Mánudagur 5.7.2010 - 00:28 - 5 ummæli

Maðurinn atvinnulaus og geðvondur

Kæra Ísa

Ég hef aldrei skrifað áður í svona þátt, en finnst svörin þín mjög góð, svo ég ákvað að láta slag standa.

Ég hef miklar áhyggjur af manninum mínum. Við höfum verið gift í 5plús ár og eigum unga krakka.  Hann missti vinnuna fyrr á árinu, sem betur fer er ég enn vinnandi svo við erum ekki enn í stórkostlegum fjárhagsvandræðum, en það er samt orðið ansi hart í ári.

En það er ekki það versta.  Málið er að hann hefur verið afar þunglyndur síðan hann missti vinnuna og mér finnst það fara versnandi. Hann er skapvondur og tekur það út á mér og krökkunum og sýnir okkur lítinn sem engan áhuga.  Síðustu vikur hefur hann mest hangið fyrir framan sjónvarpið, drekkandi bjór að góna á þennan glórulausa fótbolta.  Já, talandi um bjór, drykkjan hefur aukist til muna.

Það þýðir ekkert að tala við hann, hann verður bara geðvondur og svarar mér með skætingi – ég reyndi fyrst að tala við hann um praktísk mál eins og vinnuleit og svoleiðis, nú er það ekki bara vandamálið heldur líka geðvonskan og leiðindin í honum.  Ég veit ekki hvað ég á til bragðs að taka.  Þigg öll ráð.

Frú Fríða

Kæra Frú Fríða

Sjálfsagt þekkja margir Íslendingar þá stöðu sem þú og þín fjölskylda eruð nú í.  Það er alltaf mikið áfall að missa vinnuna, en sumir sérfræðingar halda því fram að atvinnu/stöðumissir sé jafnvel enn erfiðari fyrir karlmenn, því sjálfsmat þeirra sé svo mjög tengt við starfsframa þeirra.  (Ég held reyndar að þessir síðastliðnu græðgisræðisáratugir hljóti að hafa verið sérlega ömurlegir fyrir karlmenn; til að vera gjaldgengir þurftu þeir allir helst að vera einhverjir bisnessbesefar sem skaffa vel).

Að sjálfsögðu er erfitt að horfa upp á maka sinn í þessari stöðu, en því miður er það takmarkað hvað þú getur gert.  Ef skapvonskan gagnvart fjölskyldunni kemst á alvarlegt stig er það vitanlega ástand sem ekki er líðandi.  Hið sama er að segja um þunglyndi; vitanlega er ekkert óeðlilegt að verða þunglyndur þegar maður missir vinnuna, en þegar þunglyndið kemst á ákveðið stig þarf að leita ráða læknis.

Ég veit ekki hvernig þú nálgast hann þegar þú ert að reyna að ná til hans, en það skiptir miklu máli að sýna þolinmæli og skilning, ekki „nöldra“ í honum – „ertu búinn að leita í auglýsingunum í dag?“ „ertu búinn að hringja í X, Y og Z og athuga með…?“

Láttu hann vita að þú elskar hann og metur hann mikils og að hann eigi stuðning þinn allan og virðingu – það er karlmönnum mjög mikilvægt að finna að við lítum upp til þeirra – ég veit að það getur verið erfitt að halda þeirri tilfinningu á lofti við ölsúpandi sófakartöflu, en… þetta er dæmi um svona „í blíðu og stríðu“ atvik, tímabundið en erfitt ástand sem fólk getur vel komist yfir.

Þetta verður síðasti Ísafoldarpistillinn hér á Eyjunni.  Þakka ykkur kæru lesendur fyrir frábærar viðtökur – 12,000 – 15,000 heimsóknir á mánuði eftir aðeins  sex eða átta mánaða tilvist án nokkurra auglýsinga og þrátt fyrir að Eyjan hafi tekið þáttinn af forsíðu vefsins (sem gerði hann eiginlega ósýnilegan).  Ég þakka sérstaklega öllum þeim sem sent hafa mér bréf, ég met trúnað ykkar mikils.

Ísa

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.6.2010 - 01:04 - 4 ummæli

Annar klámfíkill

Sæl Ísa

Ég á við svipað vandamál að stríða og konan sem skrifaði um daginn vegna mannsins síns sem þú sagðir að ætti við klámfíkn að stríða.  Kærastinn minn, sem ég hef verið með í nokkur ár og búið með í helminginn af þessum nokkrum, er um margt mjög svipaður og þessi maður.  Ég ætlaði varla að trúa mínum eigin augum þegar ég las þetta, mér fannst þetta vera eins og mín eigin saga, en ég hef aldrei þorað að tala um þetta við nokkurn einasta mann.  Bæði vegna þess að mér finnst þetta einhvern veginn skömmustulegt en svo líka segir hann þegar ég kvarta yfir þessu að ég sé bara neikvæð og leiðinleg og „allir“ geri eitthvað svona í sínu kynlífi.

Á ég að benda honum á að lesa þetta? (Ég er mest hrædd um að ef ég geri það þá haldi hann að ég hafi skrifað þetta um hann og þá yrði hann brjálaður!) Hvernig er best að byrja að ræða þetta án þess að hann verði reiður?

Nervósa

Kæra Nervósa

Bíddu… flutti hann inn til þín eða þú inn til hans? (Bara til að ákvarða hvort þú eigir að sparka honum út eða pakka pent niður og láta þig síðan hverfa hljóð- og sporlaust… ).

Þú ert hrædd um að maðurinn verði „brjálaður“ ef hann fær þá flugu í hausinn að þú gætir mögulega verið að leita þér aðstoðar vegna pervertasjóna sem hann tekur úr á þér?  Og ert að velta fyrir þér hvernig þú eigir að ræða kynlíf ykkar án þess að hann verði „reiður“?  Vá, þvílíkur riddari. (Ég vona að þú sért ekki búin að fjölga mannkyninu með þessu kyntrölli…).

OK.  Ég bendi þér bara á að lesa svarið sem ég sendi konunni með klámfíkilinn varðandi kynlífsvandann.  En þitt vandamál snýst um meira en kynlíf og klám.  Þú býrð við, hvað á ég að segja… víðtækara andlegt ofbeldi.  Það að geta ekki rætt málin við maka sinn án þess að eiga það yfir höfði sér að hann verði „brjálaður“ eða „reiður“ er gjörsamlega óásættanlegt.

Þú þarft að koma þér hið fyrsta í einhvers konar ráðgjöf þar sem þú a. færð skilning á hvers vegna þú hefur í nokkur ár sætt þig við svona yfirgang, b. hvernig þú getur komið þér út úr þessu ástandi sem þú nú býrð við og svo c. hvaða ráðstafanir þú þarft að gera til að forðast að lenda í sama ruglinu í framtíðinni.  Drífðu í þessu strax.

Ísa

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.6.2010 - 02:45 - 4 ummæli

Alltaf í megrun! En léttist aldrei…

Sæl Ísa

Mig langar fyrst að þakka þér fyrir viðtalið í Fréttablaðinu og hreinskilni þína varðandi áfengisvandamál þitt.  Það hlýtur að þurfa mikinn kjark að viðurkenna slíkt.  En það er eitt sem ég sá í viðtalinu við þig sem fékk mig til að skrifa þér en þú segir að þú sért Fíkill með stóru effi og ég las líka einu sinni viðtal við þig í Nýju lífi þar sem þú talaðir um átröskunarvandamál þitt.

