Fimmtudagur 11.8.2016 - 15:18 - FB ummæli ()

Framboð í 1. sæti

Kæru félagar og vinir;

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir næstu Alþingiskosningar, en valið verður á lista flokksins á tvöföldu kjördæmisþingi í lok mánaðarsins.
Ég hef setið á Alþingi frá árinu 2013 fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður. Í störfum mínum hef ég m.a. lagt áherslu á heilbrigðismál, skattamál og málefni tengd öldruðum, og hef lagt fram frumvörp og þingsályktunartillögur þar um.
Þá hef ég verið formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins frá árinu 2013. Síðastliðið ár hef ég verið varaforseti ALDE (Alliance of Liberals and Democrats) innan ráðsins, auk þess að vera varformaður stærstu nefndar Evrópuráðsins, Stjórnmála- og lýðræðisnefndarinnar (Committee of Politcal Affairs and Democracy).
Framsóknarflokkurinn hefur verið í fararbroddi í núverandi ríkisstjórn, sem hefur náð ótrúlegum árangri í störfum sínum. Þannig hafa um 15.000 ný störf skapast frá árinu 2013, hagvöxtur er einn sá mesti í vestrænu ríki, atvinnuleysi er komið niður í um 3% og verðbólga mælist nánast engin. Þetta hefur leitt til betri lífskjara almennings.
Á næsta kjörtímabili þarf að byggja á þessum grunni – leggja þarf áherslu á að styrkja heilbrigðiskerfið með stórauknum framlögum, bæta kjör aldraðra og öryrkja og styrkja innviði landsins, þ.m.t. samgöngur. Húsnæðismál ungs fólks verða einnig í forgrunni.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.7.2016 - 09:45 - FB ummæli ()

Enn eitt ruglið

Það hefur aldrei verið neinn skortur á erlendum lukkuriddurum sem vilja fjárfesta á Íslandi. Og það hefur aldrei verið neinn skortur á bláeygðum stjórnmálamönnum sem trúa öllu sem þeim er sagt eins og nýju neti.

Það nýjasta er nýtt og glæsilegt einkasjúkrahús í Mosfellsbæ.

Slíkt sjúkrahús mun óhjákvæmilega leiða til mikils launaskriðs hjá öllum heilbrigðisstéttum, sem síðan myndi yfirfærast á almennan launamarkað, rétt eins og gerðist síðast þegar læknar knúðu fram launahækkanir, sem eiga engan sinn líka. Nú þegar er gífurlegur skortur á sérþjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki hérlendis og að halda því fram að opnun 1000 manna sjúkrahúss muni ekki hafa áhrif á laun, er fáviska. Útilokað er að hægt verði að manna slíkan vinnustað að fullu með erlendu starfsfólki. Afleiðingarnar verða mikið launaskrið hins opinbera með tilheyrandi verðbólgu.

Kostnaður ríkisins vegna veittrar heilbrigðisþjónustu hérlendis mun því aukast gífurlega. Og allt vegna þess að erlendir aðilar vilja byggja hér sjúkrahús sem sinna á þeim sem vilja og geta borgað.

Eru íslenskir skattborgarar tilbúnir til þess? Er þetta það sem fólk vill? Viljum við rústa íslensku heilbrigðskerfi? Við erum smáþjóð sem hefur ekki efni á mörgum stórum sjúkrahúsum. Því verðum við að hlúa sem best að þjóðarsjúkrahúsinu. Þar liggur áherslan.

Ég læt vera að varpa fram spurningum um almannatryggingakerfið og hvað áhrif nýtt sjúkrahús hefur á það.

Að lokum. Eru menn virkilega á því að um mitt ár 2016 sé það ásættanlegt að ráðist sé í risaframkvæmdir hérlendis þar sem leynd hvílir yfir eignarhaldi?

Eru menn endanlega gengnir af göflunum?

Er nema von að spurt sé.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.7.2016 - 13:19 - FB ummæli ()

Að loka augum og eyrum

Vestrænir stjórnmálaleiðtogar anda léttar eftir hina misheppnuðu uppreisn í Tyrklandi og það er helst að skilja að þar sé allt í góðum gír. Það fer lítið fyrir opinberri gagnrýni á Erdogan forseta, þrátt fyrir eftirfarandi:

– Stjórn Erdogans hefur svipt þingmenn friðhelgi, þannig að hægt er að sækja þá til saka verði þeim á að gagnrýna stjórnvöld. Hundruð stjórnarandstæðinga á þingi eiga málshöfðanir yfir höfði sér.

