Sunnudagur 02.12.2012 - 20:42 - FB ummæli ()

Eru verðtryggð lán ólögleg?

Á undanförnum dögum hefur mikið verið rætt um það hvort verðtryggð lán séu ólögleg. Hjón í Reykjavík hafa stefnt Íbúðalánasjóði til þess að fá úr þessu skorið. Og nú síðast er viðtal í Silfri Egils við Elvira Mendez, prófessor við Háskóla Ísland, þar sem hún segir það sína skoðun að verðtryggingin sé ólögleg.

Rökin sem þessir aðilar færa fram eru að lántakandinn viti ekki nákvæmlega hversu margar krónur hann komi til með að þurfa að greiða af verðtryggðu láni þegar fram líða stundir þar sem óvissa ríkir um framvindu verðlags. Af þessum sökum eiga verðtryggð lán að brjóta í bága við neytendavernd laga.

En hvernig verndar það neytandann að vita hversu margar krónur hann mun skulda þegar verðgildi krónunnar sjálfrar er mjög óvisst? Ef vissa ríkir um skuldina í krónum þá ríkir óvissa um raunvirði skuldarinnar – þ.e. hversu mikið af vörum og þjónustu lántakandinn þarf að gefa upp á bátinn að kaupa til þess að greiða skuldina.

Væri ekki nær að reyna að gera lánin þannig úr garði að lántakandinn geti verið viss um raunvirði skuldarinnar? Það er einmitt það sem verðtrygging gerir. Verðtrygging gerir það að verkum að lántakandinn getur gengið að því sem vísu hversu mikið hann mun skulda að raunvirði í framtíðinni.

Ég ætla að vona að dómstólar á Íslandi beri gæfu til þess að hafna rökum þeirra sem vilja dæma verðtryggingu ólöglega. Ef verðtryggingin verður dæmd ólögleg munu heimilin í landinu hafa enga leið til þess að tryggja sér lán sem hafa fyrirsjáanlegar afborganir að raunvirði.

(Nú geri ég ráð fyrir að fá yfir mig gusu af fúkyrðum fyrir að segja þetta. Það verður að hafa það.)

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is