Föstudagur 24.09.2010 - 20:34 - Rita ummæli

„Úrelt“ lög

Alveg er makalaust að hlusta á hrunverjana væla um að lögin um Landsdóm séu ómöguleg því þau séu orðin „úrelt.“  En þessi málflutningur er alveg í takt við hið móralska landslag þeirra, sem einkennist af hæstu hæðum sjálfselsku, græðgi og hroka.

Hvenær hefur þetta fólk áður lýst áhyggjum af tilvist „ævafornra“ eða „úreltra“ laga í íslenskri löggjöf?  En fyrst hrunverjarnir hafa svona mikinn áhuga á að uppnýja íslenska lagasafnið, þá er þeim hér með bent á að þjóðþrifamál væri að hefja það verkefni á ákvæðum XXV. kafla almennra hegningarlaga 19/1940, sem heimila „valdsstjórninni“ að henda manni í fangelsi fyrir það eitt að móðga samborgara sína.FREESP

Eiríkur Jónsson, lögfræðingur og lektor við lagadeild HÍ, lagði fram þingsályktunartillögu um breytingu á þessum kafla laganna árið 2006 þegar hann var varaþingmaður fyrir SF.  Í tillögunni segir m.a.:

„Ákvæði XXV. kafla hegningarlaga um ærumeiðingar… fá tæpast staðist stjórnarskrána eða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði mannréttinda. Telja verður eðlilegra að réttarúrræði vegna ærumeiðinga séu alfarið á sviði einkaréttar en ekki refsiréttar, enda vaxandi þrýstingur í alþjóðasamfélaginu á að refsingar við ærumeiðingum verði aflagðar.

„Ýmis dæmi mætti nefna um efnisatriði XXV. kafla hegningarlaga sem tæplega eða engan veginn fást staðist nútímaleg mannréttindaviðhorf, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Skal hér í fyrsta lagi nefnt að ákvæðin mæla berum orðum fyrir um það að hægt sé að varpa einstaklingum í fangelsi fyrir ærumeiðingar. Þannig getur einföld móðgun varðað allt að eins árs fangelsi skv. 234. gr. hegningarlaga og sé um aðdróttun að ræða getur hún varðað tveggja ára fangelsi, sbr. 236. gr.  Af 101. gr. hegningarlaga leiðir raunar að fangelsisvistin getur orðið allt að fjögur ár ef aðdróttunin beinist að forseta Íslands.  Vart þarf að taka fram að þessi ákvæði eru í engu samræmi við nútímaviðhorf og mannréttindavernd, enda hafa alþjóðlegar stofnanir og samtök á sviði mannréttinda beitt sér mjög gegn fangelsisvist sem úrræði vegna ærumeiðinga og Mannréttindadómstóll Evrópu ítrekað kveðið upp áfellisdóma í málum þar sem einstaklingar hafa verið settir í fangelsi vegna ærumeiðinga.“

Málinu var vísað „í nefnd“ og kom aldrei þaðan út, enda vinnuregla Alþingis að láta þingmannamál deyja hljóðum dauðdaga í nefndum þingsins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is