Þriðjudagur 27.9.2016 - 07:27 - FB ummæli ()

Óvissuferðin

Kjósendur hafa val í lok október.

Þeir geta valið um áframhaldandi hagvöxt, áframhaldandi uppbyggingu, lágt atvinnuleysi og ábyrga fjármálastjórn sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa staðið fyrir. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur kaupmáttur heimila hækkað til muna, skuldir heimila lækkað og tekjur hækkað.

Því fer fjarri að uppbyggingunni sé lokið. Verulega þarf að bæta í heilbrigðiskerfið, bæta kjör aldraðra og öryrkja og verja menntakerfið, svo fátt eitt sé nefnt.

Hinn valkosturinn sem kjósendur hafa er óvissuferð í boði vinstri flokkanna og Pírata. Óvissuferðir geta vissulega verið skemmtilegar. Oftast byrja þær afar vel, en stundum verður hausverkurinn afar mikill daginn eftir.

Við höfum ekki efni á slíku árið 2016.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.9.2016 - 19:42 - FB ummæli ()

Afsökunarbeiðni

Það er full ástæða til að biðja eldri borgara og öryrkja afsökunar á kjör þeirra skuli ekki hafa verið bætt meira en raun ber vitni af þeirri ríkisstjórn sem ég tilheyri.

Það er ófyrirgefanlegt.

Þegar rétt um sjö vikur eru til kosninga bólar ekkert á aðgerðum. Og það þó að nægir fjármunir séu fyrir hendi.

Ég var í hópi þeirra þingmanna sem greiddi atkvæði gegn afturvirkum hækkunum til aldraðra og öryrkja á sínum tíma. Það gerði ég þar sem ég taldi að raunverulegar kjarabætur til framtíðar væri það sem raunverulega skipti máli fyrir þessa hópa. Ekki eingreiðsla upp á nokkra tugi þúsunda sem færi að stórum hluta í ríkiskassann aftur í formi skatta.

Því talaði ég fyrir 300.000 kr. lágmarksgreiðslum til þessara hópa á þeim tíma sem þessi mál voru í umræðunni, í þeirri trú að það yrði niðurstaðan áður en langt um liði. Það hefur ekki gerst og því voru það mistök að samþykkja ekki afturvirku greiðsluna – hún hefði verið betri en ekkert.

Nú er það svo að aldraðir og öryrkjar eru stór hópur og staða fólks er mismunandi. Það hefði verið í lófa lagið að byrja á þeim sem verst standa – en það eru um 9000 manns.

Áhugaleysi þingmanna gagnvart málefnum aldraðra er ekki bundið við kjarabætur. Velferðarnefnd, undir forystu Samfylkingar, stakk tillögu minni um umboðsmann aldraðra snarlega undir stól. Áhugi ákveðinna þingmanna í nefndinni á málinu var minni en enginn.

Það er ekki björgulegt fyrir stjórnarflokkana að fara í kosningar án þess að hafa tekið á málum aldraðra og öryrkja. Kosningaloforð um að taka eigi á þessum málum í næsta lífi verða aldrei sannfærandi.

Það er gott að vita að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, krefst tafarlausra aðgerða í pistli í dag.

Og verði ekkert gert á næstu sjö vikum – þá væri forvitnilegt að vita hvaða ráðherrar draga lappirnar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.9.2016 - 16:52 - FB ummæli ()

Auglýst eftir verðlækkun!

Ég auglýsi eftir verðlækkun á innfluttum vörum vegna styrkingar krónunnar og lækkunar á sköttum og gjöldum sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir- Hvar eru þessar lækkanir? Ég verð lítið var við þær.

Þannig bendir Alþýðusamband Íslands á að afnám vörugjalda á byggingavörur, lægri virðisaukaskattur og styrking krónunnar, hafi ekki skilað sér til neytenda Þvert á móti hefur vísitala byggingavara hækkað þrátt fyrir að ætla mætti að vörurnar hefðu getað lækkað umtalsvert.

