Föstudagur 15.2.2013 - 16:11 - Rita ummæli

Konur á þingi

Þetta hafði ég að segja um Ingibjörgu H. Bjarnason sem settist á þing fyrst kvenna,  fyrir réttum 90 árum síðan.

Virðulegi forseti.

 Það er merkisdagur í dag. Það eru 90 ár síðan fyrsta konan tók sæti á Alþingi. Þessi brautryðjandi var fröken Ingibjörg H. Bjarnason, kennari og skólastjóri í Kvennaskólanum í Reykjavík.

Fröken Ingibjörg, eins og ég vandist að kalla hana sem ung stúlka í Kvennaskólanum í Reykjavík upp úr 1970, var brautryðjandi í fleiru því að hún var fyrst Íslendinga til að ljúka leikfimikennaraprófi. Um hana var talað af mikilli virðingu í skólanum. Hún átti stóran þátt í að leggja grunninn að því góða og mikilvæga starfi sem Kvennaskólinn í Reykjavík á í því að mennta konur þessa lands og veita þeim með menntun sinni heilbrigða sjálfsmynd.

Það hefur örugglega ekki verið auðvelt að vera eina konan í því karlasamfélagi sem Alþingi var og má segja enn einu eftir að skipulag starfsins hentar oft ekki þeim sem vilja gjarnan vera virkir þátttakendur í lífi fjölskyldu sinnar.

Mikið hefur gerst í jafnréttisbaráttunni síðan fröken Ingibjörg settist á þing og vann þar að ýmsum góðum málum eins og byggingu Landspítalans. Nú sitja 24 konur á þingi sem gera 38% þingmanna. Það er mikill viðsnúningur en betur má ef duga skal.

Konur þurfa að sjálfsögðu að vera virkar á öllum sviðum mannlífsins. Það auðgar og gefur betri mynd af veruleikanum. Það á ekki bara við stundum heldur alltaf. Það hefur verið dökkur blettur á okkar góða samfélagi um árabil að við höfum ekki náð utan um óútskýranlegan launamun kynjanna. Það er því sérstaklega ánægjulegt að stjórnvöld hafa nú viðurkennt vandann og hafið sókn í jafnlaunastefnu.

Fyrstu skrefin hafa verið stigin með því að viðurkenna að hin svokölluðu kvennastörf hafi setið eftir í kjarabótum og brugðist hefur verið við því, t.d. með auknu fjármagni inn í stofnanasamning hjúkrunarfræðinga og Landspítalans. Hér væri hægt að hafa mörg orð um gildi starfa og launalegan mun þeirra sem vinna til dæmis með börnum og sjúkum og hinna sem sýsla með pappíra og peninga en til þess gefst því miður ekki tími.

Til hamingju með daginn jafnréttissinnar og takk fyrir að ryðja brautina fröken Ingibjörg.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.1.2013 - 13:30 - 2 ummæli

Ábyrgð og málamiðlanir

Nýliðinn desember var eins og svo margir forverar hans merkilegur mánuður.  Eins og ég hef skrifað um áður hugnast mér verklagið á Alþingi í lok starfslota afar illa.  Stress og flýtir er ekki góður fylgifiskur vandaðrar lagasetningar.  Átök og gífuryrði enn síður.

Mig langar hér að skrifa nokkrar málgreinar um fyrirhugaða frestun á gildistöku nýrra barnalaga sem innanríkisráðherra lagði til með frumvarpi sem kom fram á síðustu dögum þingsins.  Þessi frestun var mér ekki að skapi, en ég hlustaði á þau rök sem fram komu um að undirbúningi gildistökunnar  væri ekki nógu langt kominn til að ráðlegt væri að þau tækju gildi þar sem um svo viðkvæman málaflokk væri að ræða. Peningarökin sem innanríkisráðherra hélt mjög á lofti fannst mér mun léttvægari,  því auðveldara er að fá ríkisstjórn til að leggja fram 30 milljónir en að umbylta heilu réttarkerfi.

