Laugardagur 17.6.2017 - 20:46 - FB ummæli ()

„Innflytjendavandinn“ á Akureyri

Fyrir nokkru síðan kom Hermína Gunnþórsdóttir frá HÍ á skólanefndarfund þar sem hún kynnti fyrir nefndinni niðurstöður rannsókna á aðlögun innflytjenda í grunnskólum á Akureyri.

Í rannsókninni komu fram áhugaverðar mótsagnir. Innflytjendum er vel tekið í skólum á Akureyri…… en þó eru samskipti heimilis og skóla treg. Foreldrar eru jákvæðir gagnvart skólanum…..en  þó er íslenskt skólastarf mörgum foreldrum erlendra barna framandi. Það ríkir traust milli skólanna á Akreyri og foreldrar barna af erlendum uppruna…….en þó hefur skortur á samtali og vantraust á skólanum hindrað foreldra í að fylgjast með námi barna sinna. Starfsfólk skólanna er jákvætt gagnvart innflytjendunum og foreldrum þeirra…… en telja sig þó skorta bæði hvatningu og heildarsýn til að sinna verkefninu sem skyldi.

Þessar misvísandi niðurstöður sýna að nú er tími til að grípa í taumana og stýra þróuninni þannig að hún verði samfélaginu hagstæð. Við getum horft á bilið breikka milli innflytjenda og íslensku nemendanna með tilheyrandi félagslegum vandamálum eða við getum og búið þannig að aðlögun innflytjendanna að þeir nái að blómstra í því samfélagi sem þeir búa í. Þetta eru krossgötur sem mörg Evrópulönd hafa staðið á og í þeim löndum hefur of oft verið gipið of seint í taumanna.

Við höfum flest okkar skoðanir á innflytjendum. Sumar skoðanir eru þær réttu og við höldum þeim fram í opniberri umræðu. Það eru skoðanir sem lýsa umburðarlyndi, mannréttindum og vinsemd. Slík viðhorf eru algengi í samfélögum sem „innflytjendavandamál“ hafa ekki verið mikið í umræðunni. En í samtali manna á milli þekkist samt hræðsla, óöryggi og andúð. Sumir eru hræddir við að vera sakaðir um fordóma, aðrir um að missa menningu sína, atvinnuöryggi, þjóðerni eða sérstöðu.

Þetta eru allt skiljanleg og eðlileg viðhorf sem við þurfum að horfast í augu við.

En til þess að vinna með þessi viðhorf þarf að tala um hvernig við getum öll búið saman í einu samfélagi. Til þess að ræða það af heiðarleika þurfum við hugrekki og von.

  • Von um að við getum lært að standa öll saman.
  • Von um að við getum látið af vanhugsuðum hugmyndum og tekið upp umhyggju fyrir öllu fólki.
  • Von um að hægt sé að skipa á fordómum og skilningi.
  • Von um að við getum færst frá hræðslu sem skapar vantraust og biturð að því að tala á heiðarlegan og sanngjarnan hátt um „innflytjendavandann“.  Jafnvel þegar það gæti ógnað því sem við trúum á og treystum.

Nú er boltinn hjá stjórnvöldum á Akureyri og samfélaginu öllu.

Sýnum að við getum staðið að aðlögun innflytjenda að íslensku skólakerfi eins vel og okkur hefur tekist til þegar við höfum boðið flóttamenn velkomna í samfélagið okkar.

En til þess þarf að grípa inn í þróunina – frekar fyrr en seinna.

(greinin birtist 16. júní í Akureyri – Vikublað)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.4.2017 - 21:41 - FB ummæli ()

Hvað kostar vellíða og hamingja?

Stutt er síðan umræða um umhverfismál var almennt talin óæðri umræðu um fjármál og kannski er svo enn. Tal um umhverfisspjöll og varanlegan skaða á heilum landsvæðum var ekki við hæfi í „siðaðri umræðu“ því ekki var hægt að setja á það merkimiða með krónum og aurum. En varanlegur skaði sem kerfin okkar vinna á einstaklingum sem eiga erfitt með að verja sig – hvers virði er sá skaði?

