Fimmtudagur 11.11.2010 - 18:29 - 11 ummæli

Dauði jafnaðarmanna

Í hefðbundnum lýðræðum er það hlutverk jafnaðarmannastéttarinnar  að virka sem öryggisventill.  Stétt jafnaðarmanna hefur smátt og smátt komið þjóðfélagsumbótum til leiðar.  Jafnaðarmenn hafa tekið framfaraskrefin í átt til aukins jafnræðis og verið boðberar vona um breytingar og betri tíð.  Stétt jafnaðarmanna hefur einnig þjónað hlutverki  „árásarhundsins“ á öfgafullar þjóðfélagshreyfingar, hlutverk sem gefur henni notagildi innan valdaelítunnar.

En jafnaðarmannastéttin virðist hafa látið lífið í árásarherferð auðhringaræðisins á lýðræðið. Auðhringaræðið gleymdi að jafnaðarmannastéttin, þegar hún virkar, gefur valdastéttinni lögmæti.  Og þegar jafnaðarmannastéttin er gerð einfaldlega að auðvaldshirð, sem hefur ekkert upp á að bjóða nema innantómt orðagjálfur, slökknar á þessum öryggisventli og óánægja innan þjóðfélagsins verður að finna útrás annars staðar, oft í formi ofbeldis.

Vangeta jafnaðarmannastéttarinnar til að viðurkenna að auðhringir hafa hrifsað valdið úr höndum borgarana, að Stjórnarskráin og ákvæði hennar sem tryggja eiga frelsi einstaklingsins eru orðin þýðingarlaus, og að „samþykki borgaranna“ hefur heldur enga þýðingu, hefur gert það að verkum að aðgerðir stéttarinnar og orð eru ekki lengur í samræmi við raunveruleikann.  Jafnaðarmenn hafa lánað rödd sína innantómum pólitískum leikaraskap, og þau þykjustulæti að lýðræðisleg umræða og raunverulegir valkostir standi borgurunum enn til boða halda áfram.

Jafnaðarmannastéttin neitar að viðurkenna hið augljósa því meðlimir hennar vilja ekki missa sín vellaunuðu og þægilegu fríðindi.  Kirkjur og háskólar njóta skattfríðinda og starfsmenn þeirra njóta starfsöryggis meðan þeir halda sig á mottunni. Verkalýðsleiðtogar eru á forstjóralaunum og eru í félagi við auðhringjakapítalistana svo lengi sem þeir minnast ekki á stéttabaráttu. Stjórnmálamenn, eins og herforingjar, eru trúir kröfum auðvaldsræðisins og þegar þeir hætta í pólitík bíða þeirra milljónamæringastöður sem þrýstihópahórur eða yfirmenn innan einhvers auðhringsins. Listamenn, sem nota hæfileika sína til að framleiða goðsagnir og blekkingar, lifa þægilegu lífi í Hollywoodhæðum.

Fjölmiðlar, háskólar, kirkjan, Demókratar, listamenn og verkalýðsfélög – máttarstólpar jafnaðarmannastéttarinnar – hafa verið keyptir með peningum auðvaldsins og loforðum um brauðmola frá þröngum valdaklíkum.  Fréttamenn, sem meta meir aðgang að hinum valdamiklu en þeir meta sannleikann, bera á borð lygar og áróður svo hægt sé að reka stríð í Írak. Margir þessara sömu fréttamanna fullvissuðu okkur um að það væri skynsamlegt að setja ævisparnað okkar í peningakerfi spákaupmanna og og þjófa.  Fjölmiðlar, til að þóknast auðhringaauglýsendum og styrktaraðilum, hunsa almenning í fátækt, eymd og óréttlæti sem ætti að vera aðalumfjöllunarefni fjölmiðla.

Háskólar hvetja ekki lengur nemendur sína til að hugsa gagnrýnt, til að rannsaka og gagnrýna valdakerfi og pólitískar og menningarlegar forsendur, til að spyrja hinna stóru spurninga hugvísindanna um tilgang og siðferði. Þessar stofnanir hafa umbreytt sjálfum sér í verknámsskóla; þær eru útungunarvélar fyrir kerfisstjóra sem þjálfaðir eru til að þjóna auðhringaræðinu, sem  í Faustísku samkomulagi pumpar fjármagni inn í skólana og þær deildir þeirra sem auðvaldinu eru þóknanlegar.  Rektorum eru greidd ofurlaun eins og þeir væru forstjórar risafyrirtækja og engu máli skiptir hvort þeir hafa eitthvað vit á menntun; bara að þeir geti aflað fjár.  Í skiptum þegja skólarnir þunnu hljóði um auðhringaræðið en fordæma einnig sem „pólitíska“ alla þá innan veggja sinna sem voga sér að gagnrýna afglöp auðvaldsins og bruðl og óhóf óhefts kapítalisma.

