Þriðjudagur 18.06.2013 - 13:40 - FB ummæli ()

Hús ríkisins

Nú kemur upp sú staða að ríkið á hús sem það hefur ekki bein not fyrir. Húsið er talið þjóðareign og því má ekki selja það. Ríkið tekur því þá ákvörðun að leigja húsið út. En í stað þess að leigja húsið á því leiguverði sem gerist og gengur á frjálsum markaði ákveður ráðherra að leigja það til aðila sem kostuðu kosningabaráttu ríkisstjórnarflokkanna á leiguverði sem er um einn fimmti af því verði sem fengist á frjálsum markaði – 10 m.kr í stað 56 m.kr.

Þegar upp kemst um þessa ráðstöfun kalla sumir þetta hneiksli. Þeir segja að ráðherra eigi að tryggja að ríkið fái fullt markaðsverð fyrir að leigja húsið.

Ráðherra svarar því til – án þess að deppla auga – að í raun muni þessi afsláttur af leigu hússins auka tekjur ríkisins þar sem leigutakarnir muni fjárfesta meira en ella og þannig skapa störf. Flestir sjá að þessi röksemd ráðherra er della og spyrja ráðherra: Hvað er svona sérstakt við þessa leigendur sem réttlætir niðurgreiðslur á leigu þeirra? Með sömu rökum ætti ríkið að niðurgreiða alla atvinnustarfsemi í landinu.

Þá svarar ráðherra að þessi lága leiga sé í raun nauðsynleg þar sem einstaka aðilar í hópi leigutaka – aðilar sem margir hverjir tóku himinhá lán til þess að fjárfesta í alls kyns vitleysu fyrir hrun – geti ekki staðið undir markaðsleigu og muni því fara á hausinn ef leigjendur eru neyddir til þess að greiða markaðsleigu. Almenningur horfir á ráðherra í forundran og spyr: Af hverju eigum við að halda gangandi fyrirtækjum sem ekki geta staðið undir því að borga þá leigu sem gerist og gengur á frjálsum markaði? Það eru fullt af aðilum sem geta hlaupið í skarðið og leigt húsnæðið í staðinn.

Nú fer ráðherra að ókyrrast en dettur mikið snjallræði í hug. Hann segir: Þessi leiga er ekkert annað en skattur og skattar eru vondir og eiga að vera lágir og af hverju eiga þessir aðilar að borga sérstakan skatt og þeir sem vilja að þessir aðilar borgi hærri leigu, æ ég meina skatt, eru ekkert nema örgustu kommúnistar. Almenningur klórar sér á hausnum. Er maðurinn eitthvað galin? Auðvitað er grundvallarmunur á því að leigja út hús sem er í eigu ríkisins, annars vegar, og að leggja á skatt, hins vegar.

Ráðherra bregst illa við: Hvað vitið þið með ykkar excel æfingar um það hvað eðlileg leiga er fyrir þetta hús? Almenningur felst á það að það sé ekki augljóst nákvæmlega hvað markaðsleiga fyrir þetta tiltekna hús væri. En almenningur bendir ráðherra á að það sé einfallt af finna út úr því með því að halda uppboð. Þá bókstaflega sturlast ráðherra. NEI!! Það mun valda kollsteypu!! Kollsteypu!! Kollsteypu!!

Þegar hér er komið við sögu fer almenningur að efast mjög um heilindi ráðherra. En einhverra hluta vegna ákveður almenningur að gera ekkert frekar í málinu og leyfa ráðherra að komast upp með að hygla leigjendunum áfram. Þegar kemur að næstu kosningum er kosningasjóður ríkisstjórnarflokkanna yfirfullur á nýjan leik.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is