Miðvikudagur 05.12.2012 - 21:59 - FB ummæli ()

Olíuvinnsla á ábyrgð Íslendinga?

Á næstu mánuðum stendur til að Orkustofnun veiti tvö sérleyfi til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á íslenska Drekasvæðinu. Í gær var tilkynnt að norska ríkisolíufélagið Petoro muni verða þátttakandi í báðum leyfunum að fjórðungshlut.

Þessi þróun er óneitanlega spennandi. Við Íslendingar erum fámenn þjóð og því þarf ekki að finnast svo ýkja mikil olía á Drekasvæðinu til þess að olíuvinnsla þar geti orðið veruleg búbót fyrir okkur. Reyndar eru aðstæður erfiðar á Drekasvæðinu – t.d. dýpi mun meira en í Norðursjó. Því verður auðlindaarðurinn á hvert olíufat minni en í Norðursjó (hvað þá við Persaflóa). En ef verð á olíu helst hátt og tækni heldur áfram að fleygja fram hvað varðar vinnslu, þá gæti aðurinn orðið talsverður.

Það er hins vegar ýmis konar áhætta sem fylgir olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Einn áhættuþáttur sem ég hef sérstakar áhyggjur af er eftirfarandi:

Segjum að það verði alvarlegt umhverfisslys á Drekasvæðinu á borð við það sem gerðist þegar sprenging varð í Deepwater Horizon olíuborpalli British Petrolium í Mexikoflóa árið 2010. Í því slysi flæddi olía út í hafið án afláts í þrjá mánuði áður en unnt var að loka borholunni.

Þetta slys átti sér stað á yfirráðasvæði Bandaríkjanna. Ríkisstjórn Bandaríkjanna hafði því verulega hvata til þess að setja mikinn þrýsting á þau fyrirtæki sem áttu í hlut til þess að þau gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að loka borholunni. Bandaríkin eru valdamikið land. Þrýstingur frá ríkisstjórn Bandaríkjanna skiptir miklu máli.

Hvað myndi gerast ef slíkt slys ætti sér stað norður af Íslandi? Vitaskuld yrði slíkt slys mun alvarlegra að því leyti að aðstæður eru erfiðari til viðgerða.

En það sem ég er að velta fyrir mér er eftirfarandi: Hversu mikinn þrýsting myndi ríkisstjórn Íslands geta sett á stór olíufyrirtæki til þess að taka kostnaðarsamar ákvarðanir til þess að hraða viðgerð? Vitaskuld hefðu slík fyrirtæki einhverja hvata til þess að gera við. En myndu þau taka tillit til þeirra hagsmuna sem við höfum? Getum við tryggt að þau myndu gera það?

Það er auðvitað gott að hafa Normenn með okkur í liði. En Noregur er líka tiltölulega lítið land í samanburði við Bandaríkin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is