Verkalýðsfélög, samtök sem áður lögðu áherslu á stéttabaráttu, með meðlimi sem börðust fyrir víðtækum félagslegum og pólitískum réttindum til handa verkafólki, eru orðin heimaaldir samningafélagar kapítalistanna. Kröfur verkalýðsfélaganna í byrjun 20. aldar, sem veittu verkafólki réttindi eins og helgarfrí, átta stunda vinnudag, rétt til að fara í verkfall, lífeyrisréttindi – allt þetta heyrir sögunni til. Háskólar, sérstaklega stjórnmálafræði- og hagfræðideildir, gagga enn um hina misheppnuðu hugmyndafræði kapítalismans og hafa engar nýjar hugmyndir. Listirnar, alveg jafn gráðugar og fjölmiðlar og menntastofnanir í auðhringafjármagn og styrktaraðila, neita að fjalla um ójöfnuðinn , fátæktina og þrengingarnar sem stór hluti þjóðfélagsþegna býr við.  Vinsælir listamenn selja  goðsögnina úr áróðursmaskínu auðhringanna, sjálfshjálparprédikara, Oprah og hægrisinnaðra ofstækispresta, að ef við bara köfum nógu djúpt í okkur sjálf, einblínum á hamingjuna, finnum okkar innri styrk og trúum á kraftaverk getum við fengið allt sem við viljum.

Töfrahugsun sem þessi, sem er aðaleinkenni skemmtanaiðnaðarins, hefur blindað augu almennings fyrir auðhringakerfinu sem gerir fjölskyldum ókleift að vinna sig út úr fátækt eða lifa sómasamlegu lífi. En verstur af öllum máttarstólpum jafnaðarmannastéttarinnar er Demókrataflokkurinn.

Flokkurinn seldi sig, meðvitað, fyrir auðhringafjármagn. Bill Clinton, sem sagði að verkafólk ætti ekki í nein hús að venda nema til Demókrata, kom í gegn NAFTA samkomulaginu árið 1994, sem voru svik við verkafólk. Hann hélt áfram og eyðilagði velferðarkerfið og árið 1999 reif hann niður varnarmúrana milli venjulegra viðskiptabanka og fjárfestingarbanka og afhenti spákaupmönnum og þjófum bankakerfið.  Barack Obama, sem aflaði  meira en $600 milljónum til að bjóða sig fram til forseta, mest frá auðhringum, hefur þjónað hagsmunum þeirra jafn nostursamlega og flokkur hans.  Hann hefur haldið áfram að ræna ríkissjóð fyrir hönd auðvaldsins, neitað að aðstoða milljónir Bandaríkjamanna sem misst hafa heimili sín og hefur ekkert gert til að taka á eymd hinna atvinnulausu, sem nú eru orðnir að  viðvarandi þjóðfélagsstétt.

Þjóðfélög munu þola kúgun harðstjóra meðan þessir stjórnendur nota vald sitt á virkan hátt. En saga mannkyns hefur sýnt að þegar valdhafar verða getulausir, þegar þeim er ofaukið, en þegar þeir halda samt áfram að krefjast skrautklæða og forréttinda valdsins, munu þegnarnir losa sig við þá á grimmilegan hátt.

Slík örlög bíða jafnaðarmannastéttarinnar, sem krefst þess að hanga í forréttindastöðum sínum en neitar á sama tíma að taka alvarlega sitt hefðbundna hlutverk innan lýðræðisins.  Jafnaðarmannastéttin er orðin að einskisnýtri, fyrirlitlegri viðhengistutlu auðvaldsins. Og um leið og auðvaldið mengar og eitrar vistkerfið og knýr okkur áfram inn í heim þar sem aðeins eru húsbóndar og þrælar, verður jafnaðarmannastéttin – sem þjónar engum tilgangi í því nýja kerfi – yfirgefin og henni fleygt til hliðar. Dauði jafnaðarmanna þýðir að enginn er til staðar til að halda í skefjum auðhringabatteríi sem hannað er til að ræna þjóðina í þeim tilgangi að auðga fámenna valdastétt.  Áhrifalaus jafnaðarmannastétt þýðir að það er engin von, ekki nokkur einasta, um leiðréttingu eða gagngerar breytingar. Dauði jafnaðarmannstéttarinnar þýðir að öruggt verður að vonbrigði og reiði verkafólks og millistéttarinnar munu fá útrás utan marka hefðbundinna stofnana lýðræðisins.