Vísitala og reikniregla
Hvers virði er líðan barna okkar í leikskólum og grunnskólum, foreldra okkar á öldrunar- og hjúkrunarheimilum? Þurfum við að finna upp vísitölu til að meta skaða sem barn verður fyrir í skóla? Meta tilfinningalegan skaða, líkamlegan skaða, skaða á sjálfsmynd og getu til að taka fullan þátt í samfélaginu? Þurfum við að finna upp reiknireglu til að finna út hvers virði það er að eldri borgarar landsins geti notið þess sem lífið hefur upp á að bjóða þótt það sé á öldrunarstofnunum? Hvers virði er það eldri borgurum að fá að fara í bað þegar þeir vilja, losna við legusár, fá uppbyggileg samskipti hlýju og umhyggju? Er það yfirhöfuð einhvers virði?

Áhugi á velferð
Ég var á fundi á dögunum  þar sem rætt var um skóla og öldrunarmál. Þar voru málin reifuð út frá fjárhagsramma, verðbólguspám og rekstrarniðurstöðu ársins. Væri ekki ráð að sættast á það öll sem eitt, að velferð yngstu og elstu borgara landsins sé alltaf í forgangi? Ekki bara með áætlunum skýrslum og ræðum – heldur með raunverulegum áhuga á velferð þar sem tryggt er að í skólum og á öldrunarheimilum sé alltaf allt gert til að öllum geti liðið vel.

Í mínum huga er það meira virði en allar skíðalyftur, rennibrautir, holræsi og kantsteinar til samans.

(Greinin birtist í Akureyri-Vikublað 27.apríl 2017)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.3.2017 - 07:41 - FB ummæli ()

Gerum betur í menntamálum.

Félag grunnskólakennara hefur látið þýða bók Pasi Sahlberg Finnsku leiðina 2.0. Hvað getur umheimurinn lært af breytingum í finnska skólakerfinu?

Í bókinni kemur fram að  skólar í Finnlandi eru hvattir til að halda uppi öflugu stuðningskerfi við kennslu og nám – þess vegna eru næringarríkar máltíðir handa öllum börnum þeim að kostnaðarlausu, heilbrigðisþjónusta, sálfræðimeðferð og námsráðgjöf eðlilegur þáttur í starfi hvers skóla (bls. 61).“ Sálfræðingur á að vera jafn sjálfsagður í grunnskólum bæjarins og hjúkrunarfræðingur.

Finnska leiðin er hugsuð út frá nemandanum og þörfum hans á sama hátt og nýjasta íslenska námskráin gerir tilraun til að setja einstaklingsþroska, frumkvæði og gagnrýna hugsun í forgrunn. Í Finnsku leiðinni er viðurkennt að farsælar umbætur á skólakerfum snúast um að skapa ungu fólki ákjósanlegar aðstæður til að verða áhugasamir námsmenn, ánægðir einstaklingar og skilningsríkir, hugmyndaríkir borgarar. Sú stefna að leggja áherslu á stöðlun menntunar, þregja námskrá og auka miðstýringu hefur víðast hvar dregið úr vinnugleði, minnkað metnað, aukið kvíða og hamlað árangri jafnt nemenda sem kennara.

Við á Íslandi höfum alla burði til að vera með menntakerfi í fremstu röð. Við höfum námskrá styður við sköpunargleði og frumkvæði og hvetur nemendur til að rækta sína sérstöku hæfileika. Við höfum góða kennara sem við þurfum að gera miklar kröfur til. Við höfum foreldrasamfélag sem auðvelt væri að virkja betur og síðast en ekki síst þurfum við stjórnvöld sem skilja að framúrskarandi skólakerfi kostar mikla peninga og þeir peningar skila sér síðar í auknum hagvexti, hæfari einstaklingum og minni þörf á ýmiskonar stoðþjónustu á fullorðinsárum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.2.2017 - 22:04 - FB ummæli ()

Tvíveðrungslegur fjármálaráðherra

Í Kastljósi á þriðjudaginn voru tveir menn í viðtali: Annars vegnar fjármálaráðherrann Benedikt Jóhannesson sem er enginn bannamaður og hins vegnar fjármálaráðherrann Benedikt Jóhannesson sem er mikill bannamaður.