– Bannað er að móðga forsetann í ræðu og riti, samkvæmt nýsamþykktum lögum. Þannig var t.d. fyrrverandi fegurðardrotting í Tyrklandi dæmd í 14 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að móðga forsetann í ljóði sem hún birti á samfélagsmiðlum.

– Erdogan hefur látið loka um 110.000 vefsíðum sem birtu efni sem var ekki að skapi stjórnvalda.

– Undanfarin tvö ár hafa um tvö þúsund mál gegn blaðamönnum og fræðimönnum sem eru sakaðir um að hafa móðgað forseta landsins verið sótt fyrir tyrkneskum dómstólum.

– Þúsundir stjórnarandstæðinga hafa verið myrtir í átökum, ekki síst í suðaustuhluta landsins.

– Mannréttindi hafa verið þverbrotin í landinu á sama tíma og lýðræðislegar stofnanir eru undir járnhæl forsetans.

Allt þetta er réttlætt með því að landið verði að grípa til róttækra aðgerða til stemma stigu við hryðjuverkum. Vissulega er Tyrkland í bakgarði ISIS og landsmenn hafa þurft að horfa upp á skelfileg hryðjuverk á undanförnum mánuðum.

Við megum ekki heldur gleyma að Tyrkir hafa tekið móti milljónum flóttamanna frá Sýrlandi og öðrum löndum og gert það með sóma. Þetta hefur verið þungur baggi, þar sem vestræn ríki sýndu málinu engan áhuga fyrr en flóttamannstraumurinn fór að berast í þeirra eigin kálgarð.

Við megum hins vegar aldrei gefa afslátt á mannréttindum. Og við megum aldrei líta til hliðar – það verða vestrænir stjórnmálamenn að muna.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.7.2016 - 11:13 - FB ummæli ()

Glataðir snillingar

Færeyski rithöfundurinn William Heinesen skrifaði fyrir margt löngu sögu sem nefndist „Glataðir snillingar“ í íslenskri þýðingu.

Oft hefur þessi titill komið upp í hugann þegar ég hef hlustað á snillinga hinnar íslensku þjóðfélagsumræðu. Ekki það að ég telji þá glataða, miklu frekar snillinga. Slíkt fólk tjáir sig daglega á samfélagsmiðlum, sumir úr ræðustól Alþingis.  Þetta er fólk sem hefur ekki bara skoðanir, heldur líka réttu skoðanirnar. Það verður gjarnan pirrað og reitt ef aðrir eru með efasemdir. Þetta er fólk sem vill stjórna og veit betur.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins fyrir nokkru sagði að tilhneigingin væri sú að að hinir stjórnlyndu teldu sig gjarnan eiga meira erindi í stjórnmál og opinbera umræðu en aðrir, enda grundvöllur stefnunnar ekki síst sá að telja sig vita betur en almenningur hvað honum er fyrir bestu. Þetta valdi því að viðhorf stjórnlyndis fái mikið vægi í umræðunni.

Það er mikið til í þessu. Sjálfur hef ég ekki hundsvit á fjölmörgum þeirra mála sem rædd hafa verið á þingi. Í þeim tilvikum hef ég reynt að halda mig til hlés í stað þess að blaðra ábyrgðarlaust út í loftið. Þannig hef ég valið fá, en það sem ég tel vera góð mál, og barist fyrir þeim. Þar get ég nefnt baráttu gegn skattaundanskotum og kennitöluflakki,  að geðheilbrigði barna og ungmenna sé bætt, að stofnað verði embætti umboðsmanns aldraðra o.sv.frv.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um að þessi mál hafa ekki verið samþykkt, nema að heilbrigðisráðherra taldi tilvalið að taka geðheilbrigðishugmyndina inn í langtímaáætlun sína. Það var gott. Öðrum málum hefur samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, ekki haft áhuga á – frelsi einstaklingsins til að haga sér eins og hann vill er ofar öllu öðru í hugmyndafræði þess flokks. Þess vegna er ekki vilji til að taka á skattaundanskotum og kennitöluflakki. Þá er lítill áhugi þar innandyra á embætti umboðsmanns aldraðra – vegna þess að það myndi þýða enn eina stofnunina. Það vegur þyngra en notagildi hennar.

Ég lít á mig sem talsmann einstaklingsfrelsis. Það eru hins vegar takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga. Hagsmunir fjöldans eru alltaf mikilvægari en einstaklingsins.