Málið er að ég á við stórkostlegt vandamál að stríða í sambandi við mat.  Ég er ALLTAF í megrunum og er alltaf að hugsa um mat.  Ég er ekki neitt ofboðslega feit, en ég er aðeins of þung, ég veit það alveg.  Þetta hefur gjörsamlega ráðið lífi mínu frá því ég var táningur eða undanfarna tvo áratugi.  Mér hefur stundum tekist að grennast niður í þá þyngd sem ég vil vera í, en yfirleitt er það með því að svelta mig eða fara í verulega stranga kúra.  Ég er alltaf á einhvers konar „kúrum“ og ég er búin að prófa allt milli himins og jarðar, detox, herbalife, sítrónukúrinn – sama hvað er.  Ég hef grennst, eins og ég segi, en þyngist alltaf aftur.

Þetta er algjörlega á sálinni á mér og ég skammast mín fyrir það því ég á yndislega fjölskyldu og ætti að vera að nota tímann og orkuna í að hugsa um hana, ekki um það hvað mig langar að vera mjó.

Hvað er að mér?  Er ég með átröskunarvandamál eða eitthvað annað?  Ég er búin að fara til sálfræðings, en hún bara sagði mér að „hætta að hugsa svona mikið um mat.“  Glætan.

Ég vona að þú getir veitt mér einhver svör.

Kær kveðja, Þybba

Kæra Þybba

Þakka þér fyrir hlý orð. Ég var reyndar ekki alveg jafnánægð með þetta viðtal; ég taldi mig vera að fara í viðtal við Fréttabréf SÁÁ (hélt mig vera að tala við „mitt fólk“) – í e.t.v. nokkurra þúsunda eintaka upplagi, blað sem sennilega myndi enda á biðstofu á einhvers staðar á Landspítalanum – ekki við Fréttablaðið sem dreift er inn á hvert einasta heimili í landinu! (sjá 11. erfðavenju AA: Afstaða okkar út á við byggist fyrst og fremst á aðlöðun en ekki áróðri. Í fjölmiðlum ættum við ætíð að gæta nafnleyndar).  En  hvað um það…

Ég get ekki tekið afstöðu til þess hér hvort þú átt við átröskun að stríða í læknisfræðilegum skilningi, en afstaða þín til sjálfsímyndar þinnar hvað varðar líkamsþyngd, og einnig til matar er greinilega að valda þér gífurlegu hugarangri og hugsanlegu líkams- og sálartjóni.

Ég get aðeins talað út frá eigin reynslu og svo þeirri þekkingu sem ég hef öðlast í gegnum mitt nám og starf  í austurlenskri læknisfræði, sem reyndar hjálpaði mér mikið til að vinna bug á mínu átröskunarvandamáli: Fyrsta skrefið er að hætta fjandans (afsakið) megrunarkúrunum og „átökunum“ (djísus, síðan ég kom hingað heim í síðustu viku, hef ég varla hitt hræðu sem ekki  er í einhvers konar „átaki“).  Sem tól til varanlegrar þyngdarstjórnunar eru megrunarkúrar eru gjörsamlega gagnslausir og dæmdir til að mistakast, það er margsannað mál.  Detox, mitt álit á því má lesa hér og hér.  Og herbalife, hér.

Að halda sér í kjörþyngd er ekki eitthvað lotuverkefni, heldur er það lífstíðarverkefni.  Þannig að það er mikilvægt að setja sér mataræði sem maður treystir sér til að halda – fyrir lífstíð.  Maður léttist ekki vegna þess að maður hættir alveg að borða eitthvað ákveðið – fitu eða kolvetni eða fer að gleypa tugþúsund króna virði af pillum og sykurdufti.  Maður léttist á því að setja saman skynsamlegt og raunhæft mataræði. Með skynsamlegt á ég við allar þessar matartegundir sem við vitum að eru hollar og góðar fyrir okkur, grænmeti, gróf grjón og baunir, ávextir, fiskur, magurt kjöt, og með raunhæft á ég við að við kveðjum ekki að eilífu nammigott eins og súkkulaði og ís og rjómatertur.  (Mikilvægasta líffærið sem hefur með þyngdartap að gera er ekki maginn, heldur heilinn og heilinn er yfirleitt ekki hress með að heyra að hann megi alls ekki fá súkkulaði og sykur!).  Síðan höldum við skammtastærð í hófi og hreyfum okkur að sjálfsögðu líka.

Auðvitað léttist maður ekki eins hratt og maður gerir á 10 daga 500 kaloríu djúskúr, en líkurnar á að þyngdin sem tapast við svona breytingu sé varanleg eru miklu meiri – enda er þyngdartap á snarkúrum yfirleitt að mestu vökvatap.

Síðan er hjálplegt að halda sig frá Hollywood-style tísku- og glamúrtímaritum þar sem hver einasta síða er helguð umfjöllunum skreyttum Photosjoppuðum glansmyndum um hinn guðdómlega og fróma lífsstíl fyrirsætna og leikkvenna (með lystarstol og lotugræðgi og ótakmarkaðan aðgang að lyfjum og lýtalæknum).  Nóg annað að lesa.  (Ég var t.d. að kaupa skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis í dag, öll níu bindin– já, ég veit hún er á netinu, en það er svo óþægilegt að liggja með tölvuna á koddanum uppi í rúmi á kvöldi – það  er nú aldeilis lesefni sem ætti að geta rænt þig matarlystinni.)

Ég veit þetta er erfitt og það að segja eiginlega bara „borðaðu  hollan og góðan mat og hreyfðu þig“ er sennilega ekki svarið sem þú vilt fá.  En staðreyndin er samt sem áður sú að þyngdartap er tiltölulega einfalt líkamlegt reikningsdæmi: að minnka inntöku hitaeininga og auka starfsemi (hreyfingu) sem krefst notkunar þeirra.  Málið er bara að gera það á réttan hátt.

Ísa

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.5.2010 - 05:40 - 2 ummæli

Gestgjafi á nærbuxum

Kæra Ísa

Mig vantar sárlega ráðleggingar sem ég vona að þú getir hjálpað mér með.

woman isafold 16.5.2010 00-05-55Ég kann svo illa að halda matarboð.  Ég stressast upp og fæ kvíðakast um að allt verði ömurlegt.  Eftir því sem nær dregur verð ég enn kvíðafyllri og líður verr.  Þegar gestir koma svo loks er voffi með læti og ég á nærbuxunum að reyna að mixa hlutina.  Get þá illa tekið þátt í hamingjusömu skvaldrinu sem beint er til mín.  Tekur mig svo klukkustund eða allt kvöldið að ná mér.

Kannski er lausnin að halda aðeins boð um helgar þegar nægur tími er til undirbúnings, eða að vera kærulausari?  Fá sér í glas yfir eldamennskunni? Mig langar voða mikið að vera góð í þessu og halda sem flest matarboð, en eins og er held ég að það valdi mér meiri streitu en gleði.

Gestgjafinn á nærbuxunum

Kæri Nærbuxnagestgjafi

Þitt vandamál, gestgjafafælni, er vel þekkt fyrirbæri og nauðsynlegt er að við tökum á vandanum áður en hann  þróast upp í efsta stigs alls herjar samkvæmisröskun með veislukvíða.

Lykillinn að vel heppnuðum boðum er: Skipulag, skipulag, skipulag.  Og svo auðvitað skemmtilegir gestir!