Fjármálaráðherra sem er enginn bannamaður vill alls ekki banna ráðgjöf fyrirtækja sem hvetja til skattaundanskota í gegnum aflandsfélög. Fjármálaráðherrann sem er enginn bannamaður telur þó að meginástæða mikillar aflandsvæðingar á Íslandi fyrir hrun sé sú að bankarnir ráðlögðu mönnum skattaundanskot.

Fjármálaráðherra (sem ekki er bannamaður) telur að íslensku bankarnir séu í dag  hættir að ráðleggja skattaundanskot en hann veit þó til þess að önnur fyrirtæki stundi slíkar ráðleggingar.  Með einfaldri rökhugsun mætti ætla að sú ráðgjöf leiddi til nýrrar bylgju skattaundanskota í gegnum aflandsfélög…..eða hvað?

Fjármálaráðherran sem er enginn bannamaður vill ekki banna fyrirtækjum slíkar ráðleggingar þó telur hann Íslendinga vera í sérstökum áhættuhópi því þeir „stökkva í meira mæli á slíka vagna“ en aðrar þjóðir.

Þrátt fyrir þessa augljós ógn sér fjármálaráðherra ekki ástæðu til að banna ráðleggingarnar………… einfaldlega vegna þess að hann er ekki bannamaður.
Í síðari hluta viðtalsins talaði hins vegar fjármálaráðherra sem er bannamaður mikill. Hann vill berjast af mikilli hörku gegn seðlaeign landsmanna. Hann vill banna launagreiðslur í seðlum til almennra launþega og hann vill skoða hvort hann getur ekki bannað fólki að kaupa ákveðnar vörur sem kosta ákveðna upphæð ef fólk ætlar að nota seðla til kaupanna. Bannamaðurinn mikli vill fylgjast með seðlum á Íslandi og rekja ferðir þeirra og banna þau tilvik sem ekki er hægt að rekja óyggjand för seðlanna (og klinksins).

Hugsanlega mun hann í framtíðinni stofna sérstaka njósnadeild í fjármálaráðuneytinu sem fylgist með seðlum landsmanna.

Þar verður ekkert koddaver undanskilið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.1.2017 - 13:41 - FB ummæli ()

Af aflandsmálum

Fyrir kosningar notuðu þeir sem ekki vildu umræðu um aflandsfélög aðallega tvo frasa:

a) það er ekki í samræmi við raunveruleikann að kalla aflandsreikninga skattaskjól, því skattar er greiddir af þeim.

b) þar sem greiddir eru skattar af aflandsfélögum er tap samfélagsins lítið.

Niðurstaða: Almenningur tapar ekki á aflandsfélögum og því er umræðan um þau byggð á misskilningi, þekkingarleysi, öfund eða illvilja. 

Þessi rök voru endurtekin í sífellu gegn öllum þeim sem vildu ræða aflandsmálin fyrir kosningar.

Ef skýrslan um aflandseignir hefði komið fram fyrir kosningar hefði verið hægt að svara frösunum með vel ígrunduðum staðreyndum. Þá hefði ekki verið hægt að tala um misskilning, þekkingarleysi, öfund eða illvilja.

Það var því grundvallaratriði að skýrslan yrði ekki opnber fyrr en eftir kosningar.

Sérstaklega fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Sérstaklega fyrir Bjarna Benediktsson.

Það skipti því höfuðmáli hvort skýrslan var birt fyrir eða eftir kosningar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.12.2016 - 12:02 - FB ummæli ()

Enn um PISA

Það er margt gott við íslenska skólakerfið, það er meira að segja margt mjög gott við íslenska skólakerfið. En staðreyndin er hins vegar sú að við erum að koma illa út úr samanburðarrannsóknum miðað við önnur lönd þegar ákveðnir hlutir eru mældir. Það er staðreynd sem alger óþarfi er að leiða fram hjá sér.

Það má margt betur gera í íslensku skólakerfi. Það þarf að efla metnað fyrir námi og skólakerfið og samfélagið allt þarf að endurspegla þau skilaboð að það sé gott að standa sig í námi. Skólinn þarf að hafa ríka eftirfylgni með námsárangri sem byggir á vel skilgreindum markmiðum. Skólinn þarf að beita mörgum og margvíslegum inngripum á þann hátt að í raun og veru verði „ekkert barn skilið eftir“.

