Laugardagur 22.4.2017 - 20:14 - Lokað fyrir ummæli

Um tálmanir og afskiptaleysi

Undanfarið hefur verið talsverð umræða um svokallaða tálmun, þetta erfiða mál þegar börn fá ekki að hitta annað foreldri eftir skilnað og talað um það sem ofbeldi gagnvart barninu. Ráðstefna sem tengist málinu verður á næstunni.

Það er mikið um upphrópanir – sem er kannski eðlilegt – þetta eru viðkvæm mál – um það sem flestum er kærast.

– En, er það virkilega algengt að börn fái ekki að hitta foreldra sem hafa sinnt því áður en til skilnaðar kom?

Ég leyfi mér að efast um það.

– Það sem mér hefur virst algengara er að foreldri sem jafnvel er með sameiginlegt forræði sinni ekki umgengnisrétti sínum. Er það þá líka ofbeldi?

Stundum eru börn misjafnlega mikið tengd foreldrum sínum – hver er þá réttur barnanna?

Þarf ekki að taka þetta aðeins niður á jörðina og reyna að finna leiðir.

Foreldrar þurfa hjálp við lifa í friði með börnunum eftir skilnað. Það þarf forvarnir og meiri foreldrafræðslu. Hvað með góðan umboðsmann barna og SÁTTAMIÐLUN sem væri hluti af heilbrigðisþjónustunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 8.1.2017 - 20:00 - 6 ummæli

Á Bjarni Ben að segja af sér?

Hvernig er þetta með Bjarna Benediktsson og þessar upplýsingar sem hann sagðist hafa fengið eftir þinglok en hann fékk löngu áður.

Er hann að ljúga að okkur eða ekki?

Hafði hann hag af að málið kæmi ekki til umræðu fyrir kosningar?

Hefði Sigmundur Davíð komist upp með útskýringar Bjarna og fengið að halda áfram stjórnarviðræðum í friði?

Hvernig er í nágrannalöndunum þegar svona tvísaga kemur upp hjá ráðherra – hefur það einhverjar afleiðingar?

… spyr sá sem er orðinn svo samdauna óreiðunni í íslenskri pólitík – að hún skilur hvorki upp né niður í málinu.

ER ÞETTA KANNSKI EKKERT MÁL?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð:

Þriðjudagur 6.12.2016 - 17:34 - 1 ummæli

Kennarar og kjaramál

Góður kennari getur þegar árin líða virkað eins og fjarlæg leiðarstjarna – það er mín reynsla. Eins getur vondur kennari verið eins og þungur baggi í farangrinum – það kannast ég líka við. Það sem ég er að segja er að kennarar skipta miklu máli fyrir líf okkar og velferð.

Ég heyrði í fréttum í dag að fullt af kennurum – tugir – stæðu við uppsögn þrátt fyrir mögulega nýjan samning. Eftir því sem mér hefur skilist er komin mikil þreyta í kennarastéttina vegna endalausrar launabaráttu og skilningsleysis á starfi þeirra.

Nú er kjararáð (eða hvað það heitir núna) nýbúið að skenkja nokkrum útvöldum starfsstéttum svo mikla launahækkun á silfurfati – að þeir sem áttu að fá hana ofbauð og „sumir“ sögðu hreint út að þeir hefðu ekki beðið um þetta og ætluðu ekki þiggja.

Hvernig væri að stjórnvöld, foreldrar og við öll sýndum nú menntun barnanna okkar og þeim sem sinna henni þann sóma að „taka kjararáð“ á þetta.

Krafan hlýtur að vera; virðing – friður – almennileg laun fyrir kennara – sem þýðir gróði fyrir alla.

 

 

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda
Efnisorð: , ,

Sunnudagur 20.11.2016 - 13:57 - Rita ummæli

Skemmtilega fræðandi Krakkafréttir

Elsta barnabarnið mitt níu ára gisti hjá mér í nótt ásamt vini sínum. Þeir höfðu verið á spjalli langt fram á kvöld eftir að hafa horft Me, myself and Irene með Jim Carrey. Í morgun vöknuðu þeir ekki fyrr en hálf tíu og því langt liðið á morgunsjónvarpið og langaði til að horfa á ákveðna þætti – en þegar þeir sáu að þeir höfðu misst af Krakkafréttum voru þær fyrsta val.