Það er ekki langt síðan að ein evra var skráð á um 145 krónur. Í morgun var hún skráð á 129 krónur. Það er ekki langt síðan að dollarinn stóð í rúmum 130 krónum. Í morgun var hann í um 116 krónum. Pundið hefur síðan hrunið í kjölfar Brexit.

Og hvar eru verðlækkanir til neytenda?

Staðreyndin er sú að að skatta og gjaldahækkanir skila sér yfirleitt fljótt og vel út í verðlagið með hækkun vöruverðs. Skattalækkanir og styrking krónunnar seint og illa.

Aðgerðir, sem ekki síst eru ætlaðar eru til að styðja við heimilin í landinu, gagnast fyrst og fremst þeim sem stunda innflutning og smásölu.

Þannig sýndi kannanir að verðlækkanir á heimilistækjum vegna afnáms vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts á sínum tíma voru mun minni en gera mátti ráð fyrir.

Skilaði afnám tolla á fatnaði og skóm sér til neytenda? Ekki var það mikið.

Þetta er ekki bara spurning um viðhorf þeirra sem reka fyrirtæki. Þetta er líka dæmi um lítinn og óþroskaðan markað þar sem samkeppni er lítil.

Og í guðs bænum – höfum það hugfast að þó að excel skjalið segi okkur að verð á vöru og þjónustu eigi að lækka, þá er raunveruleikinn oftar en ekki allt annar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 31.8.2016 - 15:20 - FB ummæli ()

Raunir Ríkisútvarpsins

Undanfarna daga hefur heyrst sú skoðun að samkeppnisstaðan á fjölmiðlamarkaði sé ójöfn – hún sé ósanngjörn og komi í veg fyrir að einkareknir fjölmiðlar, sem flestir eða allir verða að reiða sig á auglýsingatekjur, geti vaxið og dafnað og þar með sinnt sínu hlutverki sem skyldi.

Ég er sammála þessu viðhorfi

Það er þó nauðsynlegt að hafa eitt í huga. Ef við ætlum að taka RÚV út af auglýsingamarkaði, eða skerða tekjur félagsins, kannski um milljarð eða meira – þá verður að svara þeirri spurningu hvort bæta eigi félaginu upp tekjumissinn, og þá hvernig. Á að auka framlög úr ríkissjóði, eða draga úr þjónustu? Þetta er lykilspurning sem verður að svara – það er ekki hægt að ákveða einhliða að gera breytingu á tekjumódeli RÚV nema ákveða framtíð þess í leiðinni.

Rekstur einkarekinna lítilla fjölmiðla er þungur og það verður að styðja þá og styrkja. Fjölmiðlun er einn af hornsteinum lýðræðis og lyðræðislegrar umræðu í þjóðfélaginu. Það er skylda okkar að hlúa að þessum miðlum, þó ekki sé nema til að tryggja að sem flestar raddir fái að heyrast í þjóðfélagsumræðunni.

Það er hins vegar ekki sjálfgefið að sú aðgerð að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði með einu pennastriki gagnist nógu vel. Það er til dæmis ekki víst að auglýsendur beini auglýsingum sínum jafnt á alla aðra miðla, það er hætta á að þeir smæstu verði útundan og að þeir stærstu éti kökuna.

Annar möguleiki er að hækka verðskrá RÚV á auglýsingum verulega til að gefa öðrum á þessum markaði aukið rými til athafna. Það er of lítill munur á verði auglýsinga sem leiðir til þess að auglýsendur velja oft RÚV þar sem þeir ná til flestra.

Loks vil ég nefna þann möguleika að setja þak á auglýsingatekjur RÚV. Í dag nema þessar tekjur á 2,2 milljörðum á ári. Hægt væri að setja þak á þessa upphæð, þannig að hún væri t.d. einn og hálfur milljarður á ári og síðan gæti sú upphæð smá saman lækkað. Ef þessi leið yrði farin þyrfti að bæta féaginu upp tímabundið tekjumissinn.

Þetta er umræða sem við verðum að taka í tengslum við framtíð RÚV.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.8.2016 - 19:01 - FB ummæli ()

Lýðræðisást þegar hentar

Ég er í hópi 25 þingmanna sem lögðu í dag fram þingsalyktunartillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Flugvöllurinn getur aldrei verið einkamál borgarstjórnar Reykjavikur. Þetta er flugvöllur landsmanna allra, hvað svo sem misvitrir stjórnmálamenn segja.