Það er ekki gott að ráðuneyti og stofnanir telja sig ekki geta hafið undirbúning að framkvæmd breytinga fyrr en frumvörp eru orðin að lögum og mér finnst það raunar óskiljanlegt að slíkur undirbúningur geti ekki hafist þegar ljóst er að ekki er um ágreiningmál að ræða eins og tilfellið var um barnalögin.  Því hefðum við ekki átt að þurfa að vera í þessum frestunarsporum –  en því miður, þar vorum við og í þeim sporum var farið að leita leiða til að þetta góða samstöðumál sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum í júní fengi sem allra besta niðurstöðu.

Ég taldi óeðlilegt að neita frestun í andstöðu við okkar færustu sérfræðinga í barnarétti, ráðuneyti og sýslumannsembætti en lagði til að við styttum frestunina í þrjá mánuði úr þeim sex sem lagt var til í upphafi, þar sem aðilar töldu það geta gengið þótt knappt væri.  Það kom mér mjög á óvart að á þessa ábyrgu málamiðlun var ekki fallist heldur settu menn undir sig hausinn og neituðu að fallast á nokkra frestun.  Þessi hauspokaaðferð er í engu samræmi við það vinnulag sem tíðkaðist í allri vinnunni við barnalögin þar sem ágætur framsögumaður málsins lagði sig fram um að ná sáttum um alla liði sem umdeildir voru og tókst það ágætlega.  Það er greinilega kominn kosningaskjálfti í menn en mér finnst sérstakt að láta þann skjálfta bitna á eins viðkvæmum málaflokki og barnarétturinn er.

Mér fannst það ekki hetjudáð að berja það fram í andstöðu við sérfræðinga að neita frestun, mér hefði fundist eðlilegt að gefa kerfinu þrjá mánuði svo vinna mætti þá undirbúningsvinnu sem því miður var ekki búið að vinna, það var málamiðlun sem allir hefðu átt að geta sætt sig við ekki síst í anda málefnanlegar og átakaminni stjórnmálaumræðu.

Ætla ekki að tjá mig núna um lækkun á vsk á bleyjum og smokkum, það verður kannski síðar…

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.11.2012 - 20:33 - 3 ummæli

Réttur barns til að þekkja báða foreldra sína

Í gær var dreift í þinginu frumvarpi mínu um breytingar á barnalögum – hér á eftir er hluti greinargerðarinnar með frumvarpinu ykkur til kynningar.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á barnalögum, nr. 76/2003, þannig að takmörkun sú sem nú er í lögunum, varðandi heimild karlmanns til höfðunar á faðernismáli er felld brott.

Í núgildandi 10. gr. laganna kemur fram að maður sem telur sig vera föður barns getur aðeins höfðað faðernismál ef barn hefur ekki verið feðrað. Í þessu felst veruleg takmörkun á rétti manns til að leita úrskurðar dómstóla um réttindi sín og skyldur, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sem og takmörkun á rétti barns til að þekkja foreldra sína,  í þeim tilvikum sem barn hefur ekki verið rétt feðrað.  Af þeim sökum er lagt til að karlmaður sem telur sig vera föður barns geti óhindrað höfðað faðernismál því til staðfestingar.

Málshöfðunarreglur í faðernismálum hafa löngum takmarkað rétt karlmanna, sem telja sig föður barns, til að höfða dómsmál til staðfestingar á faðerni barns. Í eldri barnalögum, nr. 20/1992, var takmörkun á þá leið að aðeins barn og móðir barns gátu höfðað faðernismál. Hæstiréttur hefur talið þá takmörkun ósamrýmanlega 70. gr. stjórnarskrárinnar, 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og 65. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem í 70. gr. sé sjálfstæð regla um að menn skuli almennt eiga rétt á að bera mál sín undir dómstóla og að allar takmarkanir á þeirri meginreglu verði að skýra með hliðsjón af því. Við umfjöllun um þá mismunun á réttindi kynjanna sem reglan fæli í sér, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, var ekki talið að hún byggðist á málefnalegum sjónarmiðum og vísað sérstaklega til  hagsmuna barns af því að faðerni þess sé rétt og þekkt.

