Sunnudagur 25.11.2012 - 20:00 - FB ummæli ()

Frelsi og framþróun mannkyns

Ekki alls fyrir löngu hélt Gunnlaugur Jónsson athyglisverða ræðu þar sem hann færði rök fyrir því að frjálshyggja væri „hin sanna miðjustefna.“ Frjálshyggja er miðjustefna að mati Gunnlaugs þar sem hún gengur út á að lágmarka ofbeldi sem felst í boðum og bönnum af hálfu ríkisins. Hann hélt því fram að þeir sem aðhylltust boð og bönn – svo sem til dæmis skattlagningu til þess að halda úti opinberu heilbrigðiskerfi – væru hinir raunverulegu öfgamenn í stjórnmálum.

Ég er fylgjandi skattlagningu til þess að halda úti opinberu heilbrigðiskerfi en tel mig samt ekki vera öfgamann. Ég skrifaði því pistil hér á Eyjuna þar sem ég rakti það sjónarmið að frá mínum bæjardyrum séð væri frjálshyggja af því tagi sem Gunnlaugur talaði fyrir öfgafull stefna. Ástæðan er að frjálshyggja af þessu tagi leggur svo mikið upp úr því að lágmarka boð og bönn að ekkert annað færi nokkuð vægi. Almenn hagsæld fær til dæmis ekkert vægi.

Ég tók dæmi um mikilvægt svið þar sem frelsi og almenn hagsæld fara ekki saman: markaður fyrir heilbrigðistryggingar. Frjálsir markaðir fyrir heilbrigðistryggingar eiga það til að „rakna upp“ fyrir ákveðna þjóðfélagshópa (aðallega þá sem þurfa á mestri heilbrigðisþjónustu að halda) vegna „hrakvals“ sem orsakast af því að kaupendur trygginga hafa betri upplýsingar um heilsu sína en tryggingafélögin sem bjóða tryggingar. Ein lausn á þessum vanda er að skylda alla til þess að kaupa heilbrigðistryggingar.

Í nýrri grein á Pressunni andmælir Gunnlaugur rökum mínum. Kjarninn í svargrein Gunnlaugs er að röksemd mín nái ekki nægilega langt. Gunnlaugur segir:

„Hrakval er dæmi um svokallaðan markaðsbrest og taka má fleiri slík, þótt Jón geri það ekki í grein sinni. Að mínu mati er ekki nægilegt að sýna fram á tilvist markaðsbrests til að sýna gildi þvingunar. Jón hættir rökstuðningi sínum of snemma að mínu mati. Spyrja þarf áfram: Mun þvingunin bæta ástandið? Ekki er nóg að sýna galla á frelsinu. Sýna þarf fram á að ofbeldið sem lagt er til hafi veigaminni galla.“

Hér sýnist mér Gunnlaugur víkja í grundvallaratriðum frá þeim rökum sem hann færði fyrir frjálshyggju í fyrri grein sinni. Sú grein gékk út á það að ofbeldi væri siðferðislega rangt. Hvort ofbeldið hefði góðar afleiðingar varðandi hagsæld skipti ekki máli í þeirri grein. Ofbeldi var einfaldlega siðferðislega rangt og tilgangurinn mátti ekki helga meðalið.

Síðari grein Gunnlaugs virðist hins vegar ganga út á það hvort hið tiltekna ofbeldi sem ég lagði til – skyldutryggingar á sviði heilbrigðistrygginga – hefði góðar afleiðingar eða slæmar hvað varðar almenna hagsæld. Gunnlaugur virðist því hafa fallist á að meta réttmæti ofbeldis að einhverju leyti út frá afleiðingum ofbeldisins (í þágu rökræðunnar held ég þó bara). Það leggur grunninn að allt annars konar rökræðu.

Vísindaleg rökræða eða siðferðisleg?

Gunnlaugur leggur sérstaka áherslu á meintar slæmar afleiðingar skyldutrygginga á framþróun þekkingar og þar með langtíma hagsæld mannkyns. Hann segir að framþróun þekkingar trompi allt annað með tímanum og því sé varhugavert að skerða frelsi þar sem boð og bönn dragi úr framþróun þekkingar. Hann kallar röksemdafærslu mína „statíska“ þar sem hún taki ekki tillit til áhrifa skyldutryggina á framþróun þekkingar.