#1 Ég um mig frá mér... Sama hvers konar boð þú ert með, hugsaðu alltaf um sjálfa þig fyrst, því gestunum líður yfirleitt aldrei betur en gestgjafanum.  Ef þú ert stressuð (og á nærbuxunum) mun stressið yfirfærast á gestina, jafn örugglega og þú hefðir stráð stressdufti yfir reykta laxinn í forréttinn.  Þegar ég segi hugsaðu um sjálfa þig fyrst á ég við: vertu vel upplögð, vel hvíld, og vertu tilbúin, búin að mála þig, klæða þig (og í hreinum nærbuxum) o.s.frv. áður en þú ferð að vesenast í eldhúsinu við að hafa allt tilbúið.  Vegna þess að áður en þú veist af er klukkan orðin 18:55 og þú ert – á nærbuxunum – í eldhúsinu að slást við hundinn um lambalærið sem datt á gólfið þegar þú reyndir að snúa því við án þess að nota ofnhanskana…

#2 Hvers konar boð er um að ræða?: „Komið í kokkteila frá 5-7“ „Komið í kvöldmat kl. 7:30 í tilefni af…..“  „Komið í hádegisverð frá 12-2…“ Kokkteilboð eru yfirleitt í ákveðinn tíma; kvöldverður er yfirleitt opinn í annan endann.  (ANNAN endann,  gestir ef – boðið byrjar 7, þá byrjar það 7, ekki hálfátta eða 8.  Eða hálfníu!  Það er ógeðslega dónalegt að mæta of seint í samkvæmi, sérstaklega matarboð – og Íslendingar almennt eru óþolandi óstundvísir!  Ef fólk kemur oftar en einu sinni of seint (án góðrar afsökunar) í matarboð til mín, þá hreinlega nenni ég ekki að bjóða því aftur.  Skilaboðin frá slíkum gestum eru, „minn tími er dýrmætari en þinn og ég ber enga virðingu, hvorki fyrir þínum tíma né gesta þinna, né þinni vinnu og fyrirhöfn“).  Einnig hvort boðið sé formlegt eða ekki, svo gestirnir viti hvort þeir eigi að klæða sig upp eða mæta í gallabuxum og bol.

#3 Matseðilinn.  Ekki elda eitthvað sem er þér ofviða og ekki bjóða upp á mat sem þú hefur aldrei eldað áður.  Er flott að bjóða upp á andabringur eða nautalundamedallíur í aðalrétt?  Án efa, en það er dálítið stressandi að standa í eldhúsinu og passa upp á að þær séu hvorki hráar né helsteiktar.  Maður þarf ekki alltaf að bjóða upp á hefðbundinn þriggja eða fjögurra rétta maðseðil með ótal meðlætisréttum.  Fiskisúpa með góðu brauði og grænu salati t.d. er frábær matur – þú getur mallað súpugrunninn allt að 2 dögum áður og skellt svo fiskinum í rétt áður en gestirnir koma (mín uppskrift, a.m.k.!).  Eða láttu gestina elda með þér!  Búðu til pítsudeig og hafðu fullt af mismunandi fyllingum tilbúnar og gestirnir geta búið til sínar eigin pítsur.  Eða pítubrauð og allir búa til sínar eigin samlokur (góður kostur í óformlegum boðum).  Reyndu að gera eins mikið fyrirfram og þú mögulega getur – og þú þarft ekki að elda allt sjálf:  Stundum á við að biðja gestina um að koma með rétt með sér; t.d. salat, eftirrétt, meðlæti o.s.frv.  Ekki hika við að kaupa tilbúið:  Keyptu franska súkkulaðiköku í bakaríinu ef þú hefur ekki tíma til að baka hana sjálf.  Uppáhaldsmatreiðsluséníið mitt, Ina Garten (Barefoot Contessa) mælir með auðveldum „samansetningum“ í matseðlinum, t.d. í eftirrétti, úr kökum sem maður getur keypt eða bakað fyrirfram:  „brownie“ súkkulaðiköku með vanilluís og heitri súkkulaðisósu; jólakökusneið með sítrónurjóma (lemon curd úr krukku blandað saman við þeyttan rjóma) og ferskum berjum; ferskar fíkjur með gráðostur, valhnetum og hunangi…

#4 Gestalistinn. Til að halda skemmtileg boð verður maður að spá aðeins í gestalistann.  Ég forðast t.d. að bjóða í sama boðið fólki sem ég veit að mun rífast um pólitík allt kvöldið.  Ég reyni alltaf að bjóða a.m.k. einum einstakling sem ég veit að er skemmtileg skrafskjóða og getur haft ofan af fyrir gestunum þegar ég þarf að hlaupa frá í matarstúss.  Það er fátt dapurlegra en boð þar sem enginn segir orð (a.m.k. ekki fyrr en nægilegt áfengi er komið ofan í gestina og þá getur verið ómögulegt að fá þá til að þegja!)!  Sumir eru svo heppnir að hafa slíkar manneskjur í fjölskyldunni – ég gleymi aldrei einu stórafmæli í minni fjölskyldu fyrir mörgum árum.  Fullt af bílum var fyrir utan húsið, svo margir gestir voru greinilega komnir, en eitthvað voru þeir fámæltir þegar minn fyrrverandi eiginmaður, Gunnlaugur Helgason (sem sjaldan er orða vant), mætti á staðinn.  Hann stormaði inn og stakk hausnum inn í dyragættina í stofunni, leit í forundran yfir hópinn og sagði svo skellihlæjandi: „Hva, er jarðarför hérna?“  Það var nóg til að brjóta ísinn.

Vertu SVAKA SVÖL! Gestirnir vilja ekki koma inn og fá á tilfinninguna að þú hafir verið að þræla baki brotnu í viku við undirbúning.  Ekki láta gestina finna að þú sért stressuð – og ef þú skipuleggur hlutina þarftu heldur ekki að vera það.  Þú ert mikilvægasta manneskjan í öllum boðum sem þú heldur.  Þú býður gestina þína velkomna:  „En hvað það er GAMAN að sjá þig!“ Tilgangurinn með heimboðinu er að þið getið átt góða stund saman, ekki svo þú getir verið í prívat forleik að taugaáfalli í eldhúsinu.

Æfðu þig.  Ekki bjóða of mörgum í einu til að byrja með; bjóddu fólki sem þú þekkir vel og þarft ekki að hafa áhyggjur af að muni rjúka út í fýlu þó þú brennir steikina eða berir fram fallið soufflé.

Með að fá sér í glas…  Ég mæli ekki með „einn sjúss í sósuna, einn í kokkinn…“ aðferðinni.  Það er allt í lagi, að sjálfsögðu, að fá sér vínglas, en ekki vera að skvetta í þig til að meðhöndla stress.  Þá gætirðu lent í því að þurfa að hringja í gestina daginn eftir til að spyrja þá hvernig hafi verið í matarboðinu hjá þér…

Ísa

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.5.2010 - 19:11 - 17 ummæli

Eiginmaður klámfíkill

Sæl Ástkæra Ísafold

og takk fyrir skýr og greinargóð svör. Ég er 29 ára kona og hef verið i sambandi með manni mínum, sem er 36 ára, nú í sjö ár og gift í þrjú ár. Við eigum tvö yndisleg börn sem eru 4 og 3 ára. Til að gera langa sögu stutta þá gengur allt ótrúlega vel hjá okkur (fyrir utan það sem á eftir kemur). Hann er æðislegur á allan hátt. Við erum enn ótrúlega ástfangin. Hann er rómantískur og gæti ég ekki hugsað mér betri mann fyrir mig og börnin okkar. Mikill fjölskyldumaður og lætur fjölskylduna alltaf hafa forgang. Hann er mjög vel menntaður og í mjög góðri og vel launaðri stöðu og ótrúlega myndarlegur (reyndar ég líka :-)). Mér finnst við sem sagt eiga yndislegt líf fyrir utan eitt sem mér finnst skemma þó nokkuð mikið fyrir. Ég var nánast úrkula vonar um að fá hjálp við þessu þar til ég sá svörin þín hér. Hef ekki þorað að nefna þetta við nokkurn mann.

Þegar kemur að kynlífinu vill hann alltaf taka það upp. Við erum ekki að tala um einstaka sinnum heldur í hvert einasta skipti, u.þ.b. 1-2svar í viku. Þótt það hljómi ótrúlega þá erum við að tala stundum um 2-3 myndavélar og það þarf einnig að vera ,,dónamynd“ í gangi líka; eitt herbergið okkar er nánast eins og kvikmyndaver (búum í stóru flottu einbýlishúsi).