Það líður að kosningum. Enn og aftur er enginn skortur á þeim sem vilja leiðbeina okkur hinum sem höfum villst af leið. Ég dáist innst inni af þeim sem vita betur. Þeim sem telja sig vita best hvernig náunginn á að lifa lífinu – hvað honum sé fyrir bestu. Það er ekki öllum gefið.

Sú hugsun hlýtur að vera áleitin hvort ekki sé rétt að hleypa þessu fólki að.

Allavega gengur ekki að hafa glataða snillinga í þingsal.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.5.2016 - 10:32 - FB ummæli ()

Aldraðir skildir eftir

Margt bendir til þess að Alþingi muni ekki afgreiða þingsályktun mína og nokkurra annarra þingmanna Framsóknarflokksins um að sett verði á laggirnar embætti umboðsmanns aldraðra.

Þetta er þyngra en tárum taki.

Málið er núna búið að vera fast í velferðarnefnd þingsins svo mánuðum skiptir. Nefndinni er  ákveðin vorkunn, þar sem hún hefur verið upptekin í stórum málaflokkum, svo sem húsnæðismálum, sem eru tímafrek. Þó er vitað um ákveðna andstöðu innan nefndarinnar við málið og er það miður.

Ellefu umsagnir hafa borist og eru þær allar mjög jákvæðar, nema tvær þar sem varpað er fram efasemdum um að rétt sé að stofna enn eitt embættið. Rétt er að geta þess að hugsunin með framlagningu málsins var aldrei að stofna stórt og fjárfrekt embætti.

Sjálfur er ég sannfærður um að mikill meirihluti sé fyrir þessu máli á þingi. Það er því sorglegt að þingið fái ekki að greiða atkvæði um umboðsmanninn þannig að lýðræðisleg niðurstaða fáist.

Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur og misjafnlega fær um að gæta réttar síns og hagsmuna sjálfur. Það er rík þörf á málsvara fyrir þennan hóp. Sú þörf mun aðeins aukast eftir því sem tímar líða. Gert er ráð fyrir að 67 ára og eldri fjölgi um rúmlega 26.000 á næstu 15 árum, um 71%. Talið er að 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6.600, um 55%.

Sambærileg mál hafa oftsinnis verið lögð fram á þingi, en ætíð stöðvast þar. Einn helsti baráttumaður fyrir stofnun umboðsmanns aldraðra hefur verið Guðmundur Hallvarðsson, sá ágæti fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Fáir þekkja hag og aðstæður aldraðra betur en hann, enda hefur hann verið lykilmaður í stjórnun Hrafnistuheimilanna um árabil.

Guðmundur hefur sannfært mig um mikilvægi málsins.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.3.2016 - 14:33 - FB ummæli ()

Óvinur nr. 1

Ríkisútvarpið hefur staðið fyrir herferð gegn forsætisráðherra undanfarna viku og þar hafa allar reglur um hlutlægni látið undan. Hér eru nokkur dæmi:

Í Kastljósi lék lausum hala Jón Ólafsson, sem stjórnaði innra umbótastarfi Samfylkingarinnar eftir hrun og hefur verið óspar á neikvæðu lýsingarorðin um Sigmund Davíð síðan sá síðarnefndi tók af honum formennsku í siðanefnd stjórnarráðsins, bitlingnum sem hann fékk í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Í morgunútvarpið á föstudaginn voru kallaðir til að ræða mál forsætisráðherra þeir Jóhann Hauksson fyrrum upplýsingafulltrúi Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður á Stundinni, sem hefur skrifað ótal greinar um Sigmund og Framsókn, þar sem hatri og fyrirlitningu á flokknum hefur verið sáð. Það er ekki að ástæðulausu að jafnvel Egill Helgason segir opinberlega að Stundin sé fjölmiðill sem hati Framsóknarflokkinn. Þannig fólki þykir RÚV ástæða til að veita lausan tauminn í útvarpi allra landsmanna. Jóhann Hauksson var ekki einu sinni kynntur sem blaðamaður í upphafi þessa viðtals, hvað þá sem fyrrum spunameistari Jóhönnu Sigurðardottur og augljós pólitískur andstæðingur forsætisráðherra um árabil. Það hefði verið jafn hlutlaust að fá Hannes Hólmstein til að tala um fjölsklydumálefni Árna Páls eða Steingríms Joð í útvarpi.

Til að svara spurningum fréttamanns í kvöldfréttum sama dag um hvort Sigmundur hafi farið eftir siðareglum velur RÚV að kalla til prófessor Vilhjálm Árnason, sem á sínum tíma kallaði afstöðu Sigmundar Davíðs um að segja nei við Icesave samningum „siðferðilega óverjandi“.

