Mánudagur 2.6.2014 - 11:33 - FB ummæli ()

Ég verð að pota í´ana

fingur

Í morgun skrifaði ég um „Mitt síðasta teik“ í Kvennablaðið.

Verandi orðum mínum trú þá vil ég taka fram að ég er því alls ekki að tala um kynþáttahyggjusigur Framsóknar í borginni, ónei, ég ætla bara að skrifa um rasisma svona almennt.

Þegar ég bjó í Svíþjóð á námsárum mínum þá var umræðan um málefnið lifandi og allsstaðar.

Ég bjó í fjölþjóðasamfélagi í Gautaborg innan um Finna, Svía, Dani, Pólverja, Víetnama ásamt fólki frá Chile og Urugvæ, sem höfðu flúið hörmungarnar í sínum heimalöndum og sögunum þeirra um flótta og morð á fjölskyldumeðlimum opnuðu augu mín endalega fyrir mannvonsku heimsins.

Ég tek fram að þetta gerðist þegar Palme lifði og allir voru beisíklí að reyna að vera með opinn hug og að kynna sér málin.

Mikið sem ég sakna þessa fólks eins og það leggur sig, það hefur haft óafturkræf áhrif á mig og hvernig ég horfi á lífð.

En……

Ég hitti líka rasista.

(Hafðiði tekið eftir hvað fólk sem þjáist að þjóðernis- og aðskilnaðarhyggju fríkar út ef þú notar orðið rasisti?  Sorrí, skófla er skófla og við skulum kalla hana það bæ oll míns).

Þó nokkuð marga skal ég segja ykkur, fólk sem var hrætt við hið óþekkta, sá horn og hala á öllum sem voru ekki með hátt skor á aríamælinum og talaði auk þess með hreim.

Halló.

Ég fæ alltaf sömu tilfinninguna þegar ég stend andspænis rasistum.

Þeir eru venjulegir í útliti, eru elskulegir oftar en ekki, góðir við börnin sín og þeir eru stundum með allt á hvolfi heima hjá sér og seinir í vinnuna.

Ég hugsa alveg: Hún borðar, sefur og er bara til eins og ég nema hvað það er eitthvað að innan í henni (eða honum offkors).

Þá grípur mig alltaf sterk löngun til að rétta út bendifingur og ýta svona létt á andlit viðkomandi (ekki til að meiða, nei,nei) til að fullvissa mig um að mig sé ekki að dreyma og að manneskjan sé þarna í alvörunni.

Ég vil pota til að reyna að skilja.

Hingað til hef ég ekki kunnað við það en ég gæti misst mig þar sem a.m.k. fimmþúsund manneskjur, að ég held, eru haldnar þessari meinsemd í Reykjavíkurkjördæmi einu saman.

Úff.

Svo spyr ég svona út í loftið.  Hversu margra kynslóða Íslendingur þarf maður að vera til að teljast hreinræktaður?

Ef til er hreinræktaður Íslendingur þá er það einhver í mínum huga sem þarf að fara hætta að svamla um í sínum grugguga genapolli enda orðin rósrauður á lit, mjög útvatnaður og glær allur í útliti.  Andlitshreyfingar nánast horfnar og hann allur hinn ankannalegasti bæði til orðs og æðis.

Ég hins vegar, er allt annað.

Að mér standa franskir duggarar og alkahólískur danakonungur.

Níd æ sei mor?

Flokkar: Jafnréttismál · Kirkja og trúarbrögð · Mannréttindi

Föstudagur 30.5.2014 - 13:03 - FB ummæli ()

Áróður – Pjúra áróður!

kynþátta

Kæru borgarbúar!

Djók.

Jæja, það er komið að því, kosningar á morgun.

Búið að gera upp hug sinn?

Ég er með áhyggjur vegna möguleikans á að Framsókn nái inn fulltrúa í Reykjavík.

Stjarnfræðilegur möguleiki getur orðið að óafturkræfanleg staðreynd á morgun.

Sé fyrir mér múslímafóbískan framsóknarfulltrúann hlæja alla leiðina á sinn fyrsta fund í ráðhúsinu.

Martröð!

Ég hef persónulega lítið á móti Framsókn að öðru leyti en því að þeir gera út það ljótasta í fari okkar sem er græðgi (ríkisstjórnin og stóru loforðin þið munið) og fáfræði (múslimar og moska – jájá).