Kennarar þurfa að fá tíma til að undirbúa gæðakennslu. Beita fjölbreyttum og skilvirkum aðferðum sem reyna á nemendur og fá þá til að ígrunda námsefnið og gera það virkilega að sínu. Góðar kennsluáætlanir eru grundvöllur góðrar kennslu, það þarf að skilgreina markmið, velta fyrir sér bestu leiðunum og íhuga hvernig hægt er að bregðast við fjölbreytileika þeirra nemenda sem í skólastofunni finnast. Það þarf að huga að því að tími sé fyrir samskipti, skoðanaskipti, dýpra nám og að nemendur hafi tíma til að tileinka sér grundvallarþekkingaratriði. En til þess að hægt sé að skipuleggja kennslu vel og hafa öfluga eftirfylgni þurfa kennarar að hafa tíma til að sinna þeim þáttum og skólastjórnendur þurfa að hafa getu til að eiga samtal um góða kennsluhætti og getu til að fylgja því eftir að skipulagningu kennslu sé vel sinnt.

Íslenska skólakerfið er á margan hátt virkilega gott og á ákveðnum þáttum á pari við það besta sem gerist í heiminum. PISA-þekking er þó ekki einn af okkar styrkleikum og það verðum við öll að leggja okkur fram um að bæta. Það verður ekki gert með fleiri stofnunum sem hringja og senda tölvupósta. Það verður ekki gert með ráðherrum og átaksverkefnum þeirra. Þessu verður ekki snúið við nema með alvöru samtali við foreldra, nemendur og starfsmenn skóla. Þar liggur lykillinn og aðeins með þeim lykli getum við opnað dyrnar.   Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.4.2015 - 11:54 - FB ummæli ()

Fjórða bylgjan

Átakið „Frelsum geirvörturnar“ er hluti af fjórðu bylgju femínismans á Íslandi.

Fjórða bylgja Femínisma byggir á hugmyndum karla og kvenna sem eru orðin leið á því að láta samfélagið skilgreina sig. Þau krefjast frelsis til að gera það sem þau vilja, án þess að þurfa að passa inn i staðalmyndir annars fólks. Fjórða bylgjan neitar að taka mark á fólki sem vill ekki hemja kynþörf sína og krefst þess að samfélagið taki mið af því. Fjórða bylgjan tekur ekki mark á þeim sem vilja nota annað fólk sem tæki til að uppfylla hugmyndir og langanir sínar. Fjórða bylgjan hafnar því að líf einstaklinga sé túlkað af öðrum og sett í annarlegt samhengi.

Fjórða bylgjan leysir þá þriðju úr fjötrum staðalímynda – nú þarf ekki lengur að vera 50% móðir og 50% útivinnandi – eða 20% faðir og 80% starfsmaður. Það í fullkomnu lagi að vera heima með krakkana allan daginn og það er líka bara alveg í lagi að vinna mikið. Það er í lagi að  taka þátt í alls konar mögulegum og ómögulegum kynlífsathöfnum en það er aldrei leyfilegt að beita aðra ofbeldi  (yfirgangur, hundsun, jöðrun, afvegaleiðing, truflun, þöggun, tæling, hlutgerving og skoðanakúgun eru líka ofbeldi).

Fjórða bylgjan getur hugsanlega breytt einhverju. Ef við stöndum saman og reynum að skilja og spyrja spurninga frekar en fordæma og þykjast hafa öll svörin- taka þátt í gleðinni og viðurkenna að það eru ekki allir eins….og við viljum hafa þá.

P.s. Skora á Ingva Hrafn að taka þetta til umfjöllunar á ÍNN.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.3.2015 - 21:02 - FB ummæli ()

Brjóst og rassar

Nú er að ljúka vel heppnuðu átaki Mottumars þar sem karlar réðust gegn fordómum gegn ristilkrabba með því að sýna myndband þar sem rassinum er dillað fram og til baka. Áherslan var að sýna að undir gamansömu yfirborði er alvarlegur boðskapur sem allir einstaklingar í siðuðu samfélagi ættu að taka undir.

Nýlega hófu nokkrar stúlkur átakið frelsum geirvörturnar og var það líkt og mottumars, átak sem hafði á sér glettileg yfirbragð en átti að vekja athygli á grafalvarlegum boðskap. Boðskap þar sem ráðist er gegn því að kvenfólk sé hlutgert og aðeins sé hugsað um stúlkur sem kynferðileg viðföng en ekki konur af holdi og blóði sem líkt og strákarnir í mottumars geta átt sér líf þar sem tekist er á við alvarleg og jafnvel lífshættuleg vandamál.

Einhverjir studdu átakið og eyddu orðum í að styðja ungu stúlkurnar. En andstætt við mottumars þar sem sýndur er almennur stuðningur ruku fram á ritvöllinn fjöldinn allur af fulltrúm feðrasamfélagins sem ekki geta hugsað sér að ungar stúlkur krefjist þess að eiga líkama sinn sjálfar. Í átakinu mottumars eru harðfullorðnir karlmenn að berjast fyrir góðu málefni en í þessu tilviki ungar stúlkur sem ekki hafa allar það sjálfstraust sem þarf til að standa á móti ómálefnlegri og sóðalegri umfjöllun um átakið.

Mér finnst átakið virkilega gott, ekki nema fyrir það eitt að það er í fysta skipti í langan tíma sem ungt fólk gerir tilraun til að rífa sig út úr þeirri staðalmynd sem klámvæðingin leggur þeim til. Fjöldi drengja í landinu studdi líka átakið, ekki hafa birst myndir af þeim á þessum degi – í staðinn birtist mjög stöðluð mynd af átakinu og virðist sem fjölmiðlar reyna sem mest þeir mega að snúa því upp í mat á brjóstastærð, beina ahyglinni að sjálfsmynd þeirra sem ekki tóku þátt, setja myndirnar í samhengi við hefndarklám eða gera á einhvern annan hátt lítið úr þeim sem létu málið til sín taka.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.12.2014 - 15:43 - FB ummæli ()

Lífsskoðanir í fjölmenningarsamfélagi

Síðustu daga hefur umræðan um trúarbrögð og skóla verið frjó – og er það gott og mikilvægt.

Einn þráður í umræðunni er hlutverk trúar í fjölmenningarsamfélagi. Þar hafa hugtökin fjölmenningarsamfélag og lífsskoðun verið áberandi. Hugtakið lífsskoðun nær yfir hvers kyns trúarbrögð og stefnur. Lífsskoðun er eitthvað sem allir menn búa að, það er afstaða sem mótar starf þeirra. Lífsskoðun getur stjórnast af trú á vald markaðarins eða mátt peninga, trúa á skynsemi mannsins og getu hans, fylgni við hugmyndir Jesús, Buddha eða Allah
– eða sambland af þessu öllu.

Í viðtali á Bylgjunni fyrr í vikunni tókust á tvö andstæð sjónarhorn. Annars vegar sú skoðun að kristni sé hin eina rétta lífsafstaða og því yrði að finna henni stað í skólum og hins vegar sú afstaða að lítil þörf væri fyrir trúarbrögð í fjölmenningarsamfélagi (í það minnsta í skólum).

Í bókinni The Puppet and the Dwarf: The Perverse Core of Christianity  fjallar slóvneski heimspekingurinn og kommúnistinn Slavoj Žižek um hlutverk trúarbragða (einkum kristninnar) í nútímasamfélagi. Hann gagnrýnir hvernig litið er á hlutverk trúar í lífi vesturlandabúa og dregur  fram tvö sjónarmið sem hann telur vera ríkjandi í umræðu á vesturlöndum. Annars vegar er kristin lífsafstaða notuð til að gagnrýna fjölmenningu, rökstyðja einsleitni samfélaga og sýna fram á yfirburði kristni og hins vegar sjónarmið sem lítur á trú sem persónulegt einkamál og þeir sem eru kristnir þurfi á trúnni að halda sem sjálfshjálparaðferð eftir að hafa farið út af sporinu í lífinu.

Bæði þessi sjónarmið gagnrýnir Žižek og telur þau leiði okkur aftur á bak í umræðunni.

Að dómi Žižek þurfa allir menn að hafa vel grundvallaða lífsskoðun. Lífsskoðun er eitthvað sem þróast alla ævi, frá frumbernsku til fullorðinsára. Í samfélagi eru einstaklingar sífellt að byggja við og breyta hugmyndum sínum og móta hegðun sína og afstöðu með tilliti til þess sem gerist í umhverfinu. Lífsafstaða fólks mótar síðan aftur umhverfið –  sem aftur breytir hugmyndum fólks og framkomu.

Žižek telur að til þess að geta verið gagnrýninn á samfélag sitt og tekið ákvarðanir við erfiðar aðstæður sé nauðsynlegt að hafa skýra lífsskoðun. Ólík hugmyndafræði nýtist best þeim sem hafa þroskaða lífsskoðun og til að þroska lífsskoðun sína þurfa einstaklinga að fá tækifæri til að ígrunda eigin afstöðu og bera hana saman við afstöðu annarra.

Því er nauðsynlegt að búa við fjölbreyttar lífsskoðanir sem fá rúm í samfélaginu til að takast á. Það þarf að gefa ólíkum skoðunum tækifæri til að dýpka sjónarhorn fólks, víkka sjóndeildarhring þess og skapa nýja þekkingu. Að gersneiða hluta mannlegs samfélags lífsskoðunum er ómögulegt því ekki er hægt að skilja á milli  einstaklinga og lífsskoðanna þeirra.

Tilraun til að hreinsa trúarbrögð úr stofnunum er því dæmd til að mistakast. Á sama hátt er tilraun til að leiða fólk í  allan sannleikann um hina einu sönnu trú ekkert annað en barátta við vindmyllur.

Upplýsingar um ólíka afstöðu fólks (hvort sem það eru lífsskoðunarfélög eða önnur félög), ólíkar stefnur, lífsskoðanir og afleiðingar þeirra er þekkingarbrunnur sem mikilvægt er að kynna fyrir fólki, hvort sem það eru börn eða fullorðnir.

Íslenska skólakerfið á að keppast við að ala upp einstaklinga sem hafa styrk til að velja og hafna, þekkja hvað þeir vilja og hafa getu til að finna sína eigin afstöðu til álitamála. Ef við tökum úr skólanum fjölbreytt tilefni til umræðu um trúarleg álitamál og ólíkar lífsskoðanir verða tækifærin sem börnunum er gefin til að glíma við eigin lífsskoðun mun færri.

Flokkar: Alþjóðavæðing

Miðvikudagur 28.5.2014 - 21:07 - FB ummæli ()

VG gegn íslensku láglaunastefnunni

Eitt af stóru málunum hjá VG á Akureyri á næsta kjörtímabili verður að hækka lægstu laun starfsmanna bæjarins og fyrir það höfum við verið sökuð um popúlisma, lýðskrum og að skapa óraunhæfar væntingar. En hvers vegna er þetta svona óraunhæft?

Fyrr á síðustu öld voru flokkar ekki feimnir við að fylkja sér á bak við verkamenn og láglaunastéttir og krefjast betri kjara. Það var ekki litið svo á að launakjör á almennum markaði kæmi stjórnmálamönnum ekki við. Í nútímapólitík virðist þessi áhersla hins vegar algerlega ómöguleg.

Ég sat í sveitarstjórn síðustu tvö kjörtímabil og þá fékk ég oft að heyra að hitt og annað væri ekki hægt. Þegar á reyndi var þetta þó flest mögulegt þvert á álit ýmissa lögfræðinga. Það eina sem þurfti var vilji til að hugsa út fyrir boxið og styrkur til að halda málum áfram þrátt fyrir mótbyr.

Síðustu árin hafa vinnuveitendur og stjórnvöld verið óþreytandi á að benda á hætturnar sem fylgja því að íslendingar geti framfleytt sér og fjölskyldu sinni á sómasamlegan hátt. Allir kannast við verðbólgudrauginn sem virðist aðeins og eingöngu vakna upp ef lægst launuðu stéttirnar fá hækkun. Þeir lægst launuðu bera einnig ábyrgð á afkomu fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga umfram aðra.

Munum að kjarasamningar sveitarfélaganna eru lágmarkssamningar, hverri sveitarstjórn er í sjálfsvald sett að hækka laun starfsmanna sinni. Málið snýst aðeins um forgangsröðun fjármuna – ekkert annað.

Kjósum réttlæti og lágmarks mannréttindi – Kjósum Vinstri græn.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is