Það var gaman að fylgjast með þeim niðursokknum í nýjustu Krakkafréttir, um m.a. breytingar á kennsluháttum í grunnskólum, samkeppni um vísubotna í tengslum við varðveislu tungumálsins og yfirstandandi stjórnarmynduarviðræður, fluttar blátt áfram, hispurslaust og af fullkominni virðingu.

Takk fyrir Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Birkir Blær Ingólfsson og RÚV.

Framúrskarandi barnaefni – HÚRRRRRA! (og fínar fréttaskýringar fyrir þessa hér ömmu og upplagt til að horfa á með börnunum og spjalla um á eftir).

 

 

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda
Efnisorð:

Sunnudagur 15.5.2016 - 12:44 - Rita ummæli

HB Grandi – einelti samþykkt?

Ég var að lesa viðtal við sjómann sem varð fyrir einelti hjá HB Granda í fimmtán ár!

Að verða fyrir einelti á sjónum  – af hálfu yfirmanna – eins og hefur liðist há HB Granda á ekki að líðast. Það er ekki í mörg skjól að flýja – í þessum kringumstæðum. Það var að sögn sjómannsins léttir að stíga fram og segja frá – en það gat hann ekki meðan hann hafði sína afkomu hjá þessu fyrirtæki.

Nú er það í tísku að gera kannanir á vinnustað um líðan starfsmanna – væntanlega með það að markmiði að hægt sé að grípa inní ef aflaga fer. Gallinn er sá að kannanirnar virðast stundum vera sýndarmennska ætluð til að fegra ásýnd viðkomandi fyrirtækis.

En, svona kannanir eru gagnslausar og algjör tímasóun ef ekki er unnið markvisst úr þeim – og það virðist ekki hafa verið gert í umræddu fyrirtæki. HB Grandi segir samt í umræddri umfjölun í Fréttablaðinu – vera með metnaðarfulla starfsmannastefnu – núna.

Því spyr ég. Eru sömu yfirmenn ennþá starfandi hjá fyrirtækinu, umræddur skipstjóri og stýrimaður sem tóku menn fyrir og lögðu í einelti? Eru þeir kannski ennþá að?

Hafa þeir verið skikkaðir til að biðja afsökunar og greiða jafnvel miskabætur vegna málsins/málanna sem þeir hafa valdið undirmönnum sínum – eða hefur fyrirtækið kallað saman það fólk sem orðið hefur fyrir barðinu á umræddum dólgum og gert upp sakir?

Þó skaðinn sé mestur í svona málum hjá þeim sem verða fyrir eineltinu þá eru viðkomandi yfirmenn líka að laska og jafnvel eyðileggja mannauð HB Granda með því að meðhöndla starfsfólkið á þennan hátt.

Svona yfirmenn eru stórhættulegir og í besta falli óhæfir yfirmenn – í stuttu máli sagt.

http://www.visir.is/madur-klagar-ekki-skipstjorann/article/2016160519349

 

 

 

 

Flokkar: Brot á mannréttindum · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Mánudagur 18.4.2016 - 22:03 - Lokað fyrir ummæli

Augnakarl á Bessastöðum

Vonbrigði undanfarinna vikna hafa verið mikil – nú kórónar forsetinn ástandið með því að bjóða sig fram – enn einu sinni.

Mig langar ekki að vera neitt sérstaklega dónaleg, en  mér finnst það dómgreindarleysi hjá forsetanum að trúa því að hann sé ómissandi. Það er eitthvað svo glatað að Ólafur Ragnar skuli ekki treysta þjóðinni til að með henni leynist – einn – verðugur arftaki forsetaembættisins. Hvaða/hverra hagsmuna er hann að gæta – hvað vill hann? Leiðist honum?

Þetta gamla orð AUGNAKARL skaut upp kollinum í dag þegar hann þvermessaði yfir okkur. Til öryggis fletti ég því upp.

Það þýðir ÞRÁSETUMAÐUR.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Þriðjudagur 5.4.2016 - 20:10 - Rita ummæli

Kosningar strax

NEI TAKK!

