Fimmtudagur 08.11.2012 - 23:14 - FB ummæli ()

Frelsi og hagsæld

Gunnlaugur Jónsson hélt mjög athyglisverða ræðu á aðalfundi Frjálshyggjufélagsins fyrir skömmu. Megininntak ræðunnar var að frjálshyggja væri ekki öfgastefna heldur „hin sanna miðjustefna.“ Í þessu sambandi tók Gunnlaugur mjög gott dæmi:

„Það má hugsa sér þann sem vill banna tiltekinn sjónvarpsþátt, t.d. Silfur Egils. Sá maður er öfgamaður, sem hótar Agli ofbeldi ef hann sendir út þátt sinn. Svo er líka til sá öfgamaður sem vill skylda fólk til að taka þátt í að gera þáttinn. Sá maður hótar þeim ofbeldi sem ekki greiða útvarpsgjaldið. Öfgarnar í sitt hvora áttina eru því boð og bönn.“

Frjálshyggja er miðjustefna að mati Gunnlaugs þar sem frjálshyggjumenn vilja hvorki skylda fólk til þess að gera hluti sem það vill ekki gera né banna fólki að gera hluti sem það vill gera. Slík boð og bönn eru ofbeldi. Frjálshyggjumaðurinn er á móti ofbeldi. Gunnlaugur segir réttilega: „Annað hvort þarf fólk að samþykkja frjálshyggju eða viðurkenna að það sé hlynnt ofbeldi.”

Nú er ég ekki frjálshyggjumaður. Ég er til dæmis fylgjandi því að ríkið leggi skatta á borgarana til þess að öllum landsmönnum standi til boða grunn heilbrigðisþjónusta og menntakerfi án tillits til efnahags. Í þessu felst ofbeldi. Skattlagning er ofbeldi af hálfu ríkisins.

Einhverjir vilja ef til vill malda í móinn varðandi þessa orðanotkun. En ég tel að það sé ekki skynsamlegt. Það er mikilvægt fyrir okkur sem styðjum skattlagningu umfram það sem er nauðsynlegt til þess að halda uppi lögum og reglu í landinu að hafa það einatt hugfast að fólk greiðir skattana sína ekki sjálfviljugt. Það þarf því að fara varlega þegar skattar eru lagðir á fólk.

En ég tel mig samt ekki vera öfgamann. Raunar tel ég mig vera miðjumann í stjórmálum og Gunnlaug öfgamann. Hvernig fæ ég það út?

Frjálshyggja Gunnlaugs snýst um að lágmarka ofbeldi. Hún leggur raunar svo mikið upp úr því að lágmarka ofbeldi að ekkert annað fær nokkuð vægi. Almenn hagsæld fær til dæmis ekkert vægi. Nákvæmlega núll vægi. Það er þetta sem gerir frjálshyggju að öfgastefnu frá mínum bæjardyrum.

Mínar eigin stjórnmálaskoðanir gefa hagsæld talsvert vægi og gefa ofbeldisleysi einnig talsvert vægi. Hvorugt af þessu trompar hitt í öllum tilvikum. Þetta gerir það að verkum að stundum er erfitt og flókið fyrir mig að taka afstöðu. Ég þarf að vega og meta fleira en eitt markmið. Í sumum tilfellum tel ég að ofbeldið sé of mikið til þess að það réttlæti markmiðið. En í öðrum tilvikum finnst mér ofbeldið (þ.e., boðin og bönnin) léttvægt í samanburði við ábatann hvað varðar aukna hagsæld. En ég get aldrei gripið til einfaldrar grunnreglu sem segir að eitt markmið trompi alltaf allt annað.

Oft vill reyndar svo til að frelsi og hagsæld fara saman. Á þeim sviðum er auðvelt að vera sammála frjálshyggjumönnum. En því miður eru önnur svið þar sem þetta er ekki svona einfalt. Sumir frjálshyggjumenn (ekki þó Gunnlaugur svo ég viti) neita að horfast í augi við það að hagsæld og frelsi fara ekki alltaf saman. Þessir frjálshyggjumenn þora ekki að viðurkenna að þeir séu tilbúnir að fórna hagsæld fyrir frelsi. Þeir halda sumir hverjir uppi trúboði um meintar góðar afleiðingar frelsis hvað varðar hagsæld alveg án tillits til þess hvað fremstu sérfræðingar heims á þeim sviðum sem þeir eru að fjalla um hafa komist að í rannsóknum sínum. Þessir frjálshyggjumenn eru falsspámenn (e. snake-oil salesmenn) sem ber að varast.

