrir stjórnmálamenn segja.

Meirihlutinn í borgarstjórn, fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata, hafa hsft að engu vilja um 70 þúsund landsmanna sem skrifuðu undir áskorun um að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni.

Tveir þingmenn Vinstri grænna eru á tillögunni sem lögð var fram í dag – einn frá Samfylkingu en enginn frá Bjartri framtíð og Pírötum.

Þetta eru flokkar sem tala fjálglega um þjóðaratkvæðagreiðslur þegar hentar.

En það hentar greinilega ekki núna. Þetta er lýðræðisást þegar hentar.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is