Úr bókinni Death of the Liberal Class eftir Chris Hedges ©2010. Viðtal við Chris Hedges á Talk Of The Nation, NPR, 15.11.10

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

 • Ættir að setja heimildina efst, ekki neðst. Nema tilgangurinn hafi verið að láta fólk halda að þetta hafi verið þú sem skrifaðir þetta.

 • Júlíus Brjánsson

  Hér er verið að deila á Demókrataflokkinn bandaríska sem getur ekki talist jafnaðarmannaflokkur á evrópskan mælikvarða. Skandínavískir jafnaðarmenn eru allt önnur tegund. Og þeir mundu ekki einu sinni láta sér detta í hug að kalla bandaríska Demókrata jafnaðarmenn af skiljanlegum ástæðum.

 • Andrés Björgvin Böðvarsson

  Jafnaðarstefna er Social Democracy, jafnaðarmenn eru Social Democrats. Hér er verið að teygja jafnaðarmannahugtakið yfir á allt annað efni. Vissulega má skamma marga Samfylkingarmenn fyrir að vera rotnar Liberal class auðhringasleikjur en það er ekki sjálfkrafa samasem merki á milli þess að vera Samfylkingarmaður og að vera jafnaðarmaður. Þetta er í besta falli illa þýtt, í versta falli er þetta vísvitandi rangþýtt.

 • Þetta á alveg fyllilega við um jafnaðarmenn líka. Í heimildinni er kannski verið að tala um Demókrata en þetta gildir um alla stóra miðsækna vinstriflokka.

 • Gunnar Skúli Ármannsson

  Sæl Íris,

  sócíal demkratsía var í raun feilspor, vonandi komumst við aftur á sporið.

 • Högni Brekason

  Flott grein og á hvergi betur við en á Íslandi í dag.

 • Ég er fullkomlega sammála Högna, bæði um greinina
  og um Samfylkinguna:

  „Flott grein og á hvergi betur við en á Íslandi í dag.“

  Niðurstaða: Samfylkingin er auðvalds-skækjudula.

 • Gagarýnir

  Ég er fylgjandi þessarar stefnu því hún setur valdahlutföllin rétt. Atvinnulífið sé um sig sjálft, stutt af Ríkinu sem sér um velferð þeirra sem atvinnulífið treystir á. Í BNA var þetta sett upp sem dæmi atvinnuveganna. Sjúkratryggingar eru með í ráðningarsamingi. Þetta kerfi er hrunið.
  Vandamálið sem vex í augum hægri manna er það að velferðarkerfið ali af sér ræfildóm, sem það gerir. Þriðju kynslóðar atvinnulaust fólk sem kann ekki að vinna. En er ekki sama vandamálið í BNA en fer leynt en stundum bert?

 • ÞAÐ ER BLINT F’ÓLK, hvað svo sem það hefur lært, að halda því
  fram í Bandar. N.-Ameríku sé raunverulegt lýðræði. ( Menn ættu að
  muna,svo stutt er síðan að kosningar fóru þar fram) Opinberlega
  var sagt að þær mörkuðu vörðu í austur á peningum til frambjóðana.

  Höfundur, eins og margir Kanar, þekkja mjög takmarkað til Evrópu-
  hefðar og þróun lýðræðis ´hjá þjóðunum þar.
  Þess vegna skilar greinin ekki því sem reynt var með ritun hennar.
  Hugtaka ruglingur inn á milli.

 • Sammála að þýðingin „liberal class“ er ekki „jafnaðarmanna stétt“. Bara orðið „class“ bendir til að viðkomandi ritari hefur ekki grunnhugmyndafræðina á hreinu. Bandaríkjamenn sem aðhyllast frjáslyndari túlkun á hægra ofstæki eru kallaðir „liberals“. Það hugtak hefur nákvæmlega enga skýrskotun til „sósíal demókrata“ sem við köllum aftur „jafnaðarmenn“ á fínni íslensku en bara „krata“ þegar um er rætt. Burtséð frá þessari hugtaksteypu sem er fráleit þá er kjarni málsins nokkuð ljós og auðskilinn: þeir sem sækja atkvæði sín til vinnandi stétta og með hugmyndafræðilegri réttlætingu á því athæfi hafa svikið. Það er nokkuð til í því „hvað sem þeir svo annars heita“.

 • Chris Hedges tapaði öllum trúverðugleika með útgáfu „I Don’t Believe in Atheists“.

  Þar sem hann hefur sýnt að hann er fullkomlega reiðubúinn til að eyða heilli bók í að grenja yfir gerðum strámanna þá geri ég ráð fyrir því að hann sé við sama heygarðshornið hér.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is