Ég vil Ekki Bjarna Benediktsson – Ekki Sigurð Inga – Ekki Framsóknarflokkinn.

Þeim finnst ekkert athugavert við allan þennan aflandsbisness.

Hvers vegna þurftu þeir að leyna viðskiptum – ef allt var í lagi?

Kosningar strax!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Þriðjudagur 5.4.2016 - 09:29 - Lokað fyrir ummæli

Segðu það með ljóði

Þegar ég opnaði ljóðasafn Arnar í dag kom þetta ljóð upp í hendurnar á mér. Ljóðið er með þetta.

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , ,

Mánudagur 4.4.2016 - 00:46 - Lokað fyrir ummæli

Hnípin þjóð og verndarkraftur

Fór og í bíó og sá Kung fu panda þar sem hún slæst við gráðugu ófreskjuna og hefur sigur að lokum. Sá því ekki á Kastljósþáttin fyrr en seint. Sat döpur og horfði upp á hverja hneisuna annarri verri velta uppúr botnlausri hít siðleysis. Þarna var Aflandsfólkið; Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Ólöf Nordal, Sveinbjörg G. Sveinbjörnsdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir – fólk sem hefur verið treyst til ábyrgðarstarfa.

Ekki máttum við nú við þessu!

Júlíus Vífil Ingvarsson  var varamaður í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar (minn lífeyrissjóður) fyrir nokkrum árum. Hann leyfir sér á sama tíma að koma eigin „lífeyris“sjóði fyrir í öðru landi – og þegja yfir því: http://www.lss.is/lsr/um-sjodinn/stjorn-lsrb/

Er nú ekki tækifæri til að breyta niðurlægingu í sigur –

Afsagnar þessara manna verður krafist – þeir munu ekki segja af sér sjálfir, síðan þarf nýja ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, gæti verið öflug þjóðstjórn með heiðarlegu og góðu fólki sem deilir krónu og kjörum með restinni af þjóðinni og vinnur þannig að endurreisn á svívirtu orðspori.

Við þurfum að hafa kraft og þroska til að vernda okkur gegn vondum stjórnmálamönnum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , ,

Mánudagur 28.3.2016 - 22:34 - 2 ummæli

Eftirlíkingin Selfoss?

„Það er margt skrítið í harmóníum“ segir mamma  stundum (sem er frá Eyrarbakka) og ég tók undir það í huganum – þegar ég sá á RÚV að nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Selfoss lægi fyrir – þar sem hugmyndin er að byggja „gömul hús“ héðan og þaðan af landinu – til að laða að ferðamenn.

Mér er spurn – eru Eyrarbakki og Selfoss ekki örugglega í sama sveitarfélagi? Sveitarfélaginu Árborg?

Allir sem komið hafa á Eyrarbakka vita að þar er ein fallegasta og best varðveitta götumynd á landinu. Þar eru gömlu húsin á sínum stað þar sem þau hafa staðið  í rúmlega hundrað ár og – í hátt á þriðju öld það elsta. Þannig að það má með sanni segja að það vanti ekki „gamla bæinn“ í sveitarfélagið.

Sveitarfélagið Árborg ætti að sýna sóma sinn í að styrkja með myndarlegum hætti það sem vel er gert á Eyrarbakka í húsafriðunarmálum í stað þess að fara í samkeppni með gervi-gamlan miðbæ á Selfossi – þar sem allir tapa.

Hvers vegna ekki að byggja miðbæ með fallegum 21. aldar arkitektúr á Selfossi sem tengist ánni, bænum og brúnni.

Bæjarstjórnarmeirihluti: Sýnið framsýni og hugsið um möguleikana í sveitarfélaginu öllu – í heild. Þið eruð með ekta húsverndarhnoss þar sem Eyrarbakki er. Styrkið það sem einstaklingar hafa verið að gera þar og styðjið við  sérstöðuna þar. Selfoss hefur aðra möguleika og er miklu nýrri bær.

Ekki gera Selfoss að eftirlíkingu: http://ruv.is/frett/nyr-midbaer-a-selfossi

Smjör – smjörlíki. Mjólkurbærinn ætti að þekkja muninn.

 

 

 

 

Flokkar: Menning og listir · Skipulagsmál · Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is