Lof mér að taka eitt dæmi um svið þar sem ofbeldisleysi og hagsæld fara ekki saman. Í Bandaríkjunum eru um 50 milljónir manna án heilbrigðistryggingar. Ein meginástæða þessa er að fyrir marga hópa eru heilbrigðistryggingar ekki fáanlegar á „eðlilegu verði“ og fyrir suma hópa eru heilbrigðistryggingar ekki fáanlegar yfirleitt. Mikilvægur orsakavaldur þessa er það sem hagfræðingar kalla hrakval (e. adverse selection).

Það er einfaldast að útskýra hakval með dæmi. Segjum að ég reki tryggingafélag og þið, lesendur, séuð hópur af fólki sem hefur áhuga á að kaupa heilbrigðistryggingu. Sum ykkar eru líklegri til þess að verða veik en önnur. Hvert og eitt ykkar þekkir heilsufar sitt. En það eina sem ég veit er tölfræðilega dreifingu heilsufars yfir hópinn (ekki hver er hver varðandi heilsu).

Segjum sem svo að ég horfi yfir hópinn og hugsi. Ef allir kaupa trygginguna þá mun það kosta mig 100 þúsund kr. per mann að tryggja hópinn. Svo ég ákveð að verðleggja heilbrigðistrygginguna á 100 þúsund kr. plús eitthvað smotterí svo ég hafi eitthvað upp úr krafsinu sjálfur.

Hvað gerist?

Jú, einungis þeir veikustu kaupa trygginguna. Þeir hraustu hugsa: Þessi trygging er of dýr fyrir mig. En þetta val ykkar veldur vandræðum fyrir mig. Þar sem einungis þeir veikustu keyptu trygginguna verður kostnaður minn mun meiri en 100 þúsund kr. per mann, ef til vill 150 þúsund kr. per mann.

Segjum sem svo að ég ákveði í ljósi þessa árið eftir að hækka verðið í 150 þúsund kr. per mann. Hvað gerist þá? Jú, þeir hraustustu af þeim sem keyptu í byrjun ákveða þá að sleppa tryggingunni og ég sit uppi með enn veikari kúnnahóp og kostnað sem er aftur hærri en verðið sem ég set upp.

Ef ég ákveð að hækka verðið í annað sinn gerist það sama aftur. Þeim mun hærra verð sem ég set upp, þeim mun fleiri velja að sleppa tryggingunni og enn veikari hópur situr eftir og alltaf tapa ég á öllu saman. Markaðurinn hreinlega raknar upp þar til ég sé að ég get ekki látið enda ná saman í því að bjóða upp á heilbrigðistryggingar hversu hátt sem ég set verðið.

Þetta ferli er kallað hrakval – val ykkar skilur mig kerfisbundið eftir með kúnna sem eru veikari en fólk almennt. Hrakval er ein af aðalástæðunum fyrir því að markaðurinn fyrir heilbrigðistryggingar virkar ekki vel í Bandaríkjunum með þeim afleiðingum að um 50 milljónir manna hafa ekki heilbrigðistryggingu.

Hvað er hægt að gera til þess að leysa þennan vanda? Eitt sem leysir þennan vanda er ef ríkið skyldar alla til þess að kaupa heilbrigðistrygginu. Þá er ekki lengur neitt hrakval til staðar og ég get boðið upp á heilbrigðistrygginu á 100 þúsund kr. án þess að eiga það á hættu að einungi þeir veiku kaupi trygginguna.

Þetta er gott dæmi um mikilvægt svið þar sem frelsi (ofbeldisleysi) og hagsæld fara ekki saman. Ef menn vilja lágmarka boð og bönn þá mun stór hópur búa við öryggisleysið sem fylgir því að hafa ekki heilbrigðistryggingu. Ef menn vilja tryggja þá hagsæld sem fylgir heilbrigðistryggingum þá verða menn að vera tilbúnir að sætta sig við ofbeldið sem fylgir því að skylda alla til þess að kaupa heilbrigðistryggingu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is