Í frumvarpi sem varð að barnalögum nr. 76/2003 lagði sifjalaganefnd til að 10. gr. yrði samhljóða þeirri tillögu sem felst í þessu frumvarpi. Í greinargerð með frumvarpinu kom m.a. eftirfarandi fram:
„Á undanförnum árum hafa verulegar breytingar orðið á viðhorfum í barnarétti eins og vikið hefur verið að. Kastljósinu hefur m.a. í auknum mæli verið beint að rétti barns til að þekkja báða foreldra sína og rétti þess til að njóta samvista við þá. Viðurkenning á rétti manns sem telur sig föður barns til að höfða faðernismál er fallin til að styrkja þessi réttindi barns. Í ljósi þessara breyttu viðhorfa, sem m.a. endurspeglast í dómi Hæstaréttar í máli nr. 419/2000, eru fyrrgreindar breytingar á málsaðild lagðar til.“

Við meðferð frumvarpsins á Alþingi lagði allsherjarnefnd til þá breytingu, sem var samþykkt, að málsaðild karlmanns sem telur sig föður barns skyldi takmörkuð við þau tilvik sem barn er ófeðrað. Í nefndaráliti allsherjarnefndar kom fram að megintilgangur breytingartillögunnar væri að koma í veg fyrir tilhæfulausar málsóknir.
Ætla verður að ótti við tilhæfulausar málshöfðanir sé ástæðulaus og að dómstólum ætti að vera fullkomlega treystandi til að stöðva tilhæfulaus barnsfaðernismál.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.10.2012 - 08:37 - 2 ummæli

Byggðakynjagleraugun

Atvinna er undirstaða byggðar, lífsgæða og velferðar.  En það er ekki nóg að bjóða upp á einhverja atvinnu, það skiptir miklu máli að atvinnutækifærin séu fjölbreytt,  henti báðum kynjum, fjölbreyttu aldursbili og mismunandi menntun og reynslu fólks, og þetta skiptir ekki síst máli á landsbyggðinni.

Staðan er nefnilega þannig að það vantar víða ungar konur út á land, í nýlegri skýrslu Byggðastofnunar kemur fram að  ef aldurshópurinn 20 til 39 ára er skoðaður sérstaklega kemur fram sérstakleg mikill kynjamunur í sumum landshlutum, sem staðfestir að sögn skýrsluhöfundar að ungar konur hafi flust í meira mæli burt en ungir karlar.

Þannig eru aðeins 86 konur á þessum aldri á Austurlandi fyrir hverja 100 karla. Á Vestfjörðum er hlutfallið svo að 89 ungar konur búa þar á hverja 100 unga karla. Ungar konur heilt yfir landið eru færri en ungir karlar, eða 96 konur fyrir hverja 100 karla.

Konum í þessum aldurshópi hefur á undanförnum tíu árum fækkað í öllum landshlutum nema á Norðurlandi vestra. „Þrátt fyrir eða kannski ætti frekar að segja vegna mikillar uppbyggingar í kringum álversframkvæmdir á Austurlandi hefur munurinn aukist mest þar. Árið 2001 voru 94 konur á hverja 100 karla í þessum aldurshópi,“ segir í skýrslunni.

Það er ljóst að til að náttúruleg fjölgun eigi sér stað um allt land er nauðsynlegt að ungar konur kjósi að setjast að vítt og breitt um landið.  Það er ekki auðvelt að stýra búsetu fólks, en það er hægt að vera meðvitaður um ástandið og skoða ákvarðanir um uppbyggingu ,gjaldtöku, niðurskurð og aðhald með kynjabyggðagleraugum. Öll viljum við að konur og karlar séu tilbúin til að vinna öll störf en við vitum að þangað erum við ekki komin.  Konur eru duglegar að mennta sig á fjölbreytilegan hátt og eru svo sannarlega tilbúnar að spreyta sig á krefjandi störfum í ýmsum greinum og sýna oft mikið frumkvæði í að búa sér til atvinnutækifæri, en þær velja sér sjaldnar en ekki gróf erfiðisstörf og vinnuvélaakstur.  Þetta verður að hafa í huga þegar unnið er að atvinnuuppbyggingu og fjölgun starfa.  Einhæfni í atvinnulífinu getur  því  verið beinlínis byggðafjandsamleg ef horft er á hana með kynjabyggðagleraugum.

