Föstudagur 05.11.2010 - 01:58 - 8 ummæli

Vargar í lífi þjóðar

„En girnist [þjóð vor] um of gullnar veigar og góða daga, og sem hæst laun fyrir helst til lítil afrek, ber nauðsyn til að fletta spjöldum fortíðarinnar.  Þar er með djúpum rúnum rist sú lífsreynsla og athafnir, sem best hafa dugað okkur Íslendingum á berangursgöngu liðinna alda, þegar eldgos, drepsóttir og ísavetur sóttu að á aðra hlið en á hina ófyrirleitnir eiginhagsmunamenn, sem létu greipar sópa um gullið allt, er til náðist.  Beri slíkan vanda að höndum á ókomnum öldum, er það heitasta ósk mín, að úr þjóðardjúpinu rísi þá upp menn, margir karlar og konur, með athafnavilja og frelsisþrá, hugrekki og göfga trú þess manns sem næst tekur til máls.“

Þessi orð ritaði Theodór Gunnlaugsson árið 1960 í bók sem heitir Nú brosir nóttin.  Bókin er ævisaga  „þess manns sem næst tekur til máls,“ langafa míns í móðurætt, Guðmundar Einarssonar, refaskyttu og bónda á Brekku á Ingjaldssandi við Öndunarfjörð.  Ég man ekki eftir langafa, enda var ég innan við ársgömul þegar hann dó árið 1964.  Theodór lést árið 1985.

Báðir voru þessir menn af kynslóð Íslendinga er upplifði tímana tvenna.  Spillingin grasseraði í íslenskum stjórnmálum þá sem nú, en ég velti fyrir mér er ég les þessi orð hvort þá félaga hafi órað fyrir  hversu „ófyrirleitnir eiginhagsmunamenn“ áttu enn eftir að sækja að þjóðinni.  Vargurinn birtist í fleiri myndum en þeirri sem langafi sótti að vopnaður á Vestfjörðunum.

Leifur Sveinsson, lögfræðingur, skrifaði á áttræðisafmæli langafa um ævisögu hans: „[Nú brosir nóttin er] með merkustu bókum sem ég hefi lesið og ætti að vera skyldulesning í öllum framhaldsskólum, jafnvel í Háskóla Íslands.  Guðmundur var 9 ára er hann missir föður sinn, sem drukknaði í Grunnafirði skammt norðan við Akranes, er hann var á heimleið úr kaupstaðarferð…og móðir hans stendur uppi með sex börn innan við fermingu og eitt aðeins hálfsmánaðar gamalt.  Þrátt fyrir ungan aldur féll fljótlega mikil ábyrgð á hinar ungu herðar og er saga bernsku- og unglingsáranna eilíf barátta við hreppsnefndir og oddvita þeirra, sem lítt voru kunnir fyrir miskunn og enn ófróðari um hinn miskunnsama Samverja.

„Guðmundur Einarsson varð þjóðsagnapersóna í lifanda lífi.  Hann hóf búskap á Brekku árið 1909 og stýrði búi þar í 37 ár [ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Magnúsdóttur] og andaðist þar 91 árs að aldri 22. júlí 1964.  Hann eignaðist 21 barn með tveimur konum og komust 16 upp.  Þrátt fyrir barnamergðina þurfti grenjaskyttan á Brekku aldrei að þiggja sveitarstyrk.

„Viðskipti þeirra Theodórs Gunnlaugssonar og Guðmundar refaskyttu eru afar sérstæð.  Af hendingu hlustar Theodór á útvarpserindi þar sem sagt er frá þessum sérstæða manni, Guðmundi refaskyttu.  Hann setur sig í samband við Guðmund og fær frá honum á næstu árum 1.096 bréf, það fyrsta skrifar Guðmundur Theodóri 22. febrúar 1944.  Bréf bárust frá Guðmundi í samfellt fimmtán ár. Ekki hefur orðið af endurútgáfu bókarinnar Nú brosir nóttin en vonandi verður af því sem fyrst, svo hún verði ekki aðeins ‚Handbók skotveiðimanna‘ eins og frændi minn kallaði hana.  Bók þessi er sígild og á erindi við alla landsmenn, jafnt unga sem gamla.“

Guðmundur Einarsson refaskytta og bóndi á Brekku, Ingjaldssandi við Önundarfjörð..

