Mánudagur 28.01.2013 - 22:27 - Lokað fyrir ummæli

Ég hafði rétt fyrir mér

Ég sagði já í báðum þjóðaratkvæðagreiðslunum í Icesave.

Það þýðir ekki að ég hafi haft rangt fyrir mér. Þvert á móti. (Þeir sem til þekkja vita líka að ég hef þann fágæta eiginleika að hafa nánast aldrei rangt fyrir mér.)

Staðreyndin er sú að þegar atkvæði voru greidd vissi enginn hvernig málinu lyki. Ekki einu sinni Sigmundur Davíð, sem veit þó meira en hægt er að vita um Icesave.

Þessi staða var uppi: Íslandi var strax eftir hrun neitað um lánafyrirgreiðslu, sem var alger og lífsnauðsynleg forsenda endurreisnarinnar, nema við stæðum við „alþjóðlegar skuldbindingar“ okkar.

Hverjir neituðu? Frændur okkar á Norðurlöndunum og í kjölfarið fleiri í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Skilaboðin voru einföld og margítrekuð: „Engir samningar um Icesave – engin lán frá okkur.“

Þetta má kalla afarkosti, en á þá féllst ríkisstjórn Geirs Haarde, minnihlutastjórn Jóhönnu (sem Sigmundur Davíð varði og vissi að eigin kröfu allt um framvindu mála) og seinni ríkisstjórn Jóhönnu, enda var mikið í húfi.

Ríkisstjórnin gat heldur ekki farið í mál, því að Bretar og Hollendingar urðu að samþykkja málarekstur en sögðu nei.

Svo það var samið, gerðir fyrirvarar, þeim hafnað og þá var samið aftur.

Svo kom áramótaskaup og Ólafur Ragnar lagði af stað í leiðangurinn sinn.

Í tvígang voru samningar felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá þriðji og síðasti, undir forystu Buchheits, hefði kostað okkur allt að 80 milljörðum.

Áramótaskaups-atkvæðagreiðslurnar þýddu hátt í árstöf á endurreisninni og endurfjármögnun skulda með tilheyrandi hagræðingu. Hvað kostaði sú töf í krónum og evrum? Hvernig kemur dæmið út í debet og kredit?

Það vitum við ekki þótt eflaust geti hagfræðingar reynt að nálgast töluna. Gagnlegt er að hafa í huga að vaxtagjöld ríkissjóðs á þessu ári eru 90 milljarðar.

En óvissuleiðin var farin – dómstólaleiðin. Sem enginn vissi þá hvernig endaði. Eða hvað myndi kosta okkur.

Enginn – ekki einu sinni Sigmundur Davíð sem kann þó meira í Evrópurétti en hægt er að kunna – átti von á að fullur sigur ynnist. Ekki heldur sjálft lögfræðingateymið, sem vann greinilega frábærlega og vissi næstmest um málið sjálft og viðeigandi klásúlur í evrópskum rétti.

Lögfræðingarnir voru klökkir í morgun. Málið hefði getað endað skelfilega eða sæmilega. Flestir vonuðu sæmilega. Þeir líka.

Niðurstaðan er vonum framar. Það þarf soldið til þess að lögfræðingar klökkni.

En niðurstöðuna vissum við ekki þegar við greiddum atkvæði, gátum ekki vitað og hún er gegn bæði líkum og væntingum.

Þess vegna hafði ég rétt fyrir mér þegar ég sagði já. En líka þeir sem sögðu nei.

Þeir vildu taka sénsinn, við hin ekki. Enginn vissi hvernig þessu fjárhættuspili myndi ljúka.

Nema kannske Sigmundur Davíð. Núna.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is