Ég einfaldlega sef ekki vel með svoleiðis fólk við stýrið.

Ég vil ekki ganga svo langt að segja að fyrir mér eru þeir sem nota atkvæðið sitt af ótta við hið framandi, hreinlega dreggjar samfélagsins, en sumir gera það, mér finnst það full mikið í lagt.

Þjóðin kaus frá sér mannúðina í síðustu kosningum og ég vona svo innilega að sá leikur verði ekki endurtekinn í borginni.

Jón Gnarr er farinn, því miður, en það kemur oftast maður í manns stað.

Nú er að x-a við VG, Samfó eða aðra félagshyggjuflokka sem í boði eru.

Ef ég á að vera 100% heiðarleg þá óttast ég reyndar kjósendur á Íslandi meira en nokkurn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk.

Þeir sem verma sæti ríkisstjórnar komu sér þangað á svikum og prettum, en þeir sitja í umboði kjósenda, gleymum því ekki.

Það er auðvelt að ljúga sig til valda á Íslandi.  Loforð um peninga, leiðréttingar og allskonar ganga vel í landann.

Það er eitt að kjósa til Alþingis eða sveitastjórnar segir fólk.

Ég segi; Hví?

Við erum að kjósa um stefnuna að markinu, hvernig fólki á að líða í þessari borg.

Ég vil ekki að sú leið sé vörðuð mannfyrirlitningu og auðvirðilegum leik með ótta fólks við það sem er öðru vísi.

Fögnum fjölbreytileikanum.

Upp með fánann.

Kjósum mannúðina – ekki auðvaldið og gömlu klíkustjórnmálin.

Halelúja.

Hér má komast að því að það er hættuleg aðgerð að kúka í kjörklefann.

Góða helgi.

Flokkar: Kosningar 2014 · Mannréttindi · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 24.5.2014 - 15:35 - FB ummæli ()

Greyið Framsókn

Sveinbjörg

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir afhjúpaði sjálfa sig illilega þegar hún hóf umræðu um moskulóðina sem múslimar fengu úthlutað frá borginni og nú vill hún, ólíkt öllum hinum flokkunum, afturkalla lóðina og  láta borgarbúa kjósa um málið.

Inkeis þið vitið það ekki þá er Sveinbjörg oddviti Framsóknar- og flugvallarvina í kosningunum um næstu helgi.

Sveinbjörg, Sveinbjörg, Sveinbjörg,  þarna ætlaðir þú að ná þér í atkvæði frá íslensku fordómahyski en fékkst það nú heldur betur í andlitið.

Grey, ræfils Framsókn – hver þarf óvini?

Hallur Magnússon vill að Sveinbjörg víki af listanum strax og ég skil þá afstöðu hans vel, en það mun ekki vera hægt skv. kosningalögum.

Framsókn verður allt að meini þessa dagana og framboð þeirra í Reykjavík hefur verið eitt alsherjar klúður frá upphafi.

Andstæðingar Framsóknar í kosningabaráttunni geta í raun bara slakað á, hallað sér aftur í leisíboj, drukkið kók með lakkrísröri og horft á flokkinn sökkva sjálfum sér án allrar utanaðkomandi hjálpar.

Ég hef alltaf fundið til vorkunsemi með fólki haldnu útlendingaandúð, eins heimskulegt og það kann að hljóma.

Enda verða þeir stöðugt uppvísir af vankunnáttu og fáfræði.

Heimsmynd þeirra er þröng.

Svart/hvít og óumbreytanleg, sennilega vegna þess að maður þarf að kynna sér málin til að breyta afstöðu sinni og þeir eru ekki alveg týpurnar sem þú sérð  lesa sér til um eitthvað og alveg að kafna úr fróðleiksfýsn.

Nebb, aldeilis ekki, þá er myrkrið og forheimskan alveg málið.

Sveinbjörg Birna leggur áherslu á að hún tali af reynslu.

Hún hefur nefnilega búið í útlöndum og að áliti hennar er það ekki mjög algeng reynsla að hafa gert það.

Hoppaðu nú inn í raunveruleikann kona góð.

Ég þekki fáa ef nokkurn sem hefur EKKI búið í útlöndum um tíma, enda höfum við þurft að sækja allt til útlanda, nema þorrablótin og íslenska kúrinn offkors.

Ég held að við getum slakað á krakkar – Framsókn mun ekki slá í gegn í Reykjavík að þessu sinni.