Meirihlutinn í borgarstjórn, fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata, hafa hsft að engu vilja um 70 þúsund landsmanna sem skrifuðu undir áskorun um að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni.

Tveir þingmenn Vinstri grænna eru á tillögunni sem lögð var fram í dag – einn frá Samfylkingu en enginn frá Bjartri framtíð og Pírötum.

Þetta eru flokkar sem tala fjálglega um þjóðaratkvæðagreiðslur þegar hentar.

En það hentar greinilega ekki núna. Þetta er lýðræðisást þegar hentar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.8.2016 - 15:18 - FB ummæli ()

Framboð í 1. sæti

Kæru félagar og vinir;

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir næstu Alþingiskosningar, en valið verður á lista flokksins á tvöföldu kjördæmisþingi í lok mánaðarsins.
Ég hef setið á Alþingi frá árinu 2013 fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður. Í störfum mínum hef ég m.a. lagt áherslu á heilbrigðismál, skattamál og málefni tengd öldruðum, og hef lagt fram frumvörp og þingsályktunartillögur þar um.
Þá hef ég verið formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins frá árinu 2013. Síðastliðið ár hef ég verið varaforseti ALDE (Alliance of Liberals and Democrats) innan ráðsins, auk þess að vera varformaður stærstu nefndar Evrópuráðsins, Stjórnmála- og lýðræðisnefndarinnar (Committee of Politcal Affairs and Democracy).
Framsóknarflokkurinn hefur verið í fararbroddi í núverandi ríkisstjórn, sem hefur náð ótrúlegum árangri í störfum sínum. Þannig hafa um 15.000 ný störf skapast frá árinu 2013, hagvöxtur er einn sá mesti í vestrænu ríki, atvinnuleysi er komið niður í um 3% og verðbólga mælist nánast engin. Þetta hefur leitt til betri lífskjara almennings.
Á næsta kjörtímabili þarf að byggja á þessum grunni – leggja þarf áherslu á að styrkja heilbrigðiskerfið með stórauknum framlögum, bæta kjör aldraðra og öryrkja og styrkja innviði landsins, þ.m.t. samgöngur. Húsnæðismál ungs fólks verða einnig í forgrunni.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.7.2016 - 09:45 - FB ummæli ()

Enn eitt ruglið

Það hefur aldrei verið neinn skortur á erlendum lukkuriddurum sem vilja fjárfesta á Íslandi. Og það hefur aldrei verið neinn skortur á bláeygðum stjórnmálamönnum sem trúa öllu sem þeim er sagt eins og nýju neti.

Það nýjasta er nýtt og glæsilegt einkasjúkrahús í Mosfellsbæ.

Slíkt sjúkrahús mun óhjákvæmilega leiða til mikils launaskriðs hjá öllum heilbrigðisstéttum, sem síðan myndi yfirfærast á almennan launamarkað, rétt eins og gerðist síðast þegar læknar knúðu fram launahækkanir, sem eiga engan sinn líka. Nú þegar er gífurlegur skortur á sérþjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki hérlendis og að halda því fram að opnun 1000 manna sjúkrahúss muni ekki hafa áhrif á laun, er fáviska. Útilokað er að hægt verði að manna slíkan vinnustað að fullu með erlendu starfsfólki. Afleiðingarnar verða mikið launaskrið hins opinbera með tilheyrandi verðbólgu.

Kostnaður ríkisins vegna veittrar heilbrigðisþjónustu hérlendis mun því aukast gífurlega. Og allt vegna þess að erlendir aðilar vilja byggja hér sjúkrahús sem sinna á þeim sem vilja og geta borgað.

Eru íslenskir skattborgarar tilbúnir til þess? Er þetta það sem fólk vill? Viljum við rústa íslensku heilbrigðskerfi? Við erum smáþjóð sem hefur ekki efni á mörgum stórum sjúkrahúsum. Því verðum við að hlúa sem best að þjóðarsjúkrahúsinu. Þar liggur áherslan.

