Laugardagur 22.12.2012 - 04:28 - FB ummæli ()

Hagvöxtur örari við atvinnufrelsi?

Undanfarna daga hefur Birgir Þór Runólfsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, skrifað pistla hér á Eyjuna þar sem hann bendir á að ríki sem búa við meira frelsi (samkvæmt Economic Freedom of the World: 2012 Annual Report) búi við meiri hagsæld og meiri hagvöxt en lönd sem búa við minna frelsi. Í síðustu grein sinni segir Birgir:

„Í alþjóðlegri mælingu á atvinnufrelsi í langflestum löndum heims, sem birt var 2012, en nær til 2010, kom fram sterkt langtímasamband milli hagvaxtar og atvinnufrelsis. Það var mælt í % fyrir tímabilið 1990–2010, eins og sést á þessu línuriti [sjá pistil Birgis]. Þegar hagkerfum heims var skipt í fjóra hluta, sást, að í frjálsasta fjórðungnum var hagvöxtur að jafnaði örastur, en að sama skapi hægastur í ófrjálsasta fjórðungnum. Ályktunin er augljós: Til þess að örva hagvöxt er heppilegast að auka atvinnufrelsi.“

Þó svo að mér finnist líklegt að aukið frelsi á ýmsum sviðum hjálpi til við að auka hagsæld (a.m.k. í löndum sem búa við lítið frelsi) get ég ekki fallist á það að ályktunin sem Birgir dregur af þeim gögnum sem hann setur fram sé augljós. Vandinn er að fylgni leiðir ekki af sér að orsakasamband sé til staðar. Það eru því ekki sannfærandi rök fyrir ályktun Birgis að benda á það að frjáls ríki búi við meiri hagvöxt. Sams konar röksemdafærsla getur auðveldlega leitt til niðurstöðu sem er augljós della.

Til dæmis: Fólk er almennt mun líklegra til þess að deyja þegar það er inni á spítala. Ályktunin er augljós: Spítalar drepa og fólk á að forðast í lengstu lög að hætta sér inn á spítala.

Þessi röksemdafærsla er augljóslega della. En röksemdafærsla Birgis er sömu gerðar. Hún er því ekki sannfærandi.

Uppáhalds dæmið mitt um röksemdafærslu af þessu tagi fann ég í grein í New York Magazine fyrir nokkrum árum. Greinin fjallaði um það að íbúar New York borgar lifðu nú lengur en íbúar Bandaríkjanna almennt. Greinarhöfundur taldi þetta vera vegna þess að íbúar New York borgar löbbuðu mikið og ekki síst vegna þess að þeir löbbuðu hratt. Greinarhöfundur ákvað að gera tilraun til þess að sýna fram á að þessi tilgáta hans væri rétt. Hann fékk því hóp af eldra fólki til þess að ganga hring á frjálsíþróttabraut og skráði hjá sér tímann sem það tók fyrir hvern og einn. Síðan beið hann þar til fólkið lést. Og viti menn. Þeir sem gengu hraðast í kringum völlinn dóu síðast. Ályktunin er augljós: Til þess að lifa lengur er heppilegast að ganga hraðar.

Eða hvað? Getur kannsi verið að þeir sem gengu hægar hafi verið veikari þegar tilraunin var gerð – ekki vegna þess að þeir hafi gengið hægt almennt heldur af einhverjum öðrum ástæðum – og það hafi verið þess vegna sem þeir gengu hægt og líka þess vegna sem þeir dóu fyrr?

Á sama hátt getur fylgni frelsis og hagsældar allt eins verið til komin vegna þess að fólk sem er ríkara sækist eftir meira frelsi (þ.e. orsakasambandið gæti verið frá hagsæld til frelsis en ekki frá frelsi til hagsældar). Eða slík fylgni gæti verið til komin vegna einhvers annars þáttar sem orsakar bæði meira frelsi og meiri hagsæld.

Sú staðreynd að fylgni leiðir ekki af sér orsakasamband er það sem gerir félagsvísindi erfið viðfangs. Það er auðvelt að finna alls kyns fylgni í gögnum um hegðun manna. En það er mun erfiðara að sýna fram á orsakasamband. Til þess þarf að útiloka með sannfærandi hætti alla aðra þætti.

Í raunvísindum er unnt að notast við tilraunir þar sem vísindamaðurinn getur haldið öllum öðrum þáttum  óbreyttum. Í félagsvísindum er það erfiðara (en þó unnt í sumum tilfellum). Empírísk hagfræði hefur í auknum mæli notast við svokallaðar náttúrulegar tilraunir þar sem einhver tilviljanakenndur atburður leiðir af sér breytingu í afmörkuðum þáttum á einum stað en ekki öðrum til þess að draga ályktanir um orsakasambönd.

Gott dæmi um náttúrulega tilraun er Kóreustríðið. Fyrir það stríð var Kórea eitt ríki. Allir íbúar Kóreu bjuggu við sams konar stjórnskipulag og menningu. Stríðið skipti landinu með tilviljanakenndum hætti. Eftir stríðið bjuggu íbúar Suður Kóreu við allt annað stjórnskipulag en íbúar Norður Kóreu. Í upphafi var hagsæld í þessum tveimur ríkjum mjög svipuð. En Suður Kórea óx mun hraðar áratugina eftir skiptingu landsins.

Þar sem flestir aðrir þættir (menning, landslag, mannauður, o.sv.fr.) voru svo gott sem eins við skiptingu má ef til vill draga þá ályktun að sá mikli munur sem var á stjórnskipulagi í Suður Kóreu og í Norður Kóreu eftir skiptingu landsins hafi orsakað þann mikla mun sem var á hagvexti þeirra.

Með náttúrulegum tilraunum af þessu tagi er að mínu mati unnt að færa mun meira sannfærandi rök fyrir orsakasambandi milli stjórnskipulags og hagsældar en með fylgni þessara stærða. Þeir sem vilja færa rök fyrir gagnsemi frelsis ættu að mínu mati að einbeita sér að því að rannsaka náttúrulegar tilraunir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is