Og það börnin mín á bjargbrúninni er huggun flestum hörmum gegn.

Hér má lesa um brennandi mjaðmir.  Hjálpið til við að slökkva.

Flokkar: Jafnréttismál · Kosningar 2014 · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 21.5.2014 - 10:20 - FB ummæli ()

Martröðin á Djúpavogi

djúpivogur

Myndbandið frá Djúpavogi er skelfilega sláandi.

Meira en það í raun, því ef fiskveiðistjórnunarbatteríið er svona valdamikið um líf fólks og getur með einu pennastriki ákveðið örlög tuga manna, þá held ég að kominn sé tími til að þessi þjóð rífi sig upp á lappirnar.

Fólkið á Djúpavogi getur verið hvert okkar sem er.

Bara spurning hvaða bær á landinu fær boð um að flytja eða missa atvinnuna.

Það er verið að gera fólki tilboð sem það getur ekki hafnað.

Hvernig tilfinning ætli það sé að hafa einn góðan veðurdag val um að missa vinnuna eða flytjast búferlum með fjölskylduna hinum megin á landið?

Er fólk andlitslaus massi í augum þessara andskota sem eiga fiskinn í sjónum?

Ég segi eiga hann af því þannig er það bara.

Ætla kraftaverkamennirnir í ríkisstjórninni að standa hljóðir hjá og tjilla eins og venjulega?

Við verðum að standa í lappirnir og sína fólkinu frá Dúpavogi að við stöndum að baki þeim.

Deilum nú myndbandinu.  Segjum stopp.

Endilega kíkið á mér hér, annars fer ég að gráta.

Flokkar: Mannréttindi · Viðskipti og fjármál · Vondukallablogg

Sunnudagur 18.5.2014 - 12:11 - FB ummæli ()

Ég er hrægammur!

hallgr

Ég er hrægammur, ég meðtek það, biðst afsökunar á því og mun vinna að bót og betrun á hraða ljóssins.

Ég heyrði það og sá (eins og þjóðin öll) þegar forsætisráðherra lofaði í fyrra að hundruðum milljarða yrði varið í aðgerðir fyrir „heimilin í landinu“ og að þá fjármuni ætlaði hann að sækja til útlenskra hrægamma.

Hann hefur sagt þetta oft síðan, margoft.

Nú tróð ríkisstjórnin þessu skuldaleiðréttingafrumvarpi í gegnum Alþingi og sjá og trúið: 80 milljarðar fara til sumra „heimila í landinu“.

Loksins! Veinaði SDG eins og yfirkominn unglingur á Bítlakonsert þegar hann kom þessu kraftaverki í gegn.

Um leið var hann að vanda nokkuð leiður yfir því að fáir virtust átta sig á að þetta væri hátíðarstund.

Æi, SDG alltaf að segja okkur hvernig við eigum að bregðast við þá sjaldan hann talar til okkar.

Hann sagði heldur ekki orð um það upphátt að hrægammarnir væru ekki útlendir subbusjóðir heldur íslenskir skattgreiðendur, ég get amk. ekki skilið það öðruvísi.

Ég er hrædd við þessa ríkisstjórn, hugsaði ég með sjálfri mér um leið og ég skellti mér á netið.

Og þá kom hið endanlega áfall gærdagsins.

Myndin hér að ofan hrækti framan í mig, já þannig leið mér bókstaflega.

Haldið þið ekki að þingflokkur Framsóknar hafi bara tekið diskómúvið á hinu háæruverðuga Alþingi af hamingju?

Sjáið okkur, við erum góð, við erum glöð og við erum farin í sumarfrí.

Hoppið upp í rassgatið á ykkur íslenskur almenningur sem heldur bara áfram að selja flöskur í lok mánaðar.

Án gamans og nokkurs fíflagangs þá kæmi mér ekki á óvart þó þessi mynd ætti eftir að bíta Framsókn í rassinn þegar fólk fer að opna augun.

Svo þætti mér heldur ekki ólíklegt að myndin sú arna verði með einhverjum hætti skráð á spjöld sögunnar.

Það skelfilega við þess mynd er þó að hún sýnir hóp af fólki í fílabeinsturni sem er algjörlega ómeðvitaður um líf venjulegs fólks í landinu.

Að lokum: SDG hvar er mófó reiknivélin sem átti að vera tilgengileg fyrir ó svo löngu síðan?

Þessi hrægammur er farin að sjá allt í móðu.