Mér finnst kynlífið okkar ,,per se“ gott, en mér finnst þetta orðið nokkuð óþægilegt. Þetta byrjaði fyrst sem mjög saklaust grín þegar við vorum að fíflast í tilhugalífinu fyrst, en mjög fljótlega leiddi af sér eitt af öðru hjá honum. Mér fannst þetta ganga lengra og lengra og nú vera orðið svolítið pínlegt, en tel ég mig þó mjög opna fyrir nýjungum. En þetta er kannski einum of.

Hann vill líka að við horfum á okkur, þ.e.a.s. upptökurnar af okkur eða ,,dónamynd“ á meðan við erum að. Hann veitir sjónvarpsskjánum mun meiri athygli en mér þegar við erum að. Mér finnst ég sem sagt vera nokkurs konar hlutur þegar kemur að þessum málum. Biður hann mig oft um að klæða mig upp í ýmsa búninga, t.d þernu eða hjúkkubúning og segja eitthvað stórfurðulegt eða til dæmis gelta (sem er reyndar í gríni). Finnst næstum eins og verið sé að taka upp klámmynd í klámmyndastúdíói.

Nú hef ég spurt hann að þessu mjög oft og yfirleitt reynir hann að fara framhjá umræðuefninu, en hann hefur sagt mér að hann bara nái alls engri kynferðislegri örvun nema á þennan hátt. Hann sé bara ,,vanur“ þessu. Hann svarar mér þó hreinskilningslega. Hann hefur gríðarlega mikið sjálfstraust og nýtur mikillar virðingar og vill ekki heyra minnst á utanaðkomandi hjálp. Þegar ég segi að mér þyki þetta nokkuð pínlegt þá er fátt um svör, en hann segist skilja mig. Þegar við erum t.d.  erlendis tvö ein þá þarf hann að horfa á videouppöku í símanum á meðan. Höfum prófað án þessa, en þá bara ,,gerist ekkert hjá honum,“ sama hvað sem við höfum reynt og höfum við prófað ýmislegt, s.s undirföt, stripp, forleiki og hvað eina.

Hann viðurkenndi einnig með semingi að hann hafi einnig gert þetta með fyrri kærustum. Það sem einnig er að plaga mig er að hann á orðið heilt safn af okkur sem hann geymir í læstum skáp. Ég treysti honum alveg 110 %, en maður er alltaf hræddur við svona safn af sjálfri sér í djörfum dansi.

Finnst sem sagt maðurinn minn hafa tvo persónuleika, frábæra fjölskylduföðurinn og svo manninn í svefnherberginu. Mér dettur ekki til hugar að fara frá honum, frekar held ég þessu áfram, en spurningin er dettur þér eitthvað í hug sem ég get gert til venja hann af þessu eða allavega minnka þetta – kannski erfitt?

Mér þætti mjög vænt um að þú birtir þetta bréf því ég hef heyrt að það séu mun fleiri stúlkur/konur í vanda vegna þessa en þora ekki að tjá sig.

Kveðja, Konan á skjánum

Kæra Skjákona:

Lærðu að þekkja fölsuðu  myntina
sem keypt getur þér stundargleði,
en dregur þig síðan svo dögum skiptir
eins og niðurbrotinn mann
fyrir aftan prumpandi úlfalda

Hafiz, 14. aldar Sufi ljóðskáld

Þú átt alla mína samúð. Kynlíf er ein mikilvægasta ástartjáningarleið manneskjunnar og það er afar sorglegt og einmanalegt að glata þessari dýrmætu samskiptaleið, ég tala nú ekki um fyrir jafn ungt fólk og ykkur. Því miður er þín saga–eins og þú virðist vita–ekkert einsdæmi. Fjöldi fólks hefur glatað eiginleikanum til að lifa eðlilegu kynlífi af nákvæmlega sömu ástæðu og þeirri sem ég held að eigi við manninn þinn: klámfíkn.

Ég tek það fram að ég er ekki kynlífssérfræðingur og ætla ekki að leggja hlutlægt mat á klám hér, hvort það eigi rétt á sér eða ekki. Það er hins vegar alveg ljóst að langt er síðan klám var framleitt í þeim tilgangi að krydda upp á kynlíf fólks;  klám hefur breyst úr því að vera erótískt krydd á kynlífssteikina í það að vera nú orðið steikin sjálf. Eins og kynlífsráðgjafarnir Larry og Wendy Maltz segja í bók sinni The Porn Trap (2008 – sem ég ráðlegg þér að fjárfesta í, ef þú lest ensku–ljóðið hér á undan er úr formálanum að þeirri bók og lýsir umfjöllunarefninu ágætlega): „Nútímaklám rænir notendur eiginleikanum til að upplifa ástríðu, unað og líkamlega og andlega nálægð með raunverulegum elskhuga. Klámið keppir við elskhugann/makann um kynferðislega þrá og útrás…Regluleg notkun kláms krefst sífellt hærri sjokkfaktors til að ná sömu áhrifum með þeim afleiðingum að notandinn glatar  eiginleikanum til að stunda eðlilegt kynlíf.“

Maðurinn þinn á líka alla mína samúð; hann er fastur í einhvers konar hedonísku helvíti; hann þráir kynferðislega örvun og útrás en getur ekki öðlast hana þrátt fyrir aðstoð (og e.t.v. vegna!) allra þessara „hjálpartækja.“ En hann virðist ekki gera sér grein fyrir að hann þarf að leita sér aðstoðar og það að viðurkenna og vilja leita sér hjálpar, er–eins og með öll önnur fíknivandamál–fyrsta skrefið í átt til úrbóta.

Þessi læsti skápur hans er eiginlega tákn fyrir hann sjálfan–vandlega læstur; þú heldur að þú vitir hvað innihaldið er, en sennilega órar þig ekki fyrir því. Og hann mun ekki hleypa þér inn með góðu. Ég tel ekki ólíklegt að maðurinn þinn sé miklu meira involveraður í klámi en þig grunar. Ef hann á erfitt með að ná örvun þessi  eitt til tvö skipti í viku sem þið eruð saman þá er það sennilega vegna þess að hann er að nota kynferðisorku sína annars staðar: í klámi og sjálfsfróun.

Það er skiljanlegt að þú sért ekki reiðubúin að yfirgefa hjónabandið; þið eigið börn saman, hann er góður faðir, góður eiginmaður að öðru leyti og uppspretta eftirsóknarverðra veraldlegra gæða sem þú vilt ekki vera án. Svo þú ert reiðubúin að vera þrátt fyrir þetta. En þú þarft að gera þér grein fyrir því að það fylgir því ákveðinn sálrænn kostnaður–alveg sérstaklega á þessu sviði–að gera hluti sem stríða gegn manns eigin samvisku og vellíðan. Og ég segi bara við þig það sama og ég segi við alla þá sem ákveða að lifa með fíklum: Þú þarft að gera þér grein fyrir hvernig þú ætlar að komast í gegnum lífið heil á geðsmunum með þessum einstaklingi. Þú verður líka að taka með í myndina að þó ástandið sé þolanlegt núna, þá er ekki víst að það verði það alltaf. Þú ert e.t.v. ung og sexí núna; þú ert einnig ennþá til í að leika geltandi hjúkrunarfræðing fyrir hann, en þér finnst þetta greinilega niðurlægjandi. Sérðu sjálfa þig gera þetta fyrir hann eftir 15, 20 ár?