Finna þarf þá þætti sem ungar konur vilja að séu til staðar til að gera búsetu ákjósanlega því það þarf fleira til en  atvinnu til að gera búsetu eftirsóknarverða. Læra þarf af þeim byggðalögum sem  tekist hefur að laða til sín ungt fólk af báðum kynjum.

Þá þarf að gera umræðuna um lífið á landsbyggðinni jákvæða og uppbyggilega.  Við sem höfum alið allan eða hluta aldurs okkar á landsbyggðinni vitum hversu marga kosti sú búseta hefur.  Þá kosti þarf að tíunda um leið og við aukum meðvitund allra aðila um mikilvægi þess að skapa og viðhalda tækifærum  til aukins fjölbreytileika í starfaflóru og menningu  landsins alls.  Það verðum við að gera til að tryggja byggð í landinu.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.9.2012 - 14:08 - Rita ummæli

Þingsetning

Umræður um hefðir við þingsetningu hafa verið nokkuð áberandi í fjölmiðlum.  Þingmenn hafa tjáð sig í allar áttir um málið, metið og dæmt félaga sína án nokkurrar vitneskju um lífssýn þeirra og trú.

Ég er einn þeirra þingmanna sem tók ákvörðun um að taka ekki þátt í þeim hluta þingsetningarinnar sem felst í því að ganga milli þinghúss og kirkju og sleppti guðsþjónustunni að þessu sinni svo og samkomu Siðmenntar, ég var nýkomin með flugi að austan og beið með félögum mínum nokkrum inni í þinghúsinu eftir því að hin eiginlega þingsetning hæfist.

Mér finnst það afar hæpið að aðrir þingmenn geti dregið þá ályktun að vegna þessarar ákvörðunar minnar og sérstakra aðstæðna sé ég í fyrsta lagi andsnúin þjóðkirkjunni og trúleysingi og í öðru lagi að skrópa í vinnunni minni!  Trúarsannfæring mín er sterk og byggir á traustum grunni, en ekki yfirborðslegum heimsóknum í guðshús á sérstökum hátíðisdögum og ég var í vinnunni, bæði í ferð minni austur á land og inni í þinghúsinu!

Samskipti þingmanna og þess fólks sem velur að mótmæla á Austurvelli við þingsetningar er síðan allt annað málefni.  Þar finnst mér að sjálfsögð mótmæli við ákvarðanir stjórnvalda hafi farið algerlega úr böndunum og finnst því sjálfsagt að breyta þingsetningunni þannig að ekki sé boðið upp á þau ofbeldisverk sem því miður hafa verið framin við þingsetningar á undanförnum árum, heldur sé þessu fólki boðið til samtals við eðlilegar aðstæður þar sem báðir aðilar geta lagt fram málstað sinn og rök. Skrúðganga með víggirðingar milli þingmanna og þeirra sem á Austurvelli er ekki að mínu skapi og að mínu mati lítt til þess fallin að auka á virðingu Alþingis.

Það gefst t.d. gott tækifæri til þessi í dag þar sem þingmönnum er boðið að koma að hlusta á fulltrúa Öryrkjabandalagsins á fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur, þangað ætla ég að mæta því það finnst mér eðlileg samskipti milli ráðamanna og þeirra sem hafa sitthvað við störf okkar að athuga. Tölum saman augliti til auglitis, en ekki með matarkasti eða víggirðingar á milli okkar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.9.2012 - 11:48 - Rita ummæli

Austurland tækifæranna

Nýr fréttamiðill leit dagsins ljós á Austurlandi í vikunni, til hamingju með það Austurland.

Í tilefni þess skrifaði ég lítið greinarkorn í blaðið og finnst við hæfi að setja það hér inn í dag þegar 30 ár eru síðan höfðuborgarstúlkan flutti austur á land.

Örugg atvnna er undirstaða farsældar, samfélaga, fjölskyldna og einstaklinga.

