Föstudagur 11.05.2012 - 20:27 - FB ummæli ()

Einstaklega ógeðfelldar auglýsingar

Auglýsingarnar sem sægreifarnir flytja nú í sjónvarpinu af miklum móð eru einstaklega ógeðfelldar.

Verkalýðsleiðtogar, sjómenn og fólk í ýmsum starfsgreinum vitnar um hve ægilegt það væri að hrófla við kvótakerfinu.

Allt saman fólk sem á allt sitt undir sægreifunum.

Það er mjög raunalegt að horfa á þetta, því maður fær á tilfinninguna að það sé verið að misnota þetta fólk.

Þetta jaðrar við siðleysi.

Hvort sem fólkið gerir sér sjálft grein fyrir því eða ekki.

Gunnar Smári Egilsson orðaði ágætlega tilfinninguna sem kviknar við að horfa á þetta.

Hann sagði á Facebook-síðu sinni:

„Mig minnir að það sé til hugtak í lögfræði sem kallast misneyting. Það á við þegar einn fær annan til verka sem sá hefði ekki gert nema vegna þess að hann er háður hinum. Þetta á t.d. við þegar launagreiðandi kemur vilja sínum fram við undirmann sinn, sem telur sig ekki geta andmælt af ótta við afkomumissi.

Það er af þessum sökum sem mér finnst ógeðfellt að horfa á auglýsingarnar þar sem fólk, sem þiggur laun sín úr hendi útgerðamanna, vitnar gegn kvótafrumvarpinu. Þær minna á myndbönd þar sem fangar mannræningja lesa upp yfirlýsingar um andstyggð sína á vestrænum stjórnvöldum.“

Ég tek undir þessi orð.

Hvernig væri að einhver duglegur fjölmiðlamaður hringdi nú í þetta ágæta fólk sem kemur fram í þessum auglýsingum og spjallaði við það um tilurð þeirra.

Hver átti frumkvæðið að því að einmitt þetta fólk kæmi fram?

Hver samdi textann í auglýsingum?

Og fær fólk borgað fyrir þetta, eða er þetta gert í sjálfboðavinnu?

Eða ætti ég að segja – þegnskylduvinnu?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is