Þú ert alveg með staðreyndir málsins á hreinu; þú ert bara hlutur í kynlífi ykkar, þú gætir þess vegna verið uppblásin dúkka. Treystirðu þér til að vera í ævilöngu hjónabandi þar sem kynlífið gengur út á að maðurinn þinn elskast aldrei með þér, heldur í raun fróar sér á þér–og það brösuglega? Þetta eru hlutir sem þú þarft að vega og meta og ég ráðlegg þér að gera það með sérfræðingi á þessu sviði. Það skiptir ekki máli þó maðurinn þinn vilji ekki fara í ráðgjöf, enda breytirðu honum ekki. Gerðu þetta fyrir sjálfa þig.  PS: (Með upptökurnar: Þú verður að fá það efni sem hann á af þér og eyðileggja það sjálf. Hefurðu séð kvikmyndina The National Lampoon‘s European Vacation? Þú gætir verið fræg pornstjarna í Póllandi án þess að hafa hugmynd um það!)

Drífðu þig í ráðgjöf, því fyrr því betra. Gangi þér vel. (Ég þýddi nokkur atriði úr ofangreindri bók, farðu hingað til að lesa þau.  Þú munt sjá að maðurinn þinn virðist vera kennslubókardæmi um klámfíkil og án efa sérðu þig sjálfa í lýsingunum á mökum fíklanna.)

Ísa

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.4.2010 - 18:02 - 11 ummæli

Velja kærastann eða nám?

Kæra Ísa

Ég vonast til að fá svar frá þér þó mér finnist frekar lásí að senda svona á netinu, þar sem ég hef ekki enn talað um þetta við neinn. En mig langar að senda þetta á þig þar sem þú hefur gefið alveg frábær svör til annarra.

Allavega, þannig er mál með vexti að ég er búin að vera í sambandi í rúmlega ár. Við erum bæði á þrítugsaldri, í námi. Kærastinn minn á ungt barn sem hann vill verja miklum tíma með og er það mikið  pabbabarn, enda er kærastinn minn góður pabbi.  Barnið er oft hjá okkur þegar við eigum okkar frítíma frá náminu. Við eigum og höfum því lítinn tíma fyrir okkur sjálf; stundum finnst mér ég eigingjörn að hugsa til þess að mér finnist við of oft með barnið, en þetta er barnið hans og  er yndislegt.

Ég er hrifin kærastanum mínum þótt sambandið gangi upp og ofan. Það er þó tvennt að bögga mig við sambandið. Annað er það að hann myndi aldrei fara erlendis í framhaldsnám vegna barnsins, sem á heima hér á Íslandi. Mig langar erlendis í framhaldsnám, mig langar að prófa aðra hluti en BARA ÍSLAND, mig langar ekki að vakna upp við það einn daginn að ég hef ekki prófað eða upplifað neitt annað en þessa blessuðu eyju. Mér finnst ég þurfa að prófa annað áður en ég fer að búa til börn, en augljóslega fer hann ekki héðan næstu fimm árin því hann vill ekki missa af uppvexti barnsins síns og ég hef rætt þetta við hann. Lausn, velja-hafna? (Verða konur áhorfendur af lífi feðga og skilja sína drauma eftir?)

Annað sem er enn meira að angra mig, er það að hann á við svakalegan skapofsa að stríða og ég hreinlega þoli ekki þennan yfirgang. Eins og svo margir aðrir þá er ég meðvirk. Hann öskrar og ber í borðið þegar hann er í fótboltaleik í tölvunni t.d.! Hann hefur barið hausnum á sér í borðið/vegg þegar eitthvað gengur ekki upp hjá sér (sjaldan, en það hefur gerst-halló) það angrar mig svo sem ekkert, hann má alveg nota orkuna sína í þetta! Sem er hreinlega óskiljanlegt og fáranlegt af fullorðnum manni að vera!?! Hann var t.d með barnið inn í herbergi um daginn og það fór að gráta því hann hækkaði svo röddina við mig.

Ég er komin með passíva hegðun á þetta. Hann æsir sig af minnstu hlutum. Þegar hann fer í glas margfaldast þetta. Einu sinni þegar hann var í glasi snéri hann upp á hendina á mér og henti mér og hristi mig til vegna þess að hann var of fullur (hef aldrei séð annan eins skapofsa og þetta kom mér í opna skjöldu). Hann hefur tvisvar sofið í sófanum eftir þetta og vaknað daginn eftir og ekki munað hvað gerðist þar sem hann var með kjaft við mig og kallaði mig öllum illum nöfnum.

Þó hann snerti mig ekki í þau skipti er þetta samt eitthvað sem ég er ekki að fíla.

Hann á augljóslega við áfengisvandamál að stríða sem er manni ekki bjóðandi. Þetta er klárlegt ofbeldi að snúa upp á hendina og andlegt ofbeldi að kalla öllum illum nöfnum, það veit ég. Spurningin er, hvenær gerir hann þetta aftur? Eða gerir hann það kannski ekki? Á ég að banna manninum að drekka? Á ég að biðja hann um að fara til sálfræðings? Reiðistjórnunarnámskeið? Við eigum ekki peninga fyrir neinni svona persónulegri ráðgjöf handa honum því þegar maður er námsmaður þá er ekkert til í buddunni. Ég kæri mig langt í frá um að fara í eitthvað hlutverk herforingja og fylgjast alltaf með því hvað hann drekkur, ég hef sagt honum að þetta samband gangi ekki upp ef hann getur ekki hætt þessari drykkju og hann er búin að viðurkenna að hann eigi við vandamál að stríða.

Ég hef rætt þetta við hann og sagt honum að ég líð ekki svona framkomu og að sambandið sé búið ef þetta gerist aftur. Hann meðtók það, en er þetta eitthvað sem fólk ræður við? Það er hálft ár síðan þetta gerðist og hefur ekki gerst aftur. (En auðvitað bíður maður eftir næsta). En hann er samt alltaf svaka tæpur á tauginni.

Er til lausn fyrir mig/okkur/hann? Ég hef ekki sagt neinum frá þessu, sem hlýtur að segja mér eitthvað. Jú einni trúnaðarvinkonu minni sem átti mann sem var alkóhólisti, hún sagði að þetta gæti verið „námsumhverfið“ þessi drykkja – að fara yfir strikið. Einmitt, á bágt með að trúa því. Ekki segja mér að skoða kvennaathvarfið eða hringja þangað, ég hef skoðað það allt saman. Með von um svar, bæði varðandi námið og álit þitt á þessum skapofsa.

Kveðja, Ungfrú S

Kæra Ungfrú S

Þú spurðir um mitt álit og hér er það óþvegið: Hlauptu, eins hratt og þú getur – suður í Keflavík og út í nám. Sko, Ungfrú S: Hvað ert þú að fá jákvætt út úr þessu sambandi? Er þetta sálufélagi þinn, maðurinn sem þú vilt verja lífinu með? Ert þú mikilvægasta manneskjan í hans lífi? Ert þú reiðubúin að fórna framtíðardraumum þínum fyrir þennan mann? Hvaða fórnir er hann tilbúinn að færa fyrir þig? Geturðu svarað þessum spurningum og verið ánægð með svörin?

OK, OK… Þetta eru í raun tvö aðskilin mál og þú getur aðeins haft stjórn á öðru þeirra.