Fjölbreytt atvinnulífssýning á Fljótsdalshérðai og fimm ára afmæl álvers Alcoa á Reyðarfirði, á síðustu vikum sýnir að miklir möguleikar eru á öruggri  og fjölbreyttri atvinnu á Austurlandi, það er tilefni bjartsýni og lífsgleði.

Sjávarútvegur, Vatnajökulsþjóðgarður, ferðaþjónusta og skapandi greinar eru fleiri öflugir angar öflugs atvinnulífs á Austurlandi.  Ekki má gleyma opinberri þjónustu sem margir starfa við og byggir á hinu öfluga atvinnulífi fjórðungsins.

Nýlegar rannsóknir sýna að ungar konur eiga erfiðara með að finna sér atvinnu og lífsstíl við hæfi úti á landi en aðrir þjóðfélagshópar.  Það er verðugt verkefni að vinna að lausn á þeim vanda með öflugum sóknaráætlunum landshluta  þar sem innviðir samfélaga eru treystir, samgöngur bættar, velferðar – og menntakerfi eflt  og umgjörð utan um fjölbreytta atvinnuhætti stórefld.

Það er sérstakt ánægjuefni að um allt land hefur jöfnuður aukist með þeim lífsgæðum sem allar rannsóknir sýna að jöfnuði fylgir.  Vonandi tekst okkur að viðhalda þessum jöfnuði um leið og við höldum áfram að vinna að því  að allir hafi þá framfærslu sem nauðsynleg er til eðlilegrar afkomu fjölskyldna.

Það er skylda stjórnvalda á öllum stigum að vinna fyrst og fremst að almannahag.  Til þess þarft að tryggja að allir fái að hjóta arðsins af auðlindum þjóðarinnar og þeir sem nýta þær greiði fyrir afnotin eðlilegt gjald en tryggi sér jafnframt góða afkomu.

Austurland tækifæranna er veruleiki dagsins í dag, skapandi hugsun, farsæl nýting auðlinda,  samfélagsleg ábyrgð og markviss uppbygging innviða gerir landshlutann að eftirsóknarverðum stað til búsetu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.8.2012 - 11:34 - 3 ummæli

Stjórnarskrá er þjóðarsáttmáli

Wilkipedia skilgreinir stjórnarskrá svona:

„Stjórnarskrá er heiti yfir allar þær reglur sem ráða stjórnskipun ríkis. Stjórnarskrá getur verið í formi eins ákveðins skjals eða hún getur verið dreifð í mörgum rituðum textum, hún getur einnig verið óskrifuð að miklu eða öllu leyti, til dæmis geta hefðir og venjur haft stjórnskipulegt gildi og þannig verið hluti af stjórnarskránni.“

Í mínum huga er stjórnarskrá nokkurs konar sáttmáli þjóðar, byggður á lagalegum og heimspekilegum grunni.  Í stjórnaskrá þurfa að koma fram þau gildi sem við viljum byggja samfélag okkar svo og þær reglur sem við viljum að myndi ramma utan um samfélag okkar.  Í mínum huga eru þessi atriði jafn mikilvæg, gildin og lagaramminn.  Ofuráhersla á lagalegt gildi stjórnarskrárinnar er að mínu mati takmarkandi í því plaggi sem á að vera þjóðarsáttmáli sem þjóðin á að upplifa sem sinn.  Aðfaraorð tillögu stjórnlagaráðs eru mér sérstaklega að skapi:

 

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.

Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða.

Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

 

Sú tillaga að stjórnarskrá sem stjórnlagaráð skilaði þinginu sl. sumar er unnin í mikilli samvinnu við þjóðina.  Ferlið sem stjórnlaganefnd, þjóðfundur og loks stjórnlagaráð mynduðu var þáttur í þessu samvinnuferli. Það að spyrja þjóðina nú ráða um það hvort hún vilji að útkoma þess samvinnuferlis eigi að mynda grundvöll að fyrstu íslensku stjórnarskránni eða ekki er eðlilegt framhald þess ferlis sem lagt var upp með.  Það þarf að skoða það vandlega hvort lagalegir árekstrar komi fram í þeirri tillögu sem fyrir liggur bæði hvað varðar íslenska löggjöf og alþjóðlega samninga og eðlilegt að á það sé bent í þeirri spurningu sem fyrir þjóðina verður lögð svo ekki sé á nokkurn hátt verið að fara á bak við kjósendur.

