Mánudagur 08.04.2013 - 01:49 - FB ummæli ()

Hvern munar um 400 ma.kr?

Allir flokkarnir virðast nú sammála um að rýja kröfuhafa gömlu bankanna inn að skinni. Þeir liggja vel við höggi.

Kröfuhafarnir hafa nú þegar tapað um 5.800 ma.kr á því að fjárfesta á Íslandi. Hvað munar um 400 ma.kr til viðbótar? Og þetta eru sérstakar aðstæður, og kröfurnar hafa skipt um hendur, og þær eru nú í eigu vogunarsjóða, og allt það.

Kosningabaráttan snýst því um þá þröngu spurningu: Hvað á að gera við þessa peninga?

Framsókn segir afdráttarlaust að það eigi að fella niður hluta af skuldum heimilanna. Jæja, þá verður ekki hægt að nota þetta fé til þess að byggja nýjan spítala, og kaupa ný tæki í alla spítala landsins, og byggja nokkur jarðgöng, og kaupa þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna, og tvöfalda vegina út úr Reykjavík, og hækka laun kennara og hjúkrunarfræðinga, og grynka á skuldum ríkisins, og lækka skatta, og svo framvegis. (400 ma.kr eru ansi miklir peningar.)

En burt séð frá þessari spurningu er athyglisvert að kjósendur virðast ekki hugsa mikið um öll hin málin sem munu koma upp næstu fjögur ár. Stór hluti kjósenda virðist nú ætla að yfirgefa stjórnarflokkana og tryggja að eftir kosningar verði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn saman í stjórn. Þessir flokkar munu þá taka ákvarðanir ekki bara um niðurfellingu skulda heimilanna heldur líka um öll hin málin.

Tökum dæmi:

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vilja alls ekki skattleggja fjármagn eða auðlindir. Þeir vilja skattleggja fólk. Þeir segjast reyndar vilja lægri skatta almennt. En þeir ætla hins vegar ekki að draga úr útgjöldum ríkisins. Þvert á móti tala þeir um að auka útgjöld til heilbrigðismála. Skattalækkanir án þess að útgjöld ríkisins séu lækkuð er ekki stefna sem gengur upp. Slíkt gerir það bara að verkum að börnin okkar munu þurfa að borga hærri skatta.

Allir stóru flokkarnir eru nánast fullkomnlega sammála um öll meiriháttar útgjöld ríkisins (heilbrigðiskerfið, menntakerfið, o.sv.fr.). Sjálfstæðismenn andmæla þessu stundum og segja að þeirra flokkur standi fyrir lægri ríkisútgjöld. En hann var í stjórn í 16 ár fyrir hrun. Hvaða útgjöld lækkaði hann? Hvaða útgjöld er hann að berjast fyrir að lækka í dag? Ekkert sem ekki er klink.

Munurinn á flokkunum þegar kemur að ríkisfjármálum snýst nánast alfarið um það hvaðan skattarnir eiga að koma. Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn vilja skattleggja fólk. Stjórnarflokkarnir vilja í auknum mæli færa skattlagningu af fólki og yfir á fjármagn og auðlindir.

Ef Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn verða kosnir í stjórn í vor eru líkur til þess að þeir lækki verulega veiðigjaldið, skatta á fyrirtæki og fjármagnstekjur, og hátekjuskatta. En einhvers staðar þurfa peningarnir að koma til þess að greiða fyrir ríkisútgjöldin sem allir eru sammála um. Hvaðan ætli þeir komi?

Já, alveg rétt!! Þeir munu koma í gegnum aukna skattlagningu á venjulegu fólki.

Þetta er bara eitt dæmi um mikilvægt mál sem kjósendur hugleiða vonandi vel áður en þeir ákveða að fela Framsókn og Sjálfstæðisflokknum stjórn landsins næstu fjögur árin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is