Kærastinn þinn á, eins og hann hefur sjálfur viðurkennt, við áfengisvandamál að stríða. Þú getur beðið, grátið, óskað, hrópað og hótað honum þar til þú ert blá í framan, en það mun engu breyta um batahorfur hans. Aðeins hann sjálfur getur ákveðið að leita sér hjálpar og aðeins hans eigin viðleitni getur leitt til jákvæðs árangurs á því sviði. Maður getur ekki breytt öðru fólki, aðeins sjálfum sér. Alkóhólismi kærasta þíns er hans vandamál, ekki þitt. Varðandi samband þitt við hann eru tvær lausnir: að vera eða fara. Ef þú ákveður að halda sambandinu áfram þarftu að fara í AlAnon þar sem þú getur lært að lifa með alkóhólista. Ég er ekki að mæla með þeirri lausn, bara að segja þér að ef þú ákveður að vera áfram í sambandi við einstakling með fíknivandamál þarftu að tileinka þér ákveðnar „survival skills“ – hæfileika til að geta lifað frá degi til dags án þess að tapa glórunni og AlAnon er eini staðurinn sem ég veit um sem veitir slíkan stuðning. Og varðandi álit vinkonu þinnar um hugsanleg „námsumhverfisáhrif“ á drykkju: rugl. Alkóhólisma er nákvæmlega sama hvar fólk drekkur, hvenær og hvernig; hann er allra-handa sjúkdómur sem fer ekki í manngreinarálit, er sama um aldur, stétt, stöðu og búsetu. Að skipta um umhverfi – „to do a geographic“ – er fræg hindurlausn virkra alkóhólista, sem aldrei gengur, nema e.t.v. í smátíma.

Það er virðingarvert að kærastinn þinn skuli vilja vera heima hjá barninu sínu svo hann geti hjálpað til með að sinna uppeldi þess, en það er hans mál. Þú þarft að líta á þína framtíð alveg án tillits til hans og hvað hann gerir/gerir ekki. Þú ert í námi og þig langar í framhaldsnám svo þú hlýtur að hafa einhverjar ákveðar vonir í huga varðandi faglega framtíð þína.

Geturðu séð sjálfa þig skrifa mér eða einhverjum öðrum eftir 5 ár um að þú sért nú gift manni; drykkja hans hafi farið sívaxandi á undanförnum árum, þið eigið tvö börn saman, hann tekur æðisköst á þig og þau og hræðir úr ykkur líftóruna. Þú ert óhamingjusöm og leið og óskar að þú hefðir ekki hætt við að fara í nám eins og þú ætlaðir fyrir nokkrum árum; nú er auðvitað of seint fyrir þig að fara í námið, með ung börn og alla þá ábyrgð sem því fylgir – sem að mestu lendir á þér því drykkja mannsins þíns kemur í veg fyrir að hann geti rækt foreldraskyldur sínar af ábyrgð. Spurðu sjálfa þig hvar þú vilt vera eftir fimm ár og fylgdu skrefunum frá þeim stað aftur á bak til dagsins í dag. Hvað þarftu að gera, hvaða skref þarftu að taka til að komast á áfangastað? Þarftu (eða einfaldlega langar þig) til að fara í nám erlendis til að verða samkeppnisfær á þínu sviði? Þá er engin spurning að þú þarft að gera það. Það hefur ekkert með hann að gera.

Til að svara spurningu þinni, já, fullt af konum – fólki – eru passívir áhorfendur að lífi annarra. Það ver ævinni í að bregðast við því sem að höndum ber, að bregðast við ákvörðunum sem aðrir hafa tekið án þess að hafa nokkurn tíma hugmynd um hvað það sjálft vill og ef einhverjar slíkar hugmyndir eru til staðar eru þær látnar mæta afgangi því það þarf alltaf að sinna einhverju öðru, afleiðingunum af annarra manna ákvörðunum og draumum. Ekki falla í þessa gryfju.

Persónulega finnst mér ungt fólk á Íslandi binda sig allt of snemma (og slíta svo sambandinu allt of oft – og oft þegar það er búið að hlaða niður börnum sem síðan verða á framfæri einstæðra foreldra og skattborgara). Það er eins og ef fólk er ekki komið í fast samband 16 ára sé það dæmt til ævarandi piprunar og verði því að hengja sig á næstu manneskju sem það slysast til að byrja að vera með, hvað sem tautar og raular. Þú hefur aðeins verið í rúmt ár með þessum manni og ert þegar búin að uppgötva að hann á við alvarleg vandamál að stríða. Oft lagast vandamál eins og skapofsi og ofbeldi þegar fólk hættir neyslu, en þú getur ekki verið að hengja alla þína framtíð á eitthvað sem hann gerir kannski eða kannski ekki. Þú ert ekki gift honum, þú átt ekki barn með honum, þú ert ekki hlekkjuð við hann. Gerðu upp við þig hvað þú virkilega vilt gera, hver þín framtíðarmarkmið eru og hvernig þú getur best náð þeim og skipuleggðu svo aðgerðir þínar í samræmi við það.

Ísa

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.4.2010 - 05:04 - 45 ummæli

Kærastinn vill bara afturendamök

Kæra Ísa

Takk fyrir frábær svör.  Hef langað að senda einn póst á þig, er búin að vera að safna kjarki.  Þannig er mál með vexti að ég er búin að vera með manni í rúm tvö ár (við erum bæði í kringum þrítugt).  Hann var að koma úr löngu sambandi og ég hef verið mest ein síðustu árin, allavega engin alvarleg sambönd.  Gengur bara vel hjá okkur.

En það er eitt sem er soldið mikið að plaga mig.  Það er  kynlífið hjá okkur (hef engan til að tala við um þetta, kann bara alls ekki við það).  En nánast alltaf þegar við höfum samfarir þá endar þetta hjá okkur í endaþarmsmökum.  Hann virðist bara ekki koma almennilega til nema á þann háttinn.  Ég minntist á þetta við hann fyrst þegar við vorum að byrja saman og hann sló þessu bara í grín.  Svo er þetta bara normið hjá honum.

Ég veit bara ekki hvað ég á að gera eða segja.  Hann er alveg yndislegur við mig, en mér finnst þetta ekki vera í lagi.  Hef átt í samböndum áður en aldrei átt við þetta.  Hef reynt að stýra kynlífinu aðeins en hann fær sínu nánast alltaf fram.  Hvað er málið?  Er þetta eitthvað hommafetish eða hvað?  Þetta er farið að setjast á sálina hjá mér og líkamlega hliðin á þessu (hjá mér) er ekki alveg í lagi heldur (ég roðna við að skrifa þetta).  Á ég að setjast niður með honum og segja að þetta sé ekki í lagi?  Ég bara veit ekki hvað, vil ekki vera særa hann eða búa til einhver leiðindi.

Æi, vonandi ertu með einhver góð ráð fyrir mig.

Bestu kveðjur, Nafnlausa Konan

Kæra Nafnlausakona:

Ó djís. Þessir formálar um hve fólk er „alveg yndislegt“ eða „dásamlegt“ – rétt áður en bréfið tekur svo heljarstökk yfir í lýsingu á einhverri ömurlegri og algjörlega ólíðandi hegðun viðkomandi…

Það er gjörsamlega óásættanlegt – alveg burtséð frá um hvers konar kynmök er að ræða – að maðurinn skuli þvinga þig, sbr. „fær sínu nánast alltaf fram“ til að gera eitthvað sem þú greinilega ert ekki sátt við.  Það er fullkomlega ótækt.  Í raun gæti ég bara endað svarið hérna.  En…

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í klínískri kynfræði, segir á doktor.is, í svari við spurningu um hvort endaþarmsmök séu „eðlileg,“ að skilja megi hugtakið „eðlilegt“ með mörgum hætti.  „Íslensk kynlífsrannsókn frá 1992, sem gerð var meðal almennings á aldrinum 16-60 ára leiddi í ljós að svipaður fjöldi karla og kvenna hefur einhvern tíma haft mök í endaþarm, eða um 16%…[M]ikilvægt [er] að taka tillit til bólfélagans…Stundum kemur fyrir…að móttakandinn [er]…ekki til í þessa kynlífsathöfn.  Þá þarf að taka mið af því og hætta.“ (feitletrun Ísu).