Vonandi fer nú næstu vikurnar fram umræðu í samfélaginu um stjórnarskrármál, vonandi tekst okkur að gera þá umræðu jákvæða og uppbyggilega þó að stjórnmálamenn og lögspekingar séu ekki á einu máli um form og innihald.   Þetta er frábært tækifæri til að ræða skipan mála hjá þessari þjóð hjá öllum aldurshópum, það er spennandi að ræða stjórnskipan  og grunngildi samfélaga við ungt og frjótt fólk sem er tilbúið til að hugsa út fyrir rammann.  Það er ekki síður skemmtilegt að ræða þetta mál við eldra fólk sem á lífsreynsluna til að meta mál eftir og getur því svo vel bent á það sem betur má fara.

 

Mér finnst afar sérstakt að fólk tali um þá leið sem fara á: ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands með tilheyrandi undirbúningi, sem hjáleið eins og gert hefur verið í umræðunni  – nær væri að tala um aðalbraut  – það að eiga samtal við þjóðina getur ekki talist hjáleið, það liti a.m.k. ekki vel út í kosningabaráttu að kalla samtal og ráðgjöf við þjóðina hjáleið, samtal við þjóðina hlýtur alltaf að vera hin aðferðafræðilega aðalbraut.

Mikil umræða hefur verið í gangi um spurningarnar sem leggja á fyrir þjóðina með tillögunni að stjórnarskránni, bæði form þeirra og innihald.  Það er eðlilegt að skiptast á skoðunum um þær, en ekki má gleyma því að leiðsagnar hefur verið leitað til fræðimanna um form og efni.  Því miður hafa neikvæðar raddir látið að því liggja að þingmenni í meirihluta Stjórnskipunar – og eftirlitsnefndar hafi párað spurningarnar niður á rissblað og sent þær umræðulaust í prentun.  Í slíkum ummælum felst mikil vanvirðing við þingmenn, þingið og starfsmenn þess svo og þá fræðimenn sem að verkinu hafa komið.

Við stöndum á merkilegum tímamótum í lýðræðisumbótum á Íslandi, nú liggur fyrir tillaga að nýrri stjórnarskrá, samin í lýðræðislegu ferli sem þjóðin fær tækifæri til að vega og meta og segja skoðun sína á. Hið lögbundna ferli stjórnarskrárbreytinga tekur síðan við í þinginu að þjóðaratkvæðagreiðslu lokinni.  Vonandi eigum við framundan vikur með uppbyggilegri umræðu um stjórnskipan landsins og þær áherslur sem við viljum leggja rækt við í íslensku samfélagi í nútíð og framtíð og síðan uppbyggilegar umræður um sama mál á Alþingi í vetur.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.6.2012 - 17:18 - 6 ummæli

Jarðgöng

Í hálendu, vogskornu landi skipta samgöngur í gegnum jarðgöng afar miklu máli.  Jarðgöng stækka atvinnu – og þjónustusvæði og hafa því afar mikla þýðingu fyrir dreifðar byggðir landsins.  Nýlegar rannsóknir sýna að ungar konur setjast í minna mæli en áður að úti á landi ekki síst vegna einhæfs atvinnulífs.  Með jarðgangnagerð má stækka atvinnusvæði verulega og auka þar með fjölbreytni á vinnumarkaði. 

Þá geta jarðgöng stuðlað að verulegum samlegðaráhrifum í þjónustu á ýmsum sviðum og þannig orðið til eðlileg hagræðing á ýmsum sviðum. Um umferðaröryggi þarf ekki að fjölyrða.

Það er því sérstakt fagnaðarefni að sjá hilla undir þann draum að ráðist verði í jarðgangagerð undir Vaðlaheiði án þess að ríkið þurfi að kosta miklu til. Með þeirri góðu samgöngubót verður til stórt atvinnu – og þjónustusvæði við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum með þeirri fjölbreytni sem svo nauðsynlegt er að geta boðið uppá.