Farin.

Kíkið á mig hér.

Flokkar: Kosningar 2014 · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 15.5.2014 - 09:04 - FB ummæli ()

Svandís, Katrín, Óttarr og Birgitta

svandísInni á DV má finna skoðanakönnun um hver hafi flutt bestu ræðuna í Eldhúsinu í gærkvöldi.

Svona spurningar frústrera mig ferlega.

Hverju átti ég að svara, var þetta spurning um innihald og framsetningu?

Ég þurfti að hugsa mig verulega um áður en svaraði.

Innihald ræðunnar skiptir auðvitað öllu og þar með féll stjórnin nánast öll eins og hún lagði sig.

Ég vorkenni þeim þó að vissu leyti gefandi mér að þeir viti að það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi þeirra.

Ég gæti ekki staðið fyrir framan þjóðina og hrósað sjálfri mér og félögunum lengur en hálfa mínútu max öðruvísi en að vera farin að svitna, roðna og hníga í gólfið.

Sjálfshól er frekar leiðinlegt að hlusta á og þá einkum þegar fólk hlýtur að vita upp á sig skömmina.

Einkanlega ef ég hefði vott af samvisku og sjálfsgagnrýni til að bera.

Einívei……

Mín spontana upplifun af því sem var sagt og hvernig:

Fyrsta sæti: Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir , Óttarr Proppé og Birgitta Jónsdóttir.

Annað sæti: Þeir vita hverjir þeir eru.

Takk.

Í firringunni sem við lifum við með ríkisstjórn þar sem annar flokkurinn er í stöðugu rifrildi við þjóðina og hinn hefur látið sig hljóðlega hverfa, þá er verulega heilandi að láta minna sig á að enn er til fólk á Alþingi (þónokkrir reyndar) sem enn tala með hjartanu og maður greinir einbeittan baráttuvilja og löngun til að breyta hlutunum til betri vegar.

Því ég er orðin verulega hrædd um það sem er að gerast í stjórnmálunum undir stjórn Silfurskeiðabandalagsins og ég er ekki ein um það.

Örlög okkar undir stjórn þessara snákaolíusölumanna auðvalds og óbreytts ástands er ekki eitthvað sem við getum horft fram hjá mikið lengur.

Farin út á galeiðuna því hér skín sólin.

Endilega kíkið á mig hér.

Flokkar: Hrunið · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 6.5.2014 - 18:32 - FB ummæli ()

Óvinir Framsóknar – Listi!

Listinn ógurlegi

Þar sem kosningar eru enn einn ganginn yfirvofandi þá fer að hitna í kolunum.

Mínir helstu andstæðingar í pólitík eru þeir sömu og venjulega, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn.

Fyrir kosningar (einum af mörgum) minnir að þessar sem hér um ræðir hafi verið 2009 (þið brjótið þá á mér báðar hnéskeljar í boði hússins ef ártal reynist rangt) tóku hlutir á sig subbulegar myndir.

Ég held að ég hafi verið komin á eyjuna á þessum tíma og satt best að segja þá er ég smá hissa á að mér hafi ekki verið hent út af eyjunni með minn andframsóknarlega áróður.

Svona geta Framsóknarmenn verið góðir við andstæðinga sína.

Sum fraboð svifust einskis eftir því sem kjördagur nálgaðist.

Í aprílmánuði „LAK“ skjal út af skrifstofu Framsóknar… Úff ekki fallegt og enginn fékk konfekt í vinnunni daginn þann.

Skjalið sem lak var listi nokkur yfir andstæðinga Framsóknarflokksins í bloggheimum.

Þið vitið bloggdvergar eins og HHG kallar okkur.

Listann má sjá hér að ofan.

Mér verður alltaf jafn ómótt þegar ég kíki á þennan lista og darraðardansinn sem hann orsakaði þarna rétt fyrir kosningar.

Um leið varð ég dálítið upp með mér að vera talin þess virði að komast á blað og ekki skemmdi það sjálfumgleði minni yfir að fá spurningamerki fyrir aftan nafnið mitt því þeir gátu ekki staðsett mig í flokk.  Fokk hvað ég var hamó.

Svo spillti félagsskapurinn ekki fyrir því á listanum með mér var nefnilega fólk sem mér geðjaðist að – með húmor.  Lovlí.

Listinn flaug eins og eldur í sinu um bloggaheima og út fyrir þá og hafnaði meira að segja í raunheimum.

