Miðvikudagur 06.10.2010 - 17:23 - Rita ummæli

Silfurbakkaaðferðin – enn og aftur

Sjaldséð vonarglæta í íslenskum stjórnmálaum birtist í viðtali við Lilju Mósesdóttur í þættinum í Návígi þann 28. sept.  Af ótrúlegri hreinskilni segir Lilja m.a. að bankarnir taki ákvarðanir þvert á þau fyrirmæli sem þeim var gert að starfa eftir varðandi skuldamál almennings. Í sjálfu sér er þetta svo sem ekki merkilegt; þetta eru engar fréttir fyrir almenning, sem fyrir löngu hefur gert sér grein fyrir að bankarnir eru ríki í ríkinu, en að heyra stjórnmálamann úr stjórnarflokki viðurkenna það er hressandi. Það sem er merkilegt er langlundargeð íslensks almennings, sem loks virðist þó vera á þrotum. Þjóðin hefur horft upp á pótintáta bankanna hirða heimili af fjölskyldum í massavís meðan þeir afskrifa milljarða skuldir hjá sjálfum sér og eháeffum vina og vandamanna, en nú virðist mælirinn vera að fyllast.

Alvarlegasta synd þessarar ríkisstjórnar er að hafa viðhaft silfurbakkaaðferðina– að afhenda gratis dýrmætar þjóðareignir einstaklingum sem hvorki verðskulda né eru hæfir til að fara með þær – enn einu sinni í meðferð bankanna eftir að hafa látið almenning þrífa upp skítinn eftir svallveislu þá sem var bein afleiðing fyrri silfurbakkameðferðar.  Þetta virðist einhvers konar ófrávíkjanleg regla í íslenskri fjármálastarfsemi –stjórnvöld láta eða láta viðgangast að almenningur borgi fyrir þrifin á útskitnum afkvæmum óhæfra, siðlausra stjórnenda – og rétta þeim síðan hreinan og strokinn krógann á ný!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is