Í þeirri samgönguáætlun sem nú er rædd á Alþingi er einnig gert ráð fyrir því að hafist verði handa við langþráð Norðfjarðargöng strax á næsta ári.  Með þeim verða til eðlilegar samgöngur milli bæjarhluta í Fjarðabyggð og greiðari leið að Fjórðungssjúkrahúsi Austfirðinga sem nú liggur að baki eins hæsta fjallvegar landsins og þurfa sumir Austfirðingar að fara yfir marga fjallvegi til að nýta sér þjónustu þess sjúkrahúss og það er auðvitað algerlega óviðunandi ástand á 21. öldinni.

Dýrafjarðargöng eru líka afar þörf samgöngubót sem tengja suður – og norðurhluta Vestfjarða með tilheyrandi möguleikum í byggðaþróun.

Að lokum vil ég minna á að bak við hæsta fjallveg landsins býr sanngjarnt baráttufólk, á Seyðisfirði, sem svo sannarlega á það skilið að göng undir Fjarðarheiði komist á dagskrá nú þegar.  Seyðfirðingar sýndu það drenglyndi að hleypa þörfum framkvæmdum á Vestfjörðum fram fyrir göng undir Fjarðarheiði á níunda áratug síðustu aldar gegn því að þeirra samgöngubætur kæmust á dagskrá að Vestfjarðarframkvæmdum loknum. 

Enn bíða þeir og nú verður ekki við það búið lengur og verður að fara í það að fullum þunga að undirbúa þá þörfu samgöngubót sem Fjarðarheiðargöng eru svo ráðast megi í þau að fullum þunga samhliða eða strax að lokinni  gerð Norðfjarðar – og Dýrafjarðarganga.

Það er nefnilega þannig að í hálendu, vogskornu landi þurfum við að vera stöðugt að vinna að jarðgangnagerð, það má aldrei slaka á, þess vegna er eðlilegt að stöðugt sé unnið að undirbúningi nýrra ganga, Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng eru fullhönnuð þess vegna þarf nú þegar að hefjast handa við rannsóknir og hönnun á Fjarðarheiðargöngum svo ekki myndist hlé í jarðgangnagerðinni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.6.2012 - 16:07 - 11 ummæli

Hetjur hafsins?

Í bernsku var mér kennt að bera mikla virðingu fyrir hetjum hafsins sem leggðu líf sitt og limi í hættu til að draga mikilvæga björg í þjóðarbúið.  Þetta viðhorf hefur fylgt mér æ síðan og stríð við sjómenn og fiskvinnslufólk er mér lítt að skapi.  Þá finnst mér spennandi að fylgjast með tæknivæðingu sjávarútvegarins og sjá hugvit nýtt til að gera hann að hátækniiðnaði.

Sjávarútvegurinn er og verður ein af undirstöðum efnahagslífs okkar og nátengdur sögu okkar og menningu og því stór hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar. Vegna þessa finnst mér aðferðafræði sumra útvegsmanna sem skrumskæla þessa sjálfsmynd með hótunum og mannlegum varnarveggjum lítilmannleg í hæsta máta.

Fiskurinn í sjónum er auðlind sem þarf að nýta af skynsemi til hagsbóta fyrir þjóðina – þeir sem menntun, hæfni  og reynslu hafa til þess eru vel fallnir til slíks, um það eru flestir sammála.  Það er því eðlilegt að  þeir fái leyfi til að nýta auðlindina með tilteknum skilyrðum og greiði fyrir það ákveðið hlutfall af arði sjávarútvegsins að teknu tilliti til eðlilegs rekstrarkostnaðar.  Það þykir almennt eðlilegt að greitt sé fyrir afnot af því sem aðrir eiga að teknu tilliti til samninga um meðferð eignarinnar.

