Mánudagur 29.04.2013 - 01:27 - FB ummæli ()

Sátt í sjávarútvegsmálum

Með nokkurri einföldun má segja að hægrimenn hafi í gegnum tíðina barist fyrir tvennu í sjávarútvegsmálum:

1. Hagkvæmu markaðskerfi framseljanlegra veiðiheimilda.
2. Að auðlindaarðurinn (rentan) renni til eigenda útgerðarfyrirtækja.

Og vinstrimenn hafi í gegnm tíðina einnig barist fyrir tvennu:

1. Að auðlindaarðurinn (rentan) renni til þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar.
2. Boðum, bönnum og pottum sem myndu grafa undan hagkvæmni í greininni.

Ég legg til að báðir aðilar slái af kröfum sínum í nafni sáttar og sammælist um:

1. Hagkvæmt markaðskerfi framseljanlegra veiðiheimilda.
2. Að auðlindaarðurinn (rentan) renni til þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar

Með öðrum orðum legg ég til að hægrimenn fallist á að lækka ekki veiðigjaldið gegn því að vinstrimenn falli frá áformum um frekari breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Hægrimenn væru að taka talsverða áhættu með því að lækka veiðigjaldið. Þá væri ljóst að engin sátt væri um kerfið og vinstrimenn myndu áfram berjast fyrir breytingum á kerfinu. Það sem meira er, þá væri líklegast allt undir á ný þegar næsta vinstristjórn kæmist til valda (fyrningarleið, bann við framsali, bann við veðsetningu, pottar, ráðherrakvóti, o.sv.fr.). Væri ekki nær að sættast á veiðigjaldið eins og það er í dag en að búa áfram við þá áhættu að kerfinu gæti verði gjörsamlega umturnað í framtíðinni.

Þar að auki væri lækkun veiðigjaldsins eins og að kasta blautri tusku í andlitið á því venjulega fólki sem vill að skattarnir sem það borgar lækki. Hægrimenn hafa lagt mikla áherslu á að auka þurfi hagvöxt með því að lækka skatta. Og háir skattar draga vissulega þrótt úr hagkerfinu þar sem þeir letja fólk til vinnu. En veiðigjaldið er líklega sá skattur sem hefur minnst áhrif hvað þetta varðar. Ástæðan er að það er svo ofsalega arðbært að róa til fiskjar á Íslandi að allur kvóti sem úthlutað er er veiddur þrátt fyrir veiðigjaldið. Veiðigjaldið hefur því engin áhrif á framleiðslu í sjávarútvegi. Sumir segja að veiðigjaldið dragi úr fjárfestingu. Það er ekki rétt. Lögin um veiðigjald tryggja útgerðinni 8% ávöxtun á allar fjárfestingar áður en nokkuð gjald er tekið plús 40% af allri framlegð yfir þessum 8%. Til samans tryggir þetta mjög sterka hvata til fjárfestingar.

Í stað þess að lækka veiðigjaldið ættu hægrimenn að einbeita sér að því að nýta það svigrúm sem mun skapast á næstu árum í ríkisfjármálum til þess að lækka þá skatta sem draga mestan þrótt úr hagkerfinu. Þar má nefna tryggingagjaldið, hæsta þrep virðisaukaskattsins, stimpilgjöld og vörugjöld.

Það að fráfarandi ríkisstjórn hafi einungis tekist að koma öðru af tveimur frumvörpum sínum um sjávarútvegsmál í gegn á síðasta þingi skapar afskaplega góða stöðu. Ef engar frekari breytingar eru gerðar á kerfinu er kerfið bæði hagkvæmt og auðlindaarðinum er skipt á milli þjóðarinnar og útgerðarmanna á hátt sem ef til vill er unnt að skapa sátt um. Vonandi verður ekki hróflað við kerfinu meira.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is