Langafi hafði fallega rithönd, þó ekki hafi hann átt þess kost að sitja lengi á skólabekk.

Séð yfir Ingjaldssand, við vestanverðan Önundarfjörð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Nú brosir nóttin er frábær bók og ein albesta ævisaga sem ég hef lesið.

 • droplaugur

  Alveg snilld að koma með svona, og skemmtilega upp sett og í raun snilldarlega.. Frænka mín úr gufudal austur barðastrandandsýslu var að deyja (95 ára). Sonur hennar sjötugur sagnamaður sagði mér í jarðaförini m.a. um sveitina hennar frá gamla daga að sjómenn hefðu borið bátana á milli þ.e. frá hrútafirði til breiðafjarðar. MIKLIR SAGNA GULLMOLAR AÐ FÁ SVONA .!!!

 • Auður Lilja

  Frábær pistill hjá þér.
  Langafi var merkur maður. Bókin er perla og öllum lærdómsrík til lestrar.

 • Íris, ættareinkennin leyna sér ekki. Nú sér maður hvaðan þú hefur fríðleikann og gáfurnar.

 • Íris Ósk Oddbjörnsdóttir

  Sæl frænka, ég er barnabarn Kristjáns og Árelíu á Brekku, dóttir Betu. Þetta er góður og skemmtilegur pistill hjá þér. Ég hef oft óskað þess að hverfa aftur í tímann og hitta langafa okkar og langömmu, þetta merka sómafólk sem við höfum alist upp við að heyra sögur af. Þannig frásagnir að maður hefur frá blautu barnsbeini lært að bera virðingu fyrir minningu þeirra. Ég las „Nú brosir nóttin“ þegar ég var unglingur, og suma kaflana las ég aftur og aftur. Þetta eru ótrúlega áhrifaríkar frásagnir sem að maður gleymir ekki, og það sannast af því að enn eru afkomendur og aðrir að vitna í bókina. Bestu kveðjur, Íris Ósk Oddbjörnsdóttir

 • Torfi Stefánsson

  Ég held að Ingjaldssandur sé frekar sunnan megin við Önundarfjörð, en vestan. Amk er það miklu algengara í tali manna tel ég mig geta fullyrt. Annars fínn pistill um merkan kall sem bjó á einhverju afskekktasta svæði landsins – og var alls ekki þaðan!

 • Ásta María Guðmundsdóttir

  Já ég er sammála Írisi Ósk. Mikið hefði ég viljað þekkja þetta sómafólk sem þau langafi og langamma hafa verið!

  Skammast mín fyrir að vera ekki búin að lesa bókina – hún liggur þó í hillu heima hjá pabba!

  Gaman að lesa pistilinn þinn Íris!

 • Datt inná pistilinn, var að „googla“ smá eftir að hafa lesið þessa bók. Áskotnaðist hún eftir að ég fór að gramsa í kassa með bókum sem átti að henda hjá frænku minni fyrir norðan. Mér finnst magnað að lesa bækur sem gefa manni innsýn í lífið um aldamótin. Ég festist í þessari bók meðan ég á erfitt með að einbeita mér að Arnaldi eða Yrsu 🙂 Ég lét 10 ára dóttur mína lesa söguna þegar móðir hans gekk til Njarðvíkur að ná í mat handa börnunum. Þau þurftu að lifa á loftinu nánast á meðan. Mér fannst það ágætis viðmið þegar það þykir skortur í dag að eiga ekki snjallsíma. Þetta er svo ótrúlegt fyrir okkur að hugsa um þetta. Samt er ekkert langt síðan þannig lagað. Áhrifamikið fannst mér sérstaklega þegar hann sagðist hafa tárast yfir því hvað pokinn var þungur sem móðir hans gekk með frá Njarðvík í Borgarfjörð.

  Frábær bók, magnaður karl!

  Friðrik

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is