Fimmtudagur 28.10.2010 - 15:00 - 11 ummæli

Svar frá frambjóðanda á stjórnlagaþing

Í bloggi sínu hér á Eyjunni, benti Gísli Baldvinsson á Bakþanka Sifjar Simarsdóttur í Fréttablaðinu í gær þar sem hún segir „lítið hefur mér fundist fara fyrir umræðu um þjóðhöfðingja okkar Íslendinga í slagorðakenndum orðaflaumi tengdum yfirvofandi stjórnlagaþingi… Enn hef ég ekki fundið þann frambjóðanda til stjórnlagaþings sem sett hefur fram ígrundaðar hugmyndir um þennan hlekk stjórnskipunarkeðjunnar sem í dag hefur hvað óljósasta hlutverkinu að gegna.“

Ég skil vel að Sif eigi í erfiðleikum með að finna  „ígrundaðar hugmyndir“  enda ekki hlaupið að því að sigta þær úr stefnuskrám 500 plús frambjóðenda. Þetta er skipulagslegt vandamál stjórnlagaþings; hvernig á að kynna fyrir kjósendum stefnumál alls þessa fjölda. En þó erfitt sé fyrir frambjóðendur (a.m.k. þá sem ekki hafa tvær milljónir í vasanum til að eyða í auglýsingar) að koma hugmyndum sínum á framfæri þannig að tekið sé eftir þeim þýðir þó ekki endilega að að þær séu ekki til staðar. Hér er mín (ég er frambjóðandi til stjórnlagaþings 😉 ) skoðun á þessu álitamáli sem Sif veltir upp:

„Leggja á niður embætti forseta Íslands eins og það er í núverandi mynd, enda höfum við ekkert að gera við þessar óþörfu leifar danska konungsvaldsins. Þjóðin ætti að velja í beinni kosningu einn sterkan þjóðarleiðtoga –  í svipuðu kerfi og því franska eða bandaríska – sem síðan veldi þá samstarfsmenn sem hafa hæfni, menntun og reynslu til að stýra ráðuneytum. Sterkur leiðtogi gæti risið yfir flokkapólitík og látið hagsmuni þjóðarinnar ráða og gæti aukið traust hennar á leiðtogum sínum, en eitt alvarlegasta vandamál íslenskrar stjórnsýslu er rolugangur og ábyrgðarleysi eins og það sem þjóðinni var sýnt í kjölfar bankahrunsins. Það verður að teljast einstakur heigulsháttur að ekki einn einasti af þeim 100+ einstaklingum er komu fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis skuli hafa tekið á sig snefil af ábyrgð. Einn sterkur þjóðarleiðtogi tæki ábyrgð á öllum mistökum og klúðri. Eins og Harry Truman sagði, „The buck stops here.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

 • Trausti Þórðarson

  Sterkur leiðtogi?
  Búið að prófa það.

 • Líst vel á þetta.

  ÓRG er búinn að eyðileggja forsetaembættið.

  Ekki annað að gera en leggja það niður og selja Bessastaði.

  Einnig hlynnt því að forsætisráðherra verði kosinn beint og hann skipi ríkisstjórn sem alþingi samþykki.

  Við þurfum að gera allt til að draga úr íslenska klíku- og flokksveldinu.

 • Ég hef í fleiri ár spáð í hvernig hægt er að breyta embætti forseta Íslands þannig að það verði skilvirkara fyrir þjóðfélagið. Hér eru mínar hugmyndir sem einnig er að finna ásamt ýmsum fleiri tillögum í hugmyndabankanum fyrir Stjórnlagaþing á http://www.austurvollur.is

  Forseti, sem þjóðkjörinn umboðsmaður lýðsins og eftirlitsaðili fyrir virku lýðræði, skipar síðan ráðherra og veitir þeim lausn eins og nú er.

  Virkjum Bessastaði: Forseti Íslands fái nýtt hlutverk sem alþjóðlegur talsmaður friðar og mannréttinda. (Tengist þeirri hugmynd að á Íslandi rísi friðarháskóli og þróunarmiðstöð lýðræðis, friðar og mannréttinda, friðargæslu Sameinuðu Þjóðanna boðin aðstaða á Keflavíkurflugvelli og forsetaembættið vinni markvisst að því að fá til Íslands tengda starfsemi).

 • Guðbjörn Guðbjörnsson

  Íris: Algjörlega sammála seinni hluta pistils þíns, þetta er málið!

 • Björgvin Þór

  Ég er að hugsa þetta sama. Finnst þetta rökrétt breyting.

  B.

 • Ómar Harðarson

  Sammála Trausta Þórðarsyni. Íris fær ekki mitt atkvæði.

 • Kærar þakkir, þá get ég strikað þig út af listanum mínum.

 • Kjartan Valgarðsson

  Hef grun um að þú strjúkir mörgum móthárs með notkuninni á „sterkum leiðtoga.“

 • Veit ekki til þess að sterkur leiðtogi hafi verið í pólitík á Íslandi í mörg ár. Því sterkur leiðtogi er ekki sterkur nema að hann geti tekið gagnrýni og mótvind. Hinsvegar hefur mér sýnst hafa verið offramboð á sækópötum og narsisistum (kem ekki fyrir mig hinum íslensku hugtökum yfir þetta). Vandamálið sem ég sé í þessum tillögum þínum Íris, er sú að patarnir virðast hafa óþrjótandi hóp stuðningsmanna hér á landi svo beinar kosningar forseta/forsetisráðherra gæti hleypt akkurat þannig einstakling inn í valdastöðu sem hægt er að misnota gróflega. En ég hef ekki betri tillögu varðandi stjórnskipun. Núverandi fyrirkomulag er stórgallað og þarf að breyta, stóra spurningin er hvernig.

 • Stóra spurningin er annars vegar hversu lengi „sterkur“ leiðtogi gæti að hámarki setið og hins vegar hvernig þjóðin (eða þingið) gæti losnað við hann, ef kæmi í ljós á miðju kjörtímabili að þar fór refur í sauðagæru og/eða sauðagæra fyrir flokk af refum?

 • droplaugur

  Já hugmyndin um forsetan er góð, en kyrrstöðu öflin eru bara svo rosalega sterk á íslandi. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að einn kokkur á að sjá um eldúsið alfarið,,of margir kokkar spilla steikinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is