Laugardagur 14.05.2011 - 06:00 - Lokað fyrir ummæli

Um fréttaflutning Eyjunnar

Fyrir svosem tuttugu árum fór kona um þrítugt um Reykjavík með alls kyns skemmdarverk, að mig minnir tilraunir til íkveikju og fleiri alvarleg brot sem stefndu lífi samborgara hennar í bráða hættu.

Framferði konunnar var nógu óvenjulegt og svo ítrekað að það vakti mikla athygli. Af því voru vitanlega fluttar fréttir og fólk undraðist mjög.

Aldrei voru sögð frekari deili á konunni en aldur hennar og kynferði, en svona ýjað að því að hún væri ekki alveg stabíl. Hegðun hennar var reyndar nægur vitnisburður um það.

Eðli málsins samkvæmt fór fólk að velta fyrir sér hvaða kona þetta væri og ekki leið á löngu þangað til nafn hennar var altalað í stórum kreðsum í Reykjavík. Mörg þúsund manns vissu brátt að þetta var hún „Hervör Benjamínsdóttir“, dóttir þeirra þarna hjónanna sem allir vissu hver voru.

Svo rammt kvað að þessari almennu vitneskju að sjálft Morgunblaðið – sem þá var öðruvísi blað en í dag – sá sig til knúið að birta yfirlýsingu sem var efnislega svona:

„Að gefnu tilefni vill Morgunblaðið staðfesta að konan, sem verið hefur í fréttum að undanförnu, er ekki Hervör Benjamínsdóttir.“

Ég held að svona yfirlýsing eigi sér ekki hliðstæðu og hún hefur verið mér minnisstæð síðan.

Morgunblaðið var að kveða í kútinn ramma og ljóta kjaftasögu. Um saklausa manneskju. Fjölskylda hennar og vinir voru í öngum sínum í margar vikur. Hvernig á enda að kveða niður slíkan rógburð og níð?

Kjaftasagan varð hins vegar til af því að engin deili voru sögð á konunni sem í hlut átti í raun. Fréttirnar af henni voru ekki af henni, heldur af hundruðum kvenna, sem „lýsingin“ passaði við.

Það var jarðvegurinn og næringin fyrir þetta ógeðslega slúður.

— — — —

Nú sný ég mér að alvarlegra og nærtækara máli. Ég ætla að eyða í það allmörgum orðum og bið ykkur sýna biðlund, af því að málið sjálft er hræðilegt og umfjöllun um eftirmál þess mikilvæg.

Á fimmtudagskvöld ákvað Eyjan að birta upplýsingar um bifreið sem hafði fyrr um kvöldið verið ekið að Landspítalanum. Í farangursrými bílsins var lík ungrar konu.

Fyrst þó þetta: Í örfáar mínútur mátti lesa á Eyjunni nafn þess unga ólánsmanns sem hefur nú játað að hafa orðið stúlkunni að bana. Nafnið var fjarlægt, enda hafði birting þess ekkert gildi. Birtingin var mistök og á henni biðst ég afsökunar hér og nú. Skilyrðislaust. Vonandi gerist slíkt aldrei aftur.

En það er ekki nafnbirtingin – skammæ sem hún var – sem hefur helzt valdið Skagfirðingum og fleira góðu fólki hugarangri og reiði, sem Eyjan orðið áþreifanlega vör við og greint hefur verið frá. Það var birting upplýsinga um bifreiðina.

Ég veit að Skagfirðingum og öðrum sem eru Eyjunni reiðir núna er lítil fró í því að á bak við birtingu þeirra upplýsinga séu einhverjar ástæður, einhver hugsun, kannske einhver rök – einhverjar ögn þekkilegri hvatir en „að auka lestur“ eða „nærast á óhamingju annarra,“ svo ég vitni í algengar ásakanir.

Reiðin er eðlileg og hún er skiljanleg, af því að sorgin er mikil og atburðurinn svo hryggilegur, en hún er ekki þar með sjálfkrafa réttmæt.

Ég vil reyna að skýra málið út frá sjónarhóli blaðamanns.

Málavextir eru þessir: Fyrir lá að lík stúlkunnar fannst í nokkurra ára gömlum dökkgráum Mitsubishi Galant. Hversu margir slíkir bílar eru á landinu? Þrjátíu? Kannske fimmtíu? Jafnvel hundrað?

Við vitum það ekki, en mjög líklega einhvers staðar á þessu bili.

Þessa bíltegund eiga gjarna ungir menn, kraftmikla sportbíla.

Með þessar upplýsingar í höndunum á blaðamaður að hugsa:

„Jæja, nú liggja nokkrir tugir karlmanna á þrítugsaldri undir grun um að þeir eigi í aðild að morðmáli. Fjölskyldur þeirra og vinir eru væntanlega í öngum sínum, símalínur loga, fólk er að leita upplýsinga um þetta skelfilega mál.