Ég læt vera að varpa fram spurningum um almannatryggingakerfið og hvað áhrif nýtt sjúkrahús hefur á það.

Að lokum. Eru menn virkilega á því að um mitt ár 2016 sé það ásættanlegt að ráðist sé í risaframkvæmdir hérlendis þar sem leynd hvílir yfir eignarhaldi?

Eru menn endanlega gengnir af göflunum?

Er nema von að spurt sé.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.7.2016 - 13:19 - FB ummæli ()

Að loka augum og eyrum

Vestrænir stjórnmálaleiðtogar anda léttar eftir hina misheppnuðu uppreisn í Tyrklandi og það er helst að skilja að þar sé allt í góðum gír. Það fer lítið fyrir opinberri gagnrýni á Erdogan forseta, þrátt fyrir eftirfarandi:

– Stjórn Erdogans hefur svipt þingmenn friðhelgi, þannig að hægt er að sækja þá til saka verði þeim á að gagnrýna stjórnvöld. Hundruð stjórnarandstæðinga á þingi eiga málshöfðanir yfir höfði sér.

– Bannað er að móðga forsetann í ræðu og riti, samkvæmt nýsamþykktum lögum. Þannig var t.d. fyrrverandi fegurðardrotting í Tyrklandi dæmd í 14 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að móðga forsetann í ljóði sem hún birti á samfélagsmiðlum.

– Erdogan hefur látið loka um 110.000 vefsíðum sem birtu efni sem var ekki að skapi stjórnvalda.

– Undanfarin tvö ár hafa um tvö þúsund mál gegn blaðamönnum og fræðimönnum sem eru sakaðir um að hafa móðgað forseta landsins verið sótt fyrir tyrkneskum dómstólum.

– Þúsundir stjórnarandstæðinga hafa verið myrtir í átökum, ekki síst í suðaustuhluta landsins.

– Mannréttindi hafa verið þverbrotin í landinu á sama tíma og lýðræðislegar stofnanir eru undir járnhæl forsetans.

Allt þetta er réttlætt með því að landið verði að grípa til róttækra aðgerða til stemma stigu við hryðjuverkum. Vissulega er Tyrkland í bakgarði ISIS og landsmenn hafa þurft að horfa upp á skelfileg hryðjuverk á undanförnum mánuðum.

Við megum ekki heldur gleyma að Tyrkir hafa tekið móti milljónum flóttamanna frá Sýrlandi og öðrum löndum og gert það með sóma. Þetta hefur verið þungur baggi, þar sem vestræn ríki sýndu málinu engan áhuga fyrr en flóttamannstraumurinn fór að berast í þeirra eigin kálgarð.

Við megum hins vegar aldrei gefa afslátt á mannréttindum. Og við megum aldrei líta til hliðar – það verða vestrænir stjórnmálamenn að muna.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.7.2016 - 11:13 - FB ummæli ()

Glataðir snillingar

Færeyski rithöfundurinn William Heinesen skrifaði fyrir margt löngu sögu sem nefndist „Glataðir snillingar“ í íslenskri þýðingu.

Oft hefur þessi titill komið upp í hugann þegar ég hef hlustað á snillinga hinnar íslensku þjóðfélagsumræðu. Ekki það að ég telji þá glataða, miklu frekar snillinga. Slíkt fólk tjáir sig daglega á samfélagsmiðlum, sumir úr ræðustól Alþingis.  Þetta er fólk sem hefur ekki bara skoðanir, heldur líka réttu skoðanirnar. Það verður gjarnan pirrað og reitt ef aðrir eru með efasemdir. Þetta er fólk sem vill stjórna og veit betur.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins fyrir nokkru sagði að tilhneigingin væri sú að að hinir stjórnlyndu teldu sig gjarnan eiga meira erindi í stjórnmál og opinbera umræðu en aðrir, enda grundvöllur stefnunnar ekki síst sá að telja sig vita betur en almenningur hvað honum er fyrir bestu. Þetta valdi því að viðhorf stjórnlyndis fái mikið vægi í umræðunni.