Nú á mánudagsmorgni tók svo steininn úr þar sem enn á ný voru boðnir til að tjá sig tveir yfirlýstir andstæðingar Sigmundar Davíðs, þeir Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar og Indriði H. Þorláksson hægri hönd Svavars Gestsonar í Iceasave samninganefndinni. Það þarf ekki lengi að lesa skrif og ræður Róberts til að átta sig á því að hann fyrirlítur Framsóknarflokkinn – „Til hvers er Framsóknarflokkurinn?“ spyr hann í blaðagrein árið 2007 – „Hann er vítið sem öllum ber að varast.“ er svarið.

RÚV virðist líka alveg hafa gleymt því að Indriði H. Þorláksson á sér sögu í pólitískri andstöðu við Sigmund Davíð, að hann samdi um og skrifaði undir Svavarssamningana árið 2009 og var hægri hönd Steingríms J. Sigfússonar þegar bankarnir voru gefnir hrægammasjóðunum, eins og Víglundur Þorsteinsson hefur upplýst með því að draga fundargerðir eins og tennur úr kjafti kerfisins. En Indriði er að sjálfsögðu aðeins kynntur sem „fyrrverandi ríkisskattstjóri“ þegar hann mætir í Ríkisútvarpið til viðtals.

Allt er þetta bullandi hlutdræga fólk er bara kynnt sem hlutlausir álitsgjafar í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins, í spjalli um fréttir vikunnar og vangaveltum í morgunútvarpi. Ofan á þetta bætist að á meðan Þórður Snær Júlíusson á Kjarnanum gengur nær af göflunum í því heilaga stríði gegn Sigmundi, leiðréttingunni og Framsóknarflokknum, sem hann hefur háð frá því hann skrifaði um Óvin númer 1 fyrir kosningar 2013, sér fyrrverandi félagi hans og meðeigandi að Kjarnanum Ægir Þór Eysteinsson um helftina af fréttaflutningi Ríkisútvarpsins af málinu.

Ríkisútvarpið hefur loksins fellt grímuna. Hún er ófögur ásjónan sem við blasir. Óvinur nr. 1 er fundinn í Framsóknarflokknum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.3.2016 - 14:18 - FB ummæli ()

Hvar er stjórnstöðin?

Egill Helgason hefur áhyggjur af stöðu ferðamála og spyr hvar margauglýst Stjórnstöð ferðamála sé.

Mér skilst að hún hafi komið þrisvar saman til fundar. Sá síðasti var fyrir örfáum dögum.

Á meðan stefnir í algjört öngþveiti á ferðamannastöðum Ástandið í fyrra verður eins og fallegur draumur miðað við það sem framundan er. Athafnaleysið í málaflokknum mun að óbreyttu valda óbætanlegu tjóni á náttúru landsins, þar sem átroðningur og skipulagsleysi verður í öndvegi.  Egill talar um  græðgi, peningaplokk, sinnuleysi, fyrirhyggjuleysi og lélega aðstöðu á ferðamannastöðum. Því miður hefur hann rétt fyrir sér. Til viðbótar má nefna skattsvik og skakka samkeppnisstöðu af völdum þeirra.

Það er ekki bara ámælisvert að þessi mikilvægi  málaflokkur skuli ekki hafa verið tekinn fastari tökum – það er hneyksli.

Nú berast fréttir af því að setja eigi nokkur hundruð milljónir króna í að bæta öryggi á ferðamannastöðum. Hlutur sem hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu. Því miður þurfti dauðsföll til.

En á sama tíma hafa engar nýjar tillögur litið dagsins ljós varðandi gjaldtöku á ferðmannastöðum. Þetta er eins og leikhús fáránleikans.

Ég sé ekki hvernig Framsóknarflokkurinn getur setið hjá mikið lengur í þessu máli.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.2.2016 - 14:57 - FB ummæli ()

Tíu mál um kennitöluflakk

Undirritaður hefur ákveðið að leggja fram allt að tíu mál í þingi á næstu mánuðum, sem öll  tengjast baráttunni gegn kennitöluflakki. Um er að ræða lagafrumvörp og þingsályktunartillögur.

Nokkrir þingmenn hafa bent á að kennitöluflakk verði ekki stöðvað með frumvarpinu sem lagt var fram í síðustu viku. Það er rétt, enda var það hugsað sem fyrst skref í baráttunni gegn þeirri óværu sem kennitöluflakkið er. Það mun gera hinum seku erfiðara fyrir, en þeir munu finna aðrar glufur.