Ekki gott fyrir framsókn.  Þetta eru svona austantjaldsvinnuaðferðir.  En Framsókn hefur alltaf verið dálítið á eftir.

Nú væri gaman að fá að sjá nýja listann fyrir þessar kosningar.

En ég tel ekki að það muni gerast aftur, nema þeir séu eitthvað verulega slow í bændaflokknum.

Svo er spurning, fæ ég að blogga hér í höfuðstöðvum Framsóknar.

Enginn hefur böggað mig frá byrjun á þessu vefsvæði.

Kannski er BINGI frjálslyndari en sá sem lét gera listana.

En nú þarf ég að fara að brýna á mér veiðihárin.

Mjá og þegið þig svo.

Hér börnin min á galeiðunni GERAST hlutir.

 

Flokkar: Fjölmiðlar · Kosningar 2014 · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 4.5.2014 - 16:33 - FB ummæli ()

Ó Guðni……

gudni_agustsson

Ég hef í heimsku minni átt vandræðalegar stundir þar sem ég hef verið svag fyrir krúttlegheitum stjórnmálamanna gamla tímans (það er enn fullt af þeim á Alþingi, því miður).  Guðni Ágústsson hefur alveg átt sín móment, ég verð að játa það en nú eftir að hafa horft á Sunnudagsmorgunn á RÚV, skil ég ekki alveg hvað ég var að hugsa.

Þrátt fyrir frasann: „Þar sem tvær hríslur mætast þar er skógur“, nægir hann engan veginn upp í minn venjulega krúttstöðul svona berstrípaður og aleinn.

Eftir að hafa hugsað þetta dálítið, fann ég út að þessi hugsanavilla mín hafi beinlínis stafað af létti yfir því að Guðni væri hættur í stjórnmálum og á bak og burt í heim Herrakvölda- og árshátíðarávarpa.

Sjúkkit og good riddance.

Nú sat ég þarna yfir sjónvarpinu í morgun og horfði á Hallgrím Helga og Rakel reyna að koma orði að  á milli kúnstpása sem Guðni varð að taka til að næla sér í súrefni.

Fólk verður að koma upp til að anda.  Látið mig þekkja það.

Ég held að Guðni hafi talað undir í nánast hvert einasta skipti sem e-h annar hafði orðið fyrir utan allan tímann sem hann tók sér í einræður.

Og hvað var þessi gamli Alþingismaður og fulltrúi hafta og miðstýringar að segja svona merkilegt?

Júbb, hann var að hælast um.

Við fengum að vita hversu frábær borgarstjóri hann hefði orðið.

Hvað þessi og hinn mektarmaðurinn hafi sagt, skrifað og ort (ókei, ókei) um hann sjálfan.

Hversu vel hann hafi stjórnað sínum ráðuneytum með sannleikann að vopni (hér svegldist mér á).

Ég sá þarna roskinn mann fullan af sjálfhælni og monti og það sem verst var – hann kann ekki að hlusta.

Þessi hópur stjórnmálamanna viðurkennir aldrei mistök (Ég minni á Hönnu Birnu).

Þetta tvennt eru meinsemdir sem gegnsýra alla pólitík á Íslandi.

Þú hlustar ekki á rök andstæðinga og veður áfram í þeirri fullvissu að enginn geti haft neitt til málanna að leggja nema þú.

Þegar mistökin liggja svo þarna gargandi á þjóðina þá neita allir viðkomandi ábyrgð á þeim.

Svo er boðað á næsta sellufund, ráðum ráðið með skoðanabræðrum og hagsmunaaðilum.

Jamm.  Ég er þakklát Guðna fyrir að hafa minnt mig á.

Jafnvel þó ég væri með aulahroll upp í hársrætur yfir montinu í honum.

Guðni er fulltrúi gamla tímans, einn af mörgum.

Ég vil sjá á bak þeim – öllum sem einum…

Þá fyrst má fara að gera eitthvað af viti.

Farin – búin – bless.

Ég er HÉR líka.

Flokkar: Fjölmiðlar · Hrunið · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 30.4.2014 - 12:35 - FB ummæli ()

Spurning um líf

fólk deyr

Ég get ekki hætt að hugsa um unga manninn frá Afganistan sem verið hefur í hungurverkfalli, misst meðvitund og verið nær dauða en lífi.