En hvað hefur Gunnlaugur fyrir sér varðandi það hvort óheft frelsi hámarki framþróun þekkingar. Hann virðist aðhyllast þá kenningu að svo sé. En það er mikilvægt að hafa það hugfast að röksemd hans hvað þetta varðar er vísindaleg kenning (ekki siðferðisleg kenning). Hún er vísindaleg kenning vegna þess að empírísk gögn gætu útkljáð hvort kenningin er rétt eða ekki. Gunnlaugur setur hins vegar ekki fram nein empírísk gögn til þess að styðja þessa kenningu.

Ég get auðveldlega sett fram aðra vísindalega kenningu þess eðlis að lágmarksöryggisnet af hálfu ríkisins (á þeim sviðum þar sem hrakval kemur í veg fyrir að frjáls markaður leiði til hagkvæmrar niðurstöðu) sé til þess fallið að ýta undir hámarksframþróun þekkingar þar sem það tryggir betur að allir í samfélaginu búi við nægilegt öryggi til þess að geta hugsað skýrt og skapað nýja þekkingu.

Kannski er mín kenning rétt. En kannski ekki. Eitt er hins vegar ljóst: Það er empírísk spurning hvor kenningin er rétt. Og ef þetta er aðalatriði að mati Gunnlaugs þegar kemur að því að ákvarða hvort það sé réttlætanlegt að skylda fólk til þess að kaupa heilbrigðistryggingu þá er sú spurning í grunninn empírísk spurning, ekki siðferðisleg.

Þetta þýðir að til þess að útkljá þetta atriði þurfum við að finna snjallar aðferðir til þess að átta okkur á því hvort samfélög sem búa við skyldutryggingar skapi meiri þekkingu en samfélög sem ekki búa við skyldutryggingar að öðru óbreyttu. Það er ekki nóg að setja fram fallegar keningar. Það þarf að setja fram sannfærandi gögn sem styðja þessar kenningar.

Hinn stóri vandi í félagsvísindum er að það er afskaplega erfitt að finna sannfærandi gögn sem styðja eða ganga gegn kenningum sem þessum. Vandinn er að samfélög sem búa við skyldutryggingar eru öðruvísi en samfélög sem ekki búa við skyldutryggingar á svo margan hátt. Það er því erfitt að útiloka með sannfærandi hætti að eitthvað annað orsaki þann mun sem er á þessum tveimur hópum samfélaga. Í hnotskurn er vandinn sá að félagsvísindamenn geta ekki gert eiginlegar tilraunir á samfélögum eins og vísindamenn á sviði náttúruvísinda geta gert á þeim sviðum sem þeir rannsaka.

Af hverju þessi vissa?

Við Gunnlaugur erum augljóslega ósammála um þann þátt þessa máls sem hefur með siðfræði að gera. Fyrri grein hans ber þess vitni að ofbeldisleysi hafi mun meira vægi siðferðislega í hans huga en í mínum huga. Að svo miklu leyti sem afstaða okkar byggir á mismunandi siðferðismati er ólíklegt að við getum nokkurn tíma náð saman um þetta mál.

Í síðari grein sinni víkur Gunnlaugur hins vegar að vísindalegum spurningum varðandi afleiðingar frelsis. Hvað það varðar er ég mun bjartsýnni á að við Gunnlaugur getum á endanum orðið sammála. Það „eina“ sem þarf væri sannfærandi empírísk rannsókn. (Já, ég veit, „easier said than done.“)

En það er vegna þeirrar vísindalegu óvissu sem í dag ríkir um afleiðingar frelsis sem ég er oft hissa á afstöðu frjálshyggjumanna. Þeir virðast oft svo vissir um að ENGIN frávik frá frelsi leiði til góðs. Á hverju byggist þessi vissa? Ekki empírískum gögnum sem ég þekki og þó fylgist ég nokkuð vel með á þessu sviði.

Gunnlaugur mun vafalítið svara því til að frelsið eigi að njóta vafans. En þá erum við aftur komin yfir í siðfræði. Vísindalegu rökin fyrir því frelsi sem Gunnlaugur vill berjast fyrir á Íslandi eru ekki sterk. Frjálshyggjumenn eru sterkastir á svellinu að mínu mati þegar þeir halda sér við siðfræðirök.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is