Það er mikið til í þessu. Sjálfur hef ég ekki hundsvit á fjölmörgum þeirra mála sem rædd hafa verið á þingi. Í þeim tilvikum hef ég reynt að halda mig til hlés í stað þess að blaðra ábyrgðarlaust út í loftið. Þannig hef ég valið fá, en það sem ég tel vera góð mál, og barist fyrir þeim. Þar get ég nefnt baráttu gegn skattaundanskotum og kennitöluflakki,  að geðheilbrigði barna og ungmenna sé bætt, að stofnað verði embætti umboðsmanns aldraðra o.sv.frv.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um að þessi mál hafa ekki verið samþykkt, nema að heilbrigðisráðherra taldi tilvalið að taka geðheilbrigðishugmyndina inn í langtímaáætlun sína. Það var gott. Öðrum málum hefur samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, ekki haft áhuga á – frelsi einstaklingsins til að haga sér eins og hann vill er ofar öllu öðru í hugmyndafræði þess flokks. Þess vegna er ekki vilji til að taka á skattaundanskotum og kennitöluflakki. Þá er lítill áhugi þar innandyra á embætti umboðsmanns aldraðra – vegna þess að það myndi þýða enn eina stofnunina. Það vegur þyngra en notagildi hennar.

Ég lít á mig sem talsmann einstaklingsfrelsis. Það eru hins vegar takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga. Hagsmunir fjöldans eru alltaf mikilvægari en einstaklingsins.

Það líður að kosningum. Enn og aftur er enginn skortur á þeim sem vilja leiðbeina okkur hinum sem höfum villst af leið. Ég dáist innst inni af þeim sem vita betur. Þeim sem telja sig vita best hvernig náunginn á að lifa lífinu – hvað honum sé fyrir bestu. Það er ekki öllum gefið.

Sú hugsun hlýtur að vera áleitin hvort ekki sé rétt að hleypa þessu fólki að.

Allavega gengur ekki að hafa glataða snillinga í þingsal.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.5.2016 - 10:32 - FB ummæli ()

Aldraðir skildir eftir

Margt bendir til þess að Alþingi muni ekki afgreiða þingsályktun mína og nokkurra annarra þingmanna Framsóknarflokksins um að sett verði á laggirnar embætti umboðsmanns aldraðra.

Þetta er þyngra en tárum taki.

Málið er núna búið að vera fast í velferðarnefnd þingsins svo mánuðum skiptir. Nefndinni er  ákveðin vorkunn, þar sem hún hefur verið upptekin í stórum málaflokkum, svo sem húsnæðismálum, sem eru tímafrek. Þó er vitað um ákveðna andstöðu innan nefndarinnar við málið og er það miður.

Ellefu umsagnir hafa borist og eru þær allar mjög jákvæðar, nema tvær þar sem varpað er fram efasemdum um að rétt sé að stofna enn eitt embættið. Rétt er að geta þess að hugsunin með framlagningu málsins var aldrei að stofna stórt og fjárfrekt embætti.

Sjálfur er ég sannfærður um að mikill meirihluti sé fyrir þessu máli á þingi. Það er því sorglegt að þingið fái ekki að greiða atkvæði um umboðsmanninn þannig að lýðræðisleg niðurstaða fáist.

Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur og misjafnlega fær um að gæta réttar síns og hagsmuna sjálfur. Það er rík þörf á málsvara fyrir þennan hóp. Sú þörf mun aðeins aukast eftir því sem tímar líða. Gert er ráð fyrir að 67 ára og eldri fjölgi um rúmlega 26.000 á næstu 15 árum, um 71%. Talið er að 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6.600, um 55%.

Sambærileg mál hafa oftsinnis verið lögð fram á þingi, en ætíð stöðvast þar. Einn helsti baráttumaður fyrir stofnun umboðsmanns aldraðra hefur verið Guðmundur Hallvarðsson, sá ágæti fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Fáir þekkja hag og aðstæður aldraðra betur en hann, enda hefur hann verið lykilmaður í stjórnun Hrafnistuheimilanna um árabil.

Guðmundur hefur sannfært mig um mikilvægi málsins.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is