Þessi piltur er tvítugur.  Hann hefur beðið eftir úrskurði og svari við umsókn sinni um dvalarleyfi í tvö ár.

Þá hefur hann verið átján ára þegar hann kom til landsins.

Í raun bara barn.

Hann á enga fjölskyldu, hefur ekkert bakland, er einn í heiminum.

Við sem þjóð getum ekki verið þekkt fyrir að koma svona fram við fólk.

Hanna Birna, segir að það verði að breyta lögunum og það er hárrétt hjá henni.

Hún segir að það taki tíma, sem er líka kórrétt.

En það er samt ekkert svar.

Hér er til umfjöllunar manneskja.

Svona svar er hin staðlaða hörfun stjórnmálamannsins frá málefninu sem er til umfjöllunar.

Hvað gerist þegar (ég segi „þegar“ ef ástandi þessara mála verður ekki kippt í liðinn NÚNA) einhverjum tekst að fyrirkoma sér vegna biðarinnar og óvissunnar?

Það hefur reyndar þegar gerst amk. einu sinni, er það ekki nægjanlegt víti til varnaðar?

Einhver týnir lífinu.

Við getum ekki sent þennan unga mann út í óvissuna.

Hann verður að fá að vera.

Allt annað er mannvonska og ekki okkur sæmandi.

Bara svo það sé á hreinu.

Fólk deyr ef það drekkur ekki.

Kíkið á mig hér.

 

Flokkar: Heilbriðismá · Mannréttindi

Fimmtudagur 24.4.2014 - 11:42 - FB ummæli ()

„Orðið“ nálgast!

börn

Fyrir nokkrum vikum fór „orðið“ að heyrast.

Fyrst eins og hvísl, en markvisst færist það nær og nær.

Verður æ háværara með hverjum deginum sem líður og nær síðan hámarki sínu daginn fyrir kjördag.

Síðan kjósum við og „orðið“ mun heyrast æ sjaldnar þar til kosið er næst.

Undantekningar á þessu eru hátíðis- og tyllidagar.

Jamm.

„Orðið“ er „börn“.

Réttindi og aðstæður barna eru frambjóðendum nú allt og allt.

Skelfilegar tölulegar staðreyndir um aðstæður fátækra barna sem eiga vart föt til skiptanna og lifa án allra lífsgæða eru nú fyrir kosningar öllum ágætum frambjóðendum mál málanna.

Ég efast ekki um að þetta væna fólk meinar vel – en ég trúi því ekki eina einustu stund (af fenginni reynslu) að réttindi barna og aðstæðum þeirra muni verða kippt í liðinn, entútre, því það er ekki að ástæðulausu að svo mörg fátæk börn eru á Íslandi í dag.

Það eru vondar ákvarðanir sömu stjórnmálamanna sem hafa leyft þessu að þróast.

Börn eru valdalaus – foreldrar þeirra hafa kosningarétt.

Leiðin að hjarta kjósenda er í gegnum börnin þeirra – auðvitað.

Ég læt ekki blekkjast.

Ég mun kjósa eða skila auðu en það verða ekki fyrirlitleg loforð um reddingar á aðstæðum barnanna okkar  sem munu fá mig til þess að exa við framboð.

Kannski er það aldurinn, kannski er hrunið og eftirmálar þess.

Kannski vil ég ekki lengur kjósa heilu flokkana þegar frambjóðandinn sem mér finnst trúverðugur er þar í arfavondum félagsskap.

Ég sá frétt í gærkvöldi um fátæk börn á Íslandi.

Mikil er skömm þessarar þjóðar.

En kæru frambjóðendur, hvernig væri að hafa fæturnar á jörðinni og smá kommon sens í farteskinu  nú þegar þið farið í „glímuna“ við atkvæðin.

Þið vitið eins vel og ég að hið íslenska velferðarkefi er að verða nánast minningin ein.

Fyrir þrjúhundruðogeitthvaðþúsund manna þjóð ætti það að vera tertubiti að hugsað sé vel um börnin okkar og þjóð með einhverja reisn hefði aldrei hleypt þessu svo langt sem raun ber vitni.

Eftir hrun virðist vera gert ráð fyrir x börnum fátækum, útigangsmönnum, lokuðum deildum, mannúðarskorti og úrræðaleysi.

Ég kýs engan út á það.

Heimsækið mig hér.

Flokkar: Heilbriðismá · Hrunið · Kosningar 2014 · Mannréttindi

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is