Þá hefur verið kvartað undan því að kennitölufrumvarpið sé íþyngjandi. Þannig er fullyrt að hugsanlega munum við missa af næsta Bill Gates á meðal vor, ef menn fá ekki að setja nokkur fyrirtæki á hausinn, með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðfélagið, áður en þeir slá í gegn. Rétt er að benda á og ítreka að frumvarpið gerir einungis ráð fyrir að menn taki pásu eftir tvö gjaldþrot á þremur árum.  Kannski geta þeir þá unnið betur að viðskiptaáætlunum sínum.Er það ósanngjörn krafa?

Það er undarleg hugmyndafræði að líta á kennitöluflakk, tollalagabrot eða skattsvik sem saklausan hlut. Kostnaður þjóðfélagsins nemur allt að 100 milljörðum króna á ári. Ríkið tapar, starfsmenn tapa, birgjar tapa o.sv.frv. Oft leiðir þetta til keðjuverkandi gjaldþrota.

Þingmálin 10 eru lögð fram til að koma skikki á þessa hluti. Verða þau íþyngjandi? Já, eflaust mörg þeirra. En umferðarlögin eru líka íþyngjandi, ef menn vilja taka slíka umræðu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.2.2016 - 13:04 - FB ummæli ()

Í hart gegn skattsvikum

Ríkisskattstjóri hefur áætlað að skattaundanskot, m.a. vegna kennitöluflakks, geti numið um 80 milljörðum króna á ári. Þetta er ámóta upphæð nemur kostnaði við byggingu nýs Landspítala – og það á hverju ári.

Þingmenn og ráðherrar hafa haft stór orð um þá meinsemd sem kennitöluflakk er – það hefur þó verið minna um athafnir hjá þeim.

Ég legg í dag fram lagafrumvarp, ásamt þingmönnum úr fjórum flokkum,  sem kveður á um að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar megi ekki á síðustu þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö félög eða fleiri sem orðið hafa gjaldþrota. Þetta er fyrsta raunverulega atlagan sem gerð er gegn kennitöluflakki, þar sem hópur manna hefur stundað misnotkun á þeirri takmörkuðu ábyrgð sem felst í félagaforminu.

Samtök atvinnurekenda munu eflaust reka upp ramakvein og hafa stór orð um íþyngjandi ákvæði sem hefti frelsi manna til athafna og atvinnu. Ákvæðið er vissulega íþyngjandi, en þó nauðsynlegt með tilliti til þeirra hagsmuna sem fyrir hendi eru. Stundum er nauðsynlegt að setja skorður á frelsið, sérstaklega ef hagmunir þorra almennings eru þess eðlis.  Atvinnufrelsisákvæði  75. gr. stjórnarskrár opnar einnig fyrir þann möguleika.

Trúi ekki öðru en að þeir þingmenn sem hæst hafa haft um kennitöluflakk á Alþingi styðji málið. Eða er það ekki öruggt?

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.2.2016 - 09:31 - FB ummæli ()

Svona ná þeir peningum af okkur

Bankar og önnur fjármálafyrirtæki rukka almenning um tugi milljarða í formi alls kyns þjónustugjalda, sem sífellt fara hækkandi. Það er ljóst að það þarf bæði frjótt ímyndunarafl og sterkan vilja til að finna upp öll þau gjöld sem fyrir hendi eru. Gjörið svo vel, hér er listi  með um 30 aðferðum til að ná peningum af okkur. Listinn þarf ekki að vera tæmandi:

Tilkynningargjald
Seðilgjald
Úttektargjald
Úrvinnslugjald
Umsýslugjald
Umsjón
Innheimtukostnaður
Þóknun
Dráttarvextir
Hraðbankagjald
Debetkortagjald
Vörsluþóknun
Útskriftargjald
Þóknun vegna peningaúttektar innanlands
Svargjald bankaþjónustu
Greiðslugjald
Greiðsluseðlagjald
Kortagjald
Milliinnheimtuþóknun
Þjónustugjald
Innheimtuviðvörun
Greiðsluáskorun
Birting greiðsluáskorunar
Innheimtuþóknun
Vextir á verðbætur
Banka- og seðilgjald
Skuldfærð þóknun
Leigugjald beinis (ekki banki)
Línugjald (ekki banki)

Á einni áminningu var tilkynningarkostnaður 260 krónur, en ef ekki var látið vita, þá kostaði það ekki nema 160 krónur.

Er nema von að fólki blöskri og sé búið að fá nóg? Og er nema von að uppi sé krafa um nýtt og heiðarlegra bankakerfi?

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is