Er einhver leið til þess að þrengja hópinn, veita meiri upplýsingar til að skýra hvað gerðist, án þess að nafngreina fólk?“

Niðurstaða Eyjunnar var þessi: Við vitum hvaðan bíleigandinn er. Segjum frá því. Það þrengir hópinn og veitir gleggri mynd.

Eyjan ákvað að segja frá því að bíleigandinn væri frá Sauðárkróki.

Svo kviknaði aukaspurning: Er möguleiki – hversu lítill sem hann er – að það séu tveir bílar á Sauðárkróki sem þessi lýsing á við? Tveir dökkgráir Mitsubishi Galant? Svarið: Ekki líklegt, en það er hugsanlegt.

Og Eyjan ákvað að upplýsa um bílnúmerið.

Voru þetta réttar ákvarðanir? Ekki gerist ég dómari í eigin sök og læt aðra um að kveða upp úr um það.

En tilgangurinn með birtingu upplýsinganna var ekki að greina frá því hver átti í hlut – þá hefði Eyjan látið nafn viðkomandi standa og væntanlega birt mynd af honum líka – heldur ekki síður að segja frá því hverjir áttu ekki í hlut.

Í hlut áttu ekki hinir tugir ungu mannanna í Keflavík, Vestmannaeyjum, Grafarvogi, Húsavík og á Reyðarfirði, sem eiga dökkgráan nokkurra ára gamlan Mitsubishi Galant.

Til að flækja málið ögn meira sendi lögreglan frá sér tilkynningu skömmu síðar þar sem sagði, að ökumaður bílsins um tvítugt hefði játað að hafa orðið stúlkunni að bana.

Hvernig átti að skilja þetta? Eigandi bílsins er 25 ára, ekki um tvítugt. Ók einhver annar bílnum? Var um tvo menn að ræða? Og hvað merkir að „hafa orðið að bana“? Var andlát stúlkunnar kannske slys?

Þessar upplýsingar frá lögreglunni – eða öllu heldur skortur á upplýsingum – staðfestu í augum Eyjunnar nauðsyn þess að segja frá því sem mætti upplýsa sem mest.

Tilgangurinn var enda ekki að segja um hvern fréttin var, heldur um hvern hún var ekki.

Hér eru tveir aukaþankar, sem snerta þó fréttaflutning Eyjunnar bara óbeint:

Í hádegisfréttum RÚV í gær sagði að ungi maðurinn hefði játað að hafa orðið barnsmóður sinni að bana. Nokkrum mínútum síðar varð fréttastofan að bæta við: Maðurinn á tvær barnsmæður. Hin „er óhult,“ sagði fréttastofa Ríkisútvarpsins.

Þetta gerist næstum tuttugu klukkustundum eftir að aðalatriði fréttarinnar liggja fyrir. Skyldu fjölskylda og vinir hinnar barnsmóðurinnar hafa sofið rótt á meðan? Hefðu nákvæmari upplýsingar endilega verið slæmar?

Og ef fjölmiðlar hefðu aðeins sagt frá því, sem lögreglan hefur greint frá, væri kjarninn í fréttum þeirra allra þessi:

„Karlmaður á þrítugsaldri sem ók dökkgráum Mitsubishi Galant á fimmtudagskvöld hefur játað að hafa orðið tvítugri barnsmóður sinni að bana.“

Það er álíka frétt og „Leikskólakennari á fertugsaldri í Reykjavík er grunaður um nauðgun.“

Myndi einhver gera athugasemd ef slík fyrirsögn birtist á Eyjunni á morgun?

Hversu mörgum aðstandendum leikskólakennara á fertugsaldri yrði hverft við?

— — — —

Ég þykist vita að fæst af því sem hér er skrifað sefar reiði, sorg og örvilnan þeirra sem næst standa harmleiknum sem þessir skelfilegu atburðir eru.

Ég veit að mörgum þykir fréttaflutningur Eyjunnar endurspegla harðneskju, miskunnarleysi, jafnvel mannvonzku.

Hvatir fólks er aldrei hægt að sanna eða afsanna, en hitt veit ég með sjálfum mér að ég er ekki í þessu starfi til að særa, meiða eða valda þjáningu. Reyni eftir fremsta megni að forðast það í lífinu, þótt ekki takist alltaf upp sem skyldi.

Hér að ofan er einhvers konar skýring á málsatvikum, einhvers konar skýring á lífsafstöðu og einhvers konar skýring á niðurstöðu, sem ég hef þó enga ánægju af.

Að lokum vil ég votta öllum sem hlut eiga að þessum hörmulegu atburðum samúð mína. Hún er – þrátt fyrir allt – einlæglega og hjartanlega meint.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is