Þriðjudagur 22.4.2014 - 23:14 - 6 ummæli

Það er svo margt skrítið í þessu lífi

Síðastliðið haust ákvað ég að taka ekki sæti sem borgarfulltrúi og hætti störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarmálunum. Mér fannst ég ekki lengur eiga erindi sem fulltrúi flokksins og áhugi á að vinna fyrir flokkinn var ekki lengur fyrir hendi.

Það er margt gott fólk innan flokksins. Ég á þar góða vini, sérstaklega í grasrótinni sem ég hef starfað mikið með undanfarin ár. Þegar leitað var til mín um að skipa heiðursætið á lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar nú í vor ákvað ég að verða við því. Mér fannst það ákveðinn heiður við mig, af hálfu félaga minna sem hefðu svo gjarnan viljað að ég héldi áfram. Mér fannst það heiður við mín störf og um leið fannst mér það ákveðin lokun af minni hálfu gagnvart starfi mínu sem borgarfulltrúi. Mér fannst ég þar með sína fólkinu „mínu“ innan flokksins virðingu. Fólki sem hefur stutt mig og haft trú á mér.

En hvað svo?

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við eigum að láta reyna á samninga við Evrópusambandið og halda viðræðum áfram. Við  „Evrópusinnar“ innan Sjálfstæðisflokksins höfum reynt að hafa áhrif innan flokksins bæði á Landsfundum og utan þeirra. Við höfum lagt okkur fram um að draga fram kosti þess að halda viðræðum áfram og sjá hvaða samningum við getum náð. Við höfum lagt áherslu á það í ræðum og riti að flokkurinn eigi ekki að loka á þann möguleika og hrekja burtu þann stóra og góða hóp fólks sem taldi sig eiga samleið með flokknum. Ég fór á fund DO fyrir landsfund 2010 til þess að ræða við hann hve mikil mistök flokkurinn væri að gera með sinni einstrengingslegu afstöðu og það væri mikið af fólki að yfirgefa flokkinn vegna þess. Það er skemmst frá því að segja að ég hafði ekki erindi sem erfiði og við höfum ekki haft erindi sem erfiði.

Eftir síðasta landsfund flokksins má segja að „við“, þessir Evrópusinnuðu einstaklingar sem enn vorum þar, hefðum átt að segja skilið við flokkinn og sjá að við áttum ekki lengur samleið með honum. Bjarni Benediktsson kom með útspil fyrir kosningar sem gerði það að verkum að okkur fannst enn vera von. Því var lofað af þingmönnum okkar að viðræðum yrði ekki slitið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu…svo kom þetta frábæra útspil – þingsályktun um að slíta viðræðum og þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætla að samþykkja það.  Í kjölfar þess má segja að hjólin hafi farið að snúast. Við ákváðum að hittast aftur og ráða ráðum okkar. Til að gera langa sögu stutta, er nú svo komið að í farvatninu er stofnun nýs flokks. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki lengur samleið með okkur og við ekki með honum. Ég veit ekki á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er í dag en að mínu mati er hann ekki á þeirri vegferð sem ég vil sjá. Mér finnst hann ekki vinna í þágu fólksins í landinu og rökin fyrir því að slíta viðræðum finnast mér ansi rýr.

Það verður vandað til alls undirbúnings við stofnun nýs flokks. Það liggur ekki á, nema upp úr stjórnarsamstarfi slitni og flýta þurfi för, en að öllu óbreyttu eru þrjú ár í næstu kosningar.

Ég hef óskað formlega eftir því að fara af lista Sjálfstæðisflokksin til borgarstjórnarkosninga og þar með hef ég afþakkað heiðursætið. Mér finnst ég ekki eiga annarra kosta völ í stöðunni. Ég vona að félagar mínir innan flokksins virði afstöðu mína og vil þakka þeim fyrir samstarfið á liðnum árum.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is