Deilurnar snúast í raun ekki um það.  Þær snúast um það að útgerðarmenn vilja sjálfir ákveða hversu mikið þeir greiða fyrir afnotin.  Það geta bara ekki talist eðlilegir viðskiptahættir.  Með hræðsluáróðri sem líkist helst lénsherratilburðum stilla sumir útvegsmenn launþegum sínum og heilu samfélögunum  upp við vegg og vilja að þeir aðstoði þá við sjálftökuna og því miður virkar hræðsluaðferðafræðin og auglýsingar vella yfir landsmenn þar sem sjálftakan er réttlætt með afar takmörkuðum rökum.

Það stendur ekki til að hætta að veiða fisk við Íslandsstrendur og það stendur heldur ekki til að lækka laun sjómanna og fiskvinnslufólks, það stendur aftur á móti ákveðið til að það verði kristaltært að fiskurinn í sjónum er eign þjóðarinnar og að hún eigi að fá af þeirri auðlind sinni eðlilegan arð til uppbyggingar samfélagsins.

Ég óttast að meðvirkni ótrúlega margra  við sérhagsmuni útgerðarinnar verði til þess að minnka virðinguna fyrir  þeim sem við greinina starfa.  Það væri breyting á sjálfsmynd fiskveiðiþjóðarinnar  – er myndin af hetjum hafsins sem draga björg í þjóðarbúið að breytast í mynd þar sem björgin er dregin í yfirfulla peningaskápa örfárra hagsmunaaðila???

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.4.2012 - 14:47 - 5 ummæli

Gildi og hefðir

Þetta hafði ég að segja undir liðnum „Störf þingsins“ í morgun:

Mig langar að hefja mál mitt á því að segja til hamingju Ísland með nýjan biskup,  enn eitt karlavígið er fallið, sem hlýtur að teljast merkilegur áfangi í jafnréttisbaráttunni á Íslandi.

Mörg karlavígi hafa fallið á undaförnum árum, ekki síst í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar.  Fyrsta konan gegnir nú embætti forstætisráðherra og fjármálaráðherra og karlavígið:  formaður fjárlaganefndar féll líka í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur og fleira mætti telja.

Þetta hlýtur að teljast frábær árangur – en enn er margt óunnið í jafnréttisbaráttunni.

Launamunur kynjanna er þar svartasti bletturinn sem verður að finna markvissar leiðir til að vinna á.

Því tengt má nefna að launamat starfa –  þannig virðist það að höndla með peninga og lagaflækjur vera mun betur metið til launa en störf sem krefjast sambærilegrar menntunar og felast í því að vinna með börn, ungmenni og sjúklinga – þ.e. að vinna með fólk – en algengt er að konur hafi áhuga á þeim störfum og vinni þau.

Enn eitt atriði sem mig langar að nefna er orðræða og umræðuhefð – en þar hafa konur oft tamið sé aðrar venjur en hið fyrrum ráðandi karlkyn.

Í þessum ræðustól er t.d. of algengt að stórkarlalegar fullyrðingar fjúki, oft lítt rökstuddar, þar sem hjólað er í manninn en ekki málefnið.  Konur nota oft aðrar aðferðir í málflutningi sínum, vilja vega og meta rök, ræða málefni og hafa ekki þörfina fyrir að hafa mjög hátt og nýta sér oftágætlega  þá líffræðilegu staðreynd að maðurinn hefur tvö eyru en bara einn munn.

Fjölmiðlar virðast hafa meiri áhuga á aðferðum karlanna en kvenna og rata þeirra athugasemdir, hefðir og gildi því oftar í fjölmiðla.

Konur eru nú í mörgum valdastöðum í samfélaginu.  Þeirra gildismat og starfshættir þurfa að verða áberandi og gildandi í sama mæli.  Slíkt tekur auðvitað tíma en við þurfum að fara að sjá þess fleiri og fleiri merki víða í þjóðlífinu en verið hefur.

Ekki má gleyma því að margir karlar eru í góðu sambandi við sínar kvenlegu hliðar og til í breytingarnar með okkur.  Þjóðin er orðin leið á stórkarlalegu karpi, hún vil alvöru rökræður, samvinnu og lausnamiðuð vinnubrögð, að hætti kvenna.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is