Á bresku vefsíðunni netdoctor.co.uk segir: „Samþykki, veitt af fúsum og frjálsum vilja af hálfu beggja aðila er grundvallarskilyrði fyrir hvers konar kynmökum.  Marga einstaklinga, bæði karla og konur, dreymir  í laumi um alls kyns fantasíur sem  ganga út á endaþarmsmök…Sumir reyna að þvinga maka sína til að hafa slík mök, jafnvel þó makinn hafi ekki sama áhuga og þeir. Það að þvinga eða neyða maka sinn til að taka þátt í athöfnum sem eru honum/henni ógeðfelldar eða niðurlægjandi er algjörlega óásættanleg (og í sumum tilvikum ólögmæt og refsiverð) hegðun.“ (feitletrun Ísu)

Eins og þú sérð, er afar mikil áhersla lögð á samþykki „móttakandans,“ þ.e. þitt samþykki.

Varðandi mökin sjálf:  Þú þarft ekkert að roðna – endaþarmsmök per se eru ekkert „óeðlileg“ eða röng.  Nú á dögum eru margir orðnir „ævintýragjarnari“ í kynlífi – kannski afleiðing af geysimikilli klámnotkun, sérstaklega meðal karlmanna – og vilja e.t.v. setja nokkrar hugmyndir úr þeim heimi (þar sem „venjuleg“ kynmök virðast vera álitin síðasta sort) í framkvæmd.  Sumum konum og karlmönnum finnst tilhugsunin um slík mök alveg ógeðsleg og geta ekki hugsað sér þau.  Öðrum pörum finnst þetta allt í lagi, en ef til vill bara stöku sinnum, svona sem krydd í kynlífið, rétt eins og að prófa mismunandi stellingar og staði o.s.frv.

En hvað sem því líður, þá er það er ekki „eðlilegt“ að hann skuli ekki „koma almennilega til“ nema hann fái að hafa endaþarmsmök við þig, sögðu mér tveir læknar, annar þeirra bandarískur kvensjúkdómalæknir með 20 ára reynslu.  „‘Venjulegir‘ gagnkynhneigðir karlmenn vilja yfirleitt hafa ‚venjulegar‘ samfarir,“ sagði hún.  (Ég tek undir þetta með henni; að vísu hef ég enga sérfræðiþekkingu á þessu sviði aðra en hjónaband með karlmanni og að hafa átt fleiri kærasta í gegnum tíðina en mamma hefur oft verið ánægð með).

Já, þú átt að setjast niður með honum og ræða þetta við hann og ekkert hóhum með það.  Þetta ástand gefur reyndar til kynna ákveðna samskiptabilun í sambandinu, sem er svo sem ekkert sjaldgæft fyrirbrigði – fæst okkar eiga auðvelt með að útlista þarfir okkar skýrt og greinilega fyrir öðrum, sérstaklega á þessu viðkvæma sviði.  Við ætlumst til að aðrir lesi hugsanir okkar og svo þegar þeir lesa einhverja vitleysu úr þeim er okkur misboðið.  En greinilega fékk hann ekki skilaboðin sem þú vildir senda þegar þú nefndir þetta við hann í byrjun sambandsins.

Þú þarft að gera honum skýra grein fyrir þinni afstöðu, að þér sé alvara og að breyting þurfi að eiga sér stað.  Þú vilt sennilega einnig vita hvers vegna þessi aðferð er orðin „normið“ hjá honum.  En hver svo sem orsökin er  á mælikvarðinn alltaf að vera þinn eigin og þú átt aldrei að gera neitt sem þér finnst óþægilegt eða sem þú ert ekki sátt við og þú átt ekkert að láta vaða neitt ofan í þig með það, ekki að láta segja þér að þú sért púkó eða gamaldags eða að „allir“ geri x, y og z nema hallærislega þú.

Mér er alveg sama hvað maðurinn er „yndislegur“ – ef hann er í raun yndislegur, þá virðir hann þínar óskir á þessu sviði.  Ef hann bregst illa við eða heldur áfram að þvinga þig til að gera eitthvað sem hann veit að þér finnst óþægilegt, er mál að kveðja þetta samband.  Þú segir að þetta sé farið að „setjast á sálina“ (og líkama) hjá þér og ég ráðlegg þér að panta tafarlaust tíma hjá sérfræðingi á þessu sviði, hjá kvensjúkdómalækni og/eða viðurkenndum kynlífsráðgjafa.

Að lokum: Hinn læknirinn sem ég hafði samband við hafði þetta að segja: „Endaþarmurinn er ekki ætlaður til kynmaka af náttúrunnar hendi þannig að það er fullkomlega eðlilegt að konan setji mörk við það.  Endaþarmsmök auka einnig hættu á gyllinæð, sprungum og sýkingu í slímhúð, endaþarmssigi hjá konunni og þvagfærasýkingu, eistnalyppusýkingu og blöðruhálskirtilssýkingu hjá karlmanninum.  Einnig er aukin hætta á ýmsum sjúkdómum fyrir bæði samkynhneigð og gagnkynhneigð pör: HIV veirusýkingu (semveldur AIDS/alnæmi); HPV (human papilloma virus) vörtusýkingu, sem getur valdið aukinni hættu á krabbameini; Lifrarbólgu A og C; og E.coli (saurgerils)sýkingu. (Af þeim sökum er mælt með notkun smokks við slík mök.)

Ef til vill sljákkar í þessari ævintýramennsku mannsins geri hann sér grein fyrir þessu.  Þau gætu reynt að finna einhverja aðra leið, sem þau bæði eru sátt við, til að svala sækni hans í að prufa annað en venjubundnar samfarir .  Komi hins vegar í ljós að maðurinn fái eitthvað út úr þvinguninni sem slíkri og vill ekki hætta því, er málið alvarlegt og finni hún engan raunverulegan vilja hjá honum til að láta af þeirri hegðun (með eða án hjálpar), er best að enda sambandið.  Öðruvísi skilur hann ekki alvöru málsins.”

Dittó

Ísa

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.4.2010 - 20:54 - 27 ummæli

Kærastinn gerði aðra ólétta

Elsku Ísa:

Ég er búin að vera með manni í 3 ár, nema í fyrra hættum við að vera saman í mánuð eða svo.  Við byrjuðum aftur saman og vorum að hugsa um að byrja að búa saman í sumar og verða ófrísk.  En hér er vandamálið: Hann gerði aðra konu ófríska á meðan við vorum hætt saman í fyrra og barnið á að fæðast í sumar (hann er búinn að fara í próf og það er enginn spurning að hann er faðirinn).  Hann er ekki ástfanginn af móðurinni, þetta var bara kynferðislegt samband.  Nú veit hann ekki hvað hann á að gera, hvort hann eigi að búa með mér, sem hann elskar, eða með barnsmóðurinni svo hann geti verið með barninu sínu.  Hún var ekki ástfangin af honum þegar þau sváfu saman, en núna segist hún vera það.  Hvað á ég að gera í þessari flækju?

Klemma

Kæra Klemma:

Stundum velti ég fyrir mér hvort fólk sé að senda mér lygasögur – reyndar er ég oft alveg viss um það og nota þá „delete“ takkann, nema sagan sé einstaklega skemmtileg eða e.v.t. lærdómsrík – en fibbfálmarinn segir að þessi sé sennilega ekta.

Þessi drengur er greinilega algjör riddari.  Djís, eins og segir í ljóði skáldsins, þið hættið saman í nokkrar vikur – þú segir ekki af hverju (e.t.v. væri gott að rifja það upp núna), en greinilega var hann ekki svo miður sín að hann sá ástæðu til að halda besefanum í buxnaklaufinni í þær örfáu vikur, hvað þá að hafa rænu á að viðhafa nauðsynlegar varúðarráðstafanir, sbr. bls. 38 í heilsufræðinni.  Svo núna er málið „uh… á ég að vera með þér eða henni… henni, þér…þér, henni“?  OK, ef hann flytur inn með henni, ætlar hann að…? hvað?… hafa þig sem viðhald (af því hann elskar þig)? Eða verður hún viðhaldið sem hann bara sefur hjá (þó þau búi saman), því þeirra samband var jú aðeins kynferðislegt?

Ég veit að karlmenn virðast alltaf girnilegri ef fleiri en maður sjálfur eru að girnast þá, þá snýst dæmið upp í samkeppni sem þú verður að vinna, annars finnst þér þú ekki „nógu góð“ eða eitthvað svoleiðis rugl, en elsku vina – vertu ekki að eyða púðri í mann sem er ekki einu sinni viss um hvort hann vill vera með þér!  Það eru fleiri fiskar í sjónum, feitir og fínir.  Þú átt betra skilið.

Bíddu, ég er ekki búin – og hvað er málið með „að hugsa um að byrja að búa saman í sumar og verða ófrísk“ – halló?! Er enginn heima í risinu? Þú ert að tala um að búa til barn, manneskju, ekki að veggfóðra svefnherbergið! Hvernig væri að búa fyrst saman í einhvern tíma, trúlofa sig, jafnvel gifta sig (ég veit þetta er róttæk hugmynd), þú veist, reyna að leggja grunn að stöðugu og traustu heimilis- og fjölskyldulífi áður en maður kemur með nýjan einstakling í veröldina?  Æi, sorrí, ætlaði ekki að nöldra svona… Gangi þér vel.

Ísa

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.3.2010 - 17:18 - 3 ummæli

Gjafir afþakkaðar, takk

Sæl Ísa:

Ég var að fá boðskort í stórafmæli vinkonu minnar og það stendur „engar gjafir“ vinsamlegast, en gestum er bent á góðferðarstarfsemi fyrir börn.

Hvað á maður að gera með svona? Mér finnst afar óþægilegt – dónalegt eiginlega – að mæta í flott afmæli með ekki neitt!

Stína B.

Kæra Stína:

Þegar góð vinkona mín varð fertug um árið tók hún fram á boðskortinu að hún vinsamlegast afþakkaði gjafir og bað – eins og vinkona þín – gesti þess í stað að láta Barnaspítalann njóta gjafmildinnar.  Þrátt fyrir óskir hennar voru ótrúlega margir sem ekki gátu fengið sig til að virða skýrt stafaðar óskir hennar og töldu að þörf hennar fyrir fleiri glerkýr inn á heimilið væri víst mikilvægari en þörf Barnaspítalans fyrir fjárframlög.

„Gjafir vinsamlegast afþakkaðar“ er ekki dulmálskóði fyrir „er skráð í Casa og Kúnígúnd.“  Það þýðir einfaldlega að manneskjan vill ekki gjafir.  Ef hún tekur fram ákveðna góðgerðarstarfsemi, er best að senda þeim aðila viðeigandi upphæð, fá kvittun eða kort frá þeim þar sem stendur að „X góðgerðarstarfsemi hefur verið færð gjöf í tilefni afmælis Bíbí B.“ eða eitthvað í þá áttina (flestar góðgerðarstofnanir eru með svona kort eða pappíra tilbúna).  Síðan geturðu sett þessa viðurkenningu inn í fallegt afmæliskort til vinkonu þinnar.  Ef þér finnst þú alveg absolút verðakaupa eitthvað, geturðu látið skreyta kortið með fallegri rós og borðum í næstu blómabúð.

Ísa

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.3.2010 - 20:23 - 50 ummæli

Kynlíf – hve oft er „normalt“?

Kæra Ísa

Mig langar að fá álit þitt á einu: Hversu oft er „normalt“ að hafa samfarir, fyrir „venjuleg“ hjón eða par á „besta aldri“ (segjum 30+). Ég og maðurinn minn höfum verið gift í nokkur ár (- 10) og eigum börn (2 ½). Honum finnst kynlíf okkar ekki vera nógu „fullnægjandi“ í orðsins fyllstu merkingu, honum finnst einu sinni í viku ekki duga (um helgar – já, „á laugardögum eftir bíómyndina í sjónvarpinu“… –  tökum við okkur góðan tíma í að sinna þessum málaflokki). Við erum bæði útivinnandi, en umsjón um börnin og heimilið lendir að mestu leyti á mér og ég er oft hreinlega of þreytt fyrir kynlíf þegar börnin eru sofnuð og við erum komin upp í rúm á kvöldin. Þetta er orðið að leiðinda þrætuepli hjá okkur. Mér finnst ég ekki geta rætt þetta við vinkonur mínar og langar að vita hvað þér (og etv. lesendum) finnst.

Gugga

Kæra Gugga

Ég tek það strax fram að ég er enginn kynlífsfræðingur (eins og þú áreiðanlega veist). Ég held að flestir sérfræðingar á þessu sviði séu sammála um að það sé engin „normal“ eða akkúrat rétt töfranúmer yfir hversu oft í viku (eða mánuði) fólk á að stunda kynlíf; það er bara svo misjafnt eftir þörfum fólks og aðstæðum.

Spurning er – er þetta breyting frá því sem áður var? Voruð þið áður vön að hafa samfarir miklu oftar en einu sinni í viku en tíðnin er núna komin niður í 4 x í mánuði? Það er eðlilegt að kynlíf hjóna/para breytist – bæði með tímanum, þegar spennublossar tilhugalífsins hjaðna og þegar börn eru komin til sögunnar og ég þarf ekki að tíunda hér þann tíma og vinnu sem fer í þann málaflokk. Að þú sért þreytt því þú sérð aðallega um heimilisstörfin er skiljanlegt –  við konur tökum yfirleitt á okkur stærri hluta heimilisstarfanna, en oft getum við okkur sjálfum um kennt. Við verðum ekki að vera yfirræstitæknar heimilisins; stundum gerum við of miklar kröfur til okkar sjálfra (og annarra, enginn gerir hlutina nógu vel að okkar mati svo við verðum að gera þá sjálfar) og erum ekki nógu duglegar við að krefjast þess að aðrir heimilismeðlimir taki ábyrgð.

Ég hafði samband við Jónu Ingibjörgu Jónsdóttur, kynlífsfræðing, varðandi spurningu þína og hún benti á bók sína Kynlíf – heilbrigði, ást og erótík.  Bókin er áreiðanlega fróðleg, en ég hef hana ekki við hendina;  athugaðu hvort þú færð hana á bókasafninu.

Ég held það sé mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir að kynlífshegðun okkar breytist þegar við erum komin í föst sambönd  (sérstaklega með börnum) og sníðum væntingar okkar eftir því. Við erum ekki alltaf eins „spennt“ og við vorum og að stunda kynlíf bara þegar við erum bæði „í stuði“ endar sennilega með óánægju annars eða beggja.

Sumum gæti þótt það neikvætt að negla kynlíf niður á ákveðinn dag eins og þú segir að þið gerið, það geri það að hálfgerðri kvöð; öðrum gæti þótt það spennandi og hlakkað til þess alla vikuna. En ég held ég verði að vera sammála manninum þínum, að einu sinni í viku – „á laugardögum eftir bíómyndina í sjónvarpinu“ – er heldur „ófullnægjandi.“ Ég er persónulega þeirrar skoðunar að í góðu sambandi (þar sem báðir aðilar eru við fulla heilsu) sé best að hafa kynlífið eins og eplin – „an apple a day keeps the doctor away“ – eitt á dag kemur heilsunni í lag. Að sjálfsögðu er ekki alltaf unnt að láta það gerast, en ég held að fólk verði að líta á kynlíf eins og hreyfingu – (ljúft) forgangsatriði sem maður tekur tíma í, ekki eitthvað sem maður gerir